Skuldastaða heimilanna

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 10:51:26 (2468)

[10:51]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Þetta mun vera í fjórða sinn á tveimur árum sem við þingmenn Framsfl. óskum eftir umræðu um þá alvarlegu skuldastöðu sem heimilin í landinu búa við. Okkur þykir illa ganga hjá núv. ríkisstjórn að móta aðgerðir eða skapa þann vilja sem þarf til þess að koma til móts við þetta erfiða verkefni.
    Hæstv. forseti. Fullyrða má að lánastefna og svik á forsendum til íbúðakaupenda af hálfu stjórnvalda sé þess eðlis að íslenska þjóðin er og hefur verið á hraðri Færeyjaleið undanfarin ár. Í engri verðbólgu eru skuldir heimila að vaxa hvorki meira né minna en um 1 milljarð á mánuði. Skuldsetning heimilanna er ógnvænleg. Fram kom í greinargerð frá Seðlabankanum í nóvember sl. eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Skuldir heimila við lánakerfið hafa vaxið hröðum skrefum á undanförnum árum. Í lok júlí á þessu ári er áætlað að lán til heimila hafi numið um 264 milljörðum og aukist á síðustu 12 mánuðum um 11,3 milljarða eða svipaða fjárhæð og á 12 mánaða tímabili þar á undan. Skuldir heimila námu í árslok 1993 um 64% af landsframleiðslu, en voru rúm 13% af landsframleiðslu á árinu 1980 og hafa því tæplega fimmfaldast að tiltölu við landsframleiðslu á þessu tímabili.``
    Enn fremur segir: ,,Jafnframt hafa skuldir heimila að tiltölu við ráðstöfunartekjur þeirra vaxið verulega á þessu tímabili eða úr röskum 25% í um 115% af ráðstöfunartekjum. Þessi mikla eftirspurn heimila eftir lánsfé hefur sett mark á vaxtaþróunina á undanförnum árum og m.a. stuðlað að því háa vaxtastigi sem verið hefur hér á landi frá því að vextir voru gefnir frjálsir.``
    Þessi lýsing er uggvænleg en ég sakna þess að Seðlabanki Íslands skuli ekki greina betur hvar þessar skuldir verða til og hvers vegna.

    Eftir að ég hef farið allvel yfir það hvar skuldir heimilanna eru að vaxa virðist mér að ekki sé það síst í húsnæðislánakerfinu og þar eru fyrir hendi gífurleg vanskil. Ef ég gríp niður í svar hæstv. fjmrh. við fyrirspurn frá hv. þm. Finni Ingólfssyni frá 25. okt. sl. kemur fram þegar spurt er um heildarútlán í húsbréfakerfinu að þar eru útlánin samtals 57 milljarðar kr. Húsnæðisstofnun telur alvarleg vanskil koma til sögunnar eftir þrjá mánuði og með þriggja mánaða vanskil eru nú 3.400 lántakendur eða með um 700 millj. Þá segir enn fremur í fyrirspurninni þegar spurt er um almenna húsnæðiskerfið að þar er fjöldi lántakenda 16.504. Með þriggja mánaða vanskil eða eldri eru 1.661 lántakandi eða 337 millj. í vanskilum. Þar segir enn fremur um útlán í vanskilum frá kerfinu 1. sept. 1986. Þar er fjöldi lántakenda 30 þús. Með þriggja mánaða vanskil eða eldri eru 1.727 lántakendur eða með 175 millj. kr. Í Byggingarsjóði verkamanna er fjöldi lántakenda 5.400. Með þriggja mánaða vanskil eða eldri eru 1.299 lántakendur með 371 millj.
    Það er því ljóst að milli 8 og 9 þúsund einstaklingar eru með sín lán í vanskilum í dag. Mér finnst staða þessara mála það alvarleg að það er eins og stór hluti þjóðarinnar hafi hreinlega orðið undir strætisvagni. Sá strætisvagn er auðvitað efnahagsstefna ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Á sama tíma og heimilin auka skuldir sínar um 1 milljarð á mánuði eru fyrirtækin í landinu að minnka sínar skuldir, enda hefur núverandi ríkisstjórn lækkað og flutt skatta af stórgróðafyrirtækjum yfir á fólkið í landinu. Á sama tíma og hæstv. forsrh. segir að hægt sé að bæta kjörin er barist gegn öllum kjarabótum til láglaunafólks af hálfu ríkisstjórnarinnar. En ríkisstjórnin áformar að fella niður hátekjuskatt og skerða bætur til öryrkja og atvinnulausra eins og fjárlagafrv. segir til um.
