Tilkynning um dagskrá

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 13:36:55 (2408)


[13:36]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég mun að sjálfsögðu ekki grípa fram fyrir hendur á stjórn fundarins og virði óskir hv. þingmanna. En ég vil þó benda á að hér eru á ferðinni þrjú frv., tvö þeirra eru flutt af fjmrh., eitt af dómsmrh. Frv. eru í sjálfu sér sáraeinföld og þau tvö sem átti að ræða í dag eru efnislega um nákvæmlega sama málið og annað frv. er í raun og veru bara leiðrétting á lögum sem afleiðing af hinum. Það að hafa tvöfaldan ræðutíma, jafnvel í málunum báðum í dag, er nánast misþyrming á þessum rétti sem um getur í þingsköpum. Ástæða þess að í þingsköpum er heimilt að taka saman mál í einni umræðu er að málin séu af nákvæmlega sama stofni og séu svo náskyld að varla verði hægt að tala um þau nema saman. Ég bendi á, virðulegi forseti, máli mínu til stuðnings að í fyrrakvöld, held ég að það hafi verið, ræddum við hvort taka skyldi á dagskrá þessi mál og ástæðan þess að ekki var hægt að ræða þessi tvö mál þá var að menn töldu að þriðja málið væri svo náskylt að það yrði að liggja fyrir þegar hin tvö væru tekin fyrir til umræðu. Ég féllst á það vegna þess að í raun er þetta allt saman eitt mál byggt á sömu stefnunni og breytingarnar eru afleiddar vegna þeirrar stefnu, þær koma fram í frumvörpunum þess vegna.
    Ég mælist þess vegna eindregið til þess að hv. þm. endurskoði afstöðu sína til þessa máls og leyfi umræðunni að fara fram í einu lagi og skal góðfúslega taka undir að það er ekkert nema sjálfsagt að það sé tvöfaldur ræðutími um málið ef það er rætt á þennan hátt. En auðvitað, virðulegi forseti, er þetta mál í höndum forseta.