Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 13:39:08 (2642)


[13:39]
     Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigbjörn Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Samkvæmt þjóðhagsáætlun sem lögð var fram á haustdögum má víða sjá batamerki í efnahagslífinu. Útflutningur vöru og þjónustu hefur aukist verulega á þessu ári. Afgangur er á viðskiptum við önnur lönd og umsvif í þjóðarbúskapnum fara vaxandi. Jafnframt ríkir stöðugleiki í verðlagsmálum og betur horfir í atvinnumálum en áður þótt þar sé enn við ramman reip að draga.
    Batann má skýra með ýmsum ástæðum. Aukinn útflutningur sjávarafurða vegur þungt en víða annars staðar má einnig sjá vöxt. Þannig virðist útflutningsiðnaður vera að ná sér á strik, ferðaþjónusta er í örum vexti og ýmsar samkeppnisgreinar hafa sótt í sig veðrið á heimamarkaði. Vöxturinn kemur því fram á mörgum sviðum sem sýnir að hagstæð almenn skilyrði í þjóðarbúskapnum geta áorkað miklu. Þessi umskipti í almennum skilyrðum eiga sér bæði innlendar og erlendar skýringar. Betri tíð í alþjóðaefnahagsmálum skiptir miklu þar um. Eftirspurn og umsvif í helstu viðskiptalöndum Íslendinga hafa aukist verulega að undanförnu. Þetta kemur innlendum framleiðendum útflutningsvöru og ferðaþjónustu til góða. Ekki skiptir síður máli að stjórnvöld hafa fylgt aðhaldssamri efnahagsstefnu og aðilar vinnumarkaðarins hafa lagt raunsætt mat á þjóðhagsleg skilyrði. Þetta tvennt hefur skapað grundvöll fyrir stöðugleika í þjóðarbúskapnum.
    Mikilsverður árangur hefur náðst á sviði efnahagsmála á undanförnum árum. Enginn vafi leikur á að höfuðviðfangsefni hagstjórnar á næstu árum verður að festa í sessi stöðugleikann og leggja um leið grunn að varanlegum framförum og hagvexti. Í því efni vegur þyngst að stjórn ríkisfjármála og peningamála stuðli að því að viðhalda jafnvægi í þjóðarbúskapnum og kjarasamningagerðin sem nú fer í hönd verði til lykta leidd á forsendum sem samrýmast þjóðhagslegum skilyrðum.
    Það er tvennt öðru fremur sem þarf til varanlegs hagvaxtar hér á landi hvað sem líður íslenskri hagstjórn og erlendri. Annars vegar þarf aðgang að mörkuðum og hins vegar hagvöxt í markaðslöndum. Fyrra skilyrðið er nú betur uppfyllt en fyrr því að samningur um Evrópska efnahagssvæðið og GATT-samningur ættu að tryggja íslenskum útflytjendum greiðari aðgang að helstu mörkuðum og betri viðskiptakjörum en áður. Þessir viðskiptasamningar ná ekki einungis til viðskipta með vörur heldur einnig með þjónustu og til hreyfingar fjármagns og vinnuafls. Í þeim felst framhald þeirrar þróunar sem hófst á 6. áratugnum og hefur haft í för með sér öran vöxt frjálsra milliríkjaviðskipta og vaxandi samkeppni sem hefur borið uppi hagvöxt og batnandi lífskjör. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir fámenn ríki eins og Ísland að þjóðaréttarsamningar séu í gildi á sviði efnahagsmála og viðskipta því að þau ná aðeins að njóta sín í krafti laga og réttar en ekki valds. Nú þegar nokkur aðildarríki EES, önnur en Ísland, eru á leið inn í Evrópusambandið er mikilvægt að Íslendingar kanni af yfirvegun og án tafar alla kosti sem þeir eiga í þessari nýju stöðu. Markmiðið hlýtur jafnan að vera að tryggja íslenskum þegnum sem best tækifæri til framfara og sjálfstæðrar tilveru, bæði efnahagslega og stjórnarfarslega. Við breyttar samgöngur og samskipti verða kjör fólks ekki tryggð nema með milliríkjasamstarfi.
    Síðara ytra skilyrði til framfara á Íslandi, hagvöxtur í markaðslöndum, er ekki jafnaugljóslega uppfylltur um þessar mundir og hið fyrra. Þó bendir margt til þess að botni í þeirri efnahagslægð sem ríkt hefur í heiminum hafi víðast hvar verið náð annars staðar en í sumum löndum Austur-Evrópu.
    Horfur virðast vera á um það bil 3% hagvexti í OECD-ríkjunum á komandi ári. Þjóðhagsáætlun fyrir Ísland gerir ráð fyrir 1,4% hagvexti. Það er einnig jákvætt fyrir efnahagsspár alþjóðastofnana um þessar mundir að búist er við því að verðbólga fari áfram hjaðnandi í flestum ríkjum. Eftir öllu þessu að dæma ætti efnahagslegt ytra umhverfi okkar Íslendinga að verða fremur hagstætt næstu árin. Því meira reynir á að hyggilega sé búið heima fyrir. Á líðandi ári gætir að sjálfsögðu áhrifa aflatakmarkana í þorskveiðum en ýmis önnur skilyrði hér heima hafa reynst hagstæð. Raungengi er lágt, vextir mun lægri en áður og skattar á fyrirtækjum eru einnig lægri. Allt ætti þetta að hvetja til aukinnar framleiðslu og útflutnings. Vissulega hafa þó síðustu daga verið svört teikn á lofti og á ég þá við mælingar á loðnustofni eða hvarf loðnunnar.
    Óvissa ríkir um afla á fjarmiðum og landanir erlendra veiðiskipa. Það er þó engin ástæða til þess að búast við því að það verði með öðrum hætti á komandi ári en verið hefur á því ári sem nú er senn liðið. Þegar til lengri tíma er litið er þó mikilvægt að hvetja til nýsköpunar, einkum í útflutningsgreinunum, eins og ég vík nánar að síðar. Í því efni er ekki síst mikilvægt að halda opnum mörkuðum fyrir vöru og þjónustu og fjármagn. Að því má leiða sterk rök að lokaður fjármagnsmarkaður komi síður að sök meðan hagvöxtur byggist umfram allt á tiltölulega augljósum og auðteknum kostum við nýtingu náttúruauðlinda. Þegar kemur að nýtingarmörkum auðlinda og hagvöxtur verður að byggjast á hátækni og markaðssókn í alþjóðlegri samkeppni ættu aðstæður á markaði og viðskiptafrelsi hins vegar að skipta meira máli. Við Íslendingar stöndum einmitt við slík mörk um þessar mundir. Það er mikilvægt að umbótum á fjármagnsmarkaði verði haldið áfram. Opinn fjármagnsmarkaður er sérstaklega mikilvægur fyrir vaxtarskilyrði smárra og miðlungsstórra fyrirtækja sem helst gefa von um nýsköpun og hagvöxt á næstu árum. Takist þetta vel ættu Íslendingar að geta náð hagvexti á næstu árum a.m.k. til jafns við aðrar OECD-þjóðir þar sem víðast hvar er spáð um það bil 3% árlegum hagvexti til aldamóta.
    Í ríkisfjármálum blasir það eðlilega verkefni við að eyða halla ríkissjóðs í áföngum á nokkrum

árum. Halli í opinberum búskap þrengir að innlendum lánsfjármarkaði og verði hann viðvarandi mun hann leiða til hærra vaxtastigs en samrýmst getur viðunandi hagvexti. Þess vegna ber brýna nauðsyn til að ná jafnvægi í ríkisrekstri. Ég fór nokkrum orðum um nauðsyn þessa við 3. umr. fjárlaga fyrir réttu ári.
    Með því frv. sem hér er til umræðu fylgir efnismikil greinargerð um þetta efni. Um það þarf ekki að hafa frekari orð að sinni.
