Skuldastaða heimilanna

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 11:10:01 (2469)


[11:10]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Sú umræða sem hér er hafin endurspeglar strax á hvern hátt fjallað hefur verið um fjármál heimilanna og þó ég geri ekki lítið úr vandanum þá staðhæfi ég að umræðan, eins og stjórnarandstaðan hefur sett hana fram að undanförnu, er fullkomlega á villigötum. Það er talað um að skuldastaða heimilanna sé skelfileg og alvarlegast sé að hún muni aukast enn á næsta ári. Það er staðhæft að það þurfi að grípa til aðgerða til að stöðva gjaldþrot heimilanna og afstýra neyðarástandi í húsnæðismálum hjá þúsundum heimila. Það er staðhæft að mesta skuldbreyting Íslandssögunnar þurfi að koma til og því er meira að segja haldið fram að helmingur þjóðarinnar sé undir hungurmörkum. Tal af þessu tagi er fullkomlega óábyrgt. Ég geri ekki lítið úr vanda þeirra sem lent hafa í erfiðleikum vegna breyttra aðstæðna og þeim sem lent hafa í atvinnuleysi, veikindum eða alvarlegum tekjumissi. En að halda því fram að þjóðin öll sé á vonarvöl er að misbjóða því fólki sem alltaf hefur staðið við sínar skuldbindingar, þeim sem oft við lítil efni hafa komið sér þaki yfir höfuðið, fólki sem haldið hefur að sér höndum við aðrar fjárfestingar eða eyðslu en stendur í skilum. Margir geta verið með miklar skuldir vegna húsnæðiskaupa þótt þeir séu ekki með þunga greiðslubyrði og hópurinn sem á liðnum árum hefur fengið úthlutað íbúðum í félagslega íbúðakerfinu skiptir þúsundum. Þar eru lánin há en til langs tíma og langflestir með viðráðanlega greiðslubyrði þó þar séu vissulega hópar sem lent hafa í erfiðleikum.
    Á þessu ári verða veitt húsbréfalán sem nema um 15 milljörðum kr. og til félagslegra íbúða verður varið um 5 milljörðum kr. Á næsta ári er reiknað með að húsbréfalán verði rúmir 13 milljarðar og lán til félagslegra íbúða tæplega 5 milljarðar. Þetta þýðir að á þessum tveimur árum aukum við skuldir heimilanna í gegnum húsnæðislánakerfið eingöngu um næstum 38 milljarða. Menn hafa uppi stór orð um hver skuldastaðan sé og hversu mikil hún verði á næsta ári án þess að staldra við þessa þætti. Á að halda því

fram að þau lán sem ég hér nefni séu af hinu illa? Telja hv. alþingismenn að ekki eigi að veita þessa fyrirgreiðslu til fjölskyldnanna í landinu af því að það auki skuldastöðu heimilanna í landinu? Sé svo er ég því fullkomlega ósammála. Ég minni á að í hvert skipti sem sveitarfélag hefur úthlutað 100 félagslegum íbúðum þá er bætt hátt í 6 milljörðum við skuldastöðu heimilanna í landinu. Og ég nefni aðra afar athyglisverða staðreynd sem er að þáttur húsnæðisskulda í skuldum heimilanna hefur lækkað og þetta vita alþingismenn því að þetta hefur komið fram í þeirri skýrslu sem ítrekað er vísað til. Það segir okkur að aðrar neysluskuldir hafa verið að aukast og það hefur að sjálfsögðu áhrif á stöðuna, það bætir hana ekki en það segir okkur hins vegar ákveðna sögu. Það eru vanskilin og of þung greiðslubyrði sem við eigum að beina kastljósinu að en ekki skuldastaðan sem slík.
    Við skulum reyna að leggja raunsætt mat á stöðuna við þessa umræðu. Annað er til vansa fyrir þann hóp sem hér situr. Hér hafa verið bornar fram spurningar um forsendur sem ég mun leitast við að svara. Ég ætla að víkja fyrst að húsbréfunum.
