Fjáraukalög 1994

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 17:43:10 (2527)


[17:43]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Í dag mun vera 9. des. og víst ekki hægt að flytja brtt. um það hér á hinu háa Alþingi til hækkunar. En ég vek athygli á því að samningurinn sem hv. þm. vitnaði til var dagsettur 10. des. fyrir ári síðan þannig að það má búast við að á næstu dögum megi takast samkomulag milli ríkis og sveitarfélaganna. Reyndar hefur samstarf á milli þessara aðila verið ágætt. Ég vek athygli á því að í fjárlagafrv. stóð einungis: Áformað er að leita eftir samkomulagi við sveitarfélögin um áframhaldandi 600 millj. kr., og það voru engar skuldbindingar sem hvíldu á sveitarfélögunum um það. Á sama hátt er engin skuldbinding á ríkisvaldinu til þess að leggja jöfnunarsjóðnum lið með beinum framlögum. Í fyrra féllust ríkisstjórnin og Alþingi á með sínu samþykki að leggja 250 millj. kr. á fjáraukalögum þess árs til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Þetta mál verður til áframhaldandi viðræðu á milli ríkis og sveitarfélaganna. Ég vek athygli á því að halli á Innheimtustofnun sveitarfélaga er ekki eingöngu tilkominn vegna breytinga á lögum. Það kemur hins vegar fram í samkomulaginu sem vitnað var til og hv. þm. nefndi, dags. 10. des. í fyrra, að ríkisvaldið tók að sér að vinna að því ásamt samtökum sveitarfélaganna að finna lausn á vanda Innheimtustofnunar og um leið Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga með því að breyta lögum þannig að ekki þyrfti að koma til þessi halli sem myndast á jöfnunarsjóðnum og Innheimtustofnun sveitarfélaga en það er gert ráð fyrir því samkvæmt lögum að hallinn sé greiddur eftir vissum reglum af Jöfnunarsjóði sveitarfélaganna og þar með bitnar hann á þeim sveitarfélögum sem fá greitt úr jöfnunarsjóðnum sem oftast eru smæstu sveitarfélögin. Þannig að þessi mál eru til umræðu á milli aðila og ég á von á farsælli lausn innan tíðar.