Skuldastaða heimilanna

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 11:33:01 (2470)


[11:33]
     Vilhjálmur Egilsson :
    Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að mál sem þetta komi til umræðu á hinu háa Alþingi. Vandamálið er til staðar og hvílir þungt á afar mörgum heimilum. Við höfum séð hvernig skuldir heimilanna í heild hafa aukist og hvað margar fjölskyldur eiga raunverulega um sárt að binda vegna fjárhagslegra erfiðleika.
    Það eru margar ástæður fyrir því hvernig staðan er orðin og að sjálfsögðu spilar það inn í að íslenskt efnahagslíf hefur verið í kyrrstöðu frá árinu 1987. Það hefur að sjálfsögðu haft sitt að segja að þær væntingar sem fólk hefur venjulega haft um það að tekjur gætu batnað og hækkað hægt og hægt og fólk gæti tekið á sig skuldbindingar í þeirri von að geta greitt þær með hærri tekjum þegar tímar liðu hafa ekki staðist. Síðan hefur hið slæma efnahagsástand og sérstaklega minni yfirvinna og meira atvinnuleysi orðið til þess að gera þetta ástand enn þá erfiðara.
    Í annan stað hafa orðið miklar breytingar á okkar þjóðfélagi á undanförnum árum. Lánsfé er í dag ekki skammtað eins og var fyrir 10--15 árum. Nú hafa allir aðgang að lánsfé ef þeir á annað borð treysta sér til þess að greiða það til baka. Það er að mörgu leyti framför í sjálfu sér en það þýðir líka að fólk verður að ganga hægt um gleðinnar dyr í þeim efnum og reisa sér ekki hurðarás um öxl þegar það tekur lán. Við höfum tekið eftir því t.d. að húsnæðislánakerfið hefur gerbreyst að þessu leyti. Nú fær fólk mikil lán og getur þess vegna lagt út í fjárfestingar og framkvæmdir sem var ekki hægt áður vegna þess að lánin voru ekki til staðar. Það náttúrlega gerir líka auknar kröfur til þess að fólk hugsi sinn gang, hvort það er að byggja of stórt, hvort það er að taka á sig of mikla greiðslubyrði miðað við þær tekjur sem það getur búist við að hafa.
    Lánasjóður ísl. námsmanna hefur líka breyst á þessum árum og þá er ég að tala um 10--15 ár. Núna getur námsmaður fengið stórt séð þau lán sem þarf til þess að fara í gegnum langt nám, kannski 6--8 ára framhaldsnám og það gerir líka kröfu til greiðslna þegar námi er lokið.
    Í þriðja lagi hafa breyst alls kyns lán sem einstaklingar geta fengið, svo sem eins og innleiðing greiðslukortanna og sú hjálp sem það veitir fólki sem vill taka lán. Að mörgu leyti hafa kreditkortin verið til bóta vegna þess að þau hefur dregið úr alls kyns skuldabréfum á einstaklinga sem gefin voru út í viðskiptum með stærri hluti sem neytendur gjarnan áttu viðskipti með, svo sem bíla eða sjónvarp eða önnur heimilistæki eða húsgögn eða því um líkt.
    Það sem ég tel að skipti mestu máli er að horfa til framtíðarinnar og reyna að átta okkur á því hvernig best verði tekið á þeirri stöðu sem upp er komin. Ég held að það hljóti að þurfa að gerast þannig að allir hjálpist að við að taka á þeim erfiðleikum sem einstakar fjölskyldur hafa lent í. Það á við alla þá sem hafa lánað fólki hvort sem það eru bankar, sparisjóðir, lífeyrissjóðir eða opinberir aðilar. Þessir aðilar verða að vinna saman og það verður að taka á hverju einstöku tilfelli fyrir sig þegar fólk getur ekki staðið í skilum.
    Það þarf líka að gera ýmsa aðra hluti. Það verður að byggja upp meiri trú í þjóðfélaginu á gildi sparnaðar, að fólk reisi sér ekki hurðarás um öxl í fjármálum þegar það þarf í þessum aukna mæli að bera ábyrgð á eigin gerðum og ákveður sjálft meira og meira hvað það tekur að láni. Það verður að byggja upp innlent fjármagn í landinu og við höfum séð hvernig lífeyrissjóðakerfið hefur verið að byggjast upp á undanförnum árum. Ég tel að það sé lykilatriði í okkar hagkerfi þegar til lengri tíma er litið að lífeyrissjóðirnir komi í auknum mæli inn í atvinnulífið og byggi það upp með því að kaupa hlutabréf og leggja atvinnulífinu til eigið fé vegna þess að það er líka undirstaðan undir því að tekjur fólks geti batnað og atvinnulífið geti styrkst og að dragi úr atvinnuleysinu. Þetta held ég að skipti miklu máli.
    Þá má líka velta því fyrir sér hvort jaðarskattarnir, þ.e. skattprósenturnar, séu ekki orðnar of háar vegna þess að fólk sem lendir í skuldabasli á alltaf í meiri og meiri erfiðleikum með að auka tekjur sínar með vinnu og með því að leggja á sig til þess að greiða niður skuldir. Við þurfum líka að velta því fyrir okkur hvernig skattalög taka á áhættu vegna þess að fjölmargir af þeim sem eru í fjárhagslegum erfiðleikum hafa lent í því vegna þess að þeir hafa með einum eða öðrum hætti verið að taka þátt í atvinnulífinu. Fyrirtæki hafa orðið gjaldþrota og það hefur þá lent á heimilunum sem hafa staðið að þeim atvinnurekstri. Þá á ég við hvort þeir einstaklingar sem tapa hlutafé eða þurfa að taka á sig ábyrgðir vegna atvinnurekstrar eigi að fá einhverja ívilnun í skattalögum hvað það snertir.
    Ég tel til bóta að hafa einhvers konar löggjöf um greiðsluaðlögun eins og félmrh. fór yfir áðan. Það hefur kannski fyrst og fremst þau áhrif að það leiðir til þess að lánardrottnar taka fyrr á vandamálum þegar þau koma upp og reyna að leysa þau og greiða úr þeim áður en í óefni er komið. Ég tel líka nauðsynlegt að taka upp gagnrýnna greiðslumat í sambandi við húsnæðislán þannig að það sé gert erfiðara fyrir fólk að skrúfa upp greiðslumatið og áætlað greiðslugetu þegar verið er að taka húsnæðislán. Ég tel líka að það þurfi að bæta það hvernig skólakerfið stendur að þessum málum. Ég tel æskilegt að koma einhvers konar menntun um persónuleg fjármál fólks inn í skólakerfið og helst sem fyrst í skólakerfinu þannig að börn læri það frá upphafi að ekki megi eyða um efni fram og það borgi sig að spara.
    Ég tel líka til bóta ef þeir aðilar sem eru að lána fólki peninga, bankar, sparisjóðir, húsnæðislánakerfið, lánasjóðurinn og aðrir, ynnu á þeim grundvelli að lána fólki ekki peninga nema þessir aðilar séu jafnframt með heildaryfirsýn yfir fjármál fólks, þ.e. að alltaf sé allt uppi á borðinu í einu, hvað fólk á og hvað það skuldar, hverjar tekjurnar eru o.s.frv. þannig að ekki sé verið að lána fólki hér og þar án þess að heildaryfirsýn sé yfir stöðuna.
    Ég tel líka að það þyrfti að gilda það sama varðandi ábyrgðarmenn. Þegar bankar eru að taka skuldabréf af einstaklingum þá eru þau gjarnan með ábyrgðarmönnum og ábyrgðarmönnum ætti að vera ljós heildarstaðan í fjármálum þess sem skrifað er upp á hjá. Margt af þessum hlutum eru hlutir sem ekki er

