Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 18:43:29 (2575)


[18:43]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Hér hafa farið fram ágætar umræður og að mestu málefnalegar. Þó ekki sé við því að búast að yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að stuðla að aukinni atvinnu, stöðugleika og kjarajöfnun mæti eingöngu gleði stjórnarandstöðunnar vegna eðlis stjórnar og stjórnarandstöðu þá er ég samt hissa á því hversu mikið menn hafa fundið þessari yfirlýsingu til foráttu miðað við hversu góðir þættir eru þar. En ég ætla að geyma mér að koma inn á yfirlýsinguna, virðulegi forseti, og byrja á því að nýta hinn skamma tíma til að svara nokkrum fyrirspurnum sem til mín hefur verið beint varðandi það mál sem hér liggur fyrir.
    Ég ætla þá fyrst að svara spurningum sem bárust mér frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, m.a. að það væri ískyggilegt að rekstur væri tekinn í svo ríkum mæli inn í Framkvæmdasjóð fatlaðra og að með sama áframhaldi færi framkvæmdasjóðurinn í rekstur. Einnig vil ég koma inn á önnur atriði sem bárust frá hv. 12. þm. Reykv., Jóhönnu Sigurðardóttur, varðandi bandorminn.
    Það er vissulega þannig að úr Framkvæmdasjóði fatlaðra er hugsað að veitt séu framlög til framkvæmda fyrst og fremst þó svo að áður hafi verið búið að samþykkja heimild til þess að 25% af ráðstöfunarfé væri veitt til reksturs. Ég vil fyrst segja að það er einmitt á samdráttartímum eins og hafa verið núna hin síðustu ár sem er ljóst að við komum að þeim punkti að það er e.t.v. meiri möguleiki að veita til framkvæmda og byggja en að ná þeim rekstri sem svo mikilvægur er til þess að framkvæmdirnar sem slíkar nýtist. Það hefur orðið líka talsverð stefnubreyting í málaflokki fatlaðra. Sú stefnubreyting kom fram í lögunum um málefni fatlaðra sem voru sett fyrir þremur árum og einnig er að verða önnur þróun sem verður að staldra við, m.a. sú þróun að í auknum mæli er sótt á um að fatlaðir eigi möguleika á að dvelja í eigin íbúðum og e.t.v. eigi að staldra við um hríð varðandi byggingu sambýla.
    Í því efni vil ég gjarnan nefna það að í skýrslu sem var skilað hluta sumars um húsnæðismál og

íbúðarmál fatlaðra er lögð mjög mikil áhersla á það að auka þann möguleika að fatlaðir geti búið í eigin íbúðum og þar er lagt til að staldrað sé við með byggingu sambýla og hugað að byggingu íbúða, t.d. svokallaðra æviíbúða þannig að ýmsir geti búið í íbúðunum við mismunandi aðstæður, bæði fatlaðir, aldraðir og ófatlaðir, að það séu sérstakar íbúðir sem séu í boði. Þessi skýrsla kom til ráðuneytisins fyrri hluta sumars og ég býst við að annar fyrirspyrjandinn þekki þá skýrslu mjög vel og þær tillögur sem í henni eru, m.a. að staldra við með byggingu sambýla. Ég er ekki að leggja það til hér og er ekki búin að taka afstöðu til þess hvort það séu réttar tillögur. En það er mjög mikilvægt samkvæmt lögunum sem samþykkt voru um málefni fatlaðra að auka liðveislu skv. 25. og 29. gr. Sú liðveisla er m.a. til þess að auðvelda fötluðum að búa í eigin íbúðum og sú liðveisla er til þess að fatlaðir geti verið á vinnumarkaði, aðstoð við fatlaða á vinnumarkaði.
    Fyrir utan þá liði sem þarna eru nefndir og eru hefðbundnir frá fyrra ákvæði um heimild til að ráðstafa fé til rekstrar, þá er tilgreint í e-lið að heimilt sé að greiða kostnað við þjónustu stuðningsfjölskyldna mikið fatlaðra barna. Þetta er afar mikilvægt atriði. Það er nefnilega þannig að þessi lága greiðsla sem vísað var til áðan hefur gagnast mjög vel til stuðningsfjölskyldna sem eru að taka að sér börn. Það eru gjarnan mikið fötluð börn sem fá ekki þessa aðstoð. Og það er mikilvægt að heimila sjóðnum að gera undanþágu og koma til móts við fjölskyldur mikið fatlaðra barna því góð stuðningsfjölskylda getur verið miklu meira virði en þó að byggðar séu skammtímavistanir. Þetta er þróun sem er að verða núna og mjög mikilvægt a.m.k. að heimila þetta.
