Samsettir flutningar o.fl. vegna EES

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 12:35:21 (2405)


[12:35]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Tilgangur frv. er að fullnægja skyldum samkvæmt samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði og afla nauðsynlegra lagaheimilda til að lögfesta ýmsar gerðir á sviði samsettra flutninga sem geta haft áhrif hér á landi. Með samsettum flutningum er átt við flutning vöru með ólíkum samgöngutækjum á vegum, járnbrautum og skipgengum vatnaleiðum.
    Á síðasta þingi var lagt fram sérstakt frv. til laga um flutning með járnbrautum, skipgengum vatnaleiðum og fleira vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Það frv. náði til ýmissa gerða XIII. viðauka um flutningastarfsemi, einkum þess hluta sem fjallar um flutninga á landi og vegum, járbrautum og skipgengum vatnaleiðum. Frv. náði ekki fram að ganga.
    Nú hefur Eftirlitsstofnun EFTA fallist á að Ísland þurfi ekki að taka upp í landsrétt þær gerðir er lúta að flutningum með járnbrautum og skipgengum vatnaleiðum. Hins vegar er Íslendingum skylt að lögfesta aðrar gerðir svo sem á sviði samsettra flutninga sem geta haft áhrif hér á landi og fyrir íslensk fyrirtæki sem vilja hasla sér völl á þessum vettvangi á Evrópska efnahagssvæðinu. Með frv. þessu er lagt til að svo verði gert.
    Ég sé ekki ástæðu til að tíunda hvaða gerðir hér er um að ræða heldur vísa í því efni til ítarlegrar greinargerðar með frv.
    Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. samgn.