Skuldastaða heimilanna

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 13:25:01 (2483)


[13:25]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda góðar óskir í minn garð og mun vissulega leggja mig fram um að finna lausnir í þessu mikilvæga máli. Ég vil geta þess þar sem málshefjandi nefndi það að hann hefði gefið mér langan tíma til að finna lausn að ég hef ekki enn þá náð mánuði á stóli félmrh. og þess vegna finnst mér mikið til þess að hann skuli hafa reiknað með að ég kæmi hér með fullskapaðar aðgerðir á þessum degi. Ég vil líka geta þess út af orðum hans hér um að skuldir heimilanna hækki um einn milljarð á mánuði að í svörum mínum hér áðan kom það fram að á þessu og næsta ári hækka skuldir heimilanna um 36 milljarða í gegnum húsbréf og félagslegar íbúðir og gerði því mjög vel skil.
    Ég svaraði einnig mjög mörgum spurningum þingmannsins bæði varðandi forsendur, varðandi hvort húsbréfakerfið hefði brostið og varðandi spurningar hans og nokkurra annarra um þátt sveitarfélaganna, m.a. varðandi Byggingarsjóð verkamanna. Þar var bæði komið inn á vexti, fyrningar og fleiri atriði sem skipta máli í félagslega húsnæðiskerfinu. Ég mun bráðlega leggja fram frv. um félagslega húsnæðiskerfið. Það er nú komið til ríkisstjórnar til skoðunar. Skatta á sveitarfélögin ræðum við síðar.
    Ég vil líka gjarnan nefna það út af orðum hv. 12. þm. Reykv. um hækkun á lánshlutfalli í húsbréfakerfi t.d. til kaupenda fyrstu íbúðar. Mér finnst mjög mikilvægt til að átta sig að greina fyrst hvort það er sá hópur sem er í vanda. Það liggur ekkert fyrir um það og ég mun ekki gera tillögur um slíka hluti fyrr en það er ljóst.
    Það er líka athyglisvert út af orðum hv. 11. þm. Reykv. sem nefndi að 1983 hafi hans flokkur komið flotanum af stað að árið 1983 varð jafnframt gífurleg eignaupptaka og ég þarf bara að minna á Sigtúnshópinn svokallaða og misgengishópurinn fékk ekki fullkomna lausn þótt vissulega hafi það verið til

góðs að byrja með greiðsluerfiðleikalánin 1985.
    Hv. 5. þm. Reykv. sem hefur verið samherji minn í efh.- og viðskn. spurði mig hvernig ætti að lifa af laununum í landinu. Hann sagði: Það þýðir ekki að koma hér og tala um velferð. Ég ætla að deila óskum þingmannsins um það að þeir sem munu ráða ferð í komandi kjarasamningum beri einmitt velferð þeirra sem lægst hafa launin fyrir brjósti í þeim samningum, að það verði staðið við stóru orðin allra um að það séu þeir sem minnst beri úr býtum sem fái lausnir. En það er ríkið sem hefur komið með jöfnunaraðgerðirnar og við höfum setið saman í meiri hluta, ég og þessi þingmaður, bæði yfir skattamálum og öðrum jöfnunaraðgerðum og rétt upp hönd saman.
    Ég hef ekki gert lítið úr hinum raunverulega vanda. Það er útúrsnúningur að segja að ráðgjöf og aðstoð sé ekki mikilvæg og alvarlegt líka að gera vandann stærri eða öðruvísi en hann er og það er engum til góðs. Auðvitað aukast húsnæðisskuldir þegar hlutfall lána Húsnæðisstofnunar ríkisins er aukið í lánum til húsnæðisöflunar. Það liggur í hlutarins eðli. Og það sem ég hef gagnrýnt er talið um skuldastærð eins og kemur fram hjá mönnum, ekki síst hjá Alþb., þá spyr ég bara: Er t.d. Alþb. að fara fram á að réttur fólks sé skertur til hinna löngu lána?
    Virðulegi forseti. Tími minn er senn á þrotum. Þó vil ég geta um þetta: Það eru ekki endilega þeir sem eru á lágum launum og með litlar eignir sem eiga í mestum vanda. Það var gerð úrtakskönnun hjá Húsnæðisstofnun ríkisins, og ég er ekkert að segja að hún sé fullkomin, en í úrtaki 50 umsækjenda kom í ljós að meðaltekjur þeirra á árinu í fyrra og í ár voru 178 þús. og 167 þús. Í þessu felst að stór hluti hefur verulega hærri tekjur en það sem við höfum verið að reikna með þar sem hér er um meðaltal að ræða. Meðalstærð íbúða sem þessi hópur á er einnig 132 fermetrar. Þetta eru atriði sem skipta máli og einnig það að meðalfjárhæð brunabótamats lá á bilinu 10--11 millj. kr. Þetta eru mjög mikilvægar upplýsingar og þá ekki síst það, sem verða lokaorð mín, virðulegi forseti, að til fróðleiks má geta þess þar sem kjör einstæðra mæðra hafa einnig verið til umræðu að einungis 10% þeirra sem sótt hafa um greiðsuerfiðleikalán eru einstæðar mæður.
    Ég vil taka undir þakkir þeirra sem hafa tjáð sig um þessa umræðu. Hún hefur verið málefnaleg og það hefur komið fram hjá flestum vilji til þess að taka raunhæft á málum og þeim vilja deili ég.
[Fundarhlé. --- 13:30]