    Samkvæmt úttekt sem ég lét vinna voru heildarútlán í Húsnæðisstofnun á núvirði í lok síðasta árs komin í 182 milljarða og höfðu aukist um 80 milljarða á fjórum árum. Á sama tíma höfðu skuldir einstaklinga við banka og sparisjóði vaxið úr 46 milljörðum í 55 milljarða eða vaxið um 9 milljarða. Lán námsmanna höfðu vaxið um 5 milljarða á þessu tímabili, eru 32 milljarðar í lok árs 1993. Þar að auki eru skuldir einstaklinga við lífeyrissjóði og kortafyrirtæki. Mér sýnist þó að þar sé ekki um mjög mikinn vöxt að ræða.
    Enginn vafi er á því að ástæður þessarar þróunar eru margar. Ein þeirra er samdráttarstefna og gjaldþrotaleið ríkisstjórnarinnar sem leitt hefur af sér alvarlegasta atvinnuleysi í áratugi. Kaupmáttur launa hefur hrapað á síðustu árum, yfirvinna dregist saman, skattastefnu breytt, tekjuskattur hækkaður jafnt og þétt af launatekjum, jaðarskattar auknir, skattleysismörk lækkuð o.s.frv. Mér sýnist þó að höggið sem verst lék heimilin séu brostnar vonir og svikin fyrirheit og að auki galopið lánakerfi þar sem rangar forsendur réðu því að ungt fólk fékk há lán til að fjárfesta án þess að eiga nokkurt eigið fé á forsendum greiðslumats sem iðulega hefur reynst opin svikamylla.
    Svikamyllan birtist m.a. í því að vaxtabætur hafa verið lækkaðar. Afföllin sem áttu lítil eða engin að vera urðu óbærileg, fóru allt upp í það að 1 milljón af 4 fóru í afföll en þau urðu hæst 25% í september 1991. Þau voru ekki reiknuð inn í dæmið, töldust ekki vextir og skiluðu ekki vaxtabótum. Getur hæstv. félmrh. upplýst hver var hagnaður þess fjármagnseiganda á u.þ.b. tveimur árum sem keypti húsbréf í september 1991 og seldi þau aftur með núll afföllum þegar vextir voru lækkaðir með handafli fyrir ári síðan?
    Ég vil spyrja hæstv. félmrh. um tvennt. Það gekk eftir sem margir óttuðust. Vaxtabætur hafa verið skertar stórlega. Hversu mikið hafa þær verið skertar frá upphafi og hvað telur hæstv. ráðherra að slík skerðing sé mikil ástæða fyrir vandræðum margra einstalinga?
    Vaxtabætur voru í upphafi þungamiðja húsbréfakerfisins. Raunvextir meðaltekjufólks áttu aldrei að vera hærri en 2--3% eftir skatt. Hefur það staðist, hæstv. ráðherra, og hverju munar?
    15. mars 1989 sagði fyrrv. félmrh., Jóhanna Sigurðardóttir, í Morgunblaðinu, með leyfi forseta, um afföllin sem ekki síst hafa fitað lífeyrissjóðina:
    ,,Fullyrðingin um að húsbréf muni seljast með afföllum er að hluta byggð á misskilningi.``
    Enn fremur sagði hv. þm. og þáv. ráðherra Jóhanna Sigurðardóttir: ,,Byggingarsjóður ríkisins og Seðlabanki Íslands verða viðskiptabakar fyrir húsbréfin og munu sjá til þess að þau verði ávallt hægt að selja.`` --- og þá væntanlega án mikilla affalla.
    Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað brást? Var það Seðlabankinn, Byggingarsjóður ríkisins eða voru fullyrðingar fyrrv. félmrh. hreinlega rangar á þessum tíma? Voru þær blekking sem kölluðu marga inn í þetta kerfi og hafa svikið þá? Enn fremur spyr ég: Telur hæstv. ráðherra að greiðslumatið hafi verið allt of frjálslegt og lánsupphæðir of háar?
    Hluti þessara erfiðleika bitnar mjög á sveitarfélögunum. Vegur þar atvinnuleysið þyngst eða þessi skuldastaða heimilanna. Fram kom á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga á dögunum að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga til einstaklinga hafi á aðeins tveimur síðustu árum aukist um 80%. Fjárhagsaðstoð Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar og Akureyrar til fólks í neyð á þessu ári nemur hvorki né minna en 660 millj. Hér er því um milljarðaaðstoð sveitarfélaganna að ræða við fólk í neyð. Hefur hæstv. ráðherra fyrirhugað viðræður við sveitarfélögin um þessi mál eða ætlar hæstv. félmrh. að styðja hæstv. fjmrh. í því að skattleggja þau sérstaklega með lögreglu- og/eða feðraskatti? Á sömu ráðstefnu sagði Jón Björnsson, félagsmálastjóri á Akureyri, eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Hvort sem einhverjum ofbýður það eða ekki, þá verð ég að segja að hjá sæmilegri félagsmálastofnun fær fólk núna einfaldlega hærri tekjur í fjármagnsaðstoð heldur en af margri vinnunni, 8 tíma á

dag.``
    Ég tel að láglauna- og samdráttarstefnan sé að taka stærri og stærri hóp af fóki hreinlega úr umferð. Það getur engan þátt tekið í þjóðfélaginu. Þetta er hagfræði hellisbúa. Þessi hagfræði er áfellisdómur yfir atvinnulífi og verkalýðshreyfingu og ekki síst þessari ríkisstjórn. Andsvar við þessari hagfræði er að mínu viti að lögbinda lágmarkslaun í landinu. Ríkisstjórnin hefur ástundað millifærslustefnu frá almenningi til fárra útvaldra. Við sjáum afleiðingarnar.
