Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 22:55:08 (2601)


[22:55]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins svara nokkrum atriðum sem sérstaklega var vikið að í ræðu hv. þm. Auðvitað geta menn endalaust deilt um tölur. Við höfum þar aðila til að skera þar úr um. Annar aðili fjallar um ríkisbúskapinn og heitir Ríkisendurskoðun. Úttekt Ríkisendurskoðunar á sparnaði hins opinbera í heilbrigðismálum frá því að þessi ríkisstjórn tók við liggur fyrir. Hv. þm. þarf ekki annað en rifja upp það sem þar segir til þess að ganga úr skugga um hver niðurstaðan hefur orðið fyrir ríkisvaldið. Í aprílmánuði sl. kom út skýrslan Úr þjóðarbúskapnum, sem var gefin út af Þjóðhagsstofnun. Þar leggur Þjóðhagsstofnun mat á samanlögð heilbrigðisútgjöld þjóðarinnar allrar. Þar segir Þjóðhagsstofnun að á árinu 1991 til ársins 1993 hafi heildarútgjöld Íslendinga til heilbrigðismála lækkað um á sjötta þúsund kr. á hvert mannsbarn á öllu landinu. Á sama tíma vorum við að taka í notkun 130 ný hjúkrunarrúm fyrir öldrunarsjúklinga, 6 nýjar heilsugæslustöðvar, við vorum að taka í notkun Sogn, við vorum að taka í notkun glasafrjóvgunardeild, við vorum að auka hjartaaðgerðir um 60%. Þ.e. að á sama tíma og þessi árangur náðist í heildarsparnaði fyrir þjóðina vorum við að auka mjög þjónustuframboð í heilbrigðiskerfinu. Ég ætla ekki að rífast við hv. þm. um þessi atriði. Ég bendi honum einfaldlega á að líta á úrskurði þeirra aðila sem gerst

þekkja og um þessi mál fjalla og liggur nú fyrir og frekari deilur ætla ég ekki að hafa við hann.
    Hvað varðar þau atriði er snerta afgreiðslu fjárlaga og hann spurðist fyrir áðan vísa ég einfaldlega til þess að verið er að afgreiða fjárlög. Það liggja fyrir tillögur til 2. umr. Innan skamms koma tillögur til 3. umr. Þar mun þeim spurningum sem hann lagði fram verða svarað, þau tengjast fjárlagaafgreiðslunni og þeim verður svarað á réttum stað og réttri stundu. Réttur staður er Alþingi Íslendinga, rétt stund er þegar fjárlagaafgreiðsla fer fram.