    Húsbréfakerfið hefur ekki brugðist eins og oft er staðhæft. Hins vegar er ljóst að fólk var orðið svo bundið af biðraðahugsanaganginum að allir flýttu sér að komast að og nýta þessa ágætu lánafyrirgreiðslu. Sú innbyrðis aðlögun sem hefði við venjulegar aðstæður átt að verða, það að halda að sér höndum þegar of mikil eftirspurn var eftir húsbréfum varð ekki. Fólk tók húsbréf þótt afföll væru orðin yfir 25%. Í sumum tilfellum átti fólk ekki annars úrkosti en í mörgum tilfellum hefði verið skynsamlegt og viðkomandi að meinalausu að bíða þar til eftirspurn minnkaði og afföllum létti. Þetta var einmitt megininntak þess kerfis þegar það var sett á laggir.
    Við skulum staldra við vanskilin hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Ef borin eru saman vanskil á árunum 1990 og 1994 þá kemur í ljós að í Byggingarsjóði ríkisins var hlutfall þriggja mánaða vanskila af gjaldföllnum greiðslum um 25,9% árið 1990 en 20,2% það sem af er 1994 sem er talsvert lægra hlutfall. Í Byggingarsjóði verkamanna voru þessi sömu vanskil 41,7% árið 1990 en eru 37,7% á þessu ári sem er líka lægra hlutfall. Í húsbréfadeild er þetta hlutfall 25,3%. Það hvarflar ekki að mér að það geri vanskil heimilanna í dag léttbærari að gera þennan samanburð en fyrir okkur er brýnt að draga fram staðreyndir.
    Hjá Húsnæðisstofnun ríkisins voru á árunum 1985--1990 veitt greiðsluerfiðleikalán sem voru bein peningalán. Þá bárust um 7.000 umsóknir en um 5.700 lán voru veitt, samtals um 3,3 milljarðar kr. á núvirði. Á árinu 1991 var stofnuninni heimilt að kaupa fasteignaveðbréf af íbúðareigendum í greiðsuerfiðleikum og greiða fyrir með húsbréfum. Um 1.900 umsóknir bárust og 1.100 fasteignabréf voru keypt samtals að fjárhæð um 3 milljarðar kr. Þetta var árið 1991. Frá 1. okt. 1993 hefur hjá Húsnæðisstofnun ríkisins verið veitt aðstoð til þeirra íbúðareigenda sem eru í greiðsluerfiðleikum sökum lækkunar tekna ef rekja má þær til atvinnuleysis, minnkandi atvinnu eða veikinda. Stofnunin hefur heimild til að skuldbreyta vanskilum af lánum hjá Byggingarsjóði ríkisins og húsbréfadeild. Um 350 millj. kr. eru til ráðstöfunar til þessara skuldbreytinga.
    Þann 1. nóv. sl., þ.e. rúmu ári síðar, höfðu 1.250 umsóknir borist um aðstoð og samtals 956 umsóknir verið afgreiddar. Af þeim var samþykkt að skuldbreyta hjá 573 umsækjenda. Samtals hafði 369 umsóknum verið synjað, aðallega vegna þess hve erfiðleikar þeirra voru miklir. Þó var þeim umsækjendum veitt aðstoð við skuldbreytingar hjá öðrum lánastofnunum eða leiðbeint á annan hátt. Það er unnt að skipta umsækjendum um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika nú í þrjá svo til jafnstóra hópa. Það er líklegt að um þriðjungur umsækjenda fái úrlausn erfiðleika sinna, úrlausn sem getur verið varanleg ef ekkert óvænt kemur upp. Annar þriðjungur á möguleika á að halda íbúðum sínum ef úr rætist hvað varðar laun, þ.e. ef greiðslugeta þeirra verður fljótlega svipuð og hún var þegar viðkomandi keypti húsnæði.
    Hins vegar fær um það bil síðasti þriðjungur umsækjenda ekki skuldbreytingu hjá stofnuninni í flestum tilvikum vegna þess að engu verður bjargað. Athygli vekur hve fáir hafa nýtt sér þá aðstoð sem er í boði varðandi greiðsluerfiðleika íbúðareigenda. Einungis rúmlega 1% af heimilum í landinu hefur á einu ári sótt um aðstoð hjá Húsnæðisstofnuninni. Af því má þó ekki draga þá ályktun að greiðsluerfiðleikarnir séu minni en af er látið. Ekki er vitað hversu margir hafa sótt um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika hjá bönkum og sparisjóðum án þess að þær umsóknir berist til stofnunarinnar en lánastofnanir eru að afgreiða slíkar umsóknir á hverjum degi.
