Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 21:01:01 (2592)


[21:01]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér ástæða til þess að það verði dálítil umræða um þetta frv. til laga um ríkisfjármál sem er í sjálfu sér gamall kunningi og segir svo sem ekki margar nýjar fréttir. Það sem ber nýjast við í málinu er þessi merka yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að stuðla að aukinni atvinnu, stöðugleika og kjarajöfnun eins og hún heitir nú, hvorki meira né minna, og er satt að segja eins og maður hafi heyrt þessa fyrirsögn einhvern tíma áður fyrr á öldinni og síðar líka. Satt best að segja var það þannig að það vildi svo til að ég var einhvers staðar vant við látinn og skrúfaði frá útvarpinu þegar komið var fram í miðjan fréttatíma einn daginn og tók þá eftir því að það var verið að lesa upp niðurstöður um að það ætti að gera eitt og annað gott í þjóðfélaginu, það átti að örva fjárfestingu, afnema tvísköttun lífeyrisgreiðslna, berjast gegn skattsvikum, það átti að efna til samstarfs um lausn á greiðsluvanda vegna húsnæðislána, lækka húshitunarkostnað og það átti að beita aðhaldi í ríkisfjármálum og ég sagði við sjálfan mig eitt augnablik: Hvaða flokkur ætli hafi verið að samþykkja þessa ályktun, vegna þess að það hafa verið að dynja yfir landsmenn ályktanir að undanförnu, misjafnlega ábyrgar ályktanir. Ég held nú að þeir framsóknarmenn hafi komist einna lengst í því og er þá langt til jafnað, viðurkenni ég, að gera ályktanir um mikið milljarðasafn í alls konar útgjöldum en þetta minnti dálítið á svoleiðis tíðindi. Svo kom í ljós að þetta var hin ábyrga hæstv. ríkisstjórn sem hafði gert þessa ályktun. Ríkisstjórnin kom saman á fund og gerði ályktun og má segja að það sé nokkuð frumlegt í sjálfu sér að ríkisstjórnin, sem er fjölskipað stjórnvald, hittist og geri ályktun sem fjölskipað stjórnvald. ( Forsrh.: Hún gaf yfirlýsingu . . .  ) Það mun hafa verið þannig, hæstv. forseti, að það hafi hrikt verulega í samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið. Ég hef heyrt að . . .   (Gripið fram í.) Nei, nei, nei, ég vil ekkert sjá þetta. Ég hef heyrt að Alþfl. hafi talið að hann ætti bara að rjúfa þing og efna til kosninga en áttað sig á því vonum seinna að hann fer ekki með þingrofsvaldið og kannski frétt af því líka að hann var með 4% atkvæða samkvæmt síðustu skoðanakönnun þannig að það var kannski ekki beint viðeigandi að hann væri að hóta í þeim efnum. ( Gripið fram í: Af hverju afhendirðu forseta þetta?) Ég afhenti ritara þetta, þetta er til afgreiðslu. Þetta er ályktunin, hv. þm., fólk í fyrirrúmi, sem hefur verið uppnefnt með ýmsum hætti en verður ekki gert úr þessum ræðustól. Í rauninni verkaði þetta satt að segja sem frekar ábyrgðarlaust plagg, ég segi það alveg eins og er, þegar ég heyrði þetta skjal frá ríkisstjórninni og menn væru með almenn og fögur fyrirheit af ýmsu tagi.
    Síðan kom í ljós að þarna fóru menn nokkuð glannalega satt best að segja með ýmsa hluti í orðalagi og gáfu meira í skyn en nokkur efni stóðu til. Þó stendur alveg upp úr í þeim efnum þessi setning, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ríkisstjórnin hefur ákveðið að persónuafsláttur taki áfram mið af fyrirhugaðri launaþróun fremur en verðlagsþróun og hækki því meira en ella hefði orðið.`` Þessi setning þýðir á mæltu máli að ríkisstjórnin hafi gert ráð fyrir því að skattar yrðu hækkaðir og að skattleysismörk yrðu lækkuð en að ríkisstjórnin hafi komist að þeirri niðurstöðu að það væri skynsamlegt að láta það ekki gerast, skynsamlegt að hækka ekki skatta og skynsamlegt að miða við að skattleysismörkin verði óbreytt miðað við launaþróun því að það er það sem hér er á ferðinni. Þegar menn skoða þær tölur þá er ekki um að ræða nein önnur tíðindi en þau að ríkisstjórnin lýsir því yfir að hún ætlar ekki á kosningavetri að leggja lykkju á leið sína sérstaklega til að hækka skattana. Þakka skyldi. En það eru öll tíðindin. Ég tek eftir því að þessi setning hefur gefist nokkuð vel vegna þess að menn hafa talið að í þessu fælust efnisleg tíðindi en staðreyndin er sú að þetta er hrein blekkingastarfsemi og ekkert annað og það ber að gagnrýna hæstv. ríkisstjórn mjög harðlega fyrir að hafa uppi blekkingastarfsemi af þessu tagi núna í upphafi viðræðna um kjarasamninga.
