Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 01:13:48 (2630)


[01:13]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Staðreyndin er sú að samskipti ríkisvaldsins við sveitarfélögin á þessu kjörtímabili hafa verið með endemum. Það er einmitt vegna þess að ríkisstjórnin hefur með þingmeirihluta sínum ítrekað beitt valdi og níðst á sveitarfélögunum í landinu sem hafa lent í þeirri varnarstöðu sem raun ber vitni. Það stendur að vísu í grg. frv. að það sé áformað að leita eftir samkomulagi um þessar 600 millj. en þessar 600 millj. eru inni í tekjuforsendum frv. Það er gert ráð fyrir þeim til að fjármagna Atvinnuleysistryggingasjóð á næsta ári. Hver er það sem leggur fram fjárlagafrv., hæstv. forseti? Það er ríkisstjórnin í krafti þingmeirihluta síns sem hefur þar með lagasetningarvaldið í hendi sér. Reynslan frá undanförnum árum veldur því að þegar forsvarsmenn sveitarfélaganna sáu þetta plagg þá sögðu þeir: svik, vegna þess að það var áður búið að pína þá til greiðslu slíkra fjármuna, samanber lögguskattinn fræga. Þessu kemst hæstv. fjmrh. ekkert frá. Sveitarfélögin fóru þar af leiðandi út á þá braut eftir reynsluna af samskiptum sínum við ríkisstjórnina sem hafði ítrekað beitt valdi í þeim samskiptum að þau reyndu að semja þessa vá af höndum sér með samkomulaginu í fyrra. Þeim mun furðulegri var þessi framlagning fjárlagafrv. eins og það var. Auðvitað gat það ekki gerst að slíkt undirritað samkomulag yrði svo svikið, það hlaut að vera. Þannig að fjmrh. er gerður afturreka með áform sín um að ná þessum peningum af sveitarfélögunum. En sagan liggur fyrir og hvernig þessi samskipti hafa verið á þessu kjörtímabili og það er að snúa hlutunum algjörlega á haus að reyna að tala um það að þetta hafi verið alveg sérlega jákvæð og merkileg samskipti og í góðum anda allan þennan tíma. Ætli það sé ekki þannig að meira að segja sjálfstæðismanninum sem veitt hefur Sambandi sveitarfélaga forstöðu hefur reynst óhjákvæmilegt að nota býsna stór orð á köflum um samskipti sín einmitt við þessa ríkisstjórn?