Átak í málefnum barna og ungmenna

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 15:25:56 (2428)

[15:25]
     Flm. (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram till. til þál. um sérstakt átak í málefnum barna og ungmenna. Flm. ásamt mér eru aðrar þingkonur kvennalistans. Þáltill. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að láta gera fjögurra ára framkvæmdaáætlun um úrbætur í málefnum barna og ungmenna. Áætlunin verði byggð á lögum um vernd barna og ungmenna, barnalögum og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.``
    Þau atriði sem ég tel helst þurfa að hafa í huga við gerð slíkrar framkvæmdaáætlunar eru tilgreind í greinar gerð og eru t.d. eftirfarandi:
    Koma á fót skipulegri foreldrafræðslu sem m.a. væri liður í forvarnastarfi.
    Styðja við starfsemi áhugahópa sem starfa að íþrótta- og æskulýðsmálum.
    Huga sérstaklega að stöðu þeirra barna þar sem foreldrar eða forsjármenn hafa búið við langvarandi atvinnuleysi.
    Nýta sem best starf nefnda á vegum sveitarfélaga, t.d. með sameiningu félagsmálanefnda og barnaverndarnefnda í eina nefnd þar sem það á við og einnig að stækka umdæmi þeirra.
    Koma á markvissu eftirliti með útleigu myndbanda með ofbeldismyndum og sýningum ofbeldiskvikmynda í sjónvarpi og kvikmyndahúsum.
    Huga að málsmeðferð og úrlausn á kynferðisbrotamálum gagnvart börnum.
    Koma í veg fyrir útbreiðslu barnakláms hér á landi.
    Koma á skilvirkari og hraðari afgreiðslu dómsmála sem snerta börn og ungmenni.
    Samræma aðgerðir til að stemma stigu fyrir áfengis- og vímuefnaneyslu barna og unglinga og auka forvarnir.
    Kannski rétt að geta þess í framhjáhlaupi að það frv., sem hér var verið að mæla fyrir áðan, er ekki beint í takt við þessa síðustu grein.
    Nú er það svo að hér tel ég upp allmörg atriði sem gætu verið liður í slíkri framkvæmdaáætlun. Ég geri mér ljóst að hér er um viðamikið starf að ræða ef af því yrði. Það er líka hugsanlegt að ekki sé hægt að taka öll þessi atriði í einu og það er í sjálfu sér eðlilegt. En þau atriði, sem hér eru nefnd, tel ég mjög brýnt að skoða. Segja má að ýmislegt af því sem nefnt er sem áhersluatriði eins og að styðja við starfsemi áhugahópa um íþrótta- og æskulýðsmál sé ástundað af hálfu opinberra aðila en spurning er hvort það starf sé samræmt, hvort ekki sé of mikið um að menn séu að gera sömu hlutina í mörgum félögum og samræmi vanti hugsanlega í starfið.
    Barnafjölskyldur eru hlutfallslega fleiri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Heimili með börn eru rúmlega 38 þús. samkvæmt athugun sem gerð var fyrir tveimur árum af um 62 þús. kjarnafjölskylduheimilum. Af þeim eru reyndar einhleypir foreldrar um 8 þús., eða 13%. Og yfir 90% einstæðra foreldra eru konur. Hér á landi er fólk yfirleitt yngra þegar það byrjar barneignir en á Norðurlöndunum. Það

