Leiðtogafundur á Þingvöllum árið 2000

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 17:08:08 (2444)

[17:08]
     Flm. (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Á þskj. 205 flyt ég ásamt þingmönnunum Ólafi Ragnari Grímssyni og Kristínu Einarsdóttur, eftirfarandi till. til þál., um leiðtogafund á Þingvöllum árið 2000.
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera ítarlega athugun á raunhæfum möguleikum á fundi þjóðar- og trúarleiðtoga á Þingvöllum um framtíðarhorfur mannkynsins árið 2000, m.a. með ráðstefnu um þessa hugmynd í samvinnu við þá sem hafa sett hana fram.``
    Í greinargerð tillögunnar kemur fram að hugmynd þessi er komin frá bandaríkjamanni að nafni Gerald O. Barney. Þegar Carter var forseti Bandaríkjanna 1976--1980 fékk hann Barney til að fjalla um framtíðarhorfur mannkynsins til ársins 2000. Skilaði Barney greinargerð sinni árið 1980, sem hann nefndi Global 2000. Í framhaldi af því kom Barney ásamt fleirum á fót stofnun sem nefndist aldamótastofnunin. Er hún í Virginíafylki í Bandaríkjunum og hefur hún fjallað áfram um þetta áhugaverða málefni.
    Aldamótastofnunin endurskoðaði ritið sem Barney hafði gert fyrir Carter og gaf það þannig út snemma á síðasta ári. Var það gert í tilefni og til undirbúnings alþjóðlegrar samkomu trúarleiðtoga sem haldin var í Chicago fyrir ári síðan. Í þessu endurskoðaða riti er skyggnst lengra fram í tímann um framtíðarhorfur mannkynsins og verður þá myndin sem þar er dregin upp mjög dökk eða reyndar kolsvört þegar fer að líða á 21. öldina. Haldi mannkyninu áfram að fjölga með sama hraða og nú muni þess bíða ragnarök þegar kemur fram yfir miðja næstu öld vegna óviðráðanlegrar mengunar og annarra aðstæðna. T.d. muni allt ræktanlegt land jarðarinnar ekki nægja til að fæða fjölda mannkynsins ef hann tvöfaldast frá því sem nú er eins og mundi gera á fyrri hluta næstu aldar, ef fjölgunin yrði sú sama og hún er í dag, 90 millj. manna á ári. Eina vonin sé að allar þjóðir og einstaklingar geri sér grein fyrir ábyrgð sinni á verndun umhverfisins og taki höndum saman um að snúa þróuninni til betri vegar. Tímann fram að aldamótum sé því afar brýnt að nota til að undirbúa þá hugarfarsbreytingu sem þarf svo að um aldamót taki allir þjóða- og trúarleiðtogar höndum saman við að snúa mannkyninu frá villu síns vegar og bjarga því. Í því skyni gera Barney og félagar hans tillögu um að allir trúar- og þjóðarleiðtogar komi til fundar á Þingvöllum árið 2000 til þess að undirrita sáttmála um þetta málefni.
    Í viðaukanum með þáltill. sem eru níu síðustu blaðsíður þessa fyrrnefnda rits er fjallað um Þingvallafundinn og þar kemur fram af hverju Barney telur að Þingvellir henti best til þessa fundar. Þar segir hann m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ísland er einstakur staður. Ísland er ekki aðeins eitt af fáum löndum sem mundi fagna öllum þjóðaleiðtogum heims, heldur einnig eitt fárra landa í heimi sem allir þjóðhöfðingjar gætu með góðri samvisku sótt heim.
    Á Þingvöllum er einfaldlega mjög fagurt um að litast. Náttúrulegt ráðstefnusvæði neðan klettanna, sléttan þar sem hundruð manna geta auðveldlega komið saman, tær og blá Öxará, hrífandi himinhvolfið, einföld en glæsileg reisn þeirra fáu húsa sem standa á svæðinu og sterkt, táknrænt gildi þess að þarna mætast austur- og vesturálfur heimsins. Sannarlega er þetta sá staður sem heldur jarðarkringlunni saman. Allt er fullkomið, nákvæmlega eins og á að vara.
    Íslandi er eini staðurinn sem við vitum um á jörðinni þar sem þegar ákvarða á eitthvað raunverulega mikilvægt eða minnast einhvers sem er mikilvægt, er þinghald flutt úr manngerðu umhverfi þinghússins út í náttúrlegt umhverfi Þingvalla, upprunastaðar elsta þings heims. Þessi hefð er mikilvæg fyrir fundinn árið 2000. Ef mannkynið ætlar að komast klakklaust gegnum 21. öldina verða menn að ná sáttum við náttúrulegt umhverfi sitt og táknrænt gildi leiðtogafundar í náttúrulegu umhverfi kynni að beina okkur á rétta braut.
    Á Þingvöllum ríkir hefð sáttagerðar og fórnarlundar sem verður mannkyninu afar mikilvæg í framtíðinni.