    Ég vil líka nefna varðandi það ákvæði að heimila greiðslu kostnaðar vegna sambýla sem hafinn er rekstur á eftir 1. jan. 1995 og það er vísað til Kópavogshælis. Það er hárrétt sem hér hefur komið fram að það hafa staðið til útskriftir mjög lengi á Kópavogshæli og það hefur gengið allt of hægt að koma til móts við þörfina sem þar er. Og það eiga að fylgja stöðugildi með. En það er talið nokkuð víst að á geti skort. Þarna eru fatlaðir einstaklingar af þeirri gerð að það þarf e.t.v. þyngri rekstur. Það er fyrst og fremst verið að heimila að koma til móts við með e.t.v. einu eða tveimur stöðugildum sambýli sem er opnað af þessu tagi. Það er einmitt verið að gera vel við þá sem lengst hafa beðið og mest þurfa á því að halda að tekið sé á í útskriftum og fólk á þessari stofnun komist á sambýli.
    Ég vil líka fyrst verið var að gera þetta atriði tortryggilegt nefna það að þegar lögin um málefni fatlaðra voru sett var lögð mikil áhersla á það að íbúarnir á Kópvogshæli fengu ekki þjónustu samkvæmt lögunum. Þó það væru ekki sjúklingar bara ef þeir byggju á Kópavogshæli þar sem um heilbrigðisstofnun er að ræða. Og þá óskaði félmn. Alþingis eftir því að sett yrði í gang vinna á milli ráðuneyta og starfshópur og tillaga um hvernig hann yrði samansettur til að stuðla að því að aðgerðir yrðu hafnar á Kópavogshæli til að íbúarnir þar ættu rétt á þjónustu samkvæmt lögunum. Sú nefnd var aldrei skipuð en ég er að bæta úr því þessa daga með því að koma henni á þó það sé þremur árum of seint. Hér er verið að taka á málefnum fatlaðra á Kópavogshæli og ég tel að það sé gott mál, meira að segja mjög gott mál.
    Ég hef getið hér um þá stefnubreytingu sem hefur verið að þróast og ég vil einnig geta þess að það er eðlilegt að það komi fram breytt stefna í málefnum fatlaðra. Hún endurspeglast í þessu breytta hlutverki framkvæmdasjóðs sem ég hef reynt að greina frá. Það var heimilað fyrir ári síðan að það væri greitt úr framkvæmdasjóðnum til tiltekinna verkefna á sviði stoðþjónustu, einkum ef þessi viðfangsefni væru til þess fallin að draga úr þörf fyrir byggingu stofnana og þessar breytingar eru einmitt af því tagi.
    Ég býst við að þetta svar mitt hafi skýrt nægjanlega það sem snýr að ákvæðum um framkvæmdasjóðinn og málefni fatlaðra. Hér er ekki verið að taka stórstíg skref til þess að fara að eyða framkvæmdasjóðnum í rekstur.
    Ég vil aðeins víkja að athugasemd um hækkun skattfrelsismarka. Ég skildi hv. 12. þm. Reykv. svo að hún hefði talið að það fjármagn sem færi til að hækka þessi mörk hefði nýst betur á annan veg. Ég veit ekki hvort ég hef skilið þetta rétt en hafi svo verið er ég mjög ósammála því. Ég stóð að því fyrir 2--3 árum að lækka skattfrelsismörkin um 380 kr. á einstakling og það er einhver sú versta aðgerð sem ég hef staðið að og rétt upp höndina með. Þetta er því eitt af þeim ákvæðum sem ég er mjög fegin að eiga þátt í að ýta á rétta braut.
    Aðeins varðandi Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Þar er einmitt nefnt að það hafi skort á um 500 millj. að Innheimtustofnun gæti staðið fyrir sínu hlutverki. Það er alveg rétt að það var gert samkomulag í fyrra um að það yrði að vinna að því og gera úrbætur í málefnum Innheimtustofnunar þannig að útgjöldin yrðu undir 300 millj. kr. Það hafa komið margar athugasemdir að undanförnu um að þessi mál hafi ekki verið til lykta leidd. Þannig er með þessi mál Sambands sveitarfélaga og félmrn. að það er búið að vinna mjög mikið í þeim á undanförnum vikum og í dag var undirrituð ákveðin yfirlýsing fjmrn., félmrn. og fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga. Hún lýtur að því að þessum aðilum hafði verið gert að greiða 600 millj. kr. í Atvinnuleysistryggingasjóð og þessu hafa sveitarfélögin mótmælt. Það hefur verið talsvert unnið í þessu málum að undanförnu og hvernig þau verði leyst. Í morgun var fjallað um þessi mál á samstarfsfundi ríkis og sveitarfélaga og svohljóðandi yfirlýsing undirrituð sem ég ætla að að lesa, með leyfi forseta:
    ,,Átaksverkefni sveitarfélaga til að draga úr atvinnuleysi.
    Ríkisstjórnin mun hverfa frá áformum fjárlagafrv. 1995 um að sveitarfélögin greiði framlög í Atvinnuleysistryggingasjóð en beita sér fyrir því að sjóðurinn hafi áfram ótvíræðar heimildir til að styrkja átaksverkefni sveitarfélaga með sambærilegum hætti og á þessu ári.