    Fyrir fáum missirum höfðu samtök launþega uppi spár um að yrði ekkert að gert mundi atvinnuleysi stefna í tveggja stafa tölu og fara jafnvel upp í um 20%. Því fer betur að þetta hefur ekki gengið eftir vegna þess að í samráði við aðila vinnumarkaðar hefur ríkisstjórnin gripið til aðgerða á undanförnum árum. Fyrirtæki búa við lægri skatta en verið hefur og fyrirtæki og almenningur búa við lægri vexti. Virðisaukaskattur var lækkaður á matvæli og aðstöðugjöld voru numin í brott. Auk þess hafa verið sérstök framlög til atvinnuskapandi verkefna og ýmissa verklegra framkvæmda og sumt af því hefur jafnframt verið í samvinnu og samráði við sveitarfélögin í landinu. Þannig mætti nokkuð áfram telja.
    Vissulega hefur halli ríkissjóðs aukist með þessum aðgerðum umfram það sem ráð var fyrir gert. Hins vegar töldu stuðningsmenn ríkisstjórnar hér á hinu háa Alþingi að nauðsynlegt væri að bregðast við með þessum hætti til að koma í veg fyrir enn meiri vanda. Það hefur með réttu gjarnan verið sagt að það sé eitt af hlutverkum ríkisvaldsins að halda uppi atvinnu. Við erum hins vegar eflaust ekki öll sammála um á hvern hátt ríkisvaldið eigi að halda uppi vinnu. Í mínum huga á ríkisvaldið fyrst og fremst að halda uppi atvinnustigi með þeim hætti að skapa skilyrði til þess að atvinnulífið fái viðgengist með heiðarlegum og eðlilegum hætti og sömuleiðis á ríkisvaldið að stuðla ötullega að nýsköpun í samfélaginu.
    Nú um helgina birtist yfirlýsing ríkisstjórnar um aðgerðir til að stuðla að aukinni atvinnu, stöðugleika og kjarajöfnun. Sú yfirlýsing hefur vakið mikla athygli, enda kannski merkasta pólitíska yfirlýsing í langan tíma hér á landi. Menn hafa fyrst og fremst í umræðum sínum um þessa yfirlýsingu rætt um tekjuþáttinn sem kannski verður að teljast eðlilegt. Miklar umræður hafa verið í samfélaginu nú á þessu ári þar sem samkvæmt lögum skyldi hátekjuskattur felldur niður. Í þessari yfirlýsingu kemur fram að snúið er til baka og samstaða meðal ríkisstjórnarflokkanna um að viðhalda hátekjuskatti.
    Það hafa einnig orðið miklar umræður um fjármagnstekjuskatt sem ég hef marglýst yfir að ég telji mikið réttlætismál að komið verði á. Það er hins vegar ljóst að af því getur ekki orðið á komandi ári. Hins vegar tel ég að ekki leiki vafi á að fjármagnstekjuskatturinn muni verða við lýði þegar á árinu 1996. Til þess að vinna að því að fjármagnstekjuskatturinn verði settur á hefur þegar verið óskað eftir því við alla þingflokka og aðila vinnumarkaðar að tilnefna í nefnd til þess að vinna að þeim undirbúningi. Nú þegar eru til mikil gögn og miklar upplýsingar um útfærsluleiðir varðandi fjármagnstekjuskatt en víðast hvar í nágrannalöndum okkar er slík skattheimta við lýði.
    Verkalýðssamtökin hafa mjög kallað eftir þessari skattlagningu svo og margir þeirra flokka sem nú starfa hér á hinu háa Alþingi. Ég er sannfærður um að þeir sem koma að þessu nefndarstarfi munu vinna fljótt og vel að því að þessum skatti, fjármagnstekjuskatti, verði komið á á árinu 1996 og ég tel engu þar um breyta hverjir koma til með að standa að ríkisstjórn eftir komandi kosningar.
    Einn er sá kafli í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem vakti sérstaka athygli og ánægju mína. Það var 3. liðurinn sem var vissulega stuttur og ekki í langri útfærslu en fjallar um nýsköpun í atvinnulífi og markaðssókn. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Til þess að treysta enn frekar undirstöður íslensks atvinnulífs og skapa fleiri störf mun ríkisstjórnin leggja fram frumvarp um nýsköpun í atvinnulífinu. Með því verður greitt fyrir vöruþróun og markaðssókn erlendis, m.a. á EES-svæðinu. Aðgerðir þessar munu ná til allra atvinnugreina. Jafnframt hefur ríkisstjórnin ákveðið sérstakar aðgerðir til þess að auka erlendar fjárfestingar hér á landi.``
    Vissulega lætur þessi kafli ekki mikið yfir sér. Hins vegar ef innihald þessa texta er hugleitt þá tel ég að framtíð okkar sé í því fólgin að þarna takist vel til. Það hefur verið svo allt of lengi í okkar ágæta landi að allar okkar aðgerðir hafa stöðugt beinst að því að viðhalda því sem fyrir er. Nýsköpun og framfarir hafa mjög setið á hakanum. Ef til vill er það svo að íslensk þjóð, sem lifað hefur í velferðarsamfélagi, hefur verið sátt við sitt og e.t.v. þess vegna lítið skapandi og lítið gefin fyrir nýsköpun. Síðan þegar það gerist að samdráttur hefur orðið verulegur í fiskveiðum þjóðarinnar og samfara því tekjufall þá höfum við e.t.v. ekki haft að því að hverfa sem við gjarnan vildum óska. Þá hefur þjóðin skyndilega vaknað upp við vondan draum og áttað sig á að við höfum ekki nýtt það hráefni sem við höfum úr að vinna nægilega vel. Við höfum verið útflutningsþjóð fyrir hráefni en allt of lítið hugað að því að skapa aukin vermæti úr þessu hráefni sem við höfum haft yfir að ráða. Ef til vill kann það að vera svo að sú tímabundna kreppa sem við erum vonandi að komast út úr, þ.e. að við sjáum örlítið bjartara fram undan í horfum í efnahagsmálum, en þessi kreppa muni kenna okkur að við getum ekki treyst á að viðhalda því velferðarstigi sem verið hefur í landinu með því að vera hráefnisútflutningsþjóð.
    Vissulega hefur vel tekist á ýmsum sviðum iðnaðar og ég tala þá fyrst og fremst um iðnað sem tengist sjávarútvegi á einhvern hátt svo sem þeirri starfsemi sem Marel hf. hefur stundað og einnig hefur ýmsum öðrum iðnaði vaxið fiskur um hrygg. Þar hefur verið nýsköpun, þar hefur sú þekking sem þjóðin hefur yfir að búa verið nýtt til þess að skapa verðmæti.
    Meginmarkmið nýsköpunarstefnu hljóta að vera á þessum nótum. Að styrkja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja, bæði á alþjóðlegum og innlendum vettvangi og undirbúa þau sérstaklega til að nýta vel

þau tækifæri sem þeim bjóðast með aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.
    Í öðru lagi að auka skilvirkni stuðningsaðgerða við nýsköpun, þróun og markaðssetningu þannig að þeir fjármunir sem hið opinbera ver til þessara mála megi nýtast betur nú en fyrr.
    Í þriðja lagi að styðja viðleitni til nýsköpunarstarfs innan fyrirtækja.
    Í fjórða lagi að stuðla að jöfnum aðgangi atvinnugreina, að stuðningsaðgerðum og til eflingar nýsköpunarstarfs.
    Til þess að hrinda nýsköpunarstefnu í framkvæmd verður að tryggja aukið fé til nýsköpunarverkefna. Því hafa verið uppi hugmyndir innan ríkisstjórnar að Iðnþróunarsjóði verði falið það verkefni að fjármagna nýsköpun í íslensku atvinnulífi og nafni hans breytt í Nýsköpunarsjóð atvinnulífs. Auk þess hefur eins og allir vita auknum fjármunum verið varið á þessu kjörtímabili til rannsóknastarfs og annarra slíkra þátta. Það er nauðsynlegt að stefna að því að aðgerðir sem slíkar nái til allra atvinnuvega.