    Í þessu skjali að öðru leyti eru ýmis tíðindi sem hafa verið gerð ágæt skil en ég tel að þessi málflutningur varðandi skattleysismörkin standi alveg upp úr og og náttúrlega er það þannig að hæstv. ríkisstjórn finnur að skattleysismörkin hafa lækkað svo mikið að það er óhjákvæmilegt að taka á því og það er að verða, mér liggur við að segja, uppreisnarástand í þjóðfélaginu vegna þess að menn hafa keyrt skattleysismörkin svo mikið niður. Það er orðin gríðarleg óánægja með þá hluti út um allt þjóðfélagið og það er satt að segja dálítið merkilegt að það er nokkurn veginn sama hvar maður kemur á vinnustöðum eða annars staðar um þessar mundir að þegar menn eru að tala um hlutina þá er það kannski fyrst og fremst þetta.

Það eru skattleysismörkin og hvað þau hafa hrunið niður í tíð Sjálfstfl. ( Forsrh.: Nei, nei, það byrjaði með ykkur.) Já, þau byrjuðu vissulega . . .   ( Forsrh.: Að stærstum hluta.) Að talsverðu leyti, það er alveg hárrétt en fyrir síðustu kosningar var því lýst yfir af Sjálfstfl. að tekjuskattar yrðu lækkaðir og skattleysismörkin yrðu hækkuð. Það er veruleikinn. Þáverandi stjórnarflokkar 1991 gáfu engar yfirlýsingar um að þeir ætluðu að standa þannig að málum en það gerði Sjálfstfl. og hefur svikið það lóðbeint allt saman eins og það leggur sig og haldið áfram að kýla niður skattleysismörkin allan þennan tíma. Niðurstaðan er núna þannig að ef skattastaðan er skoðuð miðað við það sem var í upphafi þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp þá eru menn að borga sem eru með kannski 75 þús. kr. á mánuði 7--8 þús. kr. meira á mánuði í skatta en ella hefði verið vegna þess hvernig þetta hefur verið kýlt niður á þessum tíma. Og svo kemur þessi göfuga hæstv. ríkisstjórn og segir við þjóðina: Við ætlum að hætta núna. Við erum alveg staðráðnir í að hætta við að hækka skattana mikið meira. Það er nóg komið. Nú ætlum við að taka okkur sjálf í landhelginni og ekki hækka skattana um krónu meira. Og ég endurtek: Þakka skyldi. Þó þeir vakni upp a.m.k. á kosningavetri til þess að átta sig á þessum málum.
    Varðandi önnur atriði sem hér koma fram þá er það býsna athyglisvert og þakkandi í sjálfu sér að ríkisstjórnin skuli vera hætt við að svíkja sveitarfélögin. Það er afskaplega göfugt og ég verð að segja óvænt framlag ríkisstjórnarinnar til þjóðmálaumræðunnar að hún skuli vera hætt við að svíkja sveitarfélögin. Niðurstaðan er sú þegar upp er staðið að hér er um að ræða sýnist mér að það er verið að auka hallann á ríkissjóði með þessum ráðstöfunum upp á 1,5--2 milljarða kr. eftir því hvernig menn skoða það nákvæmlega. Og aðaltilefni þess að ég ákvað að biðja um orðið eru þær geigvænlegu skuldir sem með þessum ákvörðunum er verið að ákveða að ríkið efni til, þær hrikalegu skuldir. Staðan er þannig að í lok ársins 1992 eru skuldir A-hluta ríkissjóðs 150 milljarðar kr. og hafa þá hækkað frá árinu 1991 úr 131 milljarði kr. eða um 18 milljarða á einu ári. Á árinu 1993 hækkuðu þessar skuldir líka líklega í kringum 20 milljarða kr. Ríkið, þjóðarbúið er þannig orðið skuldsett í lok síðasta árs upp á um það bil 170 milljarða kr. Og á þessu ári, 1994, hefur þessi skuldaaukning haldið áfram að hlaðast upp og er bersýnilegt að ef svo fer fram sem horfir og menn eru að gera tillögur um í þessum miklu yfirlýsingum sínum þá má gera ráð fyrir því að skuldir ríkissjóðs, bara A-hluta ríkissjóðs, á þessu ári og í byrjun næsta árs slá einhvern tíma á þeim tíma í um það bil 200 milljarða kr. Það eru skuldir sem við erum að velta af okkur yfir á framtíðina, yfir á þá sem þurfa að bera uppi ríkissjóð framtíðarinnar af sköttum sínum. Það er alveg augljóst mál að ef menn ætla sér að halda hér uppi sjálfstæðu þjóðfélagi á Íslandi, sem við ætlum að gera, þá verða menn að staldra hér mjög alvarlega við.
