Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 01:35:18 (2634)


[01:35]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þarna er um að ræða stefnuyfirlýsingu en þannig er að það eru mörg mál af hálfu ríkisstjórnarinnar í undirbúningi. Ekki eingöngu það sem hv. þm. nefndi sérstaklega í ræðu sinni áðan varðandi fjárfestingu og þær viðræður sem hafa farið fram milli sjútvrh. og iðnrh. en ég á ekki von á öðru en að þar náist fullt samkomulag. Síðan eru ýmsir aðrir þættir í burðarlið og í undirbúningi hjá ríkisstjórn. Það er of fljótt að segja til um það nákvæmlega hvenær þeir hlutir skýrast en ég tel að betra sé að vera varkár í fullyrðingum í þeim efnum en að vera með sverar yfirlýsingar eins og var lenska hér fyrir nokkrum árum um væntanlegar fjárfestingar á hinum og þessum sviðum sem síðan varð ekkert af. Það er því margvíslegur undirbúningur í gangi af því tagi sem ég vona að muni skýrast fljótlega en að öðru leyti er þetta stefnuyfirlýsing.