    Uppi hafa verið hugmyndir um að þessi nýsköpunarsjóður muni veita styrki til einstakra verkefna. Jafnframt er gert ráð fyrir að veruleg áhersla verði lögð á framlög í formi áhættufjármagns. Áhættufjármagn getur verið ýmiss konar, t.d. hlutafé eða annað framlag til eigin fjár, lán með skilyrtri endurgreiðsluskyldu, þ.e. áhættulán eða lán með rétti til að breyta því í hlutafé. Það er eðlilegt að ætlast til ríflegrar ávöxtunar í formi vaxta eða arðs ef árangur verkefnis sem fénu er varið til leyfir. En á sama hátt má búast við að afskrifa verði framlagið að hluta eða öllu leyti ef verkefnið skilar ekki tilætluðum árangri.
    Það má hins vegar ekki verða hlutverk Nýsköpunarsjóðs að viðhalda stöðnuðum eða hnignandi atvinnuvegum eða fyrirtækjum með styrkjum eða öðrum framlögum eða lánum. Þvert á móti er nauðsynlegt að gera ráð fyrir að hlutverk hans verði að styðja við bakið á nýjungum og framþróun í atvinnulífi.
    Virðulegi forseti. Á stundum hefur mér fundist sem við Íslendingar séum alltaf að finna upp hjólið. Stöðugt berast af því fréttir að verið sé að styrkja ýmis rannsóknaverkefni. Nú má ekki skilja orð mín svo að ég sé andvígur rannsóknum. Ég hef stundum hins vegar leitt að því hugann hvort það geti verið að ýmislegt af þeim rannsóknum sem verið er að framkvæma hér heima hafi þegar verið unnar einhvers staðar annars staðar í henni veröld. Ég segi þetta hér vegna þess að ég hef dálítið kynnt mér það starf sem unnið hefur verið í Upplýsingaþjónustu háskólans og víðar þar sem virðist vera urmull aðgengilegra upplýsinga utan úr hinum stóra heimi. Þannig held ég að full ástæða sé til þess að leiða að því hugann og í mikilli alvöru hvort ýmsar af þeim rannsóknum sem menn hafa varið fjármunum til á undanförnum árum séu kannski þegar til staðar, hvort ekki sé auðveldara að nálgast þær og vinna úr þeim a.m.k. áður en lengra er haldið. Það má engan veginn verða svo að nýsköpunarsjóður eða nýsköpun í atvinnulífinu verði bundin við eilífar rannsóknir en aldrei komi til nokkurra framkvæmda.
    Á undanförnum vikum hefur mikið verið talað um framlög til háskóla og háskólastarfsemi varðandi gerð þeirra fjárlaga sem við ræðum hér nú. Það hefur stundum vakið athygli mína og það ekki einungis hvað varðar háskólann heldur ýmsar af stærstu stofnunum landsins, m.a. í heilbrigðisþjónustu, hversu mér virðist að stjórnendur stofnana séu oft og tíðum ragir við að raða verkefnum í forgangsröð. Þannig held ég að menn hljóti að hugleiða mjög alvarlega til að mynda varðandi háskólann í hvaða átt skuli þróa þá stofnun. Nú veit ég að starfandi er þróunarnefnd innan háskólans og hefur mér skilist að sú nefnd muni skila af sér innan skamms. Ég hef ekki heyrt hvaða starf hefur þar verið unnið eða í hvaða átt kraftarnir hafa beinst, geri auðvitað enga kröfu heldur um það fyrr en þær niðurstöður liggja fyrir. Það má hins vegar velta því fyrir sér hvort skynsamlegt sé að bjóða upp á allar þær námsgreinar sem hér er boðið upp á. Ég nefni til að mynda tannlæknadeild þar sem fáir nemendur útskrifast árlega en ég hygg að rekstrarkostnaður við deildina sé sérlega hár. Það mætti jafnvel hugleiða hvort ekki væri einfaldlega auðveldara að semja við einhverja af nágrannaþjóðum okkar um menntun þeirra tannlækna eða annarra sem mönnum kynni að finnast skynsamlegt og verja í staðinn þeim fjármunum sem við það mundu sparast til öflugri menntunar í þeim deildum sem fyrir eru í háskólanum.
    Ég tel að möguleikar okkar í útflutningsgreinum í framtíðinni séu að sjálfsögðu hvað mestir í sjávarútvegi. Við eigum að beita öllum ráðum sem við getum til þess að örva erlenda fjárfestingu í landinu og við eigum að mínu mati óhikað að taka það skref að leyfa erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi hér heima. Hér hefur til langs tíma verið skortur á áhættufjármagni og við eigum að opna leiðir fyrir erlenda fjárfesta til fjárfestinga hér á landi.
    Í sjávarútvegi er staða okkar að mörgu leyti sterkust þó að veik kunni að virðast um sinn. Þar er og verður vaxtarbroddurinn og þekkingin og við hljótum og verðum að vera móttækileg fyrir því að áhættufjármagn fáist inn í samfélagið. Til skamms tíma höfum við ekki litið við erlendu fjármagni nema við höfum fengið að greiða af því vexti. Þessi stefna hefur tafið fyrir framförum í atvinnugreinum hér á landi að mínu mati.
    Á síðustu árum hafa umræður og aðgerðir í atvinnumálum verið fyrirferðarmiklar enda hefur ríkisstjórnin litið á það sem mikilvægt verkefni að hamla gegn vaxandi atvinnuleysi. Það hljóta þó að vera takmörk fyrir því hversu langt stjórnvöld eiga að ganga í þá átt að skapa atvinnu með fjárframlögum til einstakra verkefna eða atvinnugreina. Í því skyni er rétt að hafa í huga þau orð sem ég hef látið falla hér á undan varðandi nýsköpun. Það er efnahagslegur stöðugleiki sem er mikilvægasta forsenda framfaranna og nýsköpunar í atvinnulífi.
    Önnur mikilvæg forsenda fyrir nýsköpun atvinnulífi er að hið opinbera sjái fyrir öflugu og fjölbreyttu menntakerfi. Í þeim efnum ber mikla nauðsyn til forgangsröðunar eins og ég vék hér að á undan.
    Við umræðu sem ég var viðstaddur í Evrópuráðinu á dögunum þar sem áætlun og horfur í efnahagsmálum í OECD-ríkjunum voru til umræðu kom glögglega fram að menn bundu mestar vonir í baráttunni við aukið atvinnuleysi við að efla rannsóknir, vísindastarfsemi og nýsköpun. Á þá þætti er lögð nokkur áhersla í því fjárlagafrv. sem hér er til umræðu og ég er sannfærður um að mikið hefur skort á að við höfum á undanförnum árum varið jafnmiklum fjármunum og æskilegt hefði verið til eflingar rannsóknum og vísindastarfsemi.
    Í þjóðhagsspá er gert ráð fyrir tæplega 5% atvinnuleysi á komandi ári. Það er á svipuðum nótum og atvinnuleysi hefur verið á því ári sem nú er senn liðið. Þess er þó að vænta að í endurskoðaðri þjóðhagsspá sem lögð verður fram á næstu dögum í tengslum við 3. umr. fjárlaga, komi fram að atvinnuleysi verði heldur minna en fyrr var ætlað. Engu að síður er atvinnuleysið verulegt og langt umfram það sem ásættanlegt er. Við höfum hins vegar flotið að feigðarósi, ekki verið á varðbergi. Við höfum verið ánægð með það velferðarkerfi sem við höfum búið við en tekjur hafa ekki dugað til að standa þar undir. Við höfum ekki verið því viðbúin að aflabrögð kynnu að bregðast með þeim hætti sem verið hefur síðustu ár.
    Eins og kunnugt er er gert ráð fyrir að þorskafli á Íslandsmiðum verði einungis 155 þúsund tonn á því fiskveiðiári sem nú stendur yfir. Þar er um að ræða 23% samdrátt frá síðasta fiskveiðiári. Við því er ekki að búast að þorskafli Íslendinga á öðrum miðum aukist frá því sem verið hefur í ár og verður því samdráttur í heildarþorskafla Íslendinga líklega um 20%. Hins vegar hefur verið reiknað með að afli af öðrum botnfiski aukist um 25% og að botnfiskaflinn í heild dragist saman um rúmlega 7%.
