Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 19:15:45 (2589)


[19:15]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Nefnd var skipuð af félmrh. til að fjalla um málefni meðlagsgreiðenda og meðlagsmóttakenda og fjárhagsvanda Innheimtustofnunar sveitarfélaga og hún skilaði tillögum 19. október. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því og það er einnig í þeirri yfirlýsingu, sem ég vísaði í áðan að tillögur nefndarinnar er lúta að réttarstöðu krafna, skuldajöfnun og samningum við skuldara komi til framkvæmda sem fyrst til að bæta skil við stofnunina. Þá verður komið á fót nefnd félmrh., heilbr.- og trmrh., fjmrh. og Sambands ísl. sveitarfélaga til að vinna að því að taka aðrar tillögur nefndarinnar til athugunar. Nefndin leggi fram tillögur til úrbóta í málefnum meðlagsgreiðenda og meðlagsmóttakenda sem miði varanlega að því að fjárvöntun Innheimtustofnunar sveitarfélaga verði undir 300 millj. kr. á ári til þess að ekki þurfi framar að taka lán vegna óinnheimtra meðlaga og að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga geti sinnt hlutverki sínu í framtíðinni.
    Virðulegi forseti. Ég vil geta þess að á sama tíma og verið er að koma til móts við sveitarfélögin með því að fella niður 600 millj. kr. greiðslu sem lá fyrir að þau mundu greiða taka þau á sig að taka lán fyrir Innheimtustofnun til þess að jafna þessa hluti.