Fjáraukalög 1994

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 16:18:51 (2506)


[16:18]
     Gunnlaugur Stefánsson :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigbjörn Gunnarsson, formaður fjárln., hefur gert rækilega grein fyrir frv. til fjáraukalaga sem hér er til umræðu. Það hefur einnig varaformaður nefndarinnar, hv. þm. Sturla Böðvarsson, gert og vil ég taka undir það sem þeir hafa sagt í umræðunni. Það hefur tekist gott samkomulag milli stjórnarflokkanna um þetta frv. til fjáraukalaga og mér sýnist að það taki á ýmsum vanda sem nauðsynlegt var að sinna að þessu sinni. Eins og kunnugt er þá hefur ríkissjóður átt í hremmingum og þrengingum um alllangt skeið. Hann hefur verið rekinn með halla um meira en tíu ára skeið og það veldur sannarlega áhyggjum þegar svo gerist ár eftir ár. En það er einnig kunnugt að staða þjóðarbúsins hefur verið erfið núna sl. þrjú ár. Það þarf ekki að rekja þá sögu. Þá sögu þekkja allir og finna allir fyrir þeim þrengingum sem hafa átt sér stað í þjóðfélaginu. Auðvitað setja slíkar þrengingar sitt mark á ríkisfjármálin og gera það að verkum að svigrúmið er þrengra og að grípa verður til harðari aðgerða á sviði sparnaðar og aðhalds en ella þyrfti þegar um góðæri er að ræða.
    Það vekur sannarlega athygli að á síðasta áratug, þegar hér ríkti mikið góðæri í landinu, þá var ríkissjóður eigi að síður rekinn með allmiklum halla og væri sannarlega ástæða til þess að skoða þau mál betur, þó ég ætli ekki að gera það að þessu sinni. Þó er eitt sem hefur vakið athygli mína og það var ræða hv. þm. Guðna Ágústssonar, sem ég leit svo á að væri dulbúið andsvar við ræðu flokksbróður hans, hv. þm. Jóns Kristjánssonar, þó sú ræða væri flutt hér undir fororði þess að verið væri að ræða stjórn hæstv. forseta. Þar var hv. þm. Guðni Ágústsson að gera athugasemdir við að hér væri tekið á málefnum sjúkrahússins á Norðfirði og hins vegar Sjúkrahússins á Akranesi. Skuldasaga sjúkrahússins á Norðfirði er nefnilega táknræn fyrir skuldasögu ríkisfjármála sl. ár og sl. mörg ár og kann að vera að við sjáum í þeirri skuldasögu í hnotskurn hvernig staðið hefur verið að rekstri ríkisfjármála um langt skeið. Það vill svo til, hv. þm. Guðni Ágústsson, að hér er verið að taka fyrst og fremst á uppsöfnuðum vanda frá árinu 1987--1991. Í bréfi frá Fjórðungssjúkrahúsinu á Norðfirði er einmitt tekið saman hvernig skuldirnar hafa hlaðist upp og það er athyglisvert að á árunum 1987--1991 þá söfnuðust þar upp skuldir er námu tæpri 21 millj. kr. Hvernig var þessi rekstrarhalli fjármagnaður hjá sjúkrahúsunum? Ég efast um að hv. þm. Guðni Ágústsson hafi haft af því miklar áhyggjur á góðærisárunum 1987--1991 að það væri sjúkrahús á landsbyggðinni sem ætti við slíkan rekstrarvanda að stríða. Hvernig ætli þessi fjárlagahalli hafi verið dulinn? Hjá ríkissjóði? Nei, ekki hjá ríkissjóði. Hjá sjúkrahúsinu sjálfu? Kann að vera í lánum í sparisjóðnum á Norðfirði, en að stærstum hluta hjá sveitarfélaginu. Það var enginn annar til þess gerður aðili tilbúinn til að koma þar til hjálpar nema sveitarfélagið í Neskaupstað. Og er það vitnisburður um mikla stjórnvisku á góðærisárum þegar allt blómstrar, þjóðartekjur eru miklar og allt leikur í lyndi, að geta þá ekki einu sinni staðið í skilum við sjúkrahús á landsbyggðinni, að geta þá ekki einu sinni staðið í skilum við heilbrigðisþjónustuna í landinu. Og koma svo nú með stórar yfirlýsingar og mikil orð og tala um að hæstv. ríkisstjórn bregðist með því að hafa ekki tök á að standa að meiri fjárveitingum til mikilvægra stofnana í landinu. ( Gripið fram í: Hverjir voru eiginlega í stjórn þarna þetta ár?)