    Í þjóðhagsspá er gert ráð fyrir að loðnuaflinn verði 15% meiri á árinu 1995 en 1994 eða 1.150 þúsund tonn. Því miður er útlitið ekki gott á þessari stundu hvað loðnuafla varðar en við verðum að sjá til og binda vonir við að úr rætist.
    Það er ljóst að málefni er tengjast úthafsveiðum verða fyrirferðarmikill þáttur í umfjöllun um sjávarútveg á komandi mánuðum. Eins og kunnugt er er nefnd að störfum sem verið hefur að endurskoða löggjöf um úthafsveiðar Íslendinga. Búist er við á næstunni að sú nefnd skili áliti og tillögur hennar komi til umfjöllunar á þessu þingi. Þá mun einnig draga til úrslita á næsta ári í því starfi við þróun þjóðréttarins varðandi úthafsveiðar sem unnið hefur verið að á undanförnum missirum á vettvangi ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og fiskveiðinefndar FAO. Þarna er mjög nauðsynlegt að halda af festu á samninga- og samskiptamálum okkar Íslendinga og grannþjóða okkar varðandi nýtingu fiskstofna í Norður-Atlantshafi. Það á við um þorsk í Barentshafi, norsk/íslenska síldarstofninn, úthafskarfastofninn og þá stofna sem við eigum sameiginlega með Grænlendingum. Þessi mál eru flókin og hagsmunir Íslendinga margþættir. Ríkisstjórnin hefur sett á fót hóp embættismanna þriggja ráðuneyta til að undirbúa hugsanlega samninga um þessi mál en fram undan eru viðræður við Norðmenn og Rússa og til að undirbúa málflutning Íslendinga á úthafsveiðiráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á næsta ári. Þarna er um verulega hagsmuni þjóðar vorrar að ræða og ber nauðsyn til að vel verði á málum haldið.
    Skattsvik og aðgerðir gegn skattsvikum hafa verið mjög til umræðu í samfélaginu upp á síðkastið. Á undanförnum missirum hefur margt verið gert á sviði skatteftirlits og aðgerðir gegn skattsvikum hafa verið hertar að mun. Sérstakri skrifstofu hefur verið komið á fót hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins sem eingöngu starfar að rannsóknum á svarti atvinnustarfsemi og hefur henni orðið vel ágengt. Þetta hefur skilað sér á þessu ári í betri innheimtu skatta sem nemur hundruðum milljóna króna. Frekari aðgerðir gegn skattsvikum hafa verið boðaðar. Í fyrsta lagi hefur verið skipuð þriggja manna framkvæmdanefnd til að hafa yfirumsjón með aðgerðum sem snúa að skattsvikamálum. Nefndinni er falið að yfirfara tillögur skattsvikanefndar, fylgjast með framkvæmd þeirra ákvarðana sem teknar hafa verið á þeim grundvelli og gera tillögur um frekari aðgerðir. Tilgangur með skipan nefndarinnar er einnig sá að skapa samstarfsvettvang milli ráðuneytis og þeirra embætta og stofnana fjmrn. og annarra ráðuneyta sem fara með framkvæmd eftirlitsmálanna og viðurlaga við skattabrotum.
    Veigamikill þáttur í ábendingum skattsvikanefndarinnar var að viðurlög við skattsvikum og refsingar við brotum á skattalögum og bókhaldslögum séu ófullnægjandi. Stefnt er að því að á þessu þingi verði lögfestar breytingar á ýmsum ákvæðum skattalaga og bókhaldslaga þar sem kveðið verður fastar á um refsingar og viðurlög en gert hefur verið. Enn fremur eru til athugunar ákvæði almennra hegningarlaga er taki til stórfelldra skattalagabrota.
    Á síðustu árum hefur embætti ríkisskattstjóra staðið fyrir sérstökum átaksverkefnum við skatteftirlit og síðan samræmda framkvæmd þeirra. Hafa þessi verkefni komið til viðbótar við reglulegt eftirlit skattstofanna sem nú hefur verið eflt eins og greint hefur verið frá. Á grundvelli þessa starfs sem unnið hefur verið skal sérstaklega bent á tvö atriði: Annars vegar skal bent á nauðsyn þess að skattareglur séu skýrar og ljósar og í samræmi við aðstæður og viðskiptahætti á hverjum tíma. Hitt atriðið sem nefna ber er að starf þetta hefur leitt til endurálagningar á sköttum sem nemur umtalsverðum fjárhæðum. Má í því sambandi geta þess að á árinu 1993 voru endurákvarðaðir skattar að fjárhæð yfir 1.200 millj. kr. Þar af voru um 530 millj. vegna fyrirtækja og einstaklinga sem lentu í sérstöku eftirlitsátaki og 585 millj. í reglulegu eftirliti skattstofanna og um 116 millj. hjá eftirlitsskrifstofu ríkisskattstjóra.
    Veruleg aukning hefur verið í endurálagningu á síðustu árum. Sem dæmi um það er að endurálagning skattstofanna að meðtöldu átaksverkefni og tekjuskatti lögaðila og einstaklinga var um 360 millj.

kr. 1991 og 560 millj. 1992 og um 750 millj. á árinu 1993. Á næsta ári er fyrirhugað að fram fari úrtak atvinnugreina til sérstakrar skoðunar eins og undanfarin ár. Skipulagning þessa verkefnis er í höndum embættis ríkisskattstjóra. Jafnframt er áformað að standa fyrir sérstakri kynningu á og umfjöllun um skattsvik og svarta atvinnustarfsemi fyrir almenning.
    Að undanförnu hefur töluverð umræða átt sér stað á opinberum vettvangi um ábyrgð stjórnvalda, ekki síst hvað varðar meðferð þeirra á almannafé. Telja má einsýnt að þetta sé til marks um að sífellt séu gerðar ríkari kröfur til þeirra sem bera ábyrgð á ráðstöfun opinbers fjár um að þeir fari vel með þá fjármuni sem þeim er trúað fyrir og gæti hagsýni og réttmætra sjónarmiða við ráðstöfun þeirra.
    Þetta gefur tilefni til þess að hugleiða hvaða breytingar hafi átt sér stað á undanförnum árum sem skýrt geta þessa þróun. Nefna má í því sambandi nokkur atriði:
    Í fyrsta lagi hefur skapast meiri festa hvað varðar útgjaldaheimildir. Um langt árabil tíðkaðist að ráðherrar heimiluðu aukafjárveitingar þegar stofnanir ríkisins höfðu farið fram úr fjárlögum. Þó svo fjárveitingavaldið sé í höndum Alþingis komu ákvarðanir um aukin fjárútlát ekki til þess kasta fyrr en jafnvel mörgum árum eftir að útgjöldin áttu sér stað. Á þessu hefur orðið mikil breyting. Óskir um auknar fjárveitingar miðað við fjárlög eru nú bornar undir þingið innan hvers fjárlagaárs og afgreiddar með fjáraukalögum. Á það er nú lögð mikil áhersla að stofnanir ríkisins virði þann fjárlagaramma sem þeim er settur. Vafalaust á bætt fjárlagagerð og meiri stöðugleiki verðlags sinn þátt í því að þessi mál færðust til betra horfs. Í þessu sambandi má einnig bæta því við að t.d. frv. um fjárgreiðslur úr ríkissjóði, þó það hafi ekki enn þá orðið að lögum, gefur til kynna að vilji sé til þess að draga skýrari línur varðandi hlutverk og verkaskiptingu þings og ráðherra að því er varðar fjármál ríkisins.
    Í annan stað eru gerðar meiri kröfur en áður um tímanlega upplýsingagjöf um ríkisfjármálin. Þannig er m.a. ætlast til þess að ríkisreikningur sé lagður fram mun fyrr en áður tíðkaðist. Í stað þess að reikningurinn lægi fyrst fyrir mörgum árum eftir að reikningsárinu lauk er það nú keppikefli að endurskoðaður reikningur komi út innan 12 mánaða frá lokum reikningsárs. Þetta markmið hefur náðst á undanförnum árum. Sú staðreynd að á hverjum tíma eru fyrir hendi áreiðanlegar upplýsingar um stöðuna í ríkisbúskapnum skapar óneitanlega bætt skilyrði til aðhalds og eftirlits með fjármálum ríkisins. Þessi breyting sýnir þó ef til vill ekki síður að menn eru farnir að nálgast fjár- og reikningshaldsmál ríkissjóðs af meiri alvöru en fyrr.
