Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 13:44:24 (2413)


[13:44]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, með síðari breytingum.
    Þetta frv. er eitt þriggja frv. sem lögð eru fram um sama efni og byggjast á sömu ákvörðun og sömu stefnumörkun hæstv. ríkisstjórnar. Hin frv. tvö eru annars vegar 256. mál þingsins þar sem er um að ræða frv. til laga um gjald af áfengi og hins vegar frv. til laga um breytingu á áfengislögum sem hæstv. dómsmrh. hefur lagt fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og er 269. mál Alþingis. Mér er ljóst að það kann að vera erfitt í umræðunni að gera mun á þessum frv. öllum og það verður að líta á þau í einni heild. Þess hefur verið beiðst að haga umræðunni þannig að einungis verði rætt um þetta eina frv. og til þess er ætlaður tvöfaldur ræðutími. Ég vonast til þess, virðulegur forseti, að sú ákvörðun verði til að flýta fyrir umræðunni í hinum málunum tveimur. Ég vil einnig láta þess getið að það er ekki ætlun ríkisstjórnarinnar úr því sem komið er að fá þetta mál afgreitt fyrir jól. Þeir sem hafa áhyggjur af því að þeim gefist ekki ráðrúm til að kynna sér málið geta vænst þess að fá að gera það yfir jólahátíðina og þar til þing kemur saman á nýjan leik. Þetta frv. tengist með engum hætti fjárlagagerð eða lánsfjárlögum heldur byggist á öðrum sjónarmiðum. Þess skal strax getið að það er ekki ætlunin að þetta frv. dragi úr tekjum ríkisins. Hér er einungis um að ræða tilfærslu þannig að í stað þess að tekjurnar myndist hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins myndast tekjur ríkisins með sérstöku gjaldi sem lýst er í frv. til laga um gjald af áfengi en það er 256. mál þingsins. Þeir sem hafa kynnt sér þetta mál sjá að hér er ekki um verulega efnisbreytingu að ræða hvað þetta snertir. Ég vil einnig taka fram að ekki verður um breytingu að ræða á smásölu þannig að ÁTVR mun áfram stunda sína smásölu eins og hingað til hefur verið gert og einnig þeir aðilar sem hafa vínveitingaleyfi og er því engin breyting á smásölunni frá því sem nú er í gildandi lögum.
    Þess vegna, ég legg ríka áherslu á það, er ekki um að ræða breytingu á áfengisstefnu, sem svo hefur verið kölluð, og reyndar hefur íslenska ríkisstjórnin til að mynda lýst því yfir og það oftar en einu sinni og síðast í tengslum við EES-samninginn að Íslendingar teldu sér skylt og rétt að fylgja þeirri áfengisstefnu sem hingað til hefur verið fylgt og er hluti af heilbrigðis- og félagsstefnu íslenska lýðveldisins og víðtæk samstaða væri um. Þessi yfirlýsing var gerð í sambandi við EES-samninginn og gerð einnig af hálfu ríkisstjórna annarra Norðurlanda.
    Þess ber einnig að geta að þær ríkisstjórnir a.m.k. tvær þeirra, sú finnska og sú sænska, hafa breytt sinni stefnu með svipuðum hætti og hér er verið að gera og ég veit ekki betur en að ætlunin sé að gera slíkt hið sama í Noregi. Ég tel því að hér sé ekki um að ræða breytingu á áfengisstefnu, það lækkar ekki verð á áfengi frá því sem nú er og það verða ekki til nýir smásölustaðir þótt þetta eigi sér stað, áfram munu gilda nákvæmlega sömu lög um þau atriði.
    Þetta frv. sem ég er að mæla fyrir fjallar um, eins og komið hefur fram, breyting á lögum nr. 63/1969, um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, með síðari breytingum. Það var á ríkisstjórnarfundi

hinn 26. júlí sl., að ríkisstjórnin samþykkti að leggja fram tillögur um breytingu á löggjöf sem snerta innflutning og sölu á áfengum drykkjum. Tillögur þessar eru liður í margvíslegum breytingum á áfengissölu sem unnið hefur verið að á undanförnum árum. Hafa þær miðað að því að setja skýrar reglur um vöruval og innkaup hjá ÁTVR, bæta þjónustu við neytendur og draga úr tilkostnaði, m.a. með útboði á rekstri útibúa. Þetta er í samræmi við fyrirheit í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að draga úr ríkisumsvifum þar sem þess er kostur. Í samræmi við þetta og vegna breyttra aðstæðna er með þessu frv. lagt til að einkaréttur ríkisins til innflutnings á áfengi verði afnuminn.
