Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 14:02:47 (2415)


[14:02]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi taka það skýrt fram að ég sagði hvergi í minni ræðu að frv. væri flutt vegna fyrirheita sem hefðu verið gefin í EES-samningnum. Það sagði ég hvergi. (Gripið fram í.) Þetta frv. er algjörlega flutt vegna stefnu ríkisstjórnarinnar og það er alveg ljóst hver fyrirvari Íslands var í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þetta fer hvorki í bága við fyrirvarana né heldur við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það er hins vegar rétt að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hefur gert athugasemdir um innflutninginn en við höfum svarað því til og bent til fyrirvarans sem við gerðum þegar samningurinn var undirritaður. Þetta frv. er auðvitað fyrst og fremst flutt vegna þess að við teljum það skynsamlega ráðabreytni.
    Ég bendi enn fremur á að nú þegar er samkeppni í sérpantanakerfinu sem er heldur óþjált þannig að það er ekkert nýtt að það sé samkeppni milli innflytjenda um að koma vörum sínum til vínveitingahúsanna.
    Ég vil beita mér fyrir því að þetta frv. fái góða og vandaða meðferð í nefnd og ég tel að nefndin eigi að kanna málið frá öllum hliðum og vildi fallast á það ef menn tækju 1. umr. ef málið færi til nefndar og fengi þar gagnlega umfjöllun.

    Að því er ég best veit hefur ekki verið talað við starfsmannafélagið að svo stöddu en forstjóri fyrirtækisins er einn þriggja aðila sem sömdu frv. Hinir tveir eru Snorri Olsen, lögfræðingur í fjmrn., og Ari Edwald, aðstoðarmaður dómsmrh. Þeir ásamt Höskuldi Jónssyni eru þeir þremenningar sem kallaðir voru til og hafa samið þau þrjú frv. sem fyrir liggja þannig að forstjóri Áfengis- og tóbaksverslunarinnar hefur að sjálfsögðu komið að málinu.