Reglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna

55. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 15:32:35 (2546)


[15:32]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi taldi að hér kynni að vera um einhvern misskilning að ræða milli umsækjenda sem um ræðir og sjóðstjórnarinnar. Ef svo er þá held ég að engin spurning sé um það að málið verði leiðrétt, ef um einhvern misskilning er að ræða. Það er sjálfsagt að biðja stjórnina um að skoða það sérstaka mál alveg til hlítar.
    Spurning um sveigjanleika. Jú, það er alltaf spurning um hvort unnt sé að hafa reglur þannig að það sé einhver sveigjanleiki í þeim. Ég held að það sé samdóma álit lánasjóðsins að sveigjanleiki í þessum tilvikum sé býsna vafasamur. Allar ákvarðanir lánasjóðsstjórnarinnar hafa fordæmisgildi og geta haft mjög mikil útgjöld í för með sér. Þess vegna eru reglurnar mjög stífar og gefa ekki kost á miklum sveigjanleika.
    Hv. þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir sagði að reglur lánasjóðsins væru ekki í samræmi við þær reglur sem hinir ýmsu háskólar setja sér. Þetta er ný frétt í mínum eyrum. Ég held einmitt að lánasjóðsstjórnin hafi farið eftir þeim reglum sem hinir einstöku háskólar gefa út, þ.e. hversu langan tíma nám eigi að taka. Hitt er annað mál að það er vitað að í mörgum tilvikum eru reglur hinna einstöku háskóla þannig að nemendur geta ekki lokið námi á þeim tíma sem háskólinn segir. Þetta hefur verið til sérstakrar athugunar hjá lánasjóðsstjórninni, sérstaklega að því er varðar nemendur í Þýskalandi. Ég held þess vegna að það sé ekki rétt sem hv. þm. sagði að lánasjóðsstjórnin fari eftir einhverjum öðrum reglum heldur en háskólarnir gefa út. En mismunurinn er sá að háskólarnir hafa gefið út reglur sem eru of stífar fyrir nemendurna og það er það sem lánasjóðsstjórnin hefur sérstaklega verið að kanna.