Skuldastaða heimilanna

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 12:47:21 (2477)


[12:47]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa yfir undrun minni á því að hér hafa nokkrir hv. þm. og hæstv. ráðherra talað um þennan vanda heimilanna eins og einhvers konar uppeldisvandamál. Það var reyndar kallað það af einum hv. þm. og að vandinn fælist í því að fólk fengi of mikið af lánum. Ég held að ef menn eru svo fjarri raunveruleikanum að þeir þurfi að tala á þessum nótum þá verði ekki gert mikið af viti í þessum málum enda hefur mér ekki fundist að hugmyndirnar væru margar hverjar þannig að það væri mikið af viti.
    Hvað er hið opinbera að tala um að gera? Það er verið að tala um að fjölga gjalddögum húsnæðislána. Hverju bjargar það? Engu. Það mun einungis valda því að fólk þarf að borga bönkunum 7 þús. kr. á ári fyrir að innheimta skuldina einu sinni í mánuði í staðinn fyrir þrisvar eða fjórum sinnum. Ég hef kannað það mál. Það er miklu betra fyrir fólkið sem á að borga þessi lán að láta bankana greiða þessi lán fyrir sig með því að taka af laununum einu sinni í mánuði heldur en þessu kerfi verði komið á því að bankarnir hirða þessi innheimtulaun. Ég held að það væri betra að semja þá a.m.k. við bankana um að það verði ekki alla vega farið svona að með húsnæðislánin. Bankarnir innheimta sínar skuldir með þessum hætti. Það gæti kannski einhverjum dottið í hug að það væri til þess að auka tekjur bankanna en ekki endilega til þess að koma til móts við fólkið sem hefur þessi lán í þeim.
    Það sem þarf að vera mest til umræðu hér er að það þarf að taka á þessum vandamálum og reyna að koma til móts við fólk sem skuldar of mikið, að leyfa því að greiða lánin með þeim hætti að það geti staðið undir þeim. En það verður aldrei þannig að fólk geti borgað skuldir sem eru langt umfram greiðslugetu þess. Þannig er nú dæmið að við erum að sækja okkur viðmiðanir í löndin allt í kringum okkur í hinum ýmsu málum, t.d. þegar við erum að bera saman orkuverð, bensínverð, svo ég nefni dæmi. Þegar verið er að tala um skatta og þegar verið er að tala um vexti þá tölum við um löndin hér í kringum okkur og sækjum okkur viðmiðanir. En þegar við tölum um launin, hvert sækjum við þá viðmiðanirnar? Ekki í löndin hérna í kringum okkur, það er a.m.k. alveg klárt mál. Íslensku launafólki er ætlað að standa undir álíka skuldum og jafnvel enn þá hærri skuldum en fólkinu sem verið er að bera saman við í löndunum hérna í kringum okkur á miklu lægri launum en þar gerist. Þetta dæmi gengur ekki upp. Og það var auðvitað í þessu umhverfi gersamlega út í bláinn að taka upp húsbréfakerfið, hvað sem má segja um kerfið sem slíkt að það geti gengið. Það passar ekki fyrir íslenskt almúgafólk einfaldlega af þeim ástæðum að það var verið að tengja greiðslubyrði fólksins, tengja stærstu fjárfestingu fólksins við ávöxtunarkröfu á peningum í þjóðfélaginu og það hefur valdið þessum miklu vandamálum að stórum hluta. Það þýðir hvorki fyrir núv. hæstv. félmrh. né þann fyrrverandi að koma og halda því fram að húsnæðislánaskuldirnar hafi ekki aukist. Þær hafa aukist á tíma þessarar ríkisstjórnar um um það bil 75 milljarða og þær jukust á síðasta ári um 20 milljarða þannig að það þýðir lítið að halda því fram að húsnæðislánin hafi ekki aukist og reyna að slá ryki í augu fólks með því að segja að húsnæðisskuldirnar hafi ekki aukist í hlutfalli af heildarskuldum. En þá verða menn að gá að því hvað þeir eru að tala um þegar heildarskuldir á meðalverðlagi voru 46 milljarðar 1980 en eru núna 252 milljarðar. Svona þýðir ekki að tala. Ef menn eru að tala svona þá eru þeir í raun og veru að plata fólkið í landinu. Það getur ekki verið öðruvísi. Það á ekki að gera það.