    Auðvitað er það alveg augljóst mál að menn munu vera með hugmyndir af ýmsu tagi um veruleg útgjöld ríkisins á komandi árum, m.a. til félagslegra verkefna af margvíslegum toga. En það er alveg ljóst að í þeim efnum verða menn að skoða þann veruleika að við erum með tölu sem svarar um það bil tvöfaldri árseyðslu ríkissjóðs í skuldir A-hlutans eins. Mér er spurn: Ætla menn í þessari virðulegu stofnun, hvort sem það er stjórn eða stjórnarandstaða, að láta svo sem ekkert sé í þessum efnum? Vegna þess að þetta er hinn alvarlegi veruleiki, þ.e. hinar heiftarlegu skuldir ríkissjóðs og hvernig þær hafa verið að þróast.
    Ég nefni þetta ekki síst vegna þess, hæstv. forseti, að ég tók eftir því að formaður Alþfl., sem er einn af ráðherrunum í núv. ríkisstjórn eins og alþjóð veit, ( JGS: Hver er það?) Jón Baldvin Hannibalsson, hæstv. utanrrh., hann er ekki hér í kvöld af einhverjum ástæðum, en hann tók tók það sérstaklega fram í fjölmiðlum að þessar tillögur og niðurstöður væru svo einstaklega ábyrgar. Hér væri ekki látið vaða á súðum svona rétt fyrir kosningar eins og hefði stundum hent áður. Hér væri ekki verið að breyta fjmrn. í kosningaskrifstofu, eins og ég held að hann hafi orðað það og var þá að tala um formann Alþb., fyrrv. hæstv. fjmrh. ( JGS: Var það svo?) Þetta voru yfirlýsingar hæstv. utanrrh. í þessum efnum og var ekki nokkur leið að skilja hlutina öðruvísi en þannig að hér væri verið að nálgast málin með allt, allt öðrum hætti. En staðreyndin er sú, hæstv. forseti, að þegar hlutirnir eru skoðaðir þá verður að segja alveg eins og er, þó að hér sé mörgum góðum málum hreyft, að þetta er kosningaleg yfirlýsing svo að ég segi nú ekki meira. Það er ekki nokkur leið að neita því. Það er ábyrgðarleysiskeimur af þessari yfirlýsingu eins og hún lítur út og það er verið að stækka skuldina, skuld okkar við framtíðina og það er hlutur sem við ættum ekki að láta standa okkur að hér í þessari virðulegu stofnun.
    Ég segi það þess vegna, hæstv. forseti, að ég hefði viljað sjá að ríkisstjórnin hefði í þessari yfirlýsingu tekið með einhverjum hætti á þessum vandamálum líka, ýmist með því að spara eða með því að auka tekjur að einhverju verulega marki nema hvort tveggja sé vegna þess að ríkisstjórn sem þorir ekki að takast á við þennan vanda er hætt að vera ríkisstjórn. Ríkisstjórnir eru til þess að taka á erfiðum vandamálum en ekki til þess að láta reka undan eins og menn eru nú að gera.
