Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 01:11:38 (2629)

[01:11]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þessi furðulegi málflutningur verður í æpandi mótsögn við það sem stendur í fjárlagafrv. Það stendur ósköp einfaldlega í fjárlagafrv. á bls. 361, með leyfi forseta, :
    ,,Áformað er að leita eftir samkomulagi við sveitarfélögin`` o.s.frv.
    Hvað þýðir þetta? Það þýðir að það eigi að leita samkomulags og það gerist ekki einhliða. Það er hins vegar rétt að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 600 millj. kr. í Atvinnuleysistryggingasjóð og þannig er fjárlagafrv. alltaf sett fram. Það eru áform og áætlanir. Það er skylt fyrir fjmrh. á hverjum tíma að setja áform og áætlanir fram, svo er það þingsins endanlega að ákveða hvað kemur inn í frv. þegar það verður að fjárlögum. Það hefur aldrei staðið annað til en að leita samkomulags og gera samkomulag. Þetta er nýlunda og hefur verið gerð í tíð núv. ríkisstjórnar, var ekki gert í tíð ríkisstjórna þar á undan og það hefur verið virt af báðum aðilum. Það var tekið fram í samkomulaginu sem gert var fyrir ári síðan að það yrði að leita samkomulags og við það hefur verið staðið. En það er ekkert að því og aldrei staðið annað til en að setja fram áform á báða bóga.
    Gott dæmi þar um er einmitt það sem leystist líka í dag þegar ríkisstjórnin annaðist þá milligöngu að ná láni fyrir Innheimtustofnun sveitarfélaga til að hægt væri að standa við það sem jöfnunarsjóðurinn þarf að standa við. Það er gert í fullkomnu samkomulagi án þess að það hafi legið nokkrar skuldbindingar á ríkinu. Það eru dæmi um vinnubrögð sem sveitarfélög og ríkisvaldið vilja standa að og hefur verið til

fyrirmyndar í þessari ríkisstjórn hverju sem hv. stjórnarandstæðingar reyna að halda fram í þessu efni.