    Ég tel reyndar, hæstv. félmrh., að ein meginástæðan fyrir skuldavanda heimilanna sé meingallað peningakerfi í landinu. Skuldir fólks koma að mestu frá þremur aðilum: Húsnæðisstofnun, lífeyrissjóðum og bankakerfi. Fram undir þetta hafa þessar stofnanir fyrst og fremst spurt um veð í steinsteypu. Minna hirt um: Fæ ég greitt? Stendur einstaklingurinn undir skuldinni? Ræður hann við lánin? Afleiðingarnar eru svo greiðsluvandi, gjaldþrot og hjónaskilnaðir sem bitna á nánustu ættingjum og börnum og veldur upplausn í þjóðfélaginu. Hér vantar stýriaðila sem í flestum löndum er bankinn sem þjónar fólki frá vöggu til grafar. Ég tel að ábyrgðin eigi að vera sem mest á milli tveggja aðila, einstaklingsins og viðskiptabankans.
    Hvað segir hæstv. ráðherra um þá lánskjaravísitölu sem við búum við? Ég óttast að sú breyting sem gerð var að kröfu verkalýðshreyfingarinnar 1989 um að launaliður vegi þar mjög þungt valdi því að mörg mál eru komin í vítahring. Krafan var: Lán eiga að hækka í takt við laun en ekki framfærslu.
    Hin minnsta launahækkun nú veldur því að skuldir margfaldast. Þetta höfum við séð. Ég tel að skoða verði betra form sem geri greiðslubyrði jafnari. Núverandi vísitala þolir enga verðbólgu því að þá þyngjast skuldir mjög í framtíðinni. Ég held að það henti Íslendingum betur að skuldabyrðin léttist þegar frá líður vegna þess að lífsstíllinn er sá að taka nýja og nýja eyðslu inn í reikninginn.
    Hæstv. forseti. Félagslega húsnæðislánakerfið er einn umskiptingurinn sem hlýtur að koma inn í þessa umræðu um skuldastöðu heimilanna. Kaupleiguíbúðir og verkamannabústaðir standa auðir um allt land, annaðhvort vegna þess að fólkið er flúið út eða það fékkst ekki til að fara inn í þessar íbúðir. Þessar íbúðir eru einfaldlega of dýrar, byggðar eftir stöðlum sem ekki standast og algengt að íbúðir sem fullnægja kröfum fólks séu 25--30% ódýrari á almennum markaði. Getur hæstv. félmrh. upplýst hversu margar íbúðir í félagslega kerfinu standa auðar og hefur hæstv. ráðherra íhugað breytingar á þessu kerfi?
    Skuldastaða heimila og þróun þeirra er mikill áfellisdómur um stjórn félagsmála í landinu á síðustu árum. Við framsóknarmenn teljum að þegar verði að grípa til aðgerða. Það er ekki hægt að bjarga öllum, svo alvarleg er staðan. En svo alvarleg er þó staðan að við teljum að fram verði að fara skuldbreyting aldarinnar.
    Hv. þm. Finnur Ingólfsson mun í þessari umræðu fara yfir helstu áhersluatriði flokksþings Framsfl. sem fjallaði mjög sterkt um þetta málefni og gerði kröfur um úrbætur.
    Ég spyr, hæstv. forseti: Liggur nokkuð á? Já, líf, heill og hamingja þúsunda heimila ungs fólks um allt land veltur á skjótum aðgerðum. Húsnæðisstofnun, lífeyrissjóðir og bankar verða að lengja lán og skuldbreyta. Alþingi verður að gera ráð fyrir peningum í fjárlögum í þessar aðgerðir. Ríkisstjórn ásamt aðilum vinnumarkaðarins verður að gera strax nýja þjóðarsátt sem hjálpar fólki í þessum vanda. Málið þolir enga bið. Það verður að leysa fyrir kosningar. Það verður að ganga í þetta verk strax. Það verður að leysa það í vetur.