    Í þriðja lagi má nefna að möguleikar Alþingis til þess að fylgjast með framvindu ríkisfjármála hafa aukist. Liður í því var m.a. sú ákvörðun að efla stöðu Ríkisendurskoðunar og gera hana að stofnun á vegum Alþingis. Óumdeilt er að við það hefur upplýsingagjöf til þingsins aukist, m.a. með reglulegum skýrslum um framkvæmd fjárlaga og um endurskoðun ríkisreiknings. Þá gefst forsetum Alþingis, þingnefndum og einstökum þingmönnum kostur á að leita beint til stofnunarinnar um athuganir og álit á ýmsum málum sem upp koma.
    Stofnun embættis umboðsmanns Alþingis var einnig þáttur í að auka aðhald með framkvæmdarvaldinu. Reyndar er Alþingi sjálft að ýmsu leyti orðið betur í stakk búið til þess að rækja hlutverk sitt og nægir í því sambandi að nefna meiri skilvirkni við það að þingið starfar nú í einni deild.
    Að lokum má nefna að stjórnkerfið er sífellt að verða opnara og þar af leiðandi erfiðara fyrir stjórnmálamenn að fela nokkuð fyrir umbjóðendum sínum. Stjórnvöld þurfa ætíð að vera reiðubúin að útskýra athafnir sínar fyrir almenningi og fjölmiðlum. Vafalaust má ætla að ýmislegt, sem fyrir nokkrum árum hefði ekki þótt tiltökumál, geti núna orðið viðkomandi stjórnmála- eða embættismönnum óþægilegur fjötur um fót. Þá er ekki ósennilegt að eftir því sem skattbyrðin hefur aukist og niðurskurði verið beitt í meira mæli á útgjöld ríkisins hafi sú krafa orðið almennari að vel sé farið með sameiginlega fjármuni landsmanna.
    Án efa hafa fyrrnefnd atriði orðið til þess að skapa meira aðhald með stjórnvöldum en áður var. Segja má að eftirlit með stjórnsýslunni, hvort sem það er frá aðilum innan eða utan ríkiskerfisins, verði sífellt meira aðkallandi vegna þess hve hlutverk hins opinbera er orðið veigamikið í nútímasamfélagi og umsvif þess að sama skapi mikil. Stærð ríkisgeirans gerir það að verkum að skort getur á yfirsýn og að nauðsynlegs samræmis sé gætt við úrlausn mála. Þess vegna hlýtur virkt eftirlit með fjárhagsmálefnum ríkisins að skipta sköpum um árangursríka fjármálastjórn hins opinbera.
    Það er svo annað mál hvort þetta eftirlit, eins og því er háttað í dag, sé nægjanlegt. Til þess að hægt sé að koma við árangursríku eftirliti þurfa að sjálfsögðu að vera fyrir hendi nægjanlega skýrar og yfirgripsmiklar reglur til þess að fara eftir. Slíkar reglur hljóta að teljast veigamikil forsenda vandaðra stjórnsýsluhátta. Ég hef t.d. bent á að nauðsynlegt væri að lögfesta reglur um ráðstöfun á ríkiseignum. Þetta er ekki einsdæmi því á mörgum sviðum opinberra fjármála gilda um margt mjög óljósar reglur og fyrirmæli. Þá þarf ekki síður að skilgreina vel hvaða viðurlög eigi að fylgja við broti á reglum. Ábyrgð þeirra sem að málum koma þarf að vera alveg ljós. Hér hefur löggjafinn verk að vinna.
    Virðulegi forseti. Störf fjárln. við afgreiðslu frv. til fjárlaga fyrir árið 1995 hafa verið með hefðbundnum hætti. Nefndin hóf störf við undirbúning afgreiðslu fjárlaga 26. sept. sl. og átti viðtöl við fulltrúa sveitarfélaga alls staðar að af landinu sem gerðu grein fyrir sínum erindum. Samstarf fjárlaganefndarmanna við sveitarstjórnarmenn hefur nú sem fyrr verið ánægjulegt og sú yfirsýn sem nefndarmenn öðlast á fundum með sveitarstjórnarmönnum er afar mikilvæg við afgreiðslu fjárlaga. Þá hefur nefndin og kallað til fulltrúa margra stofnana og ráðuneyta.
    Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þingskapa getur fjárln. vísað þeim þáttum fjárlagafrv. til þeirra fastanefnda sem um málasvið þeirra fjalla. Nefndin óskaði með bréfi dags. 19. okt. sl. eftir álitum fastanefnda þingsins um frv.
    Nefndirnar hafa skilað álitum sínum og eru þau prentuð sem fylgiskjöl með þessu nefndaráliti eins og mælt er fyrir um í þingsköpum. Þetta er í þriðja sinn sem þessi skipan er viðhöfð við afgreiðslu fjárlagafrv.
    Eftir að frv. til fjárlaga hefur verið lagt fram á Alþingi koma fjölmargir aðilar, sem eiga erindi við nefndina, til fundar.
    Frá því nefndin hóf störf við undirbúning afgreiðslu frv. hefur hún haldið 34 fundi, auk þess sem undirnefndir hafa unnið að afgreiðslu einstakra málaflokka.
    Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem til hennar bárust, svo sem skiptingu allra fjárfestingarliða. Breytingartillögur þær sem hér eru til umræðu og birtast á þskj. 354 nema samtals 377,9 millj. kr. til hækkunar á 4. gr. frv.
    Meiri hluti nefndarinnar vill þakka fulltrúum stjórnarandstöðunnar í nefndinni fyrir mjög gott samstarf. Þá hefur nefndin notið aðstoðar fjmrn. og einstök ráðuneyti hafa veitt nefndinni mikilvægar upplýsingar og aðstoð.
    Venju samkvæmt bíða 3. umr. afgreiðsla á tekjuhlið frv., B-hlutinn og heimildir skv. 6. gr. Auk þess bíða 3. umr. ýmis verkefni, bæði smærri og stærri, sem nefndin hefur enn til umfjöllunar. Meðal þeirra ber helst að nefna sjúkrahúsin í Reykjavík, sjúkratryggingar, framlög vegna EES, framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs, framlög til háskólans og Landsbókasafns, Byggðastofnun, Vinnueftirlit ríkisins og auknar niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði á köldum svæðum.
    Undir nefndarálitið rita: Sigbjörn Gunnarsson, Árni Johnsen, Árni Mathiesen, Einar K. Guðfinnsson, Gunnlaugur Stefánsson og Sturla Böðvarsson.
    Mun ég nú víkja að einstökum þáttum þeirra breytingartillagna sem meiri hlutinn leggur til og flytja við þær skýringar.
    1. Æðsta stjórn ríkisins, liður 201. Lagt er til að framlag til Alþingis hækki um 33 millj. kr. en af þeirri fjárhæð eru 20 millj. ætlaðar til viðhalds á fasteignum. Hér er um að ræða húseignirnar að Kirkjustræti 8b og Kirkjustræti 10. Viðhald margra húsa þingsins er ábótavant og nauðsynlegt að ráða bót á því. Um 13 millj. kr. af hækkuninni sem hér er lögð til er til rekstrar og dreifist á nokkra liði.
    2. Liður 610 Umboðsmaður Alþingis. Gerð er tillaga um að framlag til umboðsmanns Alþingis hækki alls um 8 millj. kr. en þar af eru 4,2 millj. ætlaðar til rekstrar. Fjöldi kvartana sem berast til embættisins eykst ár frá ári og aukning hefur einnig orðið á fjölda þeirra mála sem þarfnast umtalsverðar athugunar og úrvinnslu. Rétt er að taka fram að ekki er gert ráð fyrir fjölgun starfsmanna. Að auki eru ætlaðar 3,8 millj. kr. til innréttingar nýs húsnæðis og tölvulagna þar, en til stendur að embættið fari í nýtt húsnæði.
