Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 17:38:24 (2571)


[17:38]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það hlýtur einmitt að eiga að skilja svar forsrh. þannig að það hafi ekki verið Sjálfstfl. sem hótaði stjórnarslitunum úr því að hæstv. forsrh. hefur ekki af því heyrt. Hann hlyti náttúrlega að vita um það ef það hefði verið hans eigin flokkur sem hefði verið með þær hótanir uppi.
    Ekki ætla ég að hafa miklar áhyggjur af því, hæstv. forseti, hver hefur hótað hverjum og um hvað. En það sem hæstv. forsrh. nefndi hér um að málin hafi oft verið seint fram komin, þá held ég nú að það hljóti að teljast mjög óvenjulegt að ekkert af þeim frumvörpum sem tengjast álagningu skatta eða breyttum forsendum varðandi tekjuhlið fjárlagafrv. hafi legið fyrir fyrr en daginn áður en 2. umr. fór fram um fjárlög. Ég minnist þess aldrei. Það má auðvitað fara í skjöl og bækur út af slíku en ég hef nú starfað í efh.- og viðskn. flest þau ár sem ég hef verið stjórnarandstæðingur núna upp á síðkastið og síðan þekki ég þetta náttúrlega frá hinni hliðinni áður og ég man aldrei eftir því að þær aðstæður hafi verið uppi að menn hafi verið að taka til 1. umr. fyrsta frv. af nokkru sem væntanlega þarf að afgreiða hér fyrir jól sem varða tekjuforsendur fjárlagafrv. og álagningu skatta og gjalda á næsta ári og það var meiningin að ljúka þingi á föstudaginn kemur. Ég held, hæstv. forsrh., að það hljóti nú að liggja í hlutarins eðli að þetta sé ekki góð staða.
    Í öðru lagi er það þannig að það liggja fyrir brtt. Alþb. t.d. frá í skattamálunum í fyrra um verulega tekjuöflun í ríkissjóð til þess einmitt að fara í tekjujafnandi aðgerðir og fara ekki í sumt af þessum skerðingum. Ég get bara nefnt að lækka ekki tekjuskattsprósentu af hagnaði fyrirtækja eins og nú hefur gerst. Ég get nefnt að hafa raunverulegan hátekjuskatt upp á 8% miðað við önnur tekjumörk í stað 5% og ég get nefnt fjármagnstekjuskatt sem við höfum lengi barist fyrir ( Forsrh.: Miðað við hvaða tekjur?) og fleira af þessu tagi. --- Ja, alla vega ekki hækkað þau eins og hæstv. ríkisstjórn er að gera núna sem er náttúrlega ótrúleg hugkvæmni að finna þar hóp sem þurfi á sérstökum stuðningi halda, þ.e. fjölskyldutekjur á milli 400 og 450 þús. og einstaklingstekjur á milli 200 og 225 þús. Ég hélt nú, hæstv. forseti, . . .


    ( Forseti (GunnS) : Ég verð að benda hv. þm. á að ræðutíma hans er lokið.)
    Já, já, ef forseti truflar mig ekki, þá mundi ég bara ljúka með einu orði.
    ( Forseti (GunnS) : Forseti truflar ekki hv. þm. fyrr en ræðutíma hans er lokið.)