Fjáraukalög 1994

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 14:11:28 (2491)

[14:11]
     Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigbjörn Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta fjárln. um frv. til fjáraukalaga ársins 1994. Frv. var lagt fram á Alþingi 10. okt. sl. og vísað til nefndarinnar eftir 1. umr. þann 19. sama mánaðar. Nefndin hefur kynnt sér frv. í einstökum atriðum og í því skyni leitað skýringa hjá fjmrn. og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir frá fjárlögum. Þá hafa forstöðumenn ýmissa ríkisstofnana komið fyrir nefndina, lagt fram upplýsingar um tiltekin verkefni og önnur erindi. Í ljósi þeirra skýringa hefur meiri hluti nefndarinnar fallist á þær tillögur um fjárheimildir sem fram koma í frv.
    Ýmis mál voru athuguð sérstaklega í ráðuneytum á meðan nefndin hafði frv. til umfjöllunar. Þau mál hafa nú verið leidd til lykta, í sumum tilvikum með skriflegu samkomulagi milli aðila. Þá hafa ýmis önnur ný útgjaldatilefni komið í ljós. Af þeim ástæðum gerir fjárln. 23 brtt. við frv. sem samtals nema 196,8 millj. kr.
    Í töflu sem birt er á fyrstu síðu álits meiri hluta nefndarinnar koma glöggt fram þær breytingar sem lagt er til að verði gerðar á heimildum gildandi fjárlaga. Annars vegar samkvæmt frv. og hins vegar samkvæmt brtt. meiri hluta nefndarinnar. Yfirlitið sýnir að nýjar greiðsluheimildir sem sótt er um vegna ársins 1994 liggja mjög nærri áætlun um útkomu í árslok sem birt var í frv. til fjárlaga næsta árs, en sú fjárhæð nemur um 117,7 millj. kr. Í töflunni kemur einnig fram að gert er ráð fyrir að flytja heimildir sem nema um 1,9 milljörðum kr. frá árinu 1993 til þessa árs í samræmi við reglur þar um.
    Til að fyrirbyggja misskilning varðandi þessar tölur minni ég á að þótt samþykktar greiðsluheimildir ársins 1994 verði þannig alls um 119,6 millj. kr. má gera ráð fyrir að sambærilegar heimildir færist milli áranna 1994 og 1995. Greiðsluútkoman í árslok verður þannig væntanlega í samræmi bæði við nýjar fjárheimildir sem þingið hefur samþykkt vegna ársins 1994 og endurskoðaða áætlun.
    Nefndin hefur lokið umfjöllun sinni um frv. til fjáraukalaga ársins 1994 og mælir meiri hlutinn með samþykkt frv. með breytingum sem flutt er tillaga um á þskj. 326. Undir álit meiri hlutans rita Sigbjörn Gunnarsson, Sturla Böðvarsson, Einar K. Guðfinnsson, Gunnlaugur Stefánsson, Árni Johnsen og Árni M. Mathiesen
    Virðulegi forseti. Ég mun nú gera grein fyrir einstökum brtt. meiri hluta nefndarinnar.
    1. brtt. er vegna umboðsmanns Alþingis. Málum og fyrirspurnum sem berast embættinu hefur farið fjölgandi og mun fjárveiting ársins 1994 ekki nægja til rekstrarins. Af þeirri ástæðu er lagt til að framlagið verði hækkað um 1 millj. kr.
    2. brtt. varðar Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Gerð er tillaga um 2,3 millj. kr. viðbótarheimild til að grynnka á rekstrarhalla síðustu ára. Tillagan miðar að því að greiða fyrir því að nýjum forstöðumanni stofnunarinnar takist að draga úr útgjöldum þannig að starfsemin rúmist framvegis innan þeirra marka sem fjárlög ákvarða.
    3. brtt. varðar Námsgagnastofnun. Þegar ákveðið hafði verið að leggja 14% virðisaukaskatt á innlendar bækur frá miðju ári 1993 var fyrirsjáanlegt að geta stofnunarinnar til að úthluta bókum til grunnskóla mundi skerðast af væntanlegum útskatti á framleiðsluna. Fjárln. gerði því brtt. við 2. umr. fjárlaga fyrir árið 1993 um hækkun framlags til stofnunarinnar sem næmi væntanlegri skattlagningu á síðari helmingi ársins 1993. Í fjárlögum ársins 1994 var fjárveiting til bókaframleiðslu hins vegar ekki aukin miðað við skattinn sem stofnunin verður að standa skil á fyrir heilt rekstrarár. Af þeim sökum er lagt til að fjárheimild stofnunarinnar verði hækkuð um 10 millj. kr. í ár. Jafnframt er gert ráð fyrir að sambærileg breyting verði gerð í frv. til fjárlaga næsta ár.