    Samband ísl. sveitarfélaga beinir því til sveitarfélaga að á árinu 1995 haldi þau áfram samstarfi við Atvinnuleysistryggingasjóð um átaksverkefni fyrir fólk á atvinnuleysisskrá til að draga úr atvinnuleysi. Stefnt verði að því að slík verkefni verði eigi minni að umfangi en á árinu 1994. Jafnframt verði sveitarfélögin hvött til þess að efna til annarra atvinnuskapandi aðgerða til að draga úr atvinnuleysi á árinu 1995. Til að stuðla að framkvæmd átaksverkefna sveitarfélaga í samstarfi við Atvinnuleysistryggingasjóð, svo og sérstökum aðgerðum í þágu langtímaatvinnulausra, verði komið á fót nefnd fulltrúa fjmrn., félmrn., stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs og Sambands ísl. sveitarfélaga. Nefndin fylgist jafnframt með öðrum atvinnuskapandi aðgerðum sveitarfélaganna.``
    Og það verð ég að segja að ég ber fullt traust til þess að ekki dragi úr þeim verkefnum sem sveitarfélögin muni stuðla að. Það hefur komið fram á fundi með þeim að þau hafa fullan hug á því að gera sitt til þess að vinna að atvinnuleysi og vera með atvinnuskapandi aðgerðir og telja að það sé jafnmikið verkefni. Þá hafa sveitarfélögin verið leyst undan því að greiða 600 millj. til ríkisins sem þau voru skyldug til á síðasta ári svo það hefur ekki allt versnað með breyttu mannahaldi í félmrn.
    Virðulegi forseti. Varðandi Innheimtustofnun sveitarfélaga og þá mun ríkisstjórnin beita sér fyrir lántökuheimild til handa Innheimtustofnun sveitarfélaga fyrir allt að 150 millj. kr. í því skyni að unnt sé að draga samsvarandi úr framlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til stofnunarinnar á þessu ári. Ég ætla ekki að fara ítarlegar í þetta mál, þ.e. tillögur sem fylgja þessari bókun, vegna þess að tími minn er orðinn mjög naumur en þetta er gert í fullri sátt. Sveitarfélögin eru losuð undan greiðslu til ríkisins, í Atvinnuleysistryggingasjóð. Og búið er að leysa a.m.k. um sinn þann vanda sem er varðandi þjónustuframlög til hinna litlu sveitarfélaga sem borið hafa þungann af greiðsluvanda Innheimtustofnunar.
    Virðulegi forseti. Ég var einnig spurð um húsaleigubætur og að þau skerði tryggingabætur og hvers vegna það mál sé ekki í bandorminum. Ég ætla að svara því til að það ákvæði er í lögum um húsaleigubætur og ég hef talið það duga að ákvæðið væri þar. Hins vegar hef ég leitað eftir því við fjmrn. hvort þurfi að setja þetta ákvæði í bandorm og var talið að það þyrfti ekki. Það er enginn ágreiningur um að þetta gildi. Ef ákvæði þarf að koma þarna inn verður það skoðað og þá mun ég beita mér fyrir því að það geti komið inn í meðförum nefndar. Það er ekki verið að víkja frá því að tryggt sé að þessir hlutir skerðist ekki, síður en svo. Ef þarf að skerpa á því þá verður það skoðað.
    Varðandi ýmislegt það sem áætlað er að sparist í Atvinnuleysistryggingasjóðnum þá á að taka á ýmsum reglum og öðrum atriðum en styrkjum til þróunarverkefna. Ég viðurkenni að ég valdi það, þar sem ég erfði þá kvöð að þurfa að spara í Atvinnuleysistryggingasjóði, að fella út styrki til þróunarverkefna enda má um það deila hvort slíkir styrkir eigi að vera annars staðar og að verkefni stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs eigi að vera allt annað en að reyna að átta sig á hvar þróunarstyrkir eigi að vera.
    Virðulegi forseti. Ég ætla að ljúka ræðu minni með tilliti til orða forseta. Ég get þó ekki annað en nefnt það að í þessari yfirlýsingu eru margir góðir hlutir. Ég vísa í 2. lið um samstarf við sveitarfélög um atvinnuskapandi aðgerðir og hef hér lesið yfirlýsingu okkar ráðherra fjármála og Sambands sveitarfélaga þar um. Ég vil líka leggja áherslu á það hversu mikilvægt er að það hafi náðst samstaða um skattlagningu fjármagnstekna og vísa því á bug að þetta skipti ekki miklu máli. Sömuleiðis vil ég sérstaklega hafa orð um að sérstakur hátekjuskattur sé framlengdur. Ég skil það vel að ýmsir þeir þættir sem eru tilgreindir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar séu ekki til þess fallnir að stjórnarandstaðan klappi fyrir því en sum okkar gera það.