Fyrirkomulag utandagskrárumræðu

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 10:42:00 (2462)


[10:42]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að vitna í 72. gr. þingskapa, 2. mgr. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Enn fremur skal forseti hafa samráð við formenn þingflokka um fyrirkomulag umræðna um mikilvæg mál ef ætla má að umræður verði miklar. Forseti getur þá með samþykki allra þingflokka ákveðið að ræðutími skuli vera annar en ákveðið er í 44., 48. og 50. gr. og hve lengi umræðan má standa. Um slíka ákvörðun skal þó leita samþykkis þingfundar ef a.m.k. þrír þingmenn krefjast þess.``
    Það er alveg ljóst að ef þrír þingmenn krefjast þess og mótmæla því að ræðutími skuli vera eins um hefur samist þá er hægt að leita eftir samþykki þingsins í þeim efnum. Þess vegna held ég, hæstv. forseti, og um það var rætt meðal þingflokksformanna að það kæmi ávallt skýrt fram í upphafi þingfunda og áður en slík umræða færi fram ef takmarka ætti ræðutíma og að forseti gerði þinginu rækilega grein fyrir því að um þetta hefði verið samið. Ef einstakir þingmenn sætta sig ekki við að um það hafi verið samið fyrir þá, þá er hægt að leita eftir áliti þingsins á því hvort þetta samkomulag standist eða ekki.
    Varðandi þingmenn utan flokka þá er það rétt hjá hv. þm. en sú hefð hefur skapast að ef þingmaður stendur utan flokka, þá sé ræðutími viðkomandi þingmanns helmingur af ræðutíma þingflokks.