    4. brtt. snýr að Lánasjóði ísl. námsmanna. Eins og fram kemur í greinargerð með frv. til fjárlaga ársins 1994 miðast framlag ríkisins við að það nemi 54% af lánveitingum sjóðsins. Þegar sett voru ný lög um lánasjóðinn á árinu 1992 og úthlutunarreglum breytt var talið að þessi hlutdeild ríkisins mundi duga til þess að sjóðurinn gæti viðhaldið óskertri eiginfjárstöðu. Þar sem lánveitingar sjóðsins lækka um 120 millj. kr. frá fjárlögum samkvæmt endurskoðaðri áætlun sem lögð hefur verið fyrir nefndina er nú lagt til að ríkisframlagið lækki um 65 millj. kr. í samræmi við styrkhlutfallið. Sýnt þykir að endurmeta þurfi styrkhlutfallið að fenginni reynslu af nýjum lögum og úthlutunarreglum og hefur menntmrh. þegar skipað starfshóp og falið og honum það verkefni.
    5. brtt. tekur til Veiðimálastofnunar. Alþingi samþykkti í vor breytingar á ákvæðum laga nr. 66/1970, um lax- og silungsveiði, sem tóku gildi hinn 1. júní sl. Með þeirri lagabreytingu var gert ráð fyrir auknum útgjöldum vegna eftirlits með ólöglegri sjávarveiði en á móti mundi kostnaður vegna eftirlits við ár færast til veiðiréttareigenda. Í framhaldi af þessum áherslubreytingum er fyrirhugað að efla frekar eftirlit með ólöglegum veiðum í sjó og er gerð tillaga um 2,5 millj. kr. viðbótarframlag til stofnunarinnar af þeirri ástæðu. Í frv. til fjárlaga næsta árs hefur verið gerð sambærileg hækkun.
    6. og 7. brtt. eru báðar af sama toga og varða annars vegar Skógrækt ríkisins og hins vegar Héraðsskóga. Tildrög málsins eru að Skógræktin fékk fram til ársins 1992 endurgreiddan virðisaukaskatt af aðföngum til plöntuframleiðslu og vegna nytjaskógræktar bænda. Sama gilti um Héraðsskóga. Nú hafa bæði ríkisskattstjóri og yfirskattanefnd úrskurðað að ekki sé lengur heimilt að reikna innskatt af slíkum aðföngum og gert viðkomandi aðilum að endurgreiða innskattinn fyrir tímabilið 1992--1994.
    Lagt er til að fjárheimild Skógræktar ríkisins hækki um 6 millj. kr. til þess að úrskurðurinn leiði ekki til skerðingar á þessu ræktunarstarfi stofnunarinnar. Af sömu ástæðum er lagt til að fjárveiting Héraðsskóga verði aukin um 5 millj. kr.
    8. brtt. er vegna málefna fatlaðra á Vesturlandi. Akranesbær hefur frá árinu 1983 rekið verndaðan vinnustað með starfsleyfi frá félmrh. Ríkissjóður hefur greitt laun forstöðumanns, leiðbeinenda og fatlaðra starfsmanna en annar rekstrarkostnaður hefur verið fjármagnaður með sértekjum. Talsverður halli er nú orðinn á rekstrinum, annars vegar vegna þess að markaðir fyrir framleiðsluvörur vinnustaðarins hafa dregist saman og hins vegar vegna þess að fötluðum starfsmönnum hefur fjölgað. Félmrn. hefur lagt vinnustaðnum til sérstakt 4 millj. kr. viðbótarframlag í ár en sýnt þykir að það muni ekki duga til. Gerð er tillaga um 2 millj. kr. hækkun fjárheimildar til að leysa úr þeim vanda. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að fyrirhugað er að gera samning um rekstur vinnustaðarins þar sem árlegt framlag ríkissjóðs verði fastbundið en útgjöld umfram það ráðist af sértekjum og öðrum framlögum.
    9. brtt. tekur til Brunamálastofnunar ríkisins en þar hefur verið ráðið í stöðu skólastjóra til að undirbúa starfrækslu brunamálaskóla í tengslum við starfsemi stofnunarinnar. Lagt er til að framlag stofnunarinnar hækki um 1 millj. kr. í þessu skyni.