beinlínis hægt að setja í lög og ekki æskilegt að setja í lög en væri æskilegt að ynnist upp í breyttum vinnubrögðum þeirra aðila sem í hlut eiga.
    Að lokum held ég að það sé rétt að vekja athygli á því að mikið af þessu er líka uppeldislegt atriði hjá foreldrum í landinu. Það er athyglisvert að þegar maður talar t.d. við skólastjóra í framhaldsskólum þá benda þeir einmitt oft á það að foreldrar halda úti eyðslugetu hjá unglingunum með því að hjálpa þeim í gegnum skóla og veita þeim aðstoð sem er í rauninni langt umfram það sem þessir unglingar geta síðan staðið undir þegar þeir þurfa sjálfir að standa á eigin fótum í atvinnulífinu eftir að þeir eru búnir að ljúka námi. Það er ekkert grín fyrir ungt fólk sem er að byrja að vinna fyrir sér með kannski 4--5 millj. á bakinu í námslán, eiga eftir að kaupa sér íbúð og er með tvær hendur tómar að fara út í lífið, kannski búið að venja sig á að eyða töluvert miklum peningum með aðstoð foreldra og annarra og fara síðan út í lífið með slíkt veganesti. Þetta er líka uppeldislegt atriði. Þetta er langtímamál sem ég held að allir í þjóðfélaginu þurfi að taka á. Það breytir ekki því að það er fullt af fólki, allt of margt fólk sem er í fjárhagslegum erfiðleikum af mjög mörgum ástæðum. Það þarf að taka á þessum málum og því fagna ég þessari umræðu hér.