Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 14:23:33 (2426)

[14:23]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Þessi mál voru á dagskrá í fyrradag og þegar komið var undir miðnætti aðfararnótt miðvikudags átti að hefja umræðu. Eins og áður hefur komið fram óskaði ég eftir því að þeirri umræðu yrði þá frestað þar sem frv. um breytingu á áfengislögunum sem hæstv. fjmrh. boðaði að mundi koma og augljóslega var undirstaðan eða forsendan fyrir hinum frumvörpunum, var þá ekki komið fram. Nú kom það fram seint á fundi í gær og er sett hér á dagskrá með afbrigðum og sýnir það að það hefur ekki legið hér lengi. En mér fannst athyglisvert að í næturumræðunni í fyrrinótt sagði hæstv. fjmrh. að það færi vel á því að ræða þessi mál að nóttu til, á þeim tíma sólarhrings. Ég vil fyllilega taka undir það viðhorf hans að þessi mál séu þess eðlis og kannski heppilegast fyrir þá sem að þeim standa að þau fái ekki allt of mikla birtu. Ég benti þá á að í frv. því sem hér er nú til umræðu, frv. til laga um breyting á lögum nr. 63/1969, um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, með síðari breytingum, kæmi fram í fylgiskjalinu í upphafi umsagnar fjármálaskrifstofu fjmrn., með leyfi forseta:
    ,,Með frv. þessu eru gerðar breytingar á lögum um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, sem fela í sér afnám á einkarétti ríkisins til innflutnings á áfengi.``
    En eins og frv. hljóðar er um misskilning að ræða sem mér fannst að hæstv. fjmrh. teldi að bæri ekki að taka mjög alvarlega, sá misskilningur væri aðeins í umsögn frá fjárlagaskrifstofu. Ég vil nú bera virðingu fyrir því öllu starfsliði sem þar vinnur og taka alvarlega orð þeirra eins og annarra. En hæstv. ráðherra hefur ekki séð ástæðu til þess að láta leiðrétta þetta eða laga en allur frágangur þessara frv. ber þess ekki vitni að þau hafi fengið vandlega skoðun eða að ríkisstjórninni hafi gefist mikill tími til að ganga frá þeim. Það hlýtur að vekja athygli að athugasemdir við lagafrv., sem nú eru á dagskrá, eru eiginlega nákvæmlega þær sömu og þær voru við frv. til laga um breytingar á áfengislögunum og segja harla lítið um efni frv. að öðru leyti en því að þar kemur náttúrlega skýrt fram hver er stefna og markmið ríkisstjórnarinnar með þessum frv. Að því leyti virðist mér að það eigi ekki við um þessi frv. sem Ríkisendurskoðun sagði að markmið með einkavæðingu ríkisstjórnarinnar væru ekki nógu ljós.
    Hæstv. fjmrh. hefur ítrekað hvað eftir annað í framsöguræðu sinni og svörum að ekki væri um að ræða stefnubreytingu frá hæstv. ríkisstjórn. Það getur vel verið að ríkisstjórnin hafi alltaf haft þá stefnu sem kemur fram í frv. Við minnumst þess sjálfsagt öll að fyrir nokkru sagði hæstv. dómsmrh. að hann gæti ekki komið á því frelsi í viðskiptum með áfengi sem hann vildi því að á Alþingi væru menn sem væru að þvælast fyrir honum. En hitt fer ekkert milli mála eins og hér hefur reyndar verið bent á að frv. fela í sér gjörbreytta stefnu miðað við það sem áfengislögin kveða á um. Í 1. gr. áfengislaganna segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Tilgangur laga þessara er sá að vinna gegn misnotkun áfengis í landinu og útrýma því böli sem henni er samfara.``
    Þetta er 1. gr. frv. um tilgang laganna sem markar áfengisstefnuna og þarna kemur skýrt fram að tilgangurinn er sá einn að vinna gegn misnotkun áfengis í landinu og útrýma því böli. Síðan eru talin upp þau atriði sem stefnan er byggð á og í næsta kafla við eftir að búið er að skilgreina hvað er áfengi er kaflinn um innflutning áfengis. Hann hefst svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ríkisstjórninni einni er heimilt að flytja hingað til lands áfenga drykki eða áfengisvökva hverju nafni sem nefnast. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins annast innflutning.``
    Hér er alveg skýrt kveðið á um að eitt grundvallaratriði núverandi áfengisstefnu samkvæmt lögum er einkaleyfi ríkisins á innflutningi. Eða getur nokkur haldið því fram að ekki sé ástæða til þess nú ekki síður en áður og jafnvel miklu frekar en áður að þessi lög miði við það að vinna gegn misnotkun áfengis í landinu og útrýma því böli sem henni er samfara. Hæstv. fjmrh. sagði að vísu áðan að aðstæður hefðu breyst. Ég trúi því ekki að mat hans sé þannig að aðstæður hafi breyst á þann veg að það sé síður ástæða til að vinna gegna misnotkun áfengis og því böli sem sú misnotkun veldur.