    Þau sjónarmið sem færð voru fyrir einkarétti ríkisins til innflutnings og heildsölu á áfengi voru að með þeim hætti mætti afla ríkissjóði tryggra tekna í formi vínandagjalds af vörum þessum auk þess sem líklegar þótti að þetta fyrirkomulag tryggði betur en ella hagstæðari innkaup á vörum þessum til landsins. Einnig hefur verið á það bent að með einkaréttinum væri mun auðveldara að annast eftirlit með innflutningi á áfengi þar sem honum mætti aðeins einn aðili sinna með löglegum hætti.
    Telja verður að framangreind sjónarmið eigi ekki lengur við um innflutning og heildsölu þessara vara. Afla má ríkissjóði sömu tekna og hann hefur af vínandagjöldum þessum með öðrum hætti en þeim að ríkið hafi einkarétt á innflutningi og dreifingu umræddra vara í heildsölu. Tekna þessara má einfaldlega afla með innflutningsgjöldum og sambærilegum gjöldum af innlendri framleiðslu sé um hana að ræða á sama hátt og tíðkast varðandi innheimtu annarra óbeinna skatta. Möguleikar til eftirlits með ólögmætum innflutningi og sölu þessara vara verða ekki síðri eftir þessa breytingu. Jafnframt þessu má benda á að óþarft er fyrir ríkið að vera í rekstri sem einkaaðilar eru færir um að leysa af hendi eða annist slíkan innflutning fyrir einkaaðila einkum þegar haft er í huga að ekki skiptir máli fyrir ríkissjóð hvor hátturinn er hafður á.
    Í frv. til laga um gjald af áfengi sem flutt er samhliða þessu frv. og ég hef áður minnst á er gerð grein fyrir því að þessi breyting muni ekki hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs af áfengi. Gjöld af áfengi breytast úr vínandagjaldi sem er ákveðið í dag af fjmrh. í áfengisgjald sem verður bundið í lögum og verður innheimt við tollafgreiðslu.
    Að því er einstakar greinar þessa frv. varðar er það að segja að frv. gerir ráð fyrir því að felld séu úr gildi öll ákvæði er varða einkarétt ríkisins til innflutnings á áfengi. Jafnframt skilgreinir frv. hverjir hafa heimild til að endurselja það áfengi sem flutt er til landsins.
    Í 1. gr. frv. er opnað fyrir þann möguleika að aðrir aðilar en Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins geti flutt til landsins áfengi. Samkvæmt greininni fer það eftir ákvæðum áfengislaga hverju sinni hvernig heimild til innflutnings á áfengi er.
    Gert er ráð fyrir því að öllum verði heimilt að flytja til landsins áfengi en hins vegar verði einungis heimilt að endurselja það til ákveðinna aðila. Þeir sem mættu kaupa áfengi sem flutt er til landsins væru Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, veitingastaðir sem hafa rétt til að selja áfengi, læknar og lylfsalar sem hafa rétt til lyfsölu.
    Í 2. og 3. gr. frv. eru lagðar til breytingar sem miða að því að afnema einkarétt Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins til að flytja inn áfengi til sölu innan lands og til endursölu til þeirra sem hafa vínveitingarleyfi eða hafa leyfi til að framleiða áfengi innan lands.
    Skv. 4. gr. frv. verður ekki lengur gerð sú krafa að allar vörur sem Áfengis- og tóbaksverslunar selur séu merktar með nafni verslunarinnar eða merki hennar. Þetta kemur þó engan veginn í veg fyrir að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins taki ákvörðun um að vörurnar séu merktar með einhverjum hætti.
