Skyndiskoðanir Landhelgisgæslunnar

55. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 15:56:46 (2556)


[15:56]
     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram fsp. á þskj. 304 sem er í þremur liðum til dómsmrh. um skyndiskoðanir Landhelgisgæslunnar. Nú er að ganga í hönd sá tími þegar veður eru mjög válynd á miðum í kringum landið og oftar en ekki vaknar upp hjá mönnum spurningin um öryggi sæfarenda og einkum þá hvernig staðið er að öryggismálum sjómanna. Þau mál eru engum óviðkomandi og vissulega þurfa þau sífellt að vera í brennidepli ef menn eiga að halda vöku sinni um öryggismál sjómanna almennt. En fyrirspurnin er í þremur liðum eins og er svohljóðandi:
  ,,1. Hvað hafa starfsmenn Landhelgisgæslunnar farið um borð í mörg íslensk skip á miðunum frá ársbyrjun 1992 til þessa dags?
    2. Hvaða helstu athugasemdir hafa komið fram við þessar skoðanir
    a. um öryggisbúnað,
    b. um lögskráningu,
    c. um athugun á veiðarfærum?
    3. Eru dæmi um að sama skip hafi fengið áminningu eða því verið stefnt í land oftar en einu sinni og ef svo er hve oft og þá hve mörg skip?``