Flutningsjöfnunargjald á olíu

55. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 16:09:35 (2562)


[16:09]
     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir þessi svör. Það sem ég hnaut um er þessi mismunun sem er á fiskiskipaflotanum hvað áhrærir skip undir hentifána sem eru gerð út af íslenskum aðilum.
    Varðandi aðra spurningu mína um hvernig sölu til millilandaskipa og annarra erlendra skipa samkvæmt framangreindu undanþáguákvæði er háttað í framkvæmd er það að segja að sjálfsögðu eru það fiskiskip undir íslenskum fána sem fara í siglingu. Ég hélt að kannski kæmi þá fram í svarinu að eðlilega yrðu þessi skip að leggja fram annaðhvort tollpassa eða eitthvað því um líkt. Hvernig yrði t.d. farið með ef skip mundi hætta við siglingu, þ.e. söluferð, hefði fengið olíu ódýrar en önnur skip vegna þess að það ætlaði í siglingu sem ekkert varð af? Í sjálfu sér er þetta ekki mikið atriði.
    Ég vildi draga fram hverju þetta ákvæði veldur, þ.e. mismununin sem verður innan útgerðarinnar þegar skip eru t.d. send á fjarlæg mið, eru t.d. að veiða í Smugunni. Þangað fara skip sem eru að veiða hlið við hlið og jafnvel sömu eigendur að en annað siglir undir þægindafána og hitt undir íslenskum fána hafa lent í því að mismunandi verðlagning er á olíunni er kaup fóru fram hér innan lands.
    Það er af hinu góða að verðið á olíunni skuli vera orðið með þessum hætti. Ég ætla það og þykist hafa orðið var við það að nú þegar hafi nokkur erlend skip komið hér við og tekið olíu sem þau hefðu ella ekki gert hefði þessum lögum ekki verið breytt og olíuverð lægra sem nemur flutningsjöfnun.