    Það hafa verið gerðar breytingar á greiðslumatinu í húsbréfakerfinu. Hlutfallsleg greiðslubyrði af heildarlaunum hefur verið lækkuð úr 30% í 18% í vinnureglum við greiðslumat og það er skilyrði fyrir húsbréfaláni að öll lánafyrirgreiðsla umsækjenda liggi fyrir staðfest og að sala lausafjármuna hafi átt sér stað áður en lán er samþykkt. Íbúðarkaupendur sem missa vinnu eða lækka verulega í launum af öðrum sökum geta lent í greiðsluerfiðleikum óháð því hvers konar húsnæðislánakerfi er starfrækt hér á landi. Þetta á jafnt við um breyttar forsendur fyrir kaupum sem rekja má til utanaðkomandi aðila sem og til sumra íbúðarkaupenda sjálfra. Íbúðarkaupendur sem festu kaup á íbúðarhúsnæði fyrir 2--3 árum sáu ekki fyrir minnkandi atvinnu á árinu 1993 og 1994. Það er vandamál sem óháð er því lánakerfi sem starfrækt er.
    Virðulegi forseti. Það eru ekki húsnæðislánin hjá Húsnæðisstofnun ríkisins sem eru fyrst og fremst að sliga þau heimili sem eru í vanda stödd. Í greiningu Þjóðhagsstofnunar kemur fram eins og fyrr er vikið að að hlutfall annarra skulda en húsnæðislána hefur farið vaxandi á liðnum árum. Það gefur vísbendingar um að greiðsluvandinn sé miklu margþættari en oft áður. En það segir okkur jafnframt að neyslulán frá bönkum og sparisjóðum vega sífellt þyngra í vanskilum og greiðsluerfiðleikum fólks. Þess vegna

dugar ekki að einblína á greiðsluerfiðleikalán eða skuldbreytingar hjá Húsnæðisstofnun ríkisins í þessum efnum heldur verðum við að ná víðtækri samstöðu á meðal allra lánastofnana, banka, sparisjóða og lífeyrissjóða í því skyni að gera sérstakt átak til að bregðast við þessum vanda. Það var gert haustið 1993. Það var gert samkomulag milli félmrn., Húsnæðisstofnunar, Búnaðarbanka, Íslandsbanka og Sambands ísl. sparisjóða í samstarfi við samtök lífeyrissjóða um aðgerðir til að leysa greiðsluvanda fólks sem á í erfiðleikum með að standa í skilum með lán til íbúðarkaupa vegna tekjulækkunar sem stafar af langvarandi atvinnuleysi, veikindum eða öðrum óviðráðanlegum ástæðum eins og ég gat um hér áður. Þetta samstarf hefur gengið vel og áætlað er að hver banki hafi veitt á bilinu 300--400 greiðsluerfiðleikalán eða skuldbreytingar vegna greiðsluvanda að auki við það sem hefur verið gert hjá Húsnæðisstofnun. Bankarnir hafa þjálfað upp starfsfólk til að veita liðsinni og ráðgjöf vegna greiðsluvanda og búa því yfir enn frekari möguleikum á að glíma við þetta verkefni. Þetta samstarfsverkefni lánastofnana þarf að þróa áfram og dýpka og fleiri aðilar að koma að því.
    Ég hef nú þegar stigið fyrstu skrefin í þessa veru. Í gær átti ég fund með fulltrúum þeirra sem eru aðilar að þessu samkomulagi. Á þeim fundi voru jafnframt fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, frá Neytendasamtökunum og Sambandi ísl. sveitarfélaga. Á þessum fundi áttum við mjög gagnlegar viðræður um ástand mála og ekki síður ýmsar þær leiðir sem koma til greina. Niðurstaða þessar fundar var sú að þessir aðilar lýstu sig reiðubúna til að koma sameiginlega að þessum vanda. Ég mun fljótlega fara þess á leit með formlegum hætti að skipaður verði samstarfshópur þessara aðila til að gera tillögur um samræmdar aðgerðir vegna greiðsluerfiðleika og ráðgjöf um fjármál heimilanna. Ráðgjöf um fjármál heimilanna er ekki minnsta atriðið í því sem við ræðum hér í dag.