bendir til þess að þegar foreldrar eiga sitt fyrsta barn eru þeir tiltölulega skammt á veg komnir í lífsferlinum, bæði hvað varðar menntun, atvinnu og húsnæði. Það hefur síðan áhrif á aðbúnað barnanna og hefur þau áhrif að ungar barnafjölskyldur eru viðkvæmari fyrir kjarasveiflum en aðrar fjölskyldur. Það er því augljóst að þessi fjölskylduhópur þarf oft verulegan stuðning frá þjóðfélaginu. Við höfum reynslu af því í dag að ástand hjá foreldrum ungra barna og sérstaklega einstæðum foreldrum er vægast sagt mjög bágborið víða og dæmi um að þeir foreldrar sjái nánast enga leið út úr því fari sem þeir eru fastir í. Ekki bætir úr skák að miðað við fullt starf eru meðaltekjur kvenna um 40% lægri en karla og eins og áður sagði eru konur í meiri hluta einstæðra foreldra. Af þessum ástæðum er m.a. nauðsynlegt að auka foreldrafræðslu og huga sérstaklega að stöðu þeirra barna þar sem foreldrar hafa búið við langvarandi atvinnuleysi.
    Eitt af því sem ég nefni er að stækka umdæmi barnaverndarnefnda. Um það eru ákvæði í lögum að heimilt sé að gera. Hins vegar hefur það víða ekki verið framkvæmt. Í dreifbýlinu er mikil nauðsyn á að barnaverndarnefndir séu ekki bundnar við fámenn sveitarfélög þar sem allir þekkja svo hver annan að varla er hægt að taka á erfiðum málum. Til þess þarf utanaðkomandi aðila. Þess vegna ætti að gera barnaverndarnefndum kleift að ráða sér starfskraft með fagþekkingu til að sinna þeim málum sem upp kunna að koma. Þetta er mál sem samtök sveitarfélaga gætu látið til sín taka.
    Undanfarin ár hafa nánast engin lög verið virk um eftirlit með kvikmyndum. Nú nýlega var mælt fyrir frv. um eftirlit með ofbeldiskvikmyndum og tölvuleikjum og undir þetta má einnig flokka eftirlit með klámmyndum og ekki síst barnaklámi sem skilyrðislaust ætti að banna innflutning og framleiðslu á.
    Þá vil ég nota tækifærið og benda á að auglýsingar kvikmynda þarf líka að skoða í þessu sambandi. Þær eru oft á besta sjónvarpstímanum, rétt fyrir fréttir, þegar fjölskyldan er sest fyrir framan sjónvarpið og börnin þá auðvitað líka. Þær hörmulegu fréttir um ofbeldi barna gagnvart börnum má oftlega rekja til áhrifa af slíkum auglýsingum og kvikmyndum. Hér eigum við að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í. Við getum verið eins viss um það eins og tveir og tveir eru fjórir að þessara áhrifa gætir ekkert síður hér á landi en annars staðar. Hér eru börn líka oftar ein heima vegna langs vinnudags foreldra og því ekki alltaf hægt að hafa eftirlit með því af hálfu foreldra á hvað börnin eru að horfa.
    Ný barnalög, nr. 20/1992, og lög um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992, ásamt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, hafa að geyma fyrirmæli um skyldur foreldra og stjórnsýsluhafa hvað varðar aðbúnað barna og ungmenna. Þar eru ýmis ákvæði sem skylda opinbera aðila til að gæta hagsmuna og velferðar barna og ungmenna í hvívetna. Í fyrra var samþykkt frv. um umboðsmann barna sem orðið er að lögum og nú er búið að ráða starfsmann í það embætti.
    Alþingi hefur ítrekað sýnt vilja sinn til þess að sinna betur þörfum barna og ungmenna en gert hefur verið. Um það ber setning nýrra barnalaga og barnaverndarlaga glöggt vitni. Þá má einnig minna á að þingsályktunartillögu um foreldrafræðslu, sem þingkonur Kvennalistans lögðu fram á síðasta löggjafarþingi, var mjög vel tekið. Ýmsar þingsályktanir hafa kveðið á um sérstakar aðgerðir til verndar börnum.
    Hagsýsla ríkisins gerði úttekt á heildarskipan þess málaflokks sem snertir börn og unglinga og skilaði skýrslu í október 1993. Skýrslan var gerð að beiðni félagsmálaráðuneytisins og er þar að finna margar gagnlegar ábendingar og tillögur um markvissara skipulag og leiðir til úrbóta. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Meginvandi barna- og unglingamála er skortur á samhæfingu, ómarkviss stjórnsýsla, lítill sveigjanleiki og léleg nýting fjármuna. Úrbætur krefjast samstillts átaks allra sem starfa að málefnum barna og unglinga.``
    Ég tel því að margt hafi verið gert á undanförnum árum. Þau lög sem ég nefndi hér áðan eru vissulega spor í rétta átt. Reyndar kom fram hér fyrir nokkru síðan að jafnvel lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga væri ekki fylgt nægilega vel eftir. En ýmislegt hefur verið gert bæði með lagasetningu og margar og merkar skýrslur um málefni barna og ungmenna hafa verið unnar. Ég tel því að það starf hafi verið vel unnið sem hingað til er búið að vinna. Nú finnst mér hins vegar að tími skýrslugerða sé liðinn og það sé tímabært að taka á málinu með því að gera áætlun um framkvæmdir í anda þeirra ábendinga sem koma fram í skýrslunum.
    Þau lög sem gilda um þessi mál og nefnd eru í tillögugreininni eru um margt ágæt. En pottur er brotinn um framkvæmdina sums staðar eins og ég nefndi um félagsþjónustu sveitarfélaga. Því held ég að það ætti nú og sé fyllilega tímabært að gera áætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna í þjóðfélaginu og vernda þau frá óæskilegum áhrifum. Til þeirrar áætlunar væri síðan varið sérstökum fjármunum á fjárlögum næstu fjögurra ára eða þriggja ára eftir því hvað áætlunin tæki yfir langan tíma. Enn þá er ár fjölskyldunnar þó það sé nú langt liðið á það og ég tel að ár fjölskyldunnar væri vel til þess fallið að koma á fót slíkri framkvæmdaáætlun. Ég legg því til að Alþingi lýsi yfir vilja sínum þar að lútandi með þessari till. til þál. sem ég hef nefnt.
    Ég hef nokkuð nefnt hér að við séum komin skemmra á veg en nágrannaþjóðirnar og m.a. hef ég hér undir höndum áætlun í barna- og fjölskyldumálaráðuneyti Noregs sem hófst á árinu 1991 og átti að ljúka um árslok 1993--1994. Ég hef ekki undir höndum úrtak á því hvernig það tókst en skýrsluna yfir það hvernig þetta gekk árið 1991 og 1992 og áætlunina 1993 hef ég hér í höndum og það var áætlun um það að flýta allri málsmeðferð bæði hvað snertir dómsmál, flýta allri meðferð barnaverndarmála og vera með ákveðið forvarnastarf í gangi. Ég tel eins og ég sagði áðan alveg tímabært að við förum að láta verkin tala.

    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til síðari umræðu og félmn.