Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 02:10:32 (2639)


[02:10]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin en ekkert var á þeim að græða. Ekkert kom fram um húshitunarmálin sérstaklega og ég endurtek spurningu mína um það mál: Hvað er í 13. tölul.? Hvað er verið að segja við fólk á þessum svokölluðu köldu svæðum? Ég vil fá að vita það. Hæstv. fjmrh. upplýsti það ekki með hálfu orði og þó hann hafi bara tvær mínútur hefur hann örugglega lag á því að koma því til skila ef það er eitthvað sem er í þessu. Ég held að það sé ekkert í þessu. En hvað er það?
    Í öðru lagi nefndi hann greiðsluaðlögun heimilanna vegna erfiðrar skuldastöðu heimilanna. Ég fékk ekkert út úr þessu svari. En ég skil þetta þannig að verið sé að drepa málinu á dreif. Hæstv. ráðherra sagði reyndar áðan: fyrst og fremst húsnæðismál. Í yfirlýsingunni stendur að húsnæðismál séu nefnd sérstaklega og greiðsluerfiðleikar vegna þeirra. Það er ekki nógu gott. Sú yfirlýsing sem þar er getur falið það í sér að menn ætli að lána fólki í greiðsluerfiðleikum ný húsbréf á sömu kjörum og menn eru að kikna undan. Það leysir engan vanda. Þess vegna hlýt ég að spyrja: Er þess að vænta að niðurstaða úr þessu starfi fáist alveg næstu daga að því er varðar greiðsluaðlögun vegna skuldastöðu heimilanna? Ef það er ekki og ekki er hægt að koma einhverju átaki í þessu efni inn í fjárlögin fyrir árið 1995 eins og fyrrv. hæstv. félmrh. reyndar lýsti yfir eru menn að ganga á bak orða sinna að því er þessa hluti varðar einhvers staðar í ríkisstjórninni.