    Hæstv. forseti. Ég ætla þá að leyfa mér að lesa upphaf athugasemda við lagafrv. þar sem mörg athyglisverð atriði koma fram og þá ekki síst stefna ríkisstjórnarinnar. Þannig segir í hinum almennu athugasemdum með lagafrv., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í samræmi við fyrirheit í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að draga úr ríkisumsvifum þar sem þess er kostur og vegna breyttra aðstæðna er með þessu frumvarpi lagt til að einkaréttur ríkisins til innflutnings á áfengi verði afnuminn.
    Þau rök, sem voru færð fyrir einkarétti ríkisins til innflutnings og heildsölu á áfengi, voru að með þeim hætti mætti afla ríkissjóði tryggra tekna í formi vínandagjalda af vörum þessum auk þess sem líklegt þótti að slíkt fyrirkomulag tryggði betur en ella hagstæðari innkaup á vörunum til landsins. Einnig var á það bent að með einkaréttinum væri mun auðveldara að annast eftirlit með innflutningi á áfengi þar sem honum mætti aðeins einn aðili sinna með löglegum hætti.
    Telja verður að framangreind rök eigi ekki lengur við um innflutning og heildsölu áfengis. Afla má ríkissjóði sömu tekna og hann hefur af vínandagjöldum með öðrum hætti en þeim að ríkið hafi einkarétt á innflutningi og dreifingu umræddra vara í heildsölu. Teknanna má einfaldlega afla með innflutningsgjöldum og sambærilegum gjöldum af innlendri framleiðslu, sé um hana að ræða, á sama hátt og tíðkast varðandi innheimtu ýmissa annarra óbeinna skatta. Möguleikar til eftirlits með ólögmætum innflutningi og sölu áfengis verða ekkert síðri við þessa breytingu. Jafnframt má benda á að óþarft er fyrir ríkið að vera í rekstri sem einkaaðilar eru færir um að leysa af hendi eða annast slíkan innflutning fyrir einkaaðila, einkum þegar haft er í huga að ekki skiptir máli fyrir ríkissjóð hvor hátturinn er á hafður.