    10. og 11. brtt. snúa báðar að rekstrarhalla sjúkrahúsa undanfarin ár, annars vegar á Akranesi og hins vegar í Neskaupstað. Heilbr.- og trmrn. hefur haft fjárhagsvanda sjúkrahúsanna til athugunar og hefur nú í báðum tilvikum verið undirritað samkomulag við stjórnendur þar sem kveðið er á um aðgerðir til að koma böndum á reksturinn og hvernig brugðist verði við ef vanhöld skyldu verða á tilskildum árangri. Þessir samningar miðast við að leitað verði eftir viðbótarframlögum til að mæta stærstum hluta uppsafnaðs rekstrarhalla og greiða þannig fyrir því að áætlanir nái fram að ganga. Í 10. brtt. er af þessum ástæðum gerð tillaga um 28 millj. kr. framlag til Sjúkrahússins á Akranesi og í þeirri 11. er á sama hátt gerð tillaga um 23 millj. kr. framlag til Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað.
    12. brtt. er vegna Ríkisspítalanna. Heilbr. og trmrn. hefur ásamt fjmrn. unnið að athugun á fjárhagsvanda spítalanna síðan frv. til fjáraukalaga var lagt fram. Þeirri vinnu er nú lokið með skriflegu samkomulagi sem gengið hefur verið frá milli ráðuneytanna og Ríkisspítala. Með hliðsjón af þessari niðurstöðu er gerð tillaga um aukna heimild að fjárhæð 242 millj. kr. Þessu til viðbótar eru 86 millj. kr. á liðnum Launa- og verðlagsmál hjá fjmrn. ætlaðar til að mæta kostnaði við launahækkanir hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta á árinu.
    Í frv. hafði hins vegar þegar verið gert ráð fyrir 52 millj. kr. viðbótarheimild til Ríkisspítala í þessu sama skyni. Hækkun fjárveitinga frá fjárlögum verða samkvæmt þessu alls 294 millj. fyrir utan þær 86 millj. sem ætlaðar eru til launahækkana heilbrigðisstétta eins og ég gat um hér áður. Með þessari tillögu er gert ráð fyrir að Ríkisspítalar leysi að öðru leyti úr fjárhagsvanda sínum í ár sem ætla má að nemi um 70 millj. kr.
    13. brtt. snýr að Borgarspítalanum. Í frv. til fjáraukalaga 1994 er gert ráð fyrir 87 millj. kr. viðbótarheimild til spítalans. 80 millj. kr. vegna ofáætlunar sértekna og 7 millj. kr. vegna sérstakra álagsgreiðslna til lækna. Uppsafnaður fjárhagsvandi Borgarspítalans er hins vegar talinn verð mun meiri eða um 350 millj. kr. á þessu og síðasta ári. Hefur verið leitað leiða til að taka á þeim vanda í tengslum við fyrirhugaða sameiningu við St. Jósefsspítala Landakoti. Niðurstaða þeirra athugana varð sú að samhliða samningi um sameiningu spítalanna gerðu heilbr.- og trmrh. og fjmrh. samkomulag við Reykjavíkurborg um að beita sér fyrir hækkun fjárveitingar um 125 millj. í fjáraukalögum í ár og launabóta og um 100 millj. kr. í fjárlögum næsta árs. Á hinn bóginn er bráðabirgðastjórn hins nýja Sjúkrahúss Reykjavíkur ætlað að ná fram 180 millj. kr. sparnaði með aðhaldsaðgerðum á árinu 1995.

    14. brtt. er vegna Hjúkrunarheimilisins Garðvangs í Garði. Á árinu 1993 fór fram starfsmat hjá hjúkrunarheimilinu sem hafði í för með sér nokkra aukningu launakostnaðar. Heilbr.- og trmrn. hefur tekist að útvega fjármagn til að mæta stærsta hluta kostnaðaraukans á árinu 1993 og jafnframt hefur verið tekið tillit til hans í frv. til fjárlaga fyrir komandi ár. Eftir stendur að fé skortir til að mæta hluta kostnaðar frá 1993 og alls ársins 1994. Af þeirri ástæðu er lagt til að fjárheimild stofnunarinnar verði hækkuð um 3 millj. kr.
    Með 15. brtt. er lagt til að fjárheimild liðarins ,,Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum`` verði aukinn um 12 millj. kr. Í 6. gr. gildandi fjárlaga, lið 5.13 er heimild til fjmrh. sem er svohljóðandi:
    ,,Að greiða sérstakar bætur til bænda sem verst hafa orðið úti vegna harðæris vorið og sumarið 1993.``
    Nefnd sem falið var að gera tillögur í þessum efnum hefur lagt til að hin almenna deild Bjargráðasjóðs fái 12 millj. kr. framlag sem síðan verði veitt til bænda í samræmi við fyrri úthlutun sjóðsins fyrr á árinu. Auka þarf greiðsluheimild fjárlagaliðarins til þess að gera þetta kleift.
