Skuldastaða heimilanna

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 12:04:26 (2472)


[12:04]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Á síðustu dögum þings í vor fóru fram ítarlegar umræður um skuldastöðu heimilanna og var þungt hljóð í mönnum, enda lá þá fyrir ný skýrsla þar sem skuldastaðan var greind og þar var margt sem kom á óvart og sýndi okkur hve alvarleg þessi staða er. Síðan eru liðnir nokkrir mánuðir og enn sígur á ógæfuhlið.
    Nú líður að jólum og þessa dagana liggur straumur fólks til þeirra hjálparstofnana sem veita fjölskyldum aðstoð. Það birtist frétt í Tímanum nú fyrr í vikunni þar sem þess er getið að 500 fjölskyldur hafi fengið aðstoð frá áramótum hjá mæðrastyrksnefnd og það er búist við að það verði allt að 1.300 fjölskyldur sem fá aðstoð frá þessari hjálparstofnun kvenna, sem einkum beinir sjónum að einstæðum mæðrum, áður en árið verður allt.
    Hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkur hefur líka heldur betur sigið á ógæfuhlið því að á tveimur árum hefur sú aðstoð sem Reykjavíkurborg veitir tvöfaldast. Aðstoð Reykjavíkurborgar hefur tvöfaldast á tveimur árum og er talið að hún verði nú í árslok 530 millj. kr.
    Þetta eru engar smáupphæðir. Félagsmálastjóri Akureyrar hefur lýst því að meðal hans skjólstæðinga verði vart við það sem hann skilgreinir sem fátækt og lýsir sér m.a. í því að fólk á ekki einu sinni fyrir mat.
    Það verður auðvitað að geta þess, virðulegi forseti, að það hafa alltaf verið til einstaklingar sem hafa ekki getað séð sér farborða, en okkur er öllum ljóst að ástandið hefur versnað mjög á undanförnum árum og kemur fram í atvinnuleysi, félagslegum vandamálum og þeirri erfiðu skuldastöðu heimilanna sem við erum að ræða hér. Við höfum fengið í hendur nýrri tölur en þær sem birtar voru í vor og samkvæmt þeim upplýsingum sem fram koma í því frv. sem hér liggur frammi til fjárlaga þá voru skuldir heimilanna í júní 1994 282,5 milljarðar kr. Þessar skuldir dreifast á ýmsa aðila, bankakerfið, Lánasjóð ísl. námsmanna, húsnæðiskerfið og fleiri.
    Menn hafa mjög beint sjónum að húsnæðiskerfinu sem vonlegt er vegna þess að þaðan hafa borist fréttir um sífellt vaxandi vanskil. Ég fagna því að hæstv. félmrh. hefur þegar brugðist við þessu að nokkru leyti með því m.a. að fjölga gjalddögum og gengur það í gildi upp úr næstu áramótum, en spurningin er hvort það dugar. Við hljótum að reyna að greina þær orsakir sem liggja að baki þessum miklu skuldum og þessum miklu vanskilum sem vart hefur orðið við í húsnæðiskerfinu, bæði húsbréfakerfinu og félagslega kerfinu. Ég tel reyndar að þar sé annars vegar að leita orsaka í þeim samdrætti sem hér hefur orðið, því atvinnuleysi sem hefur vaxið ár frá ári og þar með samdrætti í tekjum fólks, en það verður líka að bæta við stefnu ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum sem hefur lagt auknar skattálögur á fólk með beinum sköttum og með alls konar þjónustugjöldum.
    Ég hlýt líka að vekja sérstaklega athygli á stöðu námsmanna og að þar munu verða vaxandi erfiðleikar á komandi árum. Það er þáttur í skuldakerfinu sem á eftir að vaxa gríðarlega á næstu árum vegna aukinnar greiðslubyrði námslána. Það þarf ekki annað en skoða þær töflur sem birtust í skýrslu félmrh. sl. vor um það hve námsskuldir hafa aukist gríðarlega til að sjá hver þróunin er og hún mun halda mjög mikið áfram. Hins vegar ber að fagna því að lánastofnanir, hvort sem um er að ræða í bankakerfinu eða sjóðir hins opinbera, hafa brugðist við. Þeir hafa veitt ákveðna aðlögun, m.a. Lánasjóður ísl. námsmanna og

húsnæðiskerfið. Mál eru ekki send til innheimtu jafnsnemma og áður var gert og það er reynt að aðstoða fólk við það að greiða upp lánin enda fylgir því gríðarlegur kostnaður að senda þessi lán í innheimtu og gerir enn þá erfiðara að standa í skilum.
