Þróunarsjóður sjávarútvegsins

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 12:27:39 (2404)


[12:27]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Það er niðurstaðan að halda þessari umræðu áfram að hæstv. sjútvrh. fjarstöddum. Ég verð að segja það að þetta er ekki mikil virðing fyrir því máli sem hér er um að ræða. Málefni Þróunarsjóðs sjávarútvegsins eru auðvitað stórmál og það hefði verið full þörf á því að taka umræðu um stöðu þeirra mála í tengslum við þetta frv. Ég skil nú satt að segja ekki miðað við gang þingmála hér hvað knýr stjórn þingsins og hæstv. ráðherra til þess að halda þessu máli til streitu í dag. Ég veit ekki betur en hæstv. sjútvrh. sé að koma til landsins og það hefur verið þannig að það hefur verið pláss á dagskrá hér í þinginu það sem af er til að ræða mál. E.t.v. munu sjá dagsins ljós á næstunni tekjuöflunarfrumvörp ríkisstjórnarinnar, þau hafa nú ekki gert það enn þá, en það er nú svo að á mánudaginn kemur fyrsti jólasveinninn, Stekkjarstaur, hann mun kannski vera með þessi tekjuöflunarfrumvörp í poka sínum og þá verður náttúrlega þröngt á dagskrá og ekki hægt að ræða málefni Þróunarsjóðs sjávarútvegsins. En hins vegar er það svo að þingið hefur verið meira og minna og ríkisstjórnin óstarfhæf í haust og verklítil vegna þess að ráðherrar hafa yfirleitt verið í útlöndum, langtímum saman. Það er auðvitað misjafnt. Sumir hafa verið heima en aðrir ekki. Ég er ekki að gera lítið úr því að erindi ráðherra til útlanda geti verið brýn, ég er ekkert í þeirra hópi sem telja að öll erindi til útlanda séu einhverjar lystireisur, langt í frá. Það er mikilvægt að sinna þeim samskiptum. En ég tel algjöran óþarfa að halda til streitu að ræða þetta frv. í dag, rétt áður en hæstv. sjútvrh. kemur. Ég skil það alveg þó að hæstv. landbrh. geti ekki staðið í svörum fyrir þessi flóknu mál sjávarútvegsins, ég tel það eðlilegt og ekkert við því að segja og ég vil lýsa óánægju minni með þetta.
    Eitt af meginhlutverkum Þróunarsjóðs sjávarútvegsins er að stuðla að fækkun fiskiskipa og í umræðunum hefur verið rakið að þróunin er mjög alvarleg um þessar mundir. Erfiðleikar bátaflotans eru mjög miklir í landinu og heimildir þeirra eru orðnar mjög af skornum skammti. Þar á ég ekki eingöngu við smábáta eða báta undir 10 tonnum heldur allan bátaflotann. Það er alveg ljóst að þróunin hefur orðið sú að skip eru úrelt tiltölulega ný og hent vegna þessara erfiðleika. Það er þannig og því verður ekki á móti mælt að ekki hefur verið unnið að því sem skyldi að færa á milli heimildir í flotanum miðað við þær aðstæður sem eru uppi hverju sinni. Ekki er mjög langt síðan að sú ráðstöfun var gerð að láta loðnuflotann hafa heimildir í þorski vegna þess að það voru vandræði í loðnuveiðum og loðnubrestur og við þær aðstæður þótti það eðlilegt. Nú hefur sá floti t.d. haft úr miklu meira að spila á undanförnum vertíðum en áður en þessi ráðstöfun hefur eigi að síður verið látin standa. Ég held að þessi mál þurfi að skoða miklu betur og það hefði getað haft áhrif á þá þróun sem ég var að nefna hér.
    Ég held að sú þróun að bátaútvegur leggist af sé neikvæð fyrir sjávarútveg í landinu og auðvitað er hrein sóun að úrelda tiltölulega ný skip og henda þeim. Auðvitað hefði þurft að taka þessi mál til umræðu í tengslum við þetta frv. en sökum þess að hér er ekki hægt að skiptast á skoðunum við ráðherra um þessi mál hefur það kannski ekki mikið upp á sig. En ég vil enn einu sinni fara fram á að umræðunni verði frestað og hún verði tekin upp aftur þegar hæstv. sjútvrh. mætir á staðinn.