Fjáraukalög 1994

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 17:48:45 (2530)


[17:48]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mig undrar hve kokhraustur hæstv. ráðherra er. Svo mikið hefur nú heyrst frá sveitarstjórnarmönnum í landinu á kjörtímabilinu að það er ekki öllu gleymt býst ég við um þessi samskipti. Þar hafa farið fremstir flokksmenn hæstv. ráðherra sem hafa lýst því yfir að þessi samskipti gangi ekki. Ég býst við að það þurfi ekki að rifja þau orð upp. Það er auðvitað rangtúlkun hjá hæstv. ráðherra að það sé ekki verið að svíkja samkomulagið frá því í fyrra. Það stendur hér og ég ætla bara að lesa aftur síðustu greinina: ,,Aðrar breytingar en að ofan greinir stendur ekki til að gera á verkaskiptingu og fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga í tengslum við fjárlagagerð fyrir árið 1994.`` ( Fjmrh.: Það er fyrir næsta ár.) Við fjárlagagerð fyrir árið 1994, þá var verið að tala um sl. ár og sveitarstjórnarmenn hafa marglýst því yfir að þeir telji að framgangur hæstv. ríkisstjórnar og fjmrh. hæstv. í broddi fylkingar sé brot á þessu samkomulagi. Ég er ekki að finna það upp. ( Fjmrh.: Það er næsta ár, við erum að tala um 1995.) Ég er ekki að finna það upp sem sveitarstjórnarmenn hafa verið að segja á undanförnum vikum og mánuðum um samskiptin við ríkið að það sé brot á þessu samkomulagi. Ég hef bæði hlustað á framkvæmdastjóra og líka aðra forráðamenn þessara samtaka sem hafa lýst því yfir að þeir telja þetta brot á samkomulaginu og ég ætla að láta það verða mín síðustu orð hér. Ég vonast til þess að hæstv. fjmrh. átti sig á því að það er mikilvægara heldur en það megi offra því eins og hæstv. ríkisstjórn hefur gert, samkomulagið við sveitarfélögin í landinu.