Átak í málefnum barna og ungmenna

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 16:15:24 (2434)


[16:15]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vék í fyrri ræðu minni að ósköp venjulegum börnum og venjulegum fjölskyldum í þessu landi okkar. Mér er það jafnljóst að þar fyrir utan eru því miður allt of margar fjölskyldur sem

eiga við verulega erfiðleika að etja og eru fyrir því ýmsar ástæður, ekki síst atvinnuleysi sem við sjáum nú í stórum stíl sem við höfum ekki þekkt svo mikið til áður. Síðan er vitað að afleiðing af alls kyns erfiðleikum getur auðvitað birst í óreglu foreldranna og heldur óskemmtilegu lífi. Við sjáum því miður vaxandi ofbeldi í landinu, við sjáum vaxandi vímuefnanotkun barna og unglinga og hvers kyns erfiðleika sem við hefðum kannski haldið að við gætum verið laus við í þessu litla landi.
    En sannleikurinn er sá að ég held að Íslendingum hætti til að fegra sjálfa sig svolítið fyrir sér. Sannleikurinn er sá að íslenskt samfélag er harla miskunnarlaust. Þetta er samfélag samkeppninnar sem lýsir sér í mikilli eftirsókn eftir veraldlegum gæðum og það er alveg rétt sem hér kom fram hjá hv. 18. þm. Reykv. að maður heyrir lítil börn meta fólk eftir því hvernig bíl það á og þá er auðvitað eitthvað að ef þetta eru fyrstu uppeldisáhrif. Síðan sér maður í barnaskólunum að fylgst er með því hvaða merki eru á fötunum sem börnin ganga í og það er auðvitað eins og hv. þm. kom réttilega inn á algerlega galið gildismat í einu samfélagi. Það er kannski það sem ég kynni að vera ofurlítið hrædd við þó ég sé sammála hv. 5. þm. Reykv. um gildi íþróttaiðkunar að dálítið af þessari hörðu samkeppni einkenni of mikið íþróttastarfið á Íslandi. Ég er satt að segja ekkert sérstaklega hrifin af því að ungir drengir hafi þær fyrirmyndir að þegar þeir verði stórir verði þeir keyptir eins og kvikfé, gangi kaupum og sölum milli stórra íþróttasambanda. Ég er ekki viss um að það sé óskaplega hollt að hafa það að markmiði.
    Það sem ég hef áhyggjur af er einnig þetta: Ég held að íslensk æska sé ekkert sérstaklega vel upplýst. Ég veit að kennarar gera allt sem þeir geta til þess að reyna að koma börnunum til að lesa, til að fylgjast með því sem er að gerast. Ég held að þetta takist ekki sérlega vel.
    Ég hitti töluvert af unglingum öðru hverju og ég hef áhyggjur af því hvað þeir virðast uppteknir af fáum hlutum og heldur illa að sér um ýmsa hluti. Ég held t.d. að öll listiðkun í landinu sé á afar slæmu stigi í grunnskólanum. Ég hef áður margsinnis innt eftir kennslu í handmennt sem er nú eiginlega búið að eyðileggja eins og ýmsir hafa verið mér sammála um hér, bæði samherjar og pólitískir andstæðingar. Ég held að það sé mjög slæmt vegna þess að það er eitt frumskilyrði fyrir góðu mannlífi að manneskjan sé fær um að hafa ofan fyrir sér, að hún láti sér ekki leiðast, að hún geti haft ofan af fyrir sjálfri sér. Fyrsta skilyrðið til þess er að fólk kunni eitthvað fyrir sér og geti notað á sér hendurnar þó ekki væri nú annað. Ég held að þetta sé markvisst verið að eyðileggja.
    Við gætum samþykkt endalaust þingsályktanir um alls kyns áætlanir í málefnum barna og unglinga. Ættum við þá ekki aðeins að líta til hvað við erum búin að gera við afa þeirra og ömmur. Er það nú endilega mjög hollt uppeldi að börnunum sé innprentað að það sé eðlilegt að þau séu í einhverjum háhýsum fyrir gamalt fólk og í besta falli heimsótt annan hvern sunnudag svona eins og til þess að sýna smákurteisi. Engum dettur í hug að það geti verið gaman að búa með afa og ömmu og þau geti verið lifandi fólk og skemmtilegt. Það eru á þessu svo ótal margir fletir.
    Ég held nefnilega að þessi litla kjarnafjölskylda sé ekkert sérstaklega holl. Það segir sig sjálft að þegar vandamál koma upp í fjölskyldu mæða þau öll á tveimur herðum, stundum bara einum. Það var stundum svolítið gott að fara í þriðju herðarnar og þær fjórðu og aflasta svolítið og fá nýtt sjónarmið í árekstrum við foreldrana. Sannleikurinn er sá, hæstv. forseti, að við hv. þm. vitum ekkert hvað við erum að gera í þessum málum, ekki neitt. Við erum stefnulaus í fjölskyldumálum og við eyðum ekki neinum peningum í að gera líf fjölskyldnanna bærilegt í þessu landi. Við vitum auðvitað og það vita náttúrlega börnin og unglingarnir líka að stór hópur í þjóðfélaginu kemur sér blygðunarlaust hjá því að taka þátt í að reka samfélagið. Það skyldi nú aldrei vera að börnum þessa fólks finnist þetta bara alveg eðlilegt og kannski bara þó nokkuð sniðugt. Ætli þau vilji ekki einmitt lifa svona þegar þau verða stór að njóta þess sem samfélagið hefur upp á að bjóða en leggja ekkert til þess. Þetta er ekki það þjóðfélag sem við eigum að reka á Íslandi. Ef svo væri ekki þá væru ekki hér stórir hópar í verkföllum til þess að fara fram á grundvallarlaunahækkun svo að möguleiki sé á að hægt sé að lifa af laununum.
    Þegar vandamálin eru orðin er náttúrlega gott að hafa barnaverndarnefndir og meðferðarheimili. En ef ég væri ungt foreldri í dag væri barnaverndarnefnd ekki það sem ég liti helst til með börnin mín. Ég mundi óska þess einlæglega að þurfa aldrei við það fólk að tala. Ég geri mér grein fyrir að það er gott að hafa það ef allt um þrýtur. En ætli flestir íslenskir foreldrar vildu nú ekki hafa tíma til að ala börnin sín vel og fallega upp, hafa tíma til að veita þeim eitthvað annað en merkjaföt og peninga sem er auðvitað flóttinn þegar enginn tími er til annars. Ég held að börnin yrðu glaðari yfir því en fínu merkjunum.
    Ég er alveg sammála hv. 5. þm. Reykv. Börnin eru agalaus vegna þess að það er enginn til að kenna þeim neinn aga. Það gera ekki örþreyttir foreldrar sem koma heim milli kl. 6 og 7 á kvöldin og ætla að veita sér þann munað að horfa á kvöldfréttirnar. Ekki verður mikið um agakennslu á slíku heimili og það er ekki af því að þetta séu vondir foreldrar. Þeim er bara ekki búinn neinn möguleiki til þess að ala upp börnin sín. Þess vegna held ég að við ættum frekar að byrja á byrjuninni, reyna að gera þetta þjóðfélag þannig að maður sjái ekki beinlínis langar leiðir hvaða börn eru vanhirt og hver ekki því að það er að myndast hér, hæstv. forseti, allstór hópur sem ber þess merki að verða kannski undir í samfélaginu.