    Ég vil hér gera grein fyrir nokkrum þeim atriðum sem lögð er áhersla á af hálfu þeirra sem vinna mest með fólki í greiðsluvanda og þekkja því best til þeirra haga. Í fyrsta lagi vil ég draga fram þá staðreynd að verulegur hluti vandans felst í því hversu seint fólk bregst við vandanum og leitar sér hjálpar. Sérfræðingar bankanna, sparisjóðanna, lífeyrissjóðanna, Húsnæðisstofnunar og Neytendasamtakanna bentu á mikilvægi þess að gripið sé miklu fyrr inn í vanda einstaklinganna. Það er hægt að gera með ýmsum hætti. T.d. er unnt að koma á þeirri vinnureglu að senda þeim sem eru komnir í vanskil strax persónulegt bréf, bjóða þeir fjármálalega ráðgjöf. Það þekkja allir hve kostnaður er fljótur að vinda upp á sig þegar lán eru komin í veruleg vanskil, dráttarvextir og innheimtukostnaður getur verið óheyrilegur og það er einkenni allra greiðsluerfiðleikamála hve stór hluti vandans er kostnaður af þessu tagi.
    Aðstoð af þessu tagi þekkist víða annars staðar, t.d. á öðrum Norðurlöndum, svonefnd ,,ambúlantþjónusta``, en meginatriði hennar er að veita einstaklingum ráðgjöf áður en allt er komið í óefni. Þetta hefur verið rætt sérstaklega innan Húsnæðisstofnunar, að efla þurfi ráðgjafardeild hennar sem gegnir mjög veigamiklu hlutverki. Húsnæðisstofnun getur aðstoðað íbúðareigendur við að hefjast fyrr handa við að finna þær lausnir á greiðsluerfiðleikum sem fyrir eru. Þetta mætti enn fremur gera með auknum upplýsingum um það hvaða afleiðingar það getur haft í för með sér að lenda í vanskilum. Stofnunin er raunar að undirbúa slíka auglýsingaherferð á næstunni. Það er mín skoðun að bankar og aðrar lánastofnanir geti sömuleiðis lagt mikilvægt lóð á vogarskálarnar í þessum efnum.
    Þá kem ég að öðru atriðinu sem rík áhersla er lögð á en það er einmitt ráðgjöfin sjálf. Hún þarf að vera í sem mestri nálægð við einstaklingana þannig að þeir eigi greiðan aðgang að henni. Eins og ég nefndi fyrr hafa bankar og lánastofnanir á að skipa fólki sem hefur hlotið fræðslu og þjálfun í fjármálaráðgjöf. Reyndar er þetta einn veigamikill þáttur í því greiðslumati sem nú fer fram innan bankakerfisins vegna húsbréfakerfisins. Ég álít það mikilvægt að þessi fjármálaráðgjöf lánastofnana verði gerð sýnilegri, hún kynnt betur fólki heldur en hingað til hefur verið.
    Á þeim fundi sem ég vitnaði til og haldinn var í gær varpaði ég fram þeirri hugmynd að efnt yrði til sérstaks átaks í fjármálaráðgjöf sem stæði t.d. í eina viku. Um víðtækt samráðsverkefni yrði að ræða þar sem bankar, sparisjóðir, lífeyrissjóðir, Húsnæðisstofnun og jafnvel Neytendasamtökin, stéttarfélög og félagsmálastofnanir kæmu að. Markmiðið væri að vekja fólk til vitundar um þá þjónustu sem stendur til boða en því miður allt of fáir þeirra sem eru í greiðsluvanda færa sér í nyt í tæka tíð. Átaksvika í fjármálaráðgjöf á borð við það sem ég hef lýst hér gæti borið þann árangur að ísinn væri brotinn og fólk færði sér þessa þjónustu í nyt í auknum mæli.
