Reglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna

55. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 15:27:55 (2543)


[15:27]
     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir hans svör. Mér sýnist á þessu og þeim gögnum sem ég hef fengið frá viðkomandi námsmönnum að þarna hljóti að vera um einhvers konar misskilning að ræða milli umsækjenda um lán og sjóðsins, þ.e. nemandinn hafi reiknað með því að fá námsgjöld greidd nokkurn veginn að fullu en niðurstaðan hjá viðkomandi námsmanni varð sú að það vantaði 1.662 pund upp á námsgjöld sem hún hafði reikna með að fá lánað fyrir. Samkvæmt bréfi frá þessari stúlku virðist svo sem lánasjóðurinn hafi ekki haft réttar upplýsingar um skólagjöldin frá viðkomandi skóla sem er London School of Economics.
    Það er auðvitað álitamál hvort sjóðurinn eigi að hafa einhvern sveigjanleika þegar um skólagjöld er að ræða eða hvort það eigi að vera hámark. Ég verð að viðurkenna að þetta eru býsna háar tölur sem lánasjóðurinn miðar við og spurning hvort við höfum efni á því að styðja fólk til náms í mjög dýrum skólum, en í þessu tilviki er um mjög viðurkenndan skóla að ræða.
    Ég held, virðulegi forseti, að ég verði að skoða þetta mál nánar og jafnvel í samráði við hæstv. menntmrh. Mér sýnist, eins og ég segi, að hér hafi eitthvað farið á milli mála, að nemandinn hafi reiknað með því í sínum fjárhagsáætlunum að fá sín skólagjöld greidd að fullu en þegar til kom reyndist svo ekki vera. Þarna er spurningin ef um svo fá tilvik er að ræða, hvort hugsanlegt væri að lánasjóðurinn veitti einhverja tilhliðrun þegar um það er að ræða að fólk er á síðasta ári í námi.