Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 14:18:26 (2422)


[14:18]
     Ingi Björn Albertsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að mótmæla þeirri tillögu sem hæstv. fjmrh. bar fram áðan að umræðan standi aðeins í klukkutíma. Ég er einn af þeim sem eru á mælendaskrá og ég óska eftir því að fá að ræða þetta mál þannig að ég fer fram á það að umræðan fari fram og hún verði kláruð.
    Aðeins vegna orða hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar undir liðnum störf þingsins eða fundarstjórn forseta, þá kallaði hann mig í tvígang hagsmunaaðila, hagsmunaaðila sem sæti á fremsta bekk. Nú hef ég ekki orðið var við það hjá þessum hv. þm. að hann hafi komið hér í ræðustól þegar verið er t.d. að ræða mál landbúnaðarins. Hér sitja margir bændur á þingi og maðurinn, þessi hv. þm., Ólafur Ragnar Grímsson, hefur þá aldrei tekið sér þessi orð í munn og eru þá ekki margir hagsmunaaðilar hér inni á þingi. Eða varðandi sjávarútveginn, ætli það sé ekki ósköp svipað.
    ( Forseti (VS): Forseti vill biðja hv. þm. að ræða ekki þetta mál undir liðnum fundarstjórn forseta.)
    Hv. þm. skýtur sér á bak við það að hann hafi fengið bréf frá starfsmannafélagi ÁTVR og ég skaut því hér inn í umræðuna hvort hann væri svona seinn að lesa og ég held að það verði þá að taka undir það lesesndabréf sem birtist núna í Dagblaðinu í dag þar sem fyrirsögnin er: ,,Lestrarkennsla á Alþingi``, en það bréf endar á þessa leið:
    ,,Væri ekki annars bráðsnjallt að hafa lestrarkennslu á Alþingi fyrir treglæsa?``
    Ég held að ég verði að fara að taka undir þá tillögu.