    Það eru þúsundir fólks í landinu orðin gjaldþrota vegna þessarar stefnu. Þá komum við að því hvernig eigi að koma fram við þetta fólk sem verður ekki hægt að bjarga og ég segi alveg eins og er: Það er óþolandi óréttlæti og misrétti í þjóðfélaginu gagnvart aðilum sem t.d. lenda í greiðsluerfiðleikum eða verða gjaldþrota. Verði menn gjaldþrota vegna reksturs fyrirtækis þá geta þeir átt von á því að geta byrjað upp á nýtt eftir einhvern tíma og reynt að bjarga sér og verða þjóðfélagsþegnar sem hafa sambærilega möguleika á við hina. En verði menn persónulega gjaldþrota þá er þetta ekki hægt. Það er hægt að elta menn í heil 10 ár samkvæmt lögum frá 1905. Í heil 10 ár er hægt að vera að elta menn sem verða persónulega gjaldþrota. Það verður að breyta þeim lögum og ég a.m.k. ætla mér að reyna að koma fram með tillögu í því efni á þinginu í vetur.
    Það er með eindæmum að gerðar hafi verið breytingar á lögum fyrir stuttu á hv. Alþingi sem varða gjaldþrot fyrirtækjanna og það skuli ekki hafa verið endurskoðuð þess lög sem varða gjaldþrot einstaklinga.
    Mér finnst að það sé reyndar aðalatriði þessa máls að það eigi að koma til móts við fólkið í landinu, eigi að bjarga heimilunum frá gjaldþrotum og eigi að koma á einhverju réttlæti í þessu þjóðfélagi, þá verður að endurskoða launastefnuna í landinu, það verður að endurskoða launastefnu þessarar ríkisstjórnar.
    Mér þótti gaman að heyra einn hv. þm., hv. 4. þm. Vesturl., koma hér og leggja fram hugmyndir um verulegar hækkanir á launum og reyndar líka um hámarkslaun. Og ég verð að segja það alveg eins og er að mig langar til að spyrja þann hv. þm., ég veit að hann getur ekki svarað í þessri umræðu: Er þetta stefna Alþfl.? Ef þetta er stefna Alþfl., hvers vegna heldur þá sjúkraliðaverkfallið áfram? Það er prófsteinn á launastefnu þessarar ríkisstjórnar. Hún ætlar að halda við þessa launastefnu til enda. Það er ótrúlegt að menn skuli ekki gera sér grein fyrir því í hæstv. ríkisstjórn að ríkið er að borga sjúkraliðum úti á landi hærri laun en kröfur sjúkraliða sem núna eru í verkfalli standa til hækkana. Það er misrétti og fáránlegt af ríkinu að halda úti verkfalli við starfshóp þar sem fólk með sömu menntun úr sömu starfsstétt fær peninga úr ríkissjóði sem eru hærri en kröfurnar um hækkun eru frá þeim sem eru í verkfallinu. Þannig er þetta og það er búið að vera þannig í sjö ár að sjúkraliðar úti um land víða eru með svona miklu hærri laun en hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að það sé ábyrgðarhluti frá hendi ríkisins að halda úti þessu verkfalli og ég lýsi ábyrgð á hendur ráðherrum þessarar ríkisstjórnar fyrir það að ganga ekki í þetta mál og leysa það á grundvelli þeirra samninga sem voru gerðir af sveitarfélögunum fyrir hönd ríkisins við sjúkraliða fyrir sjö árum síðan.