    Í frumvarpi til laga um gjald af áfengi, sem flutt er samhliða frumvarpi þessu, er gerð grein fyrir því að þessi breyting mun ekki hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs af áfengi. Gjöld af áfengi breytast úr vínandagjaldi, sem er ákveðið í dag af fjármálaráðherra, í áfengisgjald sem verður bundið í lögum og verður innheimt við tollafgreiðslu.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að felld séu úr gildi öll ákvæði er varða einkarétt ríkisins til innflutnings á áfengi. Jafnframt skilgreinir frumvarpið hverjir hafa heimild til að endurselja það áfengi sem flutt er til landsins. Með vísan til þessa þykir ekki ástæða til að fjölyrða frekar um efni þess, en hins vegar er vísað til frumvarps um gjald af áfengi.``
    Það er athyglisvert að áhersla er lögð á það að ekki er ástæða að mati hæstv. fjmrh. til að fjölyrða frekar um efni þessa frv. En eins og menn hafa heyrt er í athugasemdunum við frv. eingöngu fjallað um þetta málefni út frá viðskiptalegu sjónarmiði. Hvernig hægt sé að afla ríkissjóði tekna og hvað það sé miklu betra að láta einkaaðila annast þetta og allt eftirlit verði einfaldara. Hins vegar er ekkert minnst á heilbrigðisþáttinn, áfengisneysluna, áfengisvandamálið eða félagslega þáttinn. Ég mun víkja að því síðar ef tími verður til en þetta eru þau atriði sem fyrirvarinn í EES-samningnum byggðist á. Þ.e. að áfengi skapaði heilbrigðisvandamál og því væri hér einkasala og tilgangur hennar væri ekki fyrst og fremst sá að afla ríkissjóði tekna heldur reyna að draga úr þeim afleiðingum sem áfengisneyslan hefur í för með sér. Ef hæstv. ríkisstjórn snýr nú alveg við blaðinu eins og gert er í þessu frv. og leggur eingöngu áherslu á að hér sé um viðskiptamál að ræða eins og aðrar vörur verða afleiðingarnar að sjálfsögðu alvarlegar. Ef ríkisstjórnin hættir að halda því fram, t.d. fyrir samkeppnisnefnd EFTA og EFTA-dómstólnum, að þetta sé ekki heilbrigðismál heldur aðeins viðskiptamál er hætt við að það sé auðvelt fyrir hana að fá þá niðurstöðu sem fellur að stefnu ríkisstjórnarinnar að telja að áfengiseinkasala eigi engan rétt á sér.
    Að leggja eingöngu áherslu á viðskiptaþáttinn setur líka fram það viðhorf að hér sé um venjulega verslunarvöru að ræða sem sé eðlilegt að sé inni í öðrum verslunum eins og við vitum að mikill þrýstingur hefur komið fram um hjá ýmsum kaupmönnum sem sjá hag sinn af því að fá þetta inn í hinar almennu verslanir og áskorun hefur komið fram um frá þeim til ríkisstjórnar. Hér er því að sjálfsögðu um algera stefnubreytingu að ræða að mínu mati með því að minnast ekki á heilbrigðis- eða félagslega þáttinn sem getur haft gífurlegar afleiðingar.
    Ég sagði að mér fyndist að þessar athugasemdir með frv. ófullkomnar að öðru leyti en að setja fram stefnu hæstv. ríkisstjórnar. Þó ég hafi reynt að lesa frv. þá eru ærið mörg atriði óljós í mínum huga. Ég hlýt því að biðja hæstv. fjmrh. að upplýsa það nú í þessari umræðu.
    Ég er með nokkrar spurningar um það hvernig innflutningurinn á að fara fram. Til þess að ég geti haldið áfram umræðunni síðar ef henni á að ljúka hér þarf ég að fá svör við þessu frá hæstv. ráðherra. Það getur vel verið að eitthvað af þeim svörum sé að finna í greinargerð frá starfsfólki ÁTVR sem ég var að fá í hendur um leið og ég kom hér upp í ræðustólinn. Ég get fúslega viðurkennt að ég er ekki svo hraðlæs að ég hafi haft tök á að lesa hana og finna út efni þeirra mörgu blaðsíðna á þeim tíma. Því vil ég óska eftir því að hæstv. ráðherra væri hér til að svara þessum spurningum.
    ( Forseti (SalÞ): Forseti hefur nú þegar komið áleiðis skilaboðum, hann hefur eitthvað brugðið sér frá hér til hliðar.)
    ( Fjmrh.: Hér er ég.) Þakka fyrir, hæstv. ráðherra. Ég var að segja að þó ég hefði nú reynt að lesa þetta frv. um verslun með áfengi og finna út úr því hvað í því fælist þá væru ýmist atriði enn þá óljós. Í því segir að innflutningur áfengis sé öllum heimill til einkaneyslu og endursölu til þeirra sem leyfi hafa til áfengissölu í smásölu. Hvernig er ætlast til að koma þeirri verslun fyrir? Ekki er minnst einu orði á það hér. Þeir sem eru nú þegar umboðsaðilar eða vilja fá sér ný umboð og hefja innflutning, þeir flytja sjálfsagt þessa vöru inn í tollvörugeymsluna. Þeir mega eftir þessu afgreiða þá þaðan sjálfsagt til þeirra sem hafa leyfi til að neyta eða selja öðrum áfengi. (Gripið fram í.) Nú er heimilt að flytja inn áfengi til einkanota.