    Samkvæmt gildandi lögum er Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skylt að taka við áfengi sem framleitt er í heimildarleysi, þ.e. bruggi og gambra. Í 5. gr. frv. er lagt til að þessi skylda verði afnumin enda fellur það ekki að annarri starfsemi Áfengisverslunarinnar að annast geymslu á slíkum varningi fyrir lögregluyfirvöld. Það er að sjálfsögðu lögregluyfirvalda að annast þá geymslu og koma slíkum varningi fyrir kattarnef.
    Ég ítreka það, virðulegur forseti, að hér er ekki um að ræða breytingu á áfengisstefnunni sem slíkri. Þetta er hins vegar eðlilegt framhald af breyttum viðskiptaháttum sem hafa verið að mótast á undanförnum árum, reyndar nokkrum undanförnum árum, hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og hófust með svokölluðum sérpöntunum sem nú viðgangast. Það hefur gerst að undanförnu í verslun og innflutningi áfengis að Áfengis- og tóbaksverslunin hefur sett fram skrifaðar reglur sem öllum eru sýndar og opnar um það hvaða vörur eru valdar til sölu í verslunum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Á grundvelli stjórnsýslulaga þótti rétt að setja fastari reglur um þetta til þess að hægt væri að kæra til ráðuneytisins úrskurði sem byggðust á reglum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins þannig að ekki væri verið að gera upp á milli innflytjenda. Lög sem Alþingi samþykkti hafa gert það að verkum að skyldur eru lagðar á Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins umfram það sem áður var. Fyrir vikið er fyrirsjáanlegt að mjög erfitt er fyrir Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins að standa að innflutningi á áfengi eitt fyrirtækja og miklu líklegra til árangurs á grudvelli þessarar lagaþróunar er að innflutningurinn verði opnaður en það breytir ekki því hverjir geta keypt vín af heildsölum því þar er ekki um neina breytingu að ræða samkvæmt frv.
    Virðulegi forseti. Ég vona að þetta skýri meginhugmyndirnar. Þetta er þróun sem átt sér stað á meðal þjóða sem eru skyldastar okkur eins og ég nefndi áðan, Finnlandi og Svíþjóð. Þetta er eðlileg þróun sem hlýtur að eiga sér stað vegna þess að verslun með þennan varning hefur verið að breytast en undir engum kringumstæðum er hér verið að breyta meginkjarnanum í áfengisstefnunni sem auðvitað er sá að halda uppi verði á áfengi.
    Ég vil taka fram að á undanförnum árum hefur sú stefnubreyting orðið hjá ÁTVR að nú eru boðnar út áfengisútsölur úti á landsbyggðinni. Þetta hefur þróast mörg undanfarin ár. Áður en ég kom í ráðuneytið var þessi þróun hafin. Nú hafa verið opnaðar að ég best man þrjár áfengisverslanir með þessu sniði en að sjálfsögðu er þó skylt að sá sem ber ábyrgð á versluninni sé í starfi sem opinber starfsmaður og það er engin breyting á frá því sem áður var. (Gripið fram í.) Blönduósi, Stykkishólmi og Borgarnesi, þar var um útboð að ræða. En áður höfðu verið opnaðar áfengisverslanir í Höfn á Hornafirði og Neskaupstað þar sem ríkið stóð með svipuðum hætti að versluninni þótt ekki hefði verið í þeim tilvikum alltaf um útboð að ræða. Engin slík breyting á sér stað með þessu frv. heldur einungis verið að opna fyrir innflutninginn.
    Eitt til viðbótar, virðulegi forseti, vil ég nefna og það er að með lögum og reglum um frísvæði er miklu auðveldara að fást við þennan innflutning því að nú geta erlendir framleiðendur átt varning hér á landi á frísvæðum og hægt er að færa það inn í landið í þeirri merkingu, tollalegri merkingu þegar þurfa þykir. Þannig hafa viðskiptahættir verið að undanförnu samkvæmt svokölluðu sérpantanakerfi en nú er verið að taka þetta skref í takt við eðlilega viðskiptaháttu.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að fjalla frekar að sinni um það frv. sem hér er til umræðu en að svo mæltu legg ég til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.