    Annars vegar erum við með þann hóp fólks sem hefur orðið fyrir mikilli tekjuskerðingu og vaxandi erfiðleikum sé fólk þó svo heppið að halda vinnu, en hins vegar erum við að súpa seyðið af eyðslu undanfarinna ára. Það er staðreynd að fólk á afskaplega erfitt með að rifa seglin, með að draga saman og ég býst við að þingmenn þekki það eins og aðrir að það er erfitt að skera niður og koma sér upp nýjum lífsstíl. En eins og hæstv. félmrh. rakti áðan þá erum við Íslendingar eyðslusöm. Neysla hér á landi er margföld á við það sem þekkist á Norðurlöndum og við höfum hreinlega verið alin upp í því að eyða og spenna í stað þess að spara og nú þegar samdrátturinn er sem allra mestur þá kemur þetta okkur í koll. Það er alveg augljóst af þeim tölum sem við höfum í höndunum að sá efnahagsbati sem alla vega sumir ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru að boða er ekki kominn fram hjá heimilunum. Hann er heldur ekki kominn fram hjá sveitarfélögunum. Það sést m.a. á þeim tölum sem ég var hér að lýsa að félagsleg aðstoð sveitarfélaganna vex statt og stöðugt. Þetta vekur þá spurningu hvaða afleiðingar þessi skuldastaða heimilanna muni hafa. Og ég vil þá vitna til orða bankastjóra Seðlabankans, Steingríms Hermannssonar, sem rakti þessa þróun og fékk bágt fyrir, en hann var að benda á hliðstæðu þess sem gerðist á Norðurlöndum þar sem bankar lentu í miklum erfiðleikum fyrst og fremst vegna skuldastöðu heimilanna. Það voru skuldir heimilanna sem áttu þar drjúgan hlut að máli, en menn hafa einmitt verið að taka á þeim málum þar. Það er nú orðið nokkuð um liðið síðan þeir voru í sem dýpstri lægð á Norðurlöndunum og við getum eflaust lært mikið af því hvernig þar var brugðist við.
    Ég vil líka geta þess að ég tel að í húsbréfakerfinu hafi menn verið nokkuð rúmir í mati á greiðslugetu fólks. Ég þekki sjálf dæmi þess, þarf svo sem ekki að fara ítarlegar út í það en það má ekkert út af bera til þess að fólk lendi í vanskilum þegar boginn hefur verið spenntur til hins ýtrasta. Það er líka afar merkilegt að skoða þær upplýsingar sem koma úr félagslega húsnæðiskerfinu og grein var gerð fyrir í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum, að sjá það hve vanskil eru mjög svo vaxandi þar vegna þess að þar er um að ræða lán bæði til miklu lengri tíma og afborganir hafa verið lágar, en það er auðvitað sama sagan að það fólk sem býr í félagslega húsnæðiskerfinu hefur orðið fyrir samdrætti eins og allir aðrir.
    Ég minnist þess frá þeim dögum þegar ég sat í stjórn verkamannabústaðanna í Reykjavík að þá var allnokkuð um það að iðnnemar fengu íbúðir í félagslega kerfinu. Það var ekki síst þeirra vegna sem það kom fram sú tillaga við endurskoðun á lögum um félagslega húsnæðiskerfið að það væri til heimild til þess að hækka vexti vegna þess að þarna var um hóp að ræða sem menn vissu að mundi mjög bæta stöðu sína að loknu námi. En nú er staðan sú að einmitt þessi hópur hefur ekki síst orðið fyrir tekjuskerðingu. Það hefur orðið mikill samdráttur, m.a. í byggingariðnaði, og það kemur niður á þessu fólki.
