Skuldastaða heimilanna

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 13:05:30 (2479)


[13:05]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Það þætti gráglettni svo ekki sé meira sagt ef til manns kæmi maður í nauð, peningalaus, skuldugur og vonlítill um framtíðina, að rétta honum kaðalspotta með rennilykkju á endanum. Ég reikna með því að hann skildi þetta svo að honum bæri að hengja sig, annaðhvort strax eða síðar. Það væru þó alla vega skýr skilaboð, en hann ætti val.
    Á fyrstu árum húsbréfakerfis hv. þm. þáv. félmrh. Jóhönnu Sigurðardóttur var þetta í raun gert við fjölmarga þeirra sem lentu í greiðsluerfiðleikum með miklar skammtímaskuldir, m.a. vegna þess að greiðsluloforð sem gefin höfðu verið drógust árum saman vegna fjársveltis Húsnæðisstofnunar til almennra lána þegar verið var að fjármagna húsbréfakerfið í upphafi. Þeim var veitt greiðsluerfiðleikalán sem einungis var

hengingaról. Síðan jókst þessi vandi vegna samdráttar í atvinnu sem var í anda þeirrar stefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í upphafi og hún kallaði hóflegt atvinnuleysi. Þessi hagstjórn ríkisstjórnarinnar í anda thatcherismans snerist síðan hrikalega í höndum hennar. Hún fól í sér samdrátt og flýtti fyrir kreppunni sem í hönd fór og atvinnuleysi með tilheyrandi fjárhagsþrengingum hefur verið hér meira en núlifandi menn muna eftir. Og það sem verra er, stjórnarflokkarnir eru farnir að líta á það sem eðlilegt ástand hér á landi.
    Ég vitna til ræðu hv. þm. Inga Björns Albertssonar varðand nánari lýsingu á því þjóðfélagi sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar skilar af sér núna í lok kjörtímabilsins. Ræðan var mjög fróðleg á að hlýða og var reyndar flutt í ræðutíma Sjálfstfl. og er vert að minna á það en ég trúi því að þetta sé rödd úr herbúðum þeirra sem vert er að hlusta á.
    Ég sagði áðan að mönnum hefði verið rétt snaran þegar greiðsluerfiðleikarnir voru samþykktir inn í húsbréfakerfið. Þetta eru stór orð en sannast best á því að um 60% þess fólks sem fékk greiðsluerfiðleikalán 1991 er nú í alvarlegum vanskilum með húsbréf sín. Hvernig má þetta vera? Mig langar til að nefna dæmi til að skýra þetta.
    Maður sem lenti í greiðsluerfiðleikum fyrir þremur árum upp á 3,5 millj. fékk fyrirgreiðslu gegnum húsbréfakerfið á þann hátt að bankarnir voru látnir meta skuldirnar og yfirlit var sent til Húsnæðisstofnunar. Síðan var gefið út skuldabréf og húsbréf send til bankanna til að gera upp skuldina. En það er ekki svo einfalt að til þess að greiða hverja milljón komi til milljón í húsbréfum, þar sem bankinn hafði fullreiknað alla vexti, vaxtavexti, þóknanir og önnur gjöld sem honum bar. Á þeim tíma voru afföll slík af bréfunum að fyrir hverja milljón í húsbréfum fengust einungis 800--850 þús. í peningum og síðar jafnvel minna eins og kom fram hér í ræðu áðan. Því þurfti hátt í 1.200 þús. til að borga hverja milljón og skuldarinn varð þar að auki að greiða lántökugjald og önnur gjöld til Húsnæðisstofnunar þannig að hann skuldar eftir þetta uppgjör sem átti að bjarga honum þó nokkuð á fimmtu milljón og hann situr eftir með greiðslubyrði upp á 90 þúsund þriðja hvern mánuð. Reikni nú hver sem vill hvernig hann klípur það af Dagsbrúnarlaunum eða Iðjutaxta eða kennaralaunum eða jafnvel sjúkraliðalaunum. Það er því ekki að undra að þessi hópur er nú meðal þeirra sem ráða ekki við skuldir sínar. Þetta kalla ég að rétta mönnum snöruna, og það sem meira er, henni er smeygt yfir höfuðið. Síðan verður atvinnustefna stjórnar Davíðs Oddssonar til þess að sparka stólnum undan og þá er verkið fullkomnað. Þetta er staða allt of margra heimila í dag og það þarf engan að undra þótt formaður Framsfl. og nýafstaðið flokksþing hafi boðað skuldbreytingu aldarinnar til að freista þess að koma fólki til bjargar á varanlegan hátt. Hér hefur verið gerð grein fyrir þeim aðgerðum og ég tíunda þær ekki frekar.
    Hins vegar vil ég undirstrika að ef ekki kemur til skuldbreytinga ásamt því að gera átak í atvinnumálum og útrýma böli atvinnuleysisins, þá blasir við fjöldagjaldþrot heimila í landinu. Komi til þess án aðgerða vil ég lýsa ábyrgð á hendur ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og þeirrar atvinnustefnu sem hún hefur rekið og þeirrar stjórnar félagsmála sem hér hefur verið rekin á undanförnum árum undir stjórn hv. þm., þáv. hæstv. félmrh., Jóhönnu Sigurðardóttur.