Stuðningur Byggðastofnunar við atvinnumál í sameinuðum sveitarfélögum

55. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 15:13:53 (2538)


[15:13]
     Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 68 flyt ég fsp. til forsrh. um stuðning Byggðastofnunar við atvinnumál í sameinuðum sveitarfélögum. Spurningin er á þessa leið:
    ,,Með hverjum hætti er Byggðastofnun ætlað að framkvæma yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá síðasta hausti um stuðning við atvinnuuppbyggingu í sameinuðum sveitarfélögum?``
    Sú yfirlýsing, sem átt er við, er í tengslum við það átak sem var í sameiningarmálum sveitarfélaga og kemur fram í tilkynningu frá félmrn. 27. sept. 1993. Þar segir í 4. lið, en yfirskriftin er að ríkisstjórnin hafi fallist á eftirfarandi tillögur félmrh.:
    ,,Á svæðum þar sem erfiðleikar eru í atvinnumálum mun ríkisstjórnin fela Byggðastofnun að beita sér fyrir tillögu um sérstakar aðgerðir í atvinnumálum í tengslum við sameiningu sveitarfélaga, einkum hvað

varðar fjárfestingar og hagræðingar í rekstri.``
    Ekki er að sjá á fjárframlögum til Byggðastofnunar í fjárlögum eða í fjárframlögum til Byggðastofnunar í tengslum við búvörusamning sem tengist auðvitað málinu á ýmsum svæðum sem hafa sameinast þar sem sauðfjárbúskapur er uppistaðan í atvinnulífinu. Það er ekki að sjá á þessum framlögum að Byggðastofnun sé ætlað mikið fjármagn til að standa við þessar yfirlýsingar. Því er þessi spurning fram borin til hæstv. forsrh.