    3. brtt. varðar lið 620, Ríkisendurskoðun. Tillagan um hækkun til Ríkisendurskoðunar byggist á rekstrarniðurstöðum ársins 1993 en án þessarar hækkunar hefði stofnunin orðið að draga saman í starfsemi sinni sem nemur tveimur stöðugildum. Meiri hluti fjárln. telur það ekki viðunandi og gerir tillögu um að fjárveiting verði hliðstæð fjárveitingu í fjárlögum yfirstandandi árs.
    Forsætisráðuneyti.
    4. brtt. varðar lið 101, forsrn., aðalskrifstofu. Ákveðið hefur verið að símakostnaður Stjórnarráðsins verði færður á aðalskrifstofu hvers ráðuneytis fyrir sig, auk nokkurra annarra stofnana, en ekki á einn lið undir fjmrn. Fram að þessu hafa öll skrefgjöld verið færð á þennan eina lið en frá og með áramótum verður símakostnaðinum skipt á ráðuneyti og því gert ráð fyrir að framsetning í fjárlögum fylgi þeirri breytingu. Vegna þessa eru rúmlega 30 millj. kr. millifærðar frá fjmrn. yfir á aðrar stofnanir en ekki er um hækkun heildarfjárhæða að ræða.
    5. brtt. er vegna liðar 231, Norrænu ráðherranefndarinnar. Gerð er tillaga um að stofnað verði nýtt viðfangsefni á fjárlagalið norrænu ráðherranefndarinnar. Eins og kunnugt er fer Ísland nú með formennsku í norrænu samstarfi en um mánaðamótin febrúar/mars nk. verður þing Norðurlandaráðs haldið í Reykjavík. Fjárveiting sú sem hér er gerð tillaga um er ætluð til að mæta kostnaði við gestamóttöku og fleiri þætti vegna þessa þings. Þetta er því tímabundin fjárveiting sem fellur niður í fjárlögum 1996.
    6. brtt. varðar fjárlagalið 241, Umboðsmaður barna. Í frv. til fjárlaga er 6 millj. kr. fjárveiting til nýstofnaðs embættis umboðsmanns barna. Eftir ítarlega skoðun forsrn. á fyrirhugaðri starfsemi þótti ástæða til að hækka framlagið um 1,5 millj. kr.
    Menntamálaráðuneyti.
    8. brtt. varðar fjárlagalið 201, Háskóla Íslands. Gerð er tillaga um 2 millj. kr. fjárveitingu til Upplýsingaþjónustu háskólans en hún hefur starfað frá árinu 1978 að því að afla upplýsinga fyrir einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki á sviði nýsköpunar, rannsókna og þróunarstarfs. Hækkun fjárveitinga sem meiri hluti fjárln. leggur til er ætluð til þróunar sjálfsnámskerfis, þ.e. skipulagt sjálfsnám um atvinnumál.
    Gert er ráð fyrir að fjárveiting til kennslu- og vísindadeilda verði hækkuð um 7,3 millj. kr. og er af tvennum toga.

    Annars vegar hefur verið lagt til að ljósmæðranám flytjist til Háskóla Íslands frá heilbrrn. Nefnd um flutning ljósmæðramenntunar telur árlegan kostnað við ljósmæðranám vera 4,3 millj. kr. enda verði námið áfram í húsnæði Ljósmæðraskólans og Ríkisspítalar greiði laun nemenda á þjálfunartíma. Gert er ráð fyrir 2,4 millj. kr. fjárveitingu undir heilbrigðisráðuneyti til rekstrar Ljósmæðraskóla Íslands og er sá liður felldur niður með þessari breytingu. Nettó hækkun er því 1,9 millj. kr.
    Hins vegar er lögð til 3 millj. kr. hækkun vegna stöðu rannsóknaprófessors á sviði eðlisfræði þéttefnis með áherslu á málma. Íslenska járnblendifélagið hefur kostað þessa stöðu undanfarin fimm ár en starfið er nú orðið svo víðfemt að ekki er hægt að gera ráð fyrir óbreyttri fjármögnun. Fjárveiting sú sem hér er lögð til miðar að því að háskólinn greiði grunnlaun prófessorsins en gera má ráð fyrir að járnblendifélagið og önnur atvinnufyrirtæki sýni rannsóknaverkefnum undir stjórn prófessorsins áhuga.
    9. tillagan varðar lið 210, Háskólinn á Akureyri. Lagt er til að framlag til rannsóknastarfsemi Háskólans á Akureyri hækki um 4. millj. kr. Í 6. gr. fjárlaga 1994 var heimild til ,,að leggja fjármagn í vinnumatssjóð Háskólans á Akureyri í samræmi við kjarasamninga þegar reglur um vinnumatskerfi hafa verið afgreiddar``. Í fjárlagafrv. er ekki gert ráð fyrir framlagi til vinnumatssjóðs þar sem reglurnar voru ekki frágengnar. Með þessari hækkun er ráðin bót á og eru alls ætlaðar 11,1 millj. kr. til rannsóknastarfsemi. Þar er um að ræða framlag til rannsóknastofnana, rannsóknaleyfa, rannsóknasjóðs og vinnumatssjóðs. Það er svo skólans að ákveða hvernig þessum fjármunum er ráðstafað milli ólíkra verkefna.
    10. brtt. er vegna fjárlagaliðar 221, Kennaraháskóli Íslands. Lagt er til að framlag til Kennaraháskólans hækki um 10 millj. kr. Þar af eru 6 millj. kr. til rannsóknastarfsemi á sömu forsendum og framangreind hækkun til Háskólans á Akureyri. Þannig verður framlag til rannsóknastofnana, rannsóknaleyfa, rannsóknasjóðs og vinnumatssjóðs samtals 22,9 millj. kr. og það er skólans að ákveða hvernig þeirri fjárhæð er ráðstafað milli ólíkra verkefna. Að auki er lagt til að framlag til skólans hækki um 4 millj. kr. vegna fjarkennslu en nokkur reynsla er nú komin á fjarnámið og er eftirspurnin mikil. Fyrsti hópurinn á þessari námsbraut hóf nám vorið 1993 og útskrifast haustið 1996. Gert er ráð fyrir að nýir nemendur hefji nám næsta sumar sem lokið verður á fjórum árum.
    11. brtt. er vegna fjárlagaliðar 299, Háskóla- og rannsóknastarfsemi. Gert er ráð fyrir 5 millj. kr. framlagi til Norrænu eldfjallastöðvarinnar og er það fært á háskólasafnlið menntmrn. Framlagið er vegna starfa tveggja sérfræðinga. Annar flyst af norrænu framlagi til íslenska ríkisins 1. jan. á næsta ári en hinn mun rannsaka jarðskorpuhreyfingar á Suðurlandi og verður hann að störfum fram til 1. ágúst á næsta ári.
    Varðandi þennan fjárlagalið er rétt að taka fram að við gerð fjárlaga fyrir árið 1994 var þessi fjárlagaliður hækkaður um 1,5 millj. kr. Sú fjárveiting var ætluð Félagsstofnun stúdenta á Akureyri. Ekki er gerð tillaga um hækkun að þessu sinni en ætlast til að Félagsstofnun stúdenta á Akureyri fái fjárveitingu af þessum lið á komandi ári.
    12. brtt. varðar fjárlagalið 318, Almennir framhaldsskólar, viðhald og stofnkostnaður. Lögð er til 23 millj. kr. hækkun til viðhalds og stofnkostnaðar framhaldsskóla og er skipting á kjördæmi að venju sýnd í sérstökum yfirlitum í breytingartillögum nefndarinnar. Með þessari hækkun er alls til ráðstöfunar til viðhalds og stofnkostnaðar 711 millj. kr. en því til viðbótar eru 9 millj. kr. ætlaðar til viðhalds herma og 19 millj. kr. til tækja- og búnaðarkaupa, þar á meðal tölvubúnaðar.
    13. brtt. varðar lið 319, Framhaldsskólar, almennt.
