Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 21:41:48 (2594)


[21:41]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst satt að segja ekki aðalatriðið í þessu máli, ef við setjum hlutina í það samhengi sem ég var að reyna að gera, hvernig hlutirnir hafa verið í einstökum atriðum heldur að setjum okkur það að búa til stjórntæki, bæði varðandi uppsetningu fjárlaga og ríkisreiknings, sem eru með þeim hætti að það séu alvöru stjórntæki og að við sjáum hvað við skuldum og til hvaða skulda við stofnum. Ég tel að það eigi líka við um stofnun eins og t.d. Framkvæmdasjóð og Atvinnutryggingasjóð. En menn geta í sjálfu sér að því er varðar hina pólitísku ábyrgð farið yfir þá hluti og ég geri ekki ráð fyrir því að við náum neinni samstöðu um þá, ég og hæstv. forsrh. í þessum andsvaratíma enda tel ég í sjálfu sér ekki efni til þess. Ég bendi hins vegar á varðandi þá lántöku sem hæstv. forsrh. var að tala um frá árunum 1980--1983 að það er augljóst mál að ef við þá hefðum verið búin að koma upp því kerfi í ríkisfjármálum, sem m.a. var komið upp í tíð síðustu ríkisstjórnar með fjáraukalögum og reglulegum ríkisreikningum, þá hefðu menn séð þessa lántöku og afleiðingar hennar birtast strax, ef þær eru eins og hæstv. forsrh. rakti áðan. Ég kann út af fyrir sig ekki að svara fyrir því ég þekki málið ekki í einstökum atriðum.
    Munurinn á ríkisreikningsmálunum núna og fjáraukalagamálunum núna og því sem var um skeið er eins og svart og hvítt og ég tel að í síðustu ríkisstjórn hafi þáv. hæstv. fjmrh. tekið mjög myndarlega á því að breyta þeim hlutum úr margra ára óreiðu, sem er alveg öruggt mál að Sjálfstfl. kom einhvern tímann nálægt.