Varaflugvöllur á Egilsstöðum

55. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 15:44:46 (2552)


[15:44]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki alveg á óróleika hv. þm. Það hefur verið staðið mjög myndarlega að uppbyggingu flugvallarins á Egilsstöðum og það hefur ekki vantað upp á að vilji hafi staðið til þess að reyna að flýta þeirri framkvæmd að þar geti komið fullgildur varaflugvöllur. Það er síður en svo að reynt hafi verið að standa á móti því. Það sem ég sagði hér áðan og ítreka er að flugvöllurinn mun nýtast að fullu sem varaflugvöllur frá miðju næsta ári og óþarfi er að gera lítið úr því. Hitt veit hv. þm. og er mjög kunnugt um að kemur oft fyrir að fé er fært milli flugvalla þegar svo ber undir ef það þykir rétt og skyndileg mál koma upp. Reynt er að haga því með þeim hætti að viðkomandi byggðarlög geti vel við unað. Hv. þm. er kunnugt um það að óhjákvæmilegt er að skera nokkuð niður flugmálaáætlun og má vera að honum þyki réttara að sá niðurskurður komi á flugvöllinn við Hornafjörð og er sjálfsagt að ræða það við þingmenn Austurlandskjördæmis.