Aukatekjur ríkissjóðs og gjaldtaka ríkisstofnana

55. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 15:54:43 (2555)


[15:54]
     Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) :
    Hæstv. forseti. Það er rétt, það er ekki í fyrsta skipti sem ég ber fram fyrirspurn um þetta efni. Ég hafði áhyggjur af því á sl. hausti að lítið miðaði í því að framkvæma þann vilja Alþingis sem kom fram í þáltill. en síðan kom fram það frv. sem áðan var nefnt. Ég fagna því að hæstv. ráðherra boðar það að frv. verði lagt fram til kynningar í vor þar sem verður reynt að gera fullkomlega skil á milli skatta og þjónustugjalda. Þessi mál eru því í farvegi sem ég get út af fyrir sig sætt mig bærilega við en ég tel að sé samt þannig að það hefði verið hægt að vinna skipulegar eftir þeim anda sem var í þáltill., þ.e. með því að gefa stofnunum ríkisins fyrirmæli um það að breyta gjaldskrám sínum í áttina við það sem andi þáltill. er. Það er gersamlega óverjandi að opinberar stofnanir séu að innheimta þjónustugjöld og setja fram kröfur um endurgreiðslur án þess að gerð sé fullkomlega grein fyrir því hvað stendur á bak við þjónustuna og jafnvel að innheimta þjónustugjöld sem eru mun hærri en sá kostnaður sem liggur þar á bak við.
    Ég fagna því samt að málið er í réttum farvegi og vona að við sjáum þetta frv. og hef enga ástæðu til þess að halda að það verði ekki.