Átak í málefnum barna og ungmenna

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 15:38:11 (2429)



[15:38]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Sú þáltill. sem hér er til umræðu er vissulega allra góðra gjalda verð og ég fagna henni. Hún er í sama anda og það frv. til laga um breytingar á lögum um vernd barna og ungmenna sem ég mælti fyrir í þinginu fyrir skömmu að því leyti að tilgangur hennar er að efla verulega barnaverndarstarf og umönnun barna í landinu. Það má alveg segja að full ástæða sé til að gera átak í þessum efnum enda þótt nú sé unnið ötullega að málunum.
    Ég hef verið óþreytandi í umræðu um mál af þessum toga að tala um hversu brýnt það sé að stjórnvöld setji sér fjölskyldustefnu og á sínum tíma þegar unnin var löggjöf um félagsþjónustu sveitarfélaga leit ég á það sem fyrsta skref í aðgerðum af þeim toga að horfast í augu við að í sveitarfélögum væri útfærð markviss fjölskyldustefna. Í þessari þál. er vísað til norskra aðgerða og er ástæða til að nefna að þær aðgerðir hafa verið unnar eins og kemur fram í greinargerð með frv. af barna- og fjölskylduráðuneytinu norska. Ég vil líka nota tækifærið til að nefna það að mér finnst það mjög áhugavert sem Norðmenn hafa gert, að setja upp slíkt sérstakt ráðuneyti og er alveg sannfærð um að það er góður hlutur og mögulegt að hrinda í framkvæmd einmitt aðgerðum í þessum málaflokki með því að leggja áherslu á fjölskyldumálin. Mig langar líka að nefna það hér af því að ég átti kost á að ræða þessi mál við norska barna- og fjölskylduráðherrann Grete Berget. Hún sagði mér í umræðu um fjölskyldumál að þegar hún lagði fram framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum á þinginu fyrir ári var hún sökuð um að þetta væri ekki jafnréttisáætlun sem hér væri lögð fram, þetta væri fjölskyldustefna. En þegar upp var staðið og þessi áætlun var samþykkt í þinginu stóðu allir flokkar að henni. Þetta finnst mér áhugavert.
    Markmið barnaverndar er að tryggja börnum viðunandi uppeldisskilyrði. Það eru auðvitað fyrst og fremst foreldrar sem bera ábyrgð á börnum sínum en sveitarfélögin bera ábyrgð á því að börnunum sé ekki hætta búin í umhverfi sínu, hvort heldur er innan veggja heimilisins eða utan. Barnaverndarnefndum eru lagðar ákveðnar skyldur á herðar. Þeim er skylt að aðstoða foreldra við að gegna foreldraskyldum og grípa til úrræða ef nauðsyn ber til. Þegar frv. sem ég gat um áðan um vernd barna og ungmenna, sem nú er til meðferðar í nefnd í þinginu, var undirbúið voru settar á laggirnar fjórir vinnuhópar sem tóku að sér mismunandi verkefni. Einn hópur skoðaði sérstaklega barnaverndarstarf á landsbyggðinni og skilaði skýrslu sem fékk nafnið Bætt barnavernd og aukin félagsþjónusta sveitarfélaga. Sá hópur kom sér saman um að hafa eftirfarandi markmið að leiðarljósi í allri umfjöllun sinni og undir þau get ég mjög vel tekið:
    Að raunhæf félagsþjónusta og barnavernd verði veitt í nálægð við fjölskyldur og öflugt barnaverndarstarf verði í öllum landshlutum.
    Að barnafjölskyldur þurfi ekki að leita til margra aðila vegna félagslegra eða sálrænna erfiðleika.
    Að félagsþjónustan og barnaverndarstarf verði skipulagt svæðisbundið með þátttöku a.m.k. þúsund manna samfélags sem gefi möguleika á að starfsmaður verði ráðinn.
    Að starfsmenn hafi menntun og reynslu til að skipuleggja og veita félagslega þjónustu.