    16. brtt. varðar vaxtagjöld ríkissjóðs en lagt er til að sú fjárheimild lækki um 300 millj. kr. Útkoma fyrstu 10 mánaða ársins sýnir að vaxtagjöld ríkissjóðs lækka enn frekar en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Stafar það einkum af lækkun vaxtastigs innan lands sem kemur fram bæði í skammtímabréfum eða ríkisvíxlum og ríkisbréfum og í langtímabréfum eða spariskírteinum. Á móti vegur að vextir og lántökukostnaður erlendra lána er nokkuð hærri en áætlað var í fjárlögum.
    17. brtt. tekur til launa- og verðlagsmála. Eins og fram kemur í greinargerð með frv. til fjáraukalaga 1994 ríkti nokkur óvissa um fjárvöntun vegna kjarasamninga hjúkrunarfræðinga þar sem ekki var fengin endanleg niðurstaða í málið í vinnuhópi fjmrn. og heilbr.- og trmrn. Þeirri athugun er nú lokið og gerð tillaga um 70 millj. kr. hækkun heimildar á þessum lið í samræmi við þær niðurstöður.
    Hækkunin frá frv. skýrist einkum af því að áður hafði verið gert ráð fyrir að með kjarasamningum yrðu felldar niður allar yfirborganir og einstaklingsbundin ráðningarkjör hjá sjúkrahúsum. En nú er fyrirhugað að það samkomulag komi til framkvæmda um áramótin.
    18. brtt. varðar aðalskrifstofu samgrn. Gerð er tillaga um 4 millj. kr. hækkun þar sem gera þurfti breytingar í starfsmannahaldi og starfslokasamning vegna veikinda hjá aðalskrifstofunni.
    19. og 20. brtt. fela í sér millifærslur fjárveitinga að fjárhæð 8 millj. kr. frá hafnarmannvirkjum til sjóvarnargarða. Framlagið er ætlað til að byggja flóðvarnargarð við Vík í Mýrdal og kemur til viðbótar framlagi til sama verkefnis á fjárlagalið Landgræðslu ríkisins í frv. Heildarfjárheimild fjárlagaliðarins verður óbreytt eftir sem áður.
    21. brtt. er vegna Flugmálastjórnar. Í greinargerð frv. til fjáraukalaga 1994 er þess getið að þegar það var lagt fram var ekki að fullu lokið við athugun á kostnaðarauka A-hluta stofnunarinnar í kjölfar dóms um kjarasamning flugumferðarstjóra. Nú er komið í ljós að 5 millj. kr. skortir til viðbótar þeim 80 millj. sem gert var ráð fyrir í frv. til að mæta launahækkuninni. Lagt er til að fjárheimild stofnunarinnar hækki sem þessu nemur. Rétt er að nefna í þessu sambandi að launahækkun flugumferðarstjóra sem starfa að þjónustu við millilandaflug fellur undir B-hluta stofnunarinnar og kemur hún til með að verða greidd með hækkun sértekna frá Alþjóðaflugmálastofnuninni.
    22. brtt. varðar framlög til iðju og iðnaðar. Lagt er til að þau hækki um 5 millj. kr. Aðdragandi málsins er sá að þegar námaleyfi Kísiliðjunnar hf. var endurnýjað var stofnaður sérstakur sjóður sem ætlað er að fjármagna undirbúning aðgerða til að efla annað atvinnulíf í Mývatnssveit. Tekjur sjóðsins voru ákveðnar 20% af námagjaldi verksmiðjunnar til ársins 2001 og síðan 68% til 2010. Tekjur sjóðsins nema nú einungis innan við 1 millj. kr. á ári. Af þeirri ástæðu er nú fyrirhugað að efla sjóðinn enn frekar með því að hann fái jafnframt allt að 20% af tekjum ríkissjóðs sem hluthafa í Kísiliðjunni hf. Reiknað er með að þetta framlag sjóðsins geti orðið 5 millj. kr. í ár miðað við að arðgreiðsla verksmiðjunnar til ríkissjóðs verði 25 millj. kr. Gert er ráð fyrir að á næstunni verði lagt fram frv. til breytinga á lögum nr. 80/1966, um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, þar sem þetta fyrirkomulag verði lögfest.
    23. brtt. varðar framlög til ýmissa orkumála. Gerð er tillaga um 15 millj. kr. hækkun í framhaldi af samþykkt ríkisstjórnarinnar um að beita sér fyrir fjármögnun og athugun á hagkvæmni sinkverksmiðju í samstarfi við bandaríska aðila. Gert er ráð fyrir mótframlögum til verkefnisins.
    Virðulegi forseti. Í lokin er rétt að geta þess að við umfjöllun málsins í nefndinni voru nokkur fleiri atriði rædd en frestað til 3. umr. að taka ákvörðun um. Meðal þeirra eru mál er varða Byggðastofnun, mál er varða Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og málefni sem varða jarðræktarframlög.
    Að lokum, virðulegur forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 3. umr.