Tilkynning um dagskrá

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 13:39:29 (2409)


[13:39]
     Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Það liggur þannig að það hefur eingöngu verið sett fram ósk um það að ræðutími sé tvöfaldur við umræðuna og ef þannig er að henni staðið að fyrra dagskrármálið sé tekið sér gildir sú beiðni um það. Því þyrfti að koma til önnur ósk ef fara ætti fram á að það yrði jafnframt tvöfaldur ræðutími um hið seinna mál. Ég held að málið liggi þannig. Mér vitanlega hefur hún ekki komið fram og hún mun ekki koma fram af minni hálfu því ég tel að það sé út af fyrir sig alveg fullnægjandi að fá rúman ræðutíma til að ræða aðalmálið sem er fyrsta málið sem kemur fyrir þar sem sjálf kerfisbreytingin er innleidd og þá geti síðan orðið tiltölulega stutt umræða um seinna málið.
    Hitt er líka ljóst að frv. eru sitt hvað þar sem í öðru þeirra, því fyrra, felst í raun og veru kerfisbreytingin og sú stefnumótun sem í því felst að hverfa frá því fyrirkomulagi sem verið hefur. Í hinu síðara felst síðan tæknileg útfærsla og lagaákvæði sem varða álagningu gjaldanna með þeim hætti sem verður ef farið yrði að taka tekjur af áfengissölu gegnum tollun áfengisins inn í landið. Þess vegna er að mörgu leyti eðlilegt að þetta tvennt sé rætt aðskilið. Ef fyrra frv. næði fram að ganga er hitt að sjálfsögðu afleiðing af því, hin tæknilega útfærsla málsins. En ég vísa til þess sem ég hef áður sagt og rökstutt að ég tel að það sé eðlilegra að haga þessu svona þegar á ferðinni er mál sem ágreiningur er um og ósk hefur komið fram um að tvöfalda ræðutíma séu ekki forsendur fyrir því að hnýta fleiri málum aftan í. Sú ákvörðun sem er í vændum kann að vera fordæmisgefandi vegna þess að mig rekur satt best að segja ekki minni til þess að áður hafi staðið þannig á að menn hafi farið fram á að það yrði ekki spyrt saman málum í umræðum og þess vegna bið ég forseta að íhuga vel úrskurð sinn sem ég veit auðvitað að forseti gerir og vona að hann falli á þann veg að við höfum venjubundna röð.