    Núna næstu daga, hæstv. forseti, mun birtast í þingsölum ríkisreikningurinn fyrir árið 1993. Það verður mjög fróðlegt að fara yfir það hvernig skuldastaða A-hluta ríkissjóðs verður samkvæmt þeim reikningi. Það verður mjög fróðlegt að fara yfir það hvernig skuldirnar hafa vaxið á þessu kjörtímabili. Ég sé ekki betur en það stefni í að menn séu að tala um að skuldirnar hafi vaxið í kringum 40 milljarða króna á þessum tíma sem er nokkuð alvarlegur hlutur miðað við það að menn sögðu í upphafi kjörtímabilsins: Við ætlum að hætta að reka ríkissjóð með halla. Það er sama stjórnin sem situr núna og sú sem sagði: Við ætlum að hætta að reka ríkissjóð með halla. Þetta held ég að sé sá alvarlegi veruleiki sem við stöndum

frammi fyrir. Í aðdraganda kosninganna ættu menn fyrst og fremst að vera að takast á um hvernig best er staðið að því að ná niður þessum vandamálum vegna þess að þessi vandamál framtíðarinnar eru örugglega alvarlegustu vandamálin sem íslenskt efnahagskerfi stendur frammi fyrir. Það eru skuldirnar við framtíðina sem menn eru hér að stórauka með margvíslegum hætti.
    Ég tel reyndar líka, hæstv. forseti, að það séu skuldir við framtíðina að menn skuli ekki þora að forgangsraða í ríkiskerfinu. Að menn skuli ekki þora að taka um það ákvörðun að ákveðnir málaflokkar skuli hafa forgang umfram aðra málaflokka. Ég tel að það sé þannig að ef menn gera það ekki þá séu menn um leið að dæma sig til þess að útgjöldin þenjist út til allra málaflokka, hvort sem það eru menntamál, heilbrigðismál, vegamál, dómsmál eða hvað það nú er. Veruleikinn er sá að við Íslendingar erum á sumum sviðum í útgjöldum á vegum samfélagsins á svipuðum slóðum og aðrar þjóðir. Við erum það t.d. í heilbrigðismálum, að því er varðar hlutfall þjóðarútgjalda til heilbrigðismála þá erum við á svipuðum slóðum og grannþjóðir okkar. Þegar hins vegar kemur að öðrum málaflokkum eins og menntamálum þá er ljóst að þar erum við langt á eftir öðrum þjóðum. Langt á eftir öðrum þjóðum. Þegar við skoðum útgjöld Íslendinga til menntamála miðað við t.d. Svía eða Norðmenn eða Dani þá er alveg ljóst að þar munar mjög miklu. Ef við skoðum útgjöld Íslendinga til menntamála í samanburði við það sem gerist t.d. í Austur-Asíu, í hávaxtaríkjunum í Austur-Asíu sem við vorum að tala um hér um daginn, þá er alveg augljóst mál að Íslendingar eru þar langt á eftir. Auðvitað er það ljóst að um leið og menn tækju ákvörðun um að taka út úr segjum rannsóknir og þróunarverkefni, taka út úr menntamál og skóla og lyfta því þá eru menn að gera hvað? Menn eru að taka ákvörðun um að afla nýrra tekna eða skera annað niður. Vegna þess að það er augljóst mál að það er ekki hægt að ná þessu öllu upp í senn.
    Ég held, hæstv. forseti, þegar grannt er skoðað og vel er farið yfir hlutina að málin séu þannig að það séu tveir þættir sem sé alvarlegast að vanrækja í nútímanum. Það er annars vegar að vanrækja að taka á þessum hrikalegu skuldavandamálum ríkissjóðs. Það tel ég alvarlegan hlut hvernig sem það er skoðað í okkar efnahagslífi. En hinn þátturinn sem við megum ekki vanrækja undir neinum kringumstæðum eru menntamálin vegna þess að þar er líka verið að stofna til skuldar við framtíðina. Ég hvet til þess að menn reyni að þróa efnahagsstefnu þar sem menn hafi þetta hvort tveggja í huga í einu. Annars vegar menntamálin og hins vegar þessar miklu skuldir.
    Hæstv. forseti. Það sem ég ætlaði að fara aðeins yfir í frv. er tillagan um grunnskólann. Hún er ótrúlega sérkennileg þessi tillaga um grunnskólann. Hún er sérkennileg vegna þess að það er búið að vera að flytja hana allt kjörtímabilið, á hverju einasta þingi. Því var lýst yfir af hæstv. menntmrh. að það yrði aðeins einu sinni sem þessi tillaga yrði flutt en það er búið að flytja hana á hverju þingi. Þetta er alltaf sama tillagan. Það er alltaf verið að skera niður, alltaf verið að fresta þessari tímaaukningu í grunnskólanum, alltaf verið að fresta því að fækka eitthvað í bekkjum o.s.frv. En þetta er skrýtið á þessu þingi, hæstv. forseti, fyrst og fremst vegna þess að á þessu sama þingi er liggjandi fyrir frv. í menntmn. um að auka stórkostlega við tíma í grunnskólum og fækka jafnvel í bekkjum í grunnskólum. Alla vega eru menn að gera ráð fyrir verulega auknum útgjöldum til menntamála í því frv. til laga um grunnskóla sem liggur fyrir í menntmn. ( KÁ: Einsetinn skóli.) Þar er verið að tala um einsetinn skóla og skólamáltíðir og guð veit hvað. Nákvæmlega núna þessa daga erum við að fjalla um þetta mál í menntmn. Á sama tíma erum við í fyrsta lagi að fjalla um þetta frv. sem gerir ráð fyrir því að skera niður til grunnskólans frá því sem ella hefði verið á næsta ári um 180 millj. kr. Því það er gert ráð fyrir því að vikustundirnar verði 293 á vorönn í grunnskólum og 299 á haustönn. Það er verið að gera ráð fyrir að skera niður á næsta ári frá því sem ella hefði verið um 180 millj. kr. Þetta er eitt þingmálið.