Meiri hluti fjárln. leggur til að veitt verði 500 þús. kr. framlag til Myndlistarskólans í Kópavogi en í fjárlögum síðustu ára hafa verið fjárveitingar til myndlistarskólanna í Reykjavík og á Akureyri. Myndlistarskólinn í Kópavogi er sjálfseignarstofnun sem rekinn er af skólafélagi Myndlistarskóla Kópavogs með námskeiðsgjöldum og styrkjum.
    14. brtt. varðar fjárlagalið 506, Vélskóla Íslands. Gerð er tillaga um 1 millj. kr. hækkun til Vélskóla Íslands til endurnýjunar á tölvum í kennsluaðstöðu og minnisstækkun á kennslutölvum.
    15. brtt. varðar lið 580, Samvinnuskólann á Bifröst.
Framlag til kennsluliðar Samvinnuskólans á Bifröst er hækkað um 2 millj. kr. en sl. haust hófst kennsla og nám á 3. ári háskólastigs við skólann. Nemendur er hófu þetta nám munu útskrifast næsta vor með BS-gráðu í rekstrarfræðum. Menntmrn. veitti heimild til skólans til að hefja þetta nám en tekið er fram að heimildin miðist við þriggja ára tímabil og að gerð skuli ítarleg úttekt á starfsemi skólans í samvinnu við ráðuneytið áður en ákvörðun verði tekin um framhaldið. Framlag til skólans ákvarðast af samningi milli menntmrn. og skólans og tekur hann mið af nemendafjölda og fleiri þáttum. Framlagið er til viðbótar því sem samningurinn gerir ráð fyrir. Vænta má þess að samningurinn verði tekinn til endurskoðunar í ljósi reynslunnar af þessu nýja námi.
    16. brtt. fjallar um lið 725, Námsgagnastofnun. Lagt er til að framlag til Námsgagnastofnunar hækki um 17 millj. kr. Að mati stofnunarinnar var á sínum tíma ekki að fullu tekið tillit til viðbótarkostnaðar vegna virðisaukaskatts á bókum sem lagður var á á miðju ári 1993. Einnig hafa greiðslur reynst meiri en áætlað hefur verið. Meiri hluti fjárln. tekur undir þetta sjónarmið og leggur því til framangreinda hækkun en með henni er kostnaður vegna virðisaukaskattsins að fullu inni í fjárveitingagrunni stofnunarinnar.
    17. brtt. er vegna fjárlagaliðar 884, Jöfnun á námskostnaði. Meiri hluti fjárln. leggur til að framlag til jöfnunar námskostnaðar verði hækkað um 10 millj. kr. Hér er um að ræða hækkun á svokölluðum dreifbýlisstyrk til framhaldsskólanema.

    18. brtt. er vegna fjárlagaliðar 902, Þjóðminjasafnið. Framlag til Þjóðminjasafns er hækkað um 3 millj. kr. og skiptist sú fjárveiting í tvennt. Annars vegar er staða minjavarðar og er áætlaður kostnaður 2 millj. kr. og hins vegar er ætluð 1 millj. kr. til endurskipulagningar á tækniminjadeild safnsins. Á næsta ári stendur til að gera úttekt á stöðu og framtíð deildarinnar og móta stefnu um söfnun, varðveislu, viðgerðir og sýningar tækniminja en kaupa þarf sérfræðiráðgjöf í því skyni.
    19. brtt. varðar fjárlagalið 903, Þjóðskjalasafn. Tekinn er inn nýr liður undir Þjóðskjalasafn en hér er um að ræða 3 millj. kr. framlag til héraðsskjalasafna. Sveitarfélögum er skylt að skila skjölum til Þjóðskjalasafns en þau geta með samþykki safnsins stofnað héraðsskjalasöfn sem taka þá við því hlutverki Þjóðskjalasafnsins að varðveita skjöl viðkomandi sveitarfélaga. Með þessari fjárveitingu verður Þjóðskjalasafninu gert kleift að styrkja stofnun héraðsskjalasafna.
    20. brtt. varðar fjárlagalið 974, Sinfóníuhljómsveitin. Samið hefur verið við hljóðfæraleikara Sinfóníuhljómsveitarinnar og er viðbótarkostnaður vegna þessara kjarasamninga metinn á um 6 millj. kr. á næsta ári. Sinfónían er B-hluta stofnun en B-hlutinn er að venju tekinn fyrir við 3. umr. fjárlaga og verður þá áætlun hljómsveitarinnar tekin til endurskoðunar til samræmis við þessa hækkun á launagjöldum.
    Brtt. nr. 21 varðar fjárlagalið 981, Kvikmyndasjóð. Lagt er til að framlag til Kvikmyndasjóðs verði hækkað um 21,5 millj. kr. og verði 100 millj. kr. til að efla starfsemi sjóðsins.
    22. tillagan er liður 989, Ýmis íþróttamál. Lagt er til að liðurinn Íþróttafélög, styrkir, verði tekinn inn að nýju að fjárhæð 14,5 millj. kr. Liður þessi er í fjárlögum þessa árs en var felldur niður við vinnslu fjárlagafrv. Fé þetta hefur verið notað til að styrkja íþróttafélög vegna framkvæmda við íþróttamannvirki og búnaðarkaupa vegna þeirra. Gerð er tillaga um að framlag verði óbreytt frá því sem nú er í fjárlögum.
    Utanríkisráðuneyti.
    24. tillagan varðar lið 190, Ýmis verkefni, Félag Sameinuðu þjóðanna. Tekið er upp 800 þús. kr. framlag til Félags Sameinuðu þjóðanna en framlag til félagsins var fellt niður í fjárlagafrv. Í fjárlögum þessa árs er framlag hins vegar 600 þús. kr.
    25. brtt. varðar lið 390, Þróunarsamvinnustofnunin. Framlag til Þróunarsamvinnustofnunar er hækkað um 4 millj. kr. vegna tryggingagjalds. Stofnunin taldi að hún væri undanþegin þessu gjaldi og var leitað til ríkislögmanns um álit. Það var hins vegar mat hans að undanþágur frá greiðslu tryggingagjalds séu nánast engar og að stofnuninni beri að greiða gjaldið. Ekki var gert ráð fyrir þessu í fjárhagsáætlun stofnunarinnar né við vinnslu fjárlagafrv. og er því nauðsynlegt að leiðrétta þetta við afgreiðslu Alþingis á fjárlögunum.
    26. brtt. er vegna liðar 391, Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi --- Háskóli Sameinuðu þjóðanna. Lögð er til hækkun til Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna til að gera skólanum kleift að halda óbreyttum nemendafjölda á næsta ári, þ.e. 16 styrkþegum. Að auki óskuðu forsvarsmenn skólans eftir aukinni fjárveitingu til að auka umfang Jarðhitaskólans en ekki hefur verið fallist á það.
    27. brtt. varðar fjárlagalið 401, Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu. Lögð er til 1,8 millj. kr. hækkun til RÖSE en samkvæmt lokaákvörðun um fjárlög RÖSE hækka framlög aðildarríkjanna um fjórðung frá því sem fyrr var gert ráð fyrir. Framlag Íslands verður því tæpar 8,8 millj. kr.
    Landbúnaðarráðuneyti.
    29. brtt. er vegna fjárlagaliðar 190, Ýmis verkefni --- NASCO. Framlag til Norður-Atlantshafslaxveiðinefndarinnar hækkar um 0,9 millj. kr. vegna leiðréttingar á föstu framlagi Íslands til nefndarinnar.
    30. tillagan er vegna liðar 261, Bændaskólinn á Hvanneyri. Lagt er til að heimiluð verði ný staða aðalkennara á landnýtingarsviði við Bændaskólann á Hvanneyri og er kostnaður áætlaður 2,5 millj. kr. Með þessu er verið að efla svið rekstrar og skipulegrar landnýtingar í starfsemi skólans og er það hluti af endurskipulagningu búvísindanáms.
