Varaflugvöllur á Egilsstöðum

55. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 15:38:30 (2548)


[15:38]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Samkvæmt fjárlagafrv. eins og það liggur nú fyrir er gert ráð fyrir því að þjónusta verði tekin upp á Egilsstaðaflugvelli til þess að nýta hann sem varaflugvöll frá miðju sumri og að flugvöllurinn verði þá útbúinn til þess að þjóna flugvélum fyrir millilandaflug. Áætlað er að rekstrarkostnaður vegna þessarar auknu þjónustu verði á næsta ári 4,8 millj. kr. en hálfu meiri á árinu 1996. Það er gert ráð fyrir að ráða þurfi fjóra starfsmenn, tvo flugvallareftirlitsmenn og tvo flugvallarradíómenn.
    Ég er nokkuð undrandi á þeim ummælum hv. þm. að hann skuli meta það svo að ekki sé hægt að nota flugvöllinn sem varaflugvöll þó svo að dragist um eitt ár að ljúka við flugstöðvarbygginguna á Egilsstöðum. Það hefur raunar komið fram oft áður við umræður að hv. þm. hefur talið að það skorti mjög á að Austfirðingar hafi fengið sinn hlut á síðustu árum í sambandi við fjárveitingar til Egilsstaðaflugvallar þó svo að þær fjárhæðir sem veittar hafi verið til hans séu af allt annarri stærð en til annarra valla hafa gengið. Ég er því satt að segja hálfundrandi á því þegar reynt er að vekja óánægju með það mikla átak sem þar hefur verið gert og spyr þingmenn í öðrum kjördæmum hvað þeir hugsi og hvernig þeir meti það ef þessum tóni eigi að halda svo áfram.