Fjáraukalög 1994

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 17:01:57 (2511)


[17:01]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er einmitt kjarni málsins sem hv. 5. þm. Suðurl. sagði hér í máli sínu rétt áðan. Það þarf að ganga skipulega til verks. Það var nákvæmlega það sem verið var að gera. Það var gengið skipulega til verks, það var gengið til samkomulags við sjúkrastofnanir. Það var komist að niðurstöðu. Sjúkrastofnanirnar tóku í öllum tilvikum á sig hagræðingarkröfu, greinilega t.d. á Ríkisspítölum, Borgarspítalanum og einnig á öðrum sjúkrastofnunum. Að loknu skriflegu samkomulagi var hins vegar lögð fram beiðni um sérstaka aukafjárveitingu á fjáraukalögum sem væntanlega fær síðan eðlilega afgreiðslu. Það er nákvæmlega það sem hv. þm. segir í öðru orðinu sem er það sem við erum að sjá í þessum tillögum meiri hluta fjárln. vegna fjáraukalaga fyrir árið 1994. Ég er alveg sammála því að ekki er búið að leysa öll vandamál landsins með þessum fjáraukalögum sem við erum væntanlega að fara að afgreiða núna. En vinnubrögðin eru hins vegar skipuleg og þess vegna erum við hv. þm. sammála. Ég held þess vegna að það sýni að ræða hv. þm. áðan var einn stór misskilningur.