Skuldastaða heimilanna

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 13:10:07 (2480)


[13:10]
     Þuríður Pálsdóttir :
    Hæstv. forseti. Sú umræða sem fram hefur farið um skuldastöðu heimilanna hefur orðið mér ærið umhugsunarefni. Hv. þm., frummælandi, Guðni Ágústsson kom fram með margar af helstu orsökum skuldasöfnunar þjóðarinnar, sem sé hundruð milljarða lántökur fólksins í landinu. Húsnæðislán eru ætluð til 25--40 ára svo að væntanlega er gert ráð fyrir því að lánin greiðist upp á þeim tíma og fólk skuldi þar af leiðandi peningana meðan þessi tími líður. Það var dálítið athyglisvert að heyra hv. þm. Guðna Ágústsson tala um að lánafyrirgreiðslan væri pólitík hellisbúans. Það er ágætt að rifja það upp nú að Alexander Stefánsson, framsóknarmaður, ( GÁ: Launastefnan.) Allt í lagi, með leyfi forseti, Alexander Stefánsson framsóknarmaður var félmrh. á undan hæstv. fyrrv. félmrh. Jóhönnu Sigurðardóttur. Þegar lánaskriðan fór af stað var Framsfl. lengst af í forustu í íslenskri pólitík svo að væntanlega ber Framsfl. stærsta ábyrgð á þeirri þróun.
    En ég tek undir margt af því sem hér hefur komið fram og enginn veit betur um erfiðleika yngri kynslóða en við sem eigum börn og barnabörn. Engu að síður langar mig til að ræða þetta mál út frá svolítið öðru sjónarhorni.
    Í skýrslu fyrrv. hæstv. félmrh., Jóhönnu Sigurðardóttur, frá því í vor á þskj. 1170 koma fram athyglisverðar upplýsingar og tölur sem gefa nokkuð glögga mynd af ástæðum skuldasöfnunar heimilanna. Í þeirri skýrslu kemur fram að hún og félmrn. hafi skipað nefnd til að vinna að úrlausnum fyrir fólk í greiðsluerfiðleikum með sérstakri greiðsluaðlögun. Skömmu síðar hvarf hæstv. félmrh. úr embætti. Í haust gerir svo hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fyrirspurn til þáverandi hæstv. félmrh. Guðmundar Árna Stefánssonar um málið sem hún hljóp frá.
    Það sem vekur sérstaka athygli mína við lestur þeirrar umræðu er að bæði hún og hv. þingmenn Guðmundur Árni Stefánsson og Guðni Ágústsson tala um það sérstaklega að eignum og skuldum sé mjög ójafnt skipt milli aldurshópa og, með leyfi forseta, ætla ég að lesa hér tilvitnun úr ræðu hæstv. fyrrv. félmrh. um þá skýrslu:

    ,,Og það sýnir vel kynslóðabilið og aðstöðumun fólks á hinum ýmsu tímum í sambandi við lífskjör og afkomu að í könnun Félagsvísindastofnunar 1988 kom fram að 67% íbúðareignar væru í eigu 50 ára og eldri sem höfðu greitt upp öll sín íbúðarlán.`` Og síðar í ræðu hæstv. þáv. félmrh., Jóhönnu Sigurðardóttur, með leyfi forseta: ,,Ég tel því ástæðu til og félmrn. vinnur að því að láta fara fram sérstaka athugun sem leiðir frekar í ljós þann mun sem virðist vera milli kynslóða með tilliti til lífskjara, skulda, eigna og afkomumöguleika. . . .   og þann aðstöðumun í kjörum og aðbúnaði sem hinir ýmsu aldurshópar hafa búið við.``
    Já, það er áhugavert að bera saman kjör og aðstöðumun þess fólks sem hóf að framleiða börn fyrir og um 1950 sem er ártal sem hv. þm. Guðni Ágústsson miðar við að séu þau sem þyngstu skuldabyrðina bera og ykkar, hv. þingmenn, sem eruð það sem kalla má lýðveldiskynslóðin. En þið eruð fyrsta kynslóðin í Íslandssögunni sem er alin upp í sæmilegri velmegun í 11 hundruð ára sögu þessa harðbýla lands. Og það er ekki síst því að þakka að kynslóðin sem fæddi af sér lýðveldiskynslóðina lagði allt í það að byggja upp það þjóðfélag sem þið hafið fengið að njóta.
    Unga fólkið sem horfði björtum augum til framtíðar eftir lýðveldisstofnunina 1944 ætlaði sér að brjótast út úr þeirri fátækt og aðstöðuleysi sem það sjálft ólst upp við. Það fólk sem hóf að byggja upp úr stríðslokum var ekki alið upp í neysluþjóðfélagi. Það var vant því að hafa lítið, fara vel með og kunni að nýta það sem til féll. Þá voru yfirleitt engin lán í boði, lán til húsnæðiskaupa engin, námslán engin, ekkert Visa, Euro, engir fæðingarstyrkir, engar barnabætur, vaxtabætur, húsaleigubætur. Nei, þessi öfundsverða kynslóð sem stóð að stofnun lýðveldisins fékk eiginlega sáralítil lán til að fjármagna sínar framkvæmdir og þá aðallega í formi bankavíxillána. Þetta fólk varð að fjármagna allt með vinnu og útsjónarsemi og það lagði fyrst og fremst þá peninga sem það fékk í það að borga sínar skuldir.
    En á móti kom það að ef fólk vildi og nennti að leggja sig fram þá hafði það tækifæri til að njóta afraksturs erfiðis síns. Sjálfsbjargarviðleitnin fékk að njóta sín og sömuleiðis séreignastefnan, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, sem var beinlínis forsenda þess að fólk legði á sig ómælda vinnu og erfiði við að koma sér upp húsnæði og er hverjum einasta Íslendingi í blóð borin hvort sem hann er til vinstri eða hægri.
    Þá bjó það einnig við skattakerfi sem var auðvitað allt öðruvísi. Kostnaður við húseignir og viðhald var frádráttarbær frá skatti og það borgaði sig að vinna mikið. En það er til danskt máltæki sem segir: ,,Man må hyle med de ulve man lever iblandt.`` Og það verður hver kynslóð að taka á sínum vandamálum. Í dag því miður borgar sig ekki eða hjálpar fólki að vinna mikið. En það var fróðlegt og hrikalegt að skyggnast inn í þann frumskóg úrræða sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir taldi upp til að bjarga málunum.
    Í dag blasir sá veruleiki við þessari kynslóð að fólk hefur aðgang að alls konar lánsfé og það sem verra er, það lifir samkvæmt því. Húsbréf, námslán, afborgunarlán til að njóta neyslunnar áður en greitt er fyrir hana. Og fólk hefur einfaldlega ekki tekjur til að standa straum af stórum lánum og það er auðvitað sú staðreynd sem við búum við í dag eins og mikið hefur verið farið inn á, það er launastefnan í dag og ég ætla ekki að gera að mínu máli núna en ég vil þó taka það fram að það fólk, sem fær lán fyrir stærstum hluta húseigna sinna strax við kaup, skuldbindur sig til að borga af þessum skuldum í 25--40 ár. En verðmæti íbúðarhúsnæðisins hlýtur að vera samsvarandi skuld. Eins og fram kemur í fyrrnefndri skýrslu fyrrv. hæstv. félmrh., Jóhönnu Sigurðardóttur, þá eru peningalegar eignir heimila 190 milljarðar í lok ársins 1992 en skuldir 256 milljarðar í lok árs 1993. Og húsnæðisskuldir heimilanna eru metnar á 38,4% af þjóðarauði íbúðarhúsnæðis.
    Virðulegi forseti. Víst er að sú eignatilfærsla sem átti sér stað í tíð mikillar verðbólgu og óverðtryggðra lána hafi haft í för með sér að eignum og skuldum væri ójafnt skipt milli aldurshópa en ég vil þó taka fram að hv. þm. Guðni Ágústsson sem telur að fólk 45 ára og yngra beri þyngstu byrðarnar á hverjum einasta tíma hljóta allar kynslóðir 45 ára og yngri að bera þyngstu skulda- og framfærslubyrði.