    Þriðja veigamikla atriðið sem kom fram á þessum fundi, sem vert er að gefa sérstaklega gaum að, er hversu litlar upplýsingar liggja fyrir um vanskil og greiðsluerfiðleika. Slíkar upplýsingar eru hins vegar afar þýðingarmiklar í því skyni að meta hvaða viðbrögð eru líklegust til að skila árangri. Við vitum ekki í dag hve margir eru í erfiðleikum með að standa í skilum, á hvaða aldri þeir eru eða ástæður vandans. Það er mikilvæg forsenda fyrir raunhæfum aðgerðum að þekkja vandann.
    Þá vil ég láta athuga möguleika á því að rannsóknastofnanir háskólans, Hagfræðistofnun eða Félagsvísindastofnun, geri kannanir á aðstæðum þeirra sem eru í greiðsluerfiðleikum. Þið bregðist e.t.v. þannig við að það sé engin lausn að skoða og skoða en ég fullyrði samt sem áður að við verðum að öðlast betri vitneskju um eðli vandamálsins ef okkur á að lánast að finna áhrifaríka lausn á því. Þetta gerðu Norðmenn áður en þeir tóku með kerfisbundnum hætti á þessum vandamálum hjá sér. En hvaða lausnir eru í sjónmáli? Í lögum um Húsnæðisstofnun eru ákvæði er heimila stofnuninni að aðstoða íbúðareigendur í greiðsluerfiðleikum með því að fresta greiðslum við sérstakar aðstæður. Ákvæði þessi eru mismunandi eftir því hvort um er að ræða Byggingarsjóð verkamanna annars vegar eða Byggingarsjóð ríkisins og húsbréfadeild hins vegar eins og ég hef áður vikið að. Ég vil vekja á því athygli að stofnunin hefur ekki heimild til að veita greiðsluerfiðleikalán til greiðslu á vanskilum umsækjenda hjá öðrum lánastofnunum og þar liggur talsverður vandi. Stofnunin skuldbreytir einungis vanskilum af lánum umsækjenda hjá henni. Það eru hins vegar grundvallaratriði að finna lausn á vanda þeirra sem eru í alvarlegum vanskilum hjá lánastofnunum öðrum en Húsnæðisstofnun og þess vegna er fyrirhuguð rannsókn sem ég vék að fyrr svo þýðingarmikil.
    Margir hafa bent á þýðingu þess að fjölga gjalddögum lána þannig að fólki sé gert kleift að borga reglulega af lánum sínum og þannig verði komist hjá uppsöfnuðum greiðslum sem geta komið fólki á kaldan klaka. Það væri eitt af mínum fyrstu verkum í félmrn. að setja reglugerð um fjölgun gjalddaga á húsnæðislánum úr 4 í 12 á ári. Þessi breyting tekur gildi frá og með 1. janúar á næsta ári. Ég vænti þess að þegar til framtíðar er horft skili þessi breyting sér í minni vanskilum. Ég mun jafnframt beita mér fyrir því að þessi breyting geti orðið hjá öðrum lánastofnunum, einkum lífeyrissjóðum, en bankarnir hafa nú flestir þennan hátt á. Á þeim samráðsfundi sem ég vísaði til fyrr var lögð áhersla á að kanna hvort vaxtabætur gætu orðið samtímagreiðslur. Í því felst að bætur kæmu samtímis vaxtagreiðslum.
