Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 19:12:04 (2586)



[19:12]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í frv. til laga um húsaleigubætur, sem var lagt hér fram á 117. löggjafarþingi, kemur skýrt fram í grg. frv. á bls. 15: ,,Húsaleigubótum er ekki ætlað að skerða bætur bótaþega frá Tryggingastofnun ríkisins.`` --- Ekki ætlað að skerða bætur bótaþega. Þetta er náttúrlega miklu afdráttarlausara heldur en ég átti von á vegna þess að það er hægt að túlka uppbótina sem innifelur í sér húsaleigubæturnar sem bótaþegar fá núna sem hluta af félagslegri aðstoð. En það er alveg ljóst að bótaþegarnir fá bætur sínar frá almannatryggingum. Síðan segir, með leyfi forseta: ,,Gert er ráð fyrir því að lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, verði breytt til samræmis við það markmið.``
    Það er ekkert í þessum ráðstöfunum í ríkisfjármálum sem gerir ráð fyrir því að almannatryggingalögunum verði breytt sem gangi til móts við þetta sem hér er stefnt að. (Forseti hringir.) Því hér er þá auðvitað um marklausar tillögur að ræða um 200 millj. kr. niðurskurð í lífeyristryggingum.