    Á Þingvöllum er hefð fyrir umburðarlyndi í trúmálum. Sú saga er tiltölulega lítt kunn þegar Íslendingar tóku kristna trú árið 1000, en hún er gott dæmi.
    Mikilvægust er þó sú hefð sem á sér meira en þúsund ára sögu að Þingvellir eru griðastaður þar sem jafnvel óvinir geta komið saman. Eins og Íslendingar árið 930, er þeir áttu í ættarerjum, þarf heimurinn nú griðastað þar sem jafnvel óvinir geta komið saman. Með því að deila Þingvöllum og hefðum þeirra með heiminum getur Ísland fært heiminum gjöf sem engin önnur þjóð á til að gefa, sannarlega ómetanlega gjöf.``
    Sjálfsagt finnst okkur flestum að hér sé fast að orði kveðið hjá þessum ágætu hugsjónamönnum. Í greinargerð þáltill. er tekið fram að með flutningi hennar er ekki lagður neinn dómur af flutningsmanna hálfu á það hvort þessi hugmynd er framkvæmanleg. Hins vegar hefur Barney haldið ótrauður áfram að afla hugmyndinni stuðnings og kynna sér aðstæður hér og athuga þær nánar. Síðast nú fyrir nokkrum vikum kom hann hingað og átti viðræður við allmarga aðila eins og þá kom fram í fjölmiðlum, m.a. í viðtali við hann.
    Að mati flm. þáltill. er Þingvallanefnd ekki sá aðili sem ræður við að fjalla um þetta verkefni eins og tillaga er gerð um hjá Barney, heldur verður það að vera verkefni ríkisstjórnarinnar. Það er óafsakanlegt tómlæti ef ríkisstjórnin tekur ekki tillögu Barneys og félaga hans til alvarlegrar athugunar og efnir til viðræðna við þessa hugsjónamenn. Það hlýtur að vera okkur mikið fagnaðarefni þegar erlendir gestir meta land og þjóð svo mikils. Það eitt að halda ráðstefnu um svo jákvætt viðhorf til landsins með fulltrúum annarra þjóða gæti vegið margfalt á við árangur af þeim krónum sem við verjum til landkynningar, væri hugsað um að vekja eftirtekt á slíkum viðræðum og ráðstefnum á alþjóðavettvangi. En fyrst og fremst gæti á þann hátt og með öðrum viðræðum komið skýrt í ljós hvort hægt er að gera hugmyndina að veruleika, hvort svo stórir þröskuldar eru þar í vegi að yfir þá verði ekki komist eða gæti verið hægt með aðstoð annarra að komast yfir þá, ef eftir þeirri aðstoð yrði leitað. En jafnvel þótt við gætum ekki færst svo mikið í fang gæti í viðræðum komið í ljós eitthvert annað jákvætt verkefni sem við réðum þá betur við. En hver sem niðurstaðan yrði þá ætti slík umfjöllun að geta aukið trú okkar á landi og þjóð og getu til að takast á við mikilvæg verkefni ef rétt verður á málum haldið. En það gerist að sjálfsögðu ekki með því að sitja með hendur í skauti og þora ekki að takast á við gullin tækifæri ef þau gefast.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að þáltill. verði vísað til síðari umr. og allshn.