    Ég hef látið kanna sérstaklega hvaða áhrif það hefði að Húsnæðisstofnun byði upp á breytilegan lánstíma í húsnæðiskerfinu. Stofnunin hefur lagt mat á hvaða áhrif það hefði á ávöxtunarkröfu á verðbréfamarkaði og hver afföllin yrðu ef í boði væri mismunandi lánstími fasteignaverðbréfa og húsbréfa. Niðurstöður þeirrar athugunar eru í grófum dráttum að lenging lánstíma úr 25 árum t.d. í 40 ár fæli í sér verulega hækkun ávöxtunarkröfu og afföll bréfanna gætu aukist úr um það bil 8,8% í um 16,5%. Ef þetta er rétt held ég að þessar niðurstöður bendi afdráttarlaust til þess að lenging lánstíma sé alls ekki ásættanleg lausn fyrir þá sem eiga erfiðast með að standa undir greiðslubyrði lána sinna þó það verði að sjálfsögðu skoðað nánar. Það má reikna með að greiðsluaðlögun sem er í undirbúningi á vegum nefndar á vegum félmrn. gæti haft jákvæð áhrif á lánamarkaðinn ef samþykkt yrði að taka hann upp. Í greiðsluaðlögun felst að skuldari sem á í verulegum fjárhagserfiðleikum leitar fjármálaaðstoðar og á Norðurlöndunum er meðferðin og fjármálaráðgjöfin ýmist veitt af sveitarfélögum eða dómstólum og sýslumönnum. Framkvæmd og réttaráhrif eru að nokkru sniðin að löggjöf um nauðarsamninga og greiðslustöðvun.
    Norsku lögin byggjast á tvískiptingu. Fyrst kemur til frjáls greiðsluaðlögun. Ef hún tekst ekki tekur við þvinguð greiðsluaðlögun og hún er byggð á úrskurði dómstóla. Mikil áhersla er lögð á að virkja skuldara sjálfa til að vinna sína greiðsluáætlun undir umsjón og með aðstoð. Ef skuldameðferð er heimiluð samkvæmt norsku lögunum hefst þriggja mánaða tímabil á meðan greiðsluaðlögun er undirbúin. Lögin gera ráð fyrir 5 ára greiðsluaðlögunartímabili þar sem skuldara er gert að lifa spart og selja eignir á meðan grynnkað er á skuldum. Að því loknu má fella niður eftirstöðvarnar ef skuldarinn hefur uppfyllt skilyrði greiðsluaðlögunar.
    Það er ólíklegt að greiðsluaðlögun mundi leysa úr greiðsluerfiðleikum íbúðareigenda almennt en kæmi hins vegar hluta þeirra sem illa eru á vegi staddir að gagni og mundi hugsanlega leiða til öruggari lánveitinga í lánakerfinu almennt.
    Virðulegi forseti. Greiðsluvandi heimilanna á sér margar ástæður og er flókið úrlausnarefni. Skuldirnar eru víða og alls ekki einvörðungu vegna íbúða. Aukning skulda heimilanna hér landi sem og víða erlendis tengist auknu frjálsræði á fjármagnsmörkuðum og fleiri tilboðum um neyslulán. Það eru ekki mörg ár síðan fólk þurfti að heimsækja bankastjóra ef kaupa átti ísskáp eða sófasett. Nú er allt hægt með raðgreiðslum eða alls konar greiðslufresti. Tilboðin eru hreint ótrúleg. Bifreiðaumboð býður myndbandsupptökutæki í kaupbæti ef keyptur er notaður bíll og útborgun ýmist sáralítil eða engin. Meira að segja ríkisvaldið tekur þátt í þessum darraðardansi við sölu hlutabréfa í ríkisfyrirtæki og innan um jólaauglýsingar heyrum við eftirfarandi: Látið ekki fjárhagsáhyggjur spilla jólagleðinni. Raðgreiðslur létta róðurinn. Þetta er nokkuð dæmigert fyrir það umhverfi sem við búum við í dag.
    Virðulegi forseti. Ég vil segja þetta að lokum: Ég hef ekki boðað í þessari ræðu aukin fjárframlög til greiðsluerfiðleikalána eða skuldbreytinga. Ég vil þó áskilja mér rétt til slíks tillöguflutnings ef sú lausn reynist nauðsynleg. Þær rannsóknir, athuganir og samráð sem fram undan eru munu svara þeirri spurningu.
    Ég vil líka árétta að það er sjónarmið félagshyggjuflokka að venjulegar fjölskyldur eigi rétt á lánafyrirgreiðslu til húsnæðisöflunar og til menntunar, að hún sé til langs tíma og viðunandi, að ekki þurfi að hlaupa á milli lánastofnana til að eiga slíka möguleika. Þegar þessi sjónarmið hafa ráðið ferð um langt árabil er undarlegt að magn skulda sé gert að meginatriði. Við deilum öll sjónarmiðinu um líf og heill fjölskyldnanna í landinu.