    Í þessu sambandi vek ég athygli á tillögu sem Anna Ólafsdóttir Björnsson hefur lagt fram og ég hygg að hafi verið dreift í dag þar sem hún leggur til að það verði heimilt að endurskoða vexti í félagslega kerfinu niður á við. Að mál þeirra sem hafa fengið vaxtahækkun vegna vaxandi tekna verði heimilt að skoða upp á nýtt og hugsanlega að lækka vextina aftur. Skoða þarf hvernig þetta kæmi út í framkvæmd en við kvennalistakonur höfum fengið á okkar borð dæmi um fólk sem fékk á sig vaxtahækkun vegna aukinna tekna, en stendur nú frammi fyrir miklum tekjumissi og reyndar atvinnuleysi og getur engan veginn staðið í skilum en gæti það hugsanlega ef vextir yrðu lækkaðir að nýju. Málið er einfaldlega það, virðulegi forseti, að öll okkar hugsun hefur gengið út frá því að hér væri nægjanleg vinna og að við mundum ekki lenda í því að hér yrði jafnvíðtækt atvinnuleysi og raun ber vitni. En nú er það staðreyndin og við þurfum að hugsa alla okkar félagslegu aðstoð út frá þeirri staðreynd.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég koma aðeins inn á aðgerðir við þessum mikla vanda sem við eigum við að glíma og vil taka undir það sem hér hefur komið fram. Ég held að það sé mjög brýnt að auka alla fræðslu um fjármál og að taka þar á í skólakerfinu. Það hefur verið samþykkt þáltill. þess efnis en mér vitanlega hefur henni verið heldur slælega framfylgt. Þessi staða sem við stöndum frammi fyrir brýnir einmitt það fyrir okkur að það verði tekið rækilega á þessu máli í skólakerfinu og þá ekki síst í framhaldsskólum landsins.
    Það þarf að koma á lögum um greiðsluaðlögun og það þarf líka að skoða ábyrgðarmannakerfið sem reyndar hefur verið minnst á hér. Við kvennalistakonur höfum lagt fram tillögu um það að þetta kerfi verði einfaldlega afnumið eða úr því dregið. Það sé ekki verið að draga einstaklinga til ábyrgðar heldur eigi bankarnir að taka á sig áhættu. Þeir eigi að taka miklu meiri áhættu og meta greiðslugetu fólks betur en þeir nú gera. Þá þarf að stórauka ráðgjöf til fólks, bæði innan bankakerfisins og hjá þeim stofnunum sem lána peninga þannig að hægt sé að fara rækilega í gegnum málin. Nú veit ég að bankarnir sinna ráðgjöf, misjafnlega mikið auðvitað, en það þarf að auka hana, það þarf að aðstoða fólk við að leita leiða og einfaldlega að fólk skilji sitt dæmi. Það hefur verið mjög ríkur hugsunarháttur hér á landi að bara ana áfram og segja: Þetta reddast einhvern veginn, ég bjarga þessu einhvern veginn, en það gengur ekki lengur.
    Virðulegi forseti. Við stöndum hér frammi fyrir miklum vanda og ef svo heldur fram sem horfir þá geta vaxandi vanskil valdið miklum vandræðum í bankakerfinu og hjá stofnunum hins opinbera þannig að það er mjög brýnt að bregðast við. Hér hafa komið fram tillögur um það hvernig beri að bregðast við, en það sem er mikilvægt er ekki síst að breyta hugsunarhætti og koma þeirri hugsun sterkt til skila að við

verðum að bera ábyrgð á okkur sjálfum. Ég veit ekki hvort sú tillaga framsóknarmanna að stofna sérstakan lánasjóð heimilanna gengur í þá átt. Mér finnst hún ýta svolítið undir þá hugsun að þegar allt um þrýtur þá komi nú ríkið og bjargi málunum, en það kann að vera upp runnin sú stund að það verði að gera eitthvað slíkt. Það þarf að leggja mikla áherslu á ábyrgð einstaklinganna, en auðvitað er aldrei hægt að koma í veg fyrir það að fólk verði fyrir skakkaföllum.
    Síðast en ekki síst, virðulegi forseti, þá er eitt mál umfram önnur sem þarf að taka á og það er launastefnan og launamálin í landinu, þar sem við höfum horft upp á það árum saman að launum stórra hópa og þá ekki síst kvennastétta er haldið svo grimmilega niðri að þær hafa staðið í ströngum verkföllum, hver stéttin á fætur annarri. Ég get ekki annað en notað þetta tækifæri, virðulegi forseti, þó tíma mínum sé að ljúka, til þess að benda á það að sú launastefna sem hér ríkir getur ekki gengið lengur. Það verður að koma á réttlæti í launamálum, það verður að stokka upp launakerfi ríkisins. Þessi launastefna sem hefur leitt til þess að fólk er nú búið að tæma alla sína sjóði hefur leitt til vanskila og mikilla erfiðleika og þetta gengur ekki lengur. Og ég vil brýna hæstv. félmrh., sem ég veit að er mikill jafnréttissinni, til þess að beita sér í þágu þess að hér komist á eitthvert réttlæti í launamálum.