Því vil ég spyrja hve mikið magn mega menn flytja inn til einkanota? Það er ekkert skilgreint í þessu. Er það ekki ótakmarkað? ( Fjmrh.: Eins og í dag.) Er hleypt inn í landið í dag ótakmörkuðu magni áfengis til einkanota? Mig langar að fá skýringar á þessum.
    ( Forseti (SalÞ) : Ekki samtöl úr ræðustól.)
    Það er ekki hægt að svara þessu svona. Það er sem sagt ljóst að möguleiki er fyrir innflytjendur að flytja inn og geyma í tollvörugeymslu. Þaðan geta þeir afgreitt til þeirra sem hafa smásöluleyfi en þeir hljóta líka að hafa leyfi til að fara með þetta í sínar geymslur og dreifa þaðan, það er a.m.k. ekki minnst á það hvernig það eigi að vera. Það er möguleiki að dreifingarstöðvar áfengis verði býsna víða út um hvippinn og hvappinn. Hvernig á þá að hafa eftirlit með slíkum dreifingarstöðvum? Ég get ekki skilið þá fullyrðingu sem er í frv. og greinargerð og kom fram hjá hæstv. ráðherra að einfaldara sé að hafa eftirlit þegar innflytjendurnir skipta kannski hundruðum en þegar áfengisverslunin ein er með innflutninginn. Ég sé ekkert í frv. hvernig með á að fara.
    Mér finnst þó alveg augljóst að með því að taka upp það skipulag sem hér er sett fram muni síðar verða sagt: Áfengisverslun er orðin út um allt og það eru svo margir sem annast þetta. Það hlýtur að vera erfitt að neita því að þetta sé þá stigsmunur en ekki eðlis að smásalan fylgi með. Ég held því að óhætt sé að fullyrða að sú breyting, sem hér er gert ráð fyrir, að vísu fyrst og fremst í frv. um breytingu á áfengislögunum, sem hæstv. dómsmrh. mun síðar mæla fyrir, verði afdrifarík og verði notuð til þess að leysa endanlega upp Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. En síðan er þá spurningin af hverju er ástæða til að koma í veg fyrir það. Hæstv. fjmrh. sagði að þær breytingar, sem hefðu verið gerðar á verslun síðustu ára, hefðu haft í för með sér aukna samkeppni um sölu áfengis. Mér virtist hann nota það sem rök fyrir því að áfram yrði haldið á þeirri braut. En hverjar eru ástæðurnar gegn því? Það er að sjálfsögðu það sem stendur í 1. gr. áfengislaganna um að ástæða sé til að vinna gegn ofneyslu áfengis og afleiðingum hennar.