    Já, það er rétt að hv. þm., 3. þm. Austurl., vakti einmitt athygli á því hér, sem ég hafði gleymt, hver það var sem fór með stjórn heilbrigðismála á þessum tíma. Hver var hæstv. heilbrrh. á þessum árum? Það var enginn annar en flokksbróðir hv. þm. Guðna Ágústssonar, ( Gripið fram í: Hver var fjmrh.?) hv. þm. Guðmundur Bjarnason, fyrrv. heilbrrh., sem fór með ábyrgð og stjórn þessara mála. Og ég veit að hæstv. fjmrh. hefur án efa farið að tillögum hæstv. heilbrrh. á þeim tíma hvað varðar fjárveitingar í þessum efnum. A.m.k. er mér ekki kunnugt um það að hv. þm. Guðmundur Bjarnason, þáv. heilbrrh., hafi vakið athygli á því að hann ætlaði að skilja þetta sjúkrahús eftir í skuld. Ég minnist þess heldur ekki að hv. þm. Guðni Ágústsson hafi þá vakið rækilega athygli á því að þeir hefðu ákveðið það að skilja þetta sjúkrahús eftir í skuld þrátt fyrir góðæri í landinu. (Gripið fram í.)
    Að koma svo hér og tala með stórum orðum um fjármálastjórn og að það vanti fjárveitingar hingað og þangað, það er ekki trúverðugt, a.m.k. á ég mjög erfitt með að taka mark á slíkum yfirlýsingum. Enda ræddi hv. þm. Jón Kristjánsson, sem þekkir þessi mál mjög vel, hefur kynnt sér þau mjög vel, hefur reynt að leggja sitt af mörkum til að leiðrétta þetta ófremdarástand, hann kom ekki inn á þetta í ræðu sinni. Þess vegna var ræða hv. þm. Guðna Ágústssonar ekkert annað en dulbúið andsvar við ræðu hv. þm. Jóns Kristjánssonar. Auðvitað leggjum við okkur fram, bæði ég og hv. þm. Jón Kristjánsson, í því að leiðrétta óráðsíuna frá árunum 1987--1991. Það var einmitt það sem gerir okkur enn erfiðara um vik að takast á við ríkisfjármálin, hin gamla skuldasöfnun þegar kreppir að, að þurfa að vera með skuldir frá góðærisárunum. Að vera með skuldir frá góðærisárunum. Þessi skuld við sjúkrahúsið á Norðfirði er táknræn fyrir þessa skuldasögu og ættum við hv. þm. að hafa þessa sögu okkur að leiðarljósi svo hún þurfi ekki að endurtaka sig.
    Ég vildi gera þetta að umræðuefni, hæstv. forseti, vegna þess að það var gefið tilefni til þess. Ég get líka rakið fleiri dæmi úr mínu kjördæmi frá þessum árum, einmitt frá heilbrigðisstjórn Framsfl. Við erum enn að takast á við skuldir frá þessum árum vegna byggingar Sundabúðar á Vopnafirði. Enn stendur eftir 24 millj. kr. skuld á hjúkrunarheimilinu á Hulduhlíð á Eskifirði frá þessum árum. Því miður þá hef ég orðið þess áskynja í starfi mínu í fjárln. að það eru allt of mörg dæmi frá góðærisárunum þar sem skuldasöfnun hefur orðið og því miður þá gerði þessi skuldasöfnun þessara ára okkur enn erfiðara um vik að takast á við ríkisfjármálin þegar að kreppti. Þetta vita kjósendur, þetta veit fólkið í landinu. Þess vegna þýðir ekki að bera á borð fyrir okkur hér úr þessum ræðustól yfirlýsingar eins og þær sem við höfum heyrt hér t.d. frá stjórnarandstöðunni, um það að nú sé svigrúm til þess að standa að fjárveitingum, til þess að standa undir auknum kröfum um aukna þjónustu. Það vilja það allir en svigrúmið er þröngt.
    Hæstv. forseti. Ég trúi því ekki að það hafi verið vilji Framsfl. á þessum árum að standa með þeim hætti sem ég hef lýst að rekstri sjúkrastofnana á landsbyggðinni. Við höfum verið að leitast við í fjárlagastarfinu sl. þrjú ár að takast á við þessa skuldasöfnun, greiða hana upp, gera samkomulag við sjúkrastofnanir um reksturinn til framtíðar til þess að hann megi standa á eigin fótum til að svona ástand þurfi ekki

að endurtaka sig. Að Sjúkrahúsið á Akranesi og að sjúkrahúsið á Norðfirði séu nú í röðinni, þá vil ég benda hv. þm. og sérstaklega hv. þm. Guðna Ágústssyni á að það voru fleiri sjúkrahús tekin fyrir við frv. til fjáraukalaga í fyrra og í hittiðfyrra. Þannig hefur skipulega verið unnið að því að treysta rekstur sjúkrahúsanna og heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni þannig að þeim verði skilað inn á næsta kjörtímabil á rekstrargrunni sem geti haldið. Það er ábyrg fjármálastjórn og hefði betur, og ég segi það í fullri vinsemd, hefði betur að Framsfl. hefði staðið með þeim hætti að fjármálastjórn í heilbrigðisþjónustunni á síðasta kjörtímabili.