    Svo er annað þingmál sem verður rætt hér á morgun. Þar er gert ráð fyrir hverju? Gert ráð fyrir því að skera niður í grunnskólanum á næsta ári en samt aðeins minna en í þessu frv.
    Í fjárlagafrv., sem verður fjallað um á morgun, er gert ráð fyrir því að auka við næsta haust um 26,2 millj. kr. með því að bæta við sex vikustundum í grunnskólanum, 26,2 millj. kr. En svo á að skera grunnskólann niður á móti þessu um 40 millj. kr. á næsta ári. Raunverulegur niðurskurður hjá grunnskólanum á næsta ári er 13,8 millj. kr. í staðinn fyrir 26,2 millj. kr. aukningu. Þetta er þingmál eitt.
    Svo er þingmálið sem er grunnskólafrv., sem ég var að tala um áðan sem lofar öllum gulli og grænum skógum. Síðan kemur þetta frv. þar sem er enn um að ræða aðeins öðruvísi áherslur. Ég segi, hæstv. forseti, það er greinilegt að ráðuneytin sem standa á bak við flutning þessara frv. vita ekkert hvert af öðru því það stendur ekki það sama í þessum þremur stjórnarfrv. sem verið er að flytja hér. Það stendur eitt í fjárlagafrv., það stendur annað í frv. um ríkisfjármál og það þriðja stendur svo í grunnskólafrv. Ég held satt að segja að það sé algert lágmark að þeir sem eru að flytja málin, þ.e. ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn, beri þá lágmarksvirðingu fyrir sjálfum sér að þeir reyni að láta hlutina nokkurn veginn ríma saman í þeim stjórnarfrv. sem verið er að flytja í þessari virðulegu stofnun.
    Ég held, hæstv. forseti, að þessir þættir sem hér hafa verið gerðir að umtalsefni, annars vegar skuldir ríkisins og hins vegar skuldin við börnin með lakari skólum en þyrfti að vera, séu einhver alvarlegustu vandamál íslenskra stjórnmála í dag. Það að fá menn til að staldra við þetta er úrslitamál. Hér halda menn eins og gengur ræður um ýmsa hluti og flytja tillögur um ýmsa hluti og allt er gott um það að segja. Vandinn er hins vegar sá að menn fást ekki til þess að lýsa upp einstök svið umfram önnur. Af þeim ástæðum verður pólitíkin kannski ekki alveg eins spennandi og áhugaverð og hún þyrfti að vera því að pólitísk umræða er undirstaða lýðræðisins í landinu.
    Svo að lokum þetta, hæstv. forseti, af minni hálfu. Það er dálítið umhugsunarvert að það skuli koma fyrir á hverju einasta þingi að menn séu svona seinir með þessi frv. Það er dálítið umhugsunarvert. Nú dettur mér ekki í hug fara að sýkna einn eða neinn í þeim efnum, ég geri það ekki, við eigum öll einhverja sök á því að hafa staðið að tillöguflutningi á þinginu allt of seint. Oft hefur þetta verið þannig í samsteypustjórnum hafa flokkar átt mjög erfitt með að koma sér saman um málin og það hefur tekið tíma. Oft hefur þetta líka verið þannig að þetta hafa verið heldur flókin verkefni sem menn hafa verið að taka á og þá hefur það tekið tíma og frv. komið á síðustu stundu og auðvitað verið til vansa hvernig ríkisstjórnir hafa ætlað þinginu að afgreiða hlutina.