    Fyrir nokkrum árum var gerð breyting á áfengislögum þar sem heimiluð var sala á áfengu öli. Um það urðu harðar umræður og skiptar skoðanir. En allir sögðu að þeir vildu ekki með þeirri breytingu að áfengisneysla og misnotkun áfengis ykist í landinu. Því miður hefur reynslan orðið sú að það hefur farið á annan veg, fyrst og fremst það sem síst skyldi. Ég er með í höndunum smápésa sem er sérprentun úr Læknablaðinu, fréttablaði lækna, 9. tölublaði 1993. Þar er fjallað um könnun á áfengisneyslu unglinga frá því áður en sala á bjór var leyfð og síðan á eftir. Fyrsta könnunin var gerð 1988, hálfu ári áður en farið var að selja áfengan bjór, önnur könnunin var gerð ári síðar eða þegar bjórinn hafði verið seldur í um það bil hálft ár og sú þriðja var síðan gerð haustið 1992, þremur og hálfu ári eftir að bjórsala var lögleidd. Það voru 800 einstaklingar sem könnunin náði til. Niðurstaðan sem fram kemur úr þessum könnunum kemur fram í þessum orðum hér, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það sem veldur áhyggjum er hversu mjög drykkja þeirra sem neyta áfengis hefur aukist eftir að bjórsala var leyfð. Gagnstætt vonum jókst neysla sterkra drykkja verulega. Aukningin varð mest fyrsta árið en hefur haldið áfram síðan. Eins og mynd ber með sér, sem hér fylgir, með hefur heildarneysla pilta 16--19 ára aukist nærri um 80% eftir að sala áfengs öls var leyfð hér á landi. Rúmlega þriðjungur af þessari aukningu er vegna þess að piltar drekka nú verulega meira magn af sterku áfengi samanborið við það sem þeir gerðu áður. Neysla stúlkna á þessum aldri hefur hins vegar staðið í stað. Neysla þeirra sem eru á aldrinum 13--15 ára og drekka áfengi á annað borð hefur rúmlega tvöfaldast eftir að bjórinn var leyfður. Þessi hópur drekkur nú tvisvar sinnum meira af sterku áfengi en áður og í honum drekka stúlkurnar meira en piltar fyrst og fremst af sterku áfengi. Mest hefur verið drukkið af sterku áfengi bæði meðal unglinga og fullorðinna. Unglingar drukku bjór áður en sala hans var leyfð hér á landi þótt í litlu magni væri. Neysla unglinga á bjór hefur margfaldast eftir að sala hans var leyfð og neysla á sterku áfengi hefur aukist verulega. Enn er mest af áfengi drukkið í formi sterkra drykkja.
    Hin mikla aukning sem hefur orðið á áfengisneyslu unglinga, einkum pilta 16--19 ára, vekur ýmsar spurningar. Hugsanlegt er að umræðan sem varð um áfengi á þeim tíma, sem verið var að hefja sölu á áfengum bjór, hafi haft áhrif á áfengisneyslu unglinganna. Það er þó varla eina skýringin því neysla þeirra hefur haldið áfram að aukast en ekki minnkað aftur eins og skráð sala áfengis í landinu. Hlutfallslegur fjöldi neytenda í eldri aldurshópnum er óbreyttur en hefur minnkað í yngri aldurshópnum. Vaxandi drykkja unglinga sem neyta áfengis er verulegt áhyggjuefni. Nauðsynlegt er að finna leiðir til að draga úr henni til þess að koma í veg fyrir alvarleg vandamál sem fylgja vaxandi áfengisneyslu.``
    Þetta eru örfá atriði úr niðurstöðu úr þessari könnun sem unnin var af rannsóknarstofu geðdeildar Landspítalans, síðast á árinu 1992 og þau sem gerðu það voru Ása Guðmundsdóttir og Tómas Helgason.
    Ég bendi á þetta hér vegna þess að það er auðvitað sorglegt dæmi um það hvaða afleiðingar það hefur í för með sér að auka framboð á áfengi. Þá verða sífellt fleiri sem neyta þess en sérstaklega að neyslan vex. Mér finnst að alþingismenn þurfi að taka tillit til þess og hugsa um hina mannlegu hlið á þessu máli. Hvernig fer fyrir einstaklingunum og fjölskyldunum sem neyta þessarar vöru og að leggja þar eingöngu mælikvarða gróða og hagnaðar, það finnst mér heldur kaldranalegur mælikvarði.
    Hæstv. fjmrh. sagði áðan að ekki væri gert ráð fyrir því að breytingin drægi úr tekjum ríkissjóðs. En spurningin er sú hvernig dæmið verður þegar gerð er upp afkoma ríkissjóðs. Hvað skyldi þegar hafa kostað þjóðfélagið og ríkissjóð mikið sú aukning sem varð á neyslu áfengis hjá unglingum á því árabili sem

ég nefndi áðan? Sem betur fer hefur verið komið upp fjölmörgum stofnunum til þess að vinna að því að bjarga þeim sem eru illa farnir vegna áfengisneyslunnar og þar er unnið mikið sjálfboðastarf. En skaðinn og útgjöldin eru að sjálfsögðu mikil samt sem áður, bæði fyrir ríkissjóð og þjóðfélagið í heild.
