Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 23:44:21 (2608)


[23:44]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. var seinheppinn að nefna virðisaukaskatt sérstaklega því að Framsfl. var andvígur því sem frægt er orðið um land allt að matarskatturinn skyldi lækkaður. Auðvitað hafði það mikla þýðingu fyrir ferðaiðnaðinn að matarskatturinn skyldi lækkaður. Mér fannst skorta yfirsýn og víðsýni hjá hv. þm. þegar hann áttar sig ekki á því að það skiptir margfalt meira máli hvort raungengið er rétt skráð sem munar um 20% eða hvort einhverjir aurar fara til Ferðamálaráðs sem ég geri ekki lítið úr. En það skiptir meira máli. Og þegar aðstöðugjöld eru lækkuð og matarskattur er lækkaður, þegar það er festa og

stöðugleiki og vinnufriður þannig að ferðamenn séu öruggir með bókanir hér til landsins. Þetta skiptir miklu meira máli og nemur milljörðum króna. Því er alls ekki hægt að segja það og bera á borð að ríkisstjórnin sé ekki trú þeim sjónarmiðum sínum að vilja stuðla að styrkri ferðaþjónustu. Það hefur hún einmitt gert og ferðaþjónustan hefur vaxið og dafnað og skilað milljörðum í ríkissjóð til baka. Það er þetta sem skiptir máli.
    Hv. þm. og stundum flokkur hv. þm. skilja ekki að það eru einmitt hinar almennu aðgerðir sem leggja hinn trausta grundvöll en ekki styrkir úr sjóðum og þess háttar hlutir sem eru að verulegu leyti hlutir fortíðarinnar. Það er hinn almenni grundvöllur sem lagður hefur verið réttilega sem skiptir meginmáli og það hefur gerst varðandi ferðaþjónustuna.