Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 17:36:38 (2570)


[17:36]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Vegna þess sem hv. þm. nefndi að þessir þættir sem tengjast fjárlögum væru seint á ferðinni þá má út af fyrir sig segja að það hefur oft gerst. Í tíð hv. þm. sem ráðherra og formanns hans sem fjmrh. varð að fresta fundum í fjárveitinganefnd í 3--4 daga milli 2. og 3. umr. vegna þess að beðið væri eftir tillögum ríkisstjórnarinnar. Þá var þessi seinkun miklu alvarlegri heldur en nú er og það þekkir hæstv. fyrrv. ráðherra því að hann tók þátt í því sjálfur. En það er út af fyrir sig alþekkt.
    Ég verð að viðurkenna það að ég saknaði þess í ræðu hv. þm. sem lagðist gegn öllum sparnaðartillögum sem hér komu fram og voru kynntar að hann kom hvergi með neina tillögu um sparnað á móti og þó býst ég við að hv. þm. sé á móti því að við aukum ríkissjóðshallann. Ég tel að flestir hv. þingmenn átti sig á því að mikill langvarandi hallarekstur ríkissjóðs er auðvitað hættulegur. Þess vegna sárnaði mér nú það að hv. þm. skyldi ekki í öllum andmælum sínum við hvers kyns sparnaði koma þá með einhvern sparnað á móti.
    Vegna þess sem hv. þm. nefndi í þriðja lagi, og reyndar sá ræðumaður sem talaði á undan honum áðan, að legið hefði við borð að ríkisstjórnin færi frá og efnt yrði til kosninga þá hefur það verið haft eftir áreiðanlegum heimildum að sagt er í fjölmiðlum að annar stjórnarflokkurinn hafi hótað kosningum og þingrofi. En hafi það gerst þá hefur þeim ágæta flokki ekki tekist að koma þeim sjónarmiðum á framfæri við mig því þetta hef ég aldrei heyrt fyrr nema þá í fjölmiðlunum.