    Á hverjum degi eða a.m.k. um hverja helgi berast váleg tíðindi um slys og ofbeldi sem ískyggileg eru í þjóðfélagi okkar og sem betur fer segja allir að þurfi að vinna gegn. En það verður þungur róður að eiga við slíkt þegar sífellt er aukinn vandinn. Ég veit ekki hversu mörgum hv. alþm. kemur sú spurning í hug er þeir líta yfir barnahóp, t.d. nemendur í skólum, hversu mörg þessara ungu barna verða búin að bíða skipbrot áður en fullorðinsaldri er náð. Því miður er það ekki stór hópur sem hefur ekki innan sinna vébanda einhvern sem mun eiga eftir að lenda í meiri og minni vandræðum miðað við það ástand eins og er í dag. Ég get því ekki lagt of mikla áherslu á það af minni hálfu að ríkisvaldið breyti áfengisstefnu sinni eins og hún hefur verið í verki á síðustu árum og geri allt sem í valdi þess stendur til þess að draga úr afleiðingum hennar. Það verður að sjálfsögðu aðeins gert með einu móti, þ.e. að minnka neysluna.
    Að sjálfsögðu bera foreldrarnir mesta ábyrgð á sínum börnum og heimilum og vissulega er þar allt of víða pottur brotinn. Ég minnist þess fyrir allmörgum árum sagði þáverandi fangaprestur við mig að því miður væri ástandið þannig hjá sumum foreldrum að þegar þau eignuðust börn væri hægt að fullyrða að innan 20 ára yrðu þau búin að lenda innan veggja fangelsa. Við hljótum að vilja reyna taka höndum saman og breyta þessu ástandi. Það verður ekki gert með því að stinga höfðinu í sandinn og neita þeim staðreyndum að auðvitað veldur áfengisneyslan þessu. Hún er undirrótin að ofbeldi í allt of mörgum tilvikum. Eins og áður hefur komið hér fram eru skýrslur um það að börn í efstu bekkjum grunnskóla, sem neyta ekki áfengis, reykja ekki heldur, aðeins 1% þeirra barna reykir í efstu bekkjum grunnskóla. Hins vegar reykir meira en helmingur þeirra sem neyta áfengis að staðaldri. Sífellt kemur betur í ljós hversu alvarlegar afleiðingar reykinga hafa en það er þó ekki nema hluti af afleiðingunum. Segja má að alls staðar þar sem fjallað er um önnur vímuefni en áfengi, hin ólöglegu vímuefni, hefst neysla þeirra hjá þeim sem neyta áfengis.
    Ég veit ekki hvort nokkur könnun hefur farið fram á því hversu mikil sú áfengisneysla þarf að vera, t.d. hjá unglingum til þess að fara að hafa áhrif á aðra vímuefnaneyslu. Ég óttast að hún þurfi ekki að vera ýkjamikil því að dómgreindin er fljót að sljóvgast og þá mótstaðan gegn því að leggja út á þá hættulegu braut.
    Ég hef vikið að nokkrum atriðum sem mér eru efst í huga í sambandi við það frv. sem er nú á dagskrá. Eins og ég sagði í spurningum mínum til hæstv. fjmrh. finnst mér að við þurfum að fá langtum skýrari mynd af því hvernig þetta áfengisflæði verður ef sú breyting yrði gerð sem frv. um breytingu á lögum um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf kæmi til framkvæmda. Ég mun að sjálfsögðu reyna nú að nota tímann og lesa þá greinargerð sem, eins og ég sagði áður frá, starfsfólk áfengisverslunarinnar sendi og ég var að fá í hendurnar en hef ekki haft tíma til áður. Ég vænti þess að sú rækilega skoðun, sem nefndir munu inna af hendi við þessi frumvörp þegar þeim hefur verið vísað þangað, muni leiða til þess að menn munu hverfa frá þessari óheillabraut.