    En ég segi alveg eins og er, hæstv. forseti, að ég átta mig ekki alveg á því hvaða pólitísk atriði það eru í þessu frv. sem eru þannig að þau réttlæti hvað það kemur seint fram. Ég sé það ekki. Vegna þess að mig minnir að í fjárlagafrv. sjálfu og greinargerð þess, ég þykist muna það rétt að þessi mál séu öll meira og minna skráð þar. Menn hafa þannig í sjálfu sér þegar í lok september þegar var verið að semja fjárlagafrv. gert sér grein fyrir því að það þyrfti að flytja eitthvert svona frv. Að vísu er ekki hægt að segja það um tekjuhliðina vegna þess að það var tekið fram, ef ég man rétt, í lok semptember eða byrjun október að tekjuhliðin væri af hálfu ríkisstjórnarinnar ekki endanleg. En ég hélt satt að segja að þær forsendur sem var gert ráð fyrir á gjaldahliðinni væru allar inni og fátt eitt hafi bæst við sem réttlæti það að menn séu þetta seinir á ferðinni ( Forsrh.: Það er dottið úr sumt.) með þetta frv. Sumt er dottið úr frá því í haust. Það er út af fyrir sig vafalaust rétt. Hitt held ég að hefði verið betra, og ég vil spyrja af hverju það var ekki gert, ef menn hefðu lagt þetta fram eins og það virtist eiga að verða í haust frekar en að draga þetta svona óskaplega lengi.
    Hér hafa orðið nokkur orðaskipti, hæstv. forseti, með fyrrv. og núv. hæstv. félmrh. Ég ætla í sjálfu sér ekki að blanda mér í þá umræðu þeirra. Hún var mjög athyglisverð. Og sérstaklega að það kemur fram í bréfi sem okkur þingmönnum Reykvíkinga barst að ástandið í málefnum fatlaðra í höfuðborginni væri alveg sérstakt áhyggjuefni og þar þyrfti að taka dálítið mikið öðruvísi á en gert hefur verið á undanförnum árum. Ég tek eftir því að sá sem skrifar undir þetta bréf er framkvæmdastjóri svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík, Ásta María Eggertsdóttir. Með fylgir bréf formanns svæðisráðs málefna fatlaðra í Reykjavík, Guðmundar Ragnarssonar. Þar fer hann nokkrum orðum um vandann í höfuðborginni sérstaklega. Í því bréfi segir, með leyfi forseta:
    ,,Fyrsti liður þess bréfs hlýtur að standa hverjum þingmanni Reykvíkinga nærri. Þar er á áþreifanlegan hátt minnt á hversu höfuðborgin hefur orðið út undan í málaflokki fatlaðra. En það hefur viðgengist í mörg ár.``
    Síðan segir hér, með leyfi forseta: ,,Það er mikið áhyggjuefni hversu seint gengur að byggja íbúðir og hús fyrir fatlaða. Biðlisti eftir búsetu er langur hjá svæðisskrifstofu og lengist. Stöðugt hefur verið klipið af Framkvæmdasjóði fatlaðra og sífellt stærri hluti hans fer í rekstur. Svæðisskrifstofan skorar á þingmenn Reykvíkinga að beita sér fyrir því að Framkvæmdasjóður fatlaðra fari allur í stofnkostnað og að rekstrarverkefnum verði fundin önnur fjáröflunarleið.``
    Síðan segir, með leyfi forseta: ,,Við viljum vekja athygli á því að sérstök klausa í síðustu fjárlögum bannaði að stofnað yrði til nýrra verkefna sem útheimtu nýtt starfsfólk á því ári. Því hefur uppbygging stöðvast, ekki síst í búsetumálum fatlaðra þótt ýmsar tilfærslur hafi verið gerðar innan skrifstofunnar á árinu. Svo hlut Reykjavíkur verði borgið þarf því að fjölga störfum í málaflokknum í Reykjavík á ný.``
    Nú kann það að virðast undarlegt að einn þingmaður Reykvíkinga sem hefur auk þess sýslað með þennan málaflokk skuli alveg sérstaklega taka eftir þessu --- sá sem hér stendur. En ástæðan er kannski einfaldlega sú að svæðisskrifstofa málefna fatlaðra í Reykjavík hefur aldrei tekið svona til orða í bréfi til okkar fyrr. Það er dálítið umhugsunarefni. Hvernig stendur á því að svæðisskrifstofa málefna fatlaðra í Reykjavík virðist allt í einu fá málið núna að því er þetta varðar nema það sé vegna þess að hún telji óhjákvæmilegt að vekja rækilega athygli á þessum málum einmitt um þessar mundir og það verði ekki lengur þagað? Það er fróðlegt, hæstv. forseti, að sjá það bréf sem formaður svæðisráðsins sendi okkur Reykjavíkurþingmönnum núna fyrir nokkrum dögum þar sem koma fram, mér liggur við að segja, hárreisandi lýsingar á aðstæðunum í kjördæminu að því er varðar þennan málaflokk. Þar er fullyrt aftur og aftur að þetta sé mikið lakara hér en annars staðar. Þetta hlýtur náttúrlega að vekja sérstaka athygli okkar þingmanna Reykvíkinga vegna þess að það hefur verið einn af okkur sem hefur haft með þennan málaflokk að gera nú um nokkuð langt skeið. Ég hef satt að segja ekki orðið var við það að félmrn. hafi talið ástæðu til þess að hafa sérstakar áhyggjur af þjónustuþætti fatlaðra í Reykjavík. Ég tel því að hér sé hreyft gríðarlega stóru og alvarlegu máli.
