Flutningsjöfnunargjald á olíu

55. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 16:07:26 (2561)


[16:07]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Frú forseti. Hv. þm. spyr í fyrsta lagi: Hve mikið magn af gasolíu hefur verið selt um borð í skip samkvæmt undanþáguákvæði 2. mgr. 1. gr. laga nr. 103/1994, um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, frá því að þau lög tóku gildi?
    Lögin tóku gildi 1. sept. sl. og hefur heildarsala olíufélaganna þriggja til erlendra skipa og skipa sem sigla undir hentifánum numið 2,6 millj. lítra sem er um 5% af heildarsölu olíufélaganna á gasolíu.
    Í öðru lagi spyr hv. þm.: Hvernig er sölu til millilandaskipa og erlendra skipa samkvæmt framangreindu undanþáguákvæði háttað í framkvæmd? Olíufélögin hérlendis annast sölu til millilandaskipa og erlendra skipa með afgreiðslutækjum sínum. Skipin eru ýmist afgreidd frá olíuleiðslu, olíubifreið, olíuskipi eða olíupramma. Erlend skip og íslenskt fraktskip í millilandasiglingum, þar á meðal íslensk fiskiskip sem sigla með aflann til útlanda úr íslenskri höfn, eru undanþegin flutningsjöfnun á olíuvörum taki þau olíu innan lands.
    Í þriðja lagi spyr hv. þm.: Falla skip sem gerð eru út af íslenskum aðilum en sigla undir erlendum fána undir þetta undanþáguákvæði laganna? Svarið við þeirri spurningu er að skip sem sigla undir erlendum hentifánum teljast vera erlend skip og falla því undir undanþáguákvæðið.
    Í fjórða lagi spyr hv. þm.: Falla íslensk fiskiskip sem gerð eru út á úthafsveiðar undir framangreint undanþáguákvæði? Svarið við því er að samkvæmt lögunum, sem Alþingi sjálft setti, eru íslensk fiskiskip sem taka olíu í íslenskri höfn eða innan 12 mílna landhelgi ekki undanþegin flutningsjöfnun á olíuvörum. Taki íslensk fiskiskip olíu utan 12 mílna landhelgi telst það ekki sala innan lands og er því undanþegin flutningsjöfnun.