    31. tillagan er liður 271, Bændaskólinn á Hólum. Gerð er tillaga um 10 millj. kr. hækkun til fasteigna Bændaskólans á Hólum og er framlag þá alls 15 millj. kr. Hækkunin er ætluð til endurbóta á elsta skólahúsinu á Hólum en hið lélega ástand hússins takmarkar mjög nýtingu þess.
    Sjávarútvegsráðuneyti.
    33. brtt. varðar lið 201, Fiskifélag Íslands. Framlag til Fiskifélags Íslands var fellt niður í fjárlagafrumvarpi en það var 6,8 millj. kr. í fjárlögum 1994. Meiri hluti fjárln. leggur til að liður þessi verði tekinn upp aftur og að framlag verði 5 millj. kr. Það er eingöngu ætlað til rekstrar tæknideildar en ekki til almenns rekstrar félagsins eða Fiskiþings. Rekstur tæknideildarinnar kostar um 13 millj. kr. en deildin aflar eigin tekna og að auki hefur Fiskveiðasjóður styrkt hana.
    Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
    35. brtt. varðar fjárlagalið 701, Biskup Íslands. Framlag til fjárlagaliðar biskups Íslands er hækkað alls um 8,6 millj. kr. Í fyrsta lagi er hækkun um 4 millj. kr. vegna starfa tveggja presta, í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi og í Reykjavík. Samkvæmt lögum skal koma nýtt embætti í stað þeirra sem lögð eru niður í prófastsdæmum kirkjunnar. Þar sem eitt prestakall var lagt niður í Þingeyjarprófastsdæmi er hér gert ráð fyrir nýju starfi prests. Hin fjölmennu prestaköll, svo sem víða er í Reykjavík, þarfnast aukins fjölda starfsmanna og er hér gerð tillaga um nýtt starf í Reykjavík. Við það er miðað að kirkjan ráðstafi þeirri stöðu til sókna eftir því sem hún telur vera þörf á.
    Í annan stað er tekinn inn nýr liður en það er framlag til kirkjumiðstöðvar á Austurlandi en kirkjumiðstöðin rekur margháttað starf á vegum þrjátíu safnaða á Austurlandi, m.a. sumarbúðastarf meðal barna og ungmenna, sumarbúðir fyrir fatlaða, orlofsdvöl o.fl.
    Í þriðja lagi er lagt til að framlag til Hallgrímskirkju verði hækkað um 2 millj. kr. þannig að sóknarnefnd hafi alls 6 millj. kr. til ráðstöfunar á næsta ári.
    Að lokum er gerð tillaga um að framlag til Snorrastofu hækki um 1 millj. kr. þannig að það verði óbreytt frá fjárlögum yfirstandandi árs. Í ráði er að ljúka í vetur þeim hluta nýbyggingarinnar þar sem annast á móttöku ferðafólks á staðnum. Sú starfsemi fellur að mestu leyti undir verksvið Snorrastofu í framtíðinni.
    Heilbr.- og trmrn.
    38. brtt. er vegna fjarlagaliðar 301, Landlæknir. Framlag til landlæknis hækkar um 5 millj. kr. og er hækkunin ætluð slysavarnarráði og til verkefnisins Heilsuefling en það er samstarfsverkefni heilbrrn. og landlæknisembættisins. Markmið verkefnisins er að auka áhuga og þekkingu almennings á heilbrigðum lífsháttum. Frá því í byrjun þessa árs hefur verið unnið að því að styrkja starf á sviði heilsueflingar, m.a. með því að efna til samstarfs við nokkur sveitarfélög til reynslu.
    39. brtt. er vegna fjárlagaliðar 353, Fjórðungssjúkrahúsið Ísafirði. Gert er ráð fyrir að ný deild taki til starfa við Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði á komandi ári. Meiri hluta fjárln. þykir sýnt að þær fjárveitingar sem birtast í frv. til fjárlaga muni ekki duga til heils árs rekstrar.
    Tillaga nr. 40 varðar lið 358, Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri. Fjárveiting til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri er vegna öldrunarlækningardeildar í Kristnesi en til þeirrar starfsemi er stofnað samkvæmt samkomulagi sem gert var þegar fjórðungssjúkrahúsið yfirtók rekstur Kristnesspítala af Ríkisspítölum.
    Brtt. 41 varðar lið 381, Sjúkrahús og læknisbústaðir. Lagt er til að stofnkostnaður sjúkrahúsa hækki um 25,5 millj. kr. og verði þá 268,2 millj. kr. Skipting á einstök verkefni er sýnd í breytingartillögum nefndarinnar. Í nefndaráliti kemur fram talnavilla og verður hún leiðrétt.
    42. brtt. varðar lið 399, Heilbrigðismál, ýmis starfsemi. Lögð er til 2 millj. kr. hækkun til starfsemi Hjartaverndar en á vegum samtakanna er unnið mikið starf í sjálfboðavinnu og framlag samtakanna til forvarna og rannsókna á hjarta- og æðasjúkdómum er mikilsvert. Starfsemi Hjartaverndar hefur verið rekin með halla undanfarin ár en það er von meiri hluta fjárln. að með þessari hækkun náist að skapa jafnvægi í rekstri samtakanna. Tekinn er inn nýr liður undir þennan fjárlagalið en það er 12 millj. kr. framlag til Krýsuvíkursamtakanna vegna rekstrar vist- og meðferðarheimilis. Framlag til samtakanna hefur áður verið fært hjá landlækni og er fjárveiting á þessu ári 11 millj. kr.
    Brtt. nr. 43 varðar fjárlagalið 400, St. Jósefsspítali, Hafnarfirði. Stjórnendur St. Jósefsspítala í Hafnarfirði hafa gert fjárln. grein fyrir þeirri starfsemi sem fram fer í sjúkrahúsinu og þeim fjárframlögum sem þarf til rekstrarins og þykir einsýnt að sú fjárhæð sem frv. gerir ráð fyrir dugi ekki til rekstrarins. Því er lögð til hækkun að fjárhæð 11 millj. kr.
    44. tillagan varðar fjárlagalið 401, St. Fransiskusspítali, Stykkishólmi. Stjórnendur sjúkrahússins gerðu nefndinni grein fyrir starfsemi þess. Vegna framkvæmda við gamla sjúkrahúsið og tengingu við nýbyggingu samkvæmt sérstökum samningi sem gerður var af heilbrigðis- og fjármálaráðuneyti hefur orðið samdráttur í starfsemi á undanförnum árum. Þeim framkvæmdum og endurbótum er að mestu lokið og því er lagt til að fjárveiting verði aukin um 6 millj. kr.
    45. tillagan varðar fjárlagalið 422, Hlaðgerðarkot. Meiri hluti fjárln. leggur til að framlag til rekstrar Hlaðgerðarkots verði hækkað um 2 millj. kr. og verði þá samtals 37,8 millj. kr.
    46. tillagan er liður 553, Heilsugæslustöðin Akureyri. Lagt er til að 700 þús. kr. verði veittar til Heimahlynningar Akureyrar en hún hefur verið starfrækt frá árinu 1989, áður undir nafninu Líknarhópur Akureyrar. Markmiðið með starfinu er að tryggja skjólstæðingum og fjölskyldum þeirra heildstæða og markvissa sólarhringsþjónustu. Í fyrstu var eingöngu um sjálfboðavinnu að ræða en á árinu 1993 var veitt heimild fyrir hálfu stöðugildi hjúkrunarfræðings við uppbyggingu heimahlynningar fyrir krabbameinssjúka.
    Brtt. nr. 47 varðar lið 601, Ljósmæðraskóli Íslands.
Eins og gerð var grein fyrir í umfjöllun um Háskóla Íslands er gert ráð fyrir að flytja ljósmæðranám frá heilbrrn. til menntmrn. Því fellur framlag til Ljósmæðraskóla Íslands undir heilbrigðisráðuneyti niður.
    Í 48. og 49. brtt. er gert ráð fyrir launabótum á margar heilbrigðisstofnanir og rekstrarhagræðingu. Vegna endurmats á kjarasamningum við heilbrigðisstéttir eru færðar alls 6,2 millj. kr. á ýmsar stofnanir heilbrrn. Breytingarnar eru ýmist til hækkunar eða