    Í sjálfu sér er kannski ekki ástæða til þess fyrir mig að vera að setja á miklar ræður um þetta hér nema vegna þess að þessu máli er aðeins hreyft í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum þar sem kannski er út af fyrir sig full ástæða til þess að fara yfir það. En ég verð að segja alveg eins og er að mér hnykkti við þegar ég sá í þessu bréfi hvað svæðisskrifstofa fatlaðra í Reykjavík tekur við sér í þessum málaflokki og segir við þingmenn Reykvíkinga: Gjörið svo vel og takið við ykkur og áttið ykkur á því hvernig staðan er í þessum málaflokki. Út af fyrir sig er ástæða til þess úr þessum virðulega ræðustól að þakka svæðisskrifstofunni sérstaklega fyrir að ýta við sínum þingmönnum eins og hér hefur verið gert.
    Út af fyrir sig er kannski dálítið erfitt líka fyrir þingmenn að fara að blanda sér eitthvað í þá umræðu sem var á milli hæstv. félmrh. og fyrrv. hæstv. félmrh. og ég ætla ekki að gera það. Ég get þó ekki neitað því að það vakti nokkra athygli mína þegar fyrrv. hæstv. félmrh. gagnrýndi núv. hæstv. félmrh. fyrir það að hafa ekki fylgt eftir sem skyldi útskriftarstefnunni á Kópavogshæli. Útskriftarstefnan á Kópavogshæli var samþykkt í stjórnarnefnd Ríkisspítalanna fyrir þremur árum. Það hefur afskaplega lítið gerst í þeim málum núna undanfarin ár. Því miður. En það er dálítið magnað að hugsa til þess bara sem mynd af íslenskum stjórnmálum að það skuli vera þannig að þegar einn ráðherra hættir að vera það þá geti hann snúist gegn sjálfum sér með harðri gagnrýni úr þessum ræðustól og frammi fyrir þjóðinni allri vegna þess að allt hefur verið vanrækt sem viðkomandi persóna átti að gera þegar hún var í viðkomandi ráðuneyti. Þetta er dálítið umhugsunarefni um stjórnmálaumræðuna á Íslandi ef hlutirnir eru þannig að menn eru aldrei teknir upp í lexíunum og gáð hvað þeir kunna og hvað þeir hafa gert, heldur fá menn að geipa um hlutina rétt eins og þeir hafa aldrei komið nálægt þeim og séu fæddir í gær, í fyrsta lagi í fyrradag en ekki fyrir sjö árum. Ég tók þess vegna glöggt eftir því þegar verið var að gagnrýna núv. hæstv. félmrh. í sambandi við útskriftarstefnuna fyrir Kópavogsheimilið sem samþykkt var í stjórnarnefnd Ríkisspítalana fyrir mörgum árum.
    Um það ætla ég í sjálfu sér ekki að fjölyrða sérstaklega hér og heldur ekki einstaka þætti í þessu frv. Ég átti leið í ræðustólinn fyrst og fremst af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi af þeirri ástæðu að mér stendur stuggur af þeirri ofboðslegu skuldasöfnun sem ríkissjóður stendur frammi fyrir upp á jafnvel í kringum 200 milljarða kr. um eða upp úr næstu áramótum. Það eru tveggja ára tekjur sem færu í það að borga skuldir ef við ætluðum að borga þær upp. Í öðru lagi þetta með skólana sem ég tel að sé sams konar vandamál því það er hvort tveggja skuld við framtíðina sem við erum að tala um.