    Það er alveg ljóst að víða um landið standa barnaverndarnefndir ekki undir nafni. Þær veita börnum ekki þá lögbundnu vernd sem þeim ber og e.t.v. ekki alltaf að tilkynningaskylda sé virt þar sem þeir sem búa yfir upplýsingum treysta hreinlega ekki barnaverndarnefndunum til að meðhöndla þær á þann hátt sem ætlast er til. Þar getur annars vegar verið fámennið sem stendur að baki hverri barnaverndarnefnd og hins vegar skortur á fagþekkingu. Þess vegna er samstarf barnaverndarnefnda við þá, sem starfs síns vegna kynnast börnum náið, fóstrur, starfsfólk skólanna, heilsugæslustarfsmenn, oft og tíðum af skornum skammti og þarf að efla það.
    Það er afar mikilvægt að minni sveitarfélögin sameinist um þessi verkefni og tillögur um nýbreytni og eflingu þjónustu byggjast fyrst og fremst á samvinnu og samstarfi.
    Auðvitað verða yfirvöld að vera reiðubúin til að leggja fram aukið fjármagn til barnaverndar svo markvisst barnaverndarstarf og nútímafélagsþjónusta verði að raunveruleika í dreifðum byggðum landsins og það er þarna sem hefur kannski gengið örlítið hægt. Eins og kemur fram í þessari þáltill. veitir núgildandi íslensk löggjöf okkur svigrúm til að gera átak í þessum efnum og má minna á meginþætti barnaverndarstarfs, samanber barnaverndarlögin, þ.e. forvarnir, eftirlit og leitarstarf og sérstök úrræði sem nánar eru skilgreind í V. og VI. kafla laganna. Hugtakið barnavernd er ekki hægt að taka og einangra bara innan ramma laganna um vernd barna og ungmenna og til þess að barnavernd njóti sín í sveitarfélagi þarf umhverfið gjarnan að vera fjölskylduvænt. Það er líka nauðsynlegt að hafa það í huga að barnavernd er í öllum tilvikum samþætt annarri félagslegri þjónustu og vinnuhópurinn sem ég gat um áðan hefur litið á barnavernd og félagsþjónustu sem órjúfanlega heild.
    Ég vil gjarnan í örfáum orðum nefna hér markmið félagsþjónustu sveitarfélaga en það er:
    Að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar með því að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti.
    Að tryggja þroskavænleg uppeldisskilyrði barna og ungmenna.
    Að veita aðstoð til þess að íbúar geti búið sem lengst í heimahúsum, stundað atvinnu og lifað sem eðlilegustu lífi og að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg vandamál.
    Ég vil að lokum vekja athygli á tveimur atriðum í tengslum við þetta mál. Annað er að ég tel að við megum ekki vanmeta þann árangur sem náðst hefur í tíð núverandi ríkisstjórnar í barnaverndarmálum. Ég læt nægja að nefna að á sl. tveimur árum hafa fjárframlög til barnaverndarmála aukist um 60--80 millj. kr. og þar munar að sjálfsögðu mest um að það hafa verið tekin í notkun ný meðferðarheimili sem vissulega hafa skipt miklu máli. Hitt atriðið sem ég vil nefna er að forsenda þess að átak í barnaverndarmálum á borð við það sem þáltill. boðar er ekki einungis fjármunir heldur ekki síður góð skipulagning. Til þess að það gangi eftir verðum við að hafa aðila sem getur tekist á hendur slíka vinnu. Fram til þessa höfum við ekki haft neina stofnun sem faglega og starfslega hefur getað tekist á við slíkt verkefni. En í því frv., sem ég hef áður vísað til og er til meðferðar í félmn., eru lagðar til breytingar á barnaverndarlögum til að gera ráð fyrir slíkri stofnun, barnaverndarstofu. Það er afar þýðingarmikið að þetta frv. nái fram að ganga á yfirstandandi þingi. Það væri vel við hæfi að meðal fyrstu verkefna fyrirhugaðrar barnaverndarstofu væri að hrinda í framkvæmd sérstöku átaki í málefnum barna og ungmenna eins og þessi þáltill. gerir ráð fyrir.