    Ég ætla að geyma mér það þangað til kemur að umræðum um ríkisreikninginn og fjárlögin hvernig þeir hlutir líta út vegna þess að það er makalaust að upplifa það aftur og aftur í þessari virðulegu stofnun að þær tölur sem menn eru með í fjárlögum á hverju ári eru ævinlega allt aðrar í ríkisreikningi. Það er ævinlega verið að taka um það ákvörðun hér að fjárlagahallinn megi alls ekki verða meiri en, segjum 10 milljarðar eða svo. En svo gerist það þegar ríkisreikningurinn er gerður upp að þá kemur venjulega upp allt önnur tala. Það er auðvitað vegna þess að ríkisreikningurinn er gerður upp á allt öðrum grunni en fjárlögin.
    Það eru tvær tölur, hæstv. forseti, sem ég ætla aðeins að vekja athygli þingheims að lokum á þar sem skakkar um 4 milljörðum sjálfkrafa, án þess að ríkisstjórnin geri neitt til að hækka tölurnar. Þær bara munu hækka og það vita allir að þær munu hækka. Önnur er lífeyrisupphæðin í fjárlagafrv. Í fjárlögunum er lífeyrisupphæðin væntanlega í kringum 1 milljarð kr. eða þannig var hún í fyrra. Þegar upp var staðið samkvæmt ríkisreikningnum fyrir árið 1993 þá reyndist upphæðið vera miklu hærri eða þrisvar sinnum hærri. Vegna hvers? Jú, vegna þess að þá tóku menn inn í ríkisreikninginn allar áfallnar skuldbindingar en ekki bara það sem þurfti að borga út í lífeyri opinberra starfsmanna á því ári.
    Eins er það líka með aðra tölu sem heitir ,,Lántökur ríkissjóðs``. Hún er t.d. á árinu 1993 í kringum 10 milljarðar kr. En niðurstaðan í ríkisreikningi er ekki 10 milljarðar, hún er 13 milljarðar. Það er ekki vegna þess að ríkisstjórnin hafi ákveðið í millitíðinni að hækka skuldirnar um 3 milljarða. Það er ekki vegna þess heldur vegna þess að þegar ríkisreikningurinn er gerður upp þá eru teknar inn allar áfallnar skuldbindingar ríkisins en ekki bara það sem þarf að svara út og borga vegna aukins halla ríkissjóðs. Það er því þannig, hæstv. forseti, að jafnvel þó að fjárln. og Alþingi rembist eins og rjúpan við staurinn við að koma saman sæmilegum fjárlögum á hverjum tíma þá er niðurstaðan alltaf sú í ríkisreikningnum að hann er mörgum milljörðum króna hærri af því að þar eru menn að tala um allt annan grunn en þann sem við erum með.
    Þetta leiðir hugann að því að við erum núna nýlega búin að fá niðurstöður ríkisreikningsnefndar sem er einhver allra merkasta nefnd sem sögur fara af, hún er búin að starfa svo lengi. Ég bað um það að á síðasta þingi að við fengjum mynd af þeirri nefnd við tækifæri, helst litmynd, vegna þess að hún hefur verið svo lengi að komast að niðurstöðu. Nú er hún búin að komast að niðurstöðu og það er fagnaðarefni. Hún er búin að gera tillögur sem ég vona að verði farið eftir og ég vona að menn átti sig líka á því að það verður byltingarkennd breyting á ríkisreikningnum og fjárlögunum frá og með árunum 1997 eftir því sem tillögur ríkisreikningsnefndar eru. Þetta síðasta varðandi mismunandi grunn fjárlaga og ríkisreiknings er ég að nefna hér vegna þess að það sýnir vel hvað pólitíkin er að mörgu leyti erfið í þessu máli og ekki gagnsæ. Hlutirnir eru ekki ljósir, ekki gagnsæir sem gerir það að verkum að stjórnmálamenn eru oft að tala um allt aðra hluti en liggja í efni málsins. Það er slæmt, ekki bara fyrir stjórnmálamennina heldur líka fyrir pólitíkina í heild.
    Hitt voru hins vegar aðalatriðin sem ég vildi nefna hér, hæstv. forseti, varðandi heildarskuldir ríkisins og menntamálin sem ég tel að séu af sama toga spunnin, hvort tveggja eru skuldir við framtíðina. Það er það versta við þá niðurstöðu sem liggur fyrir í þessu frv. og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að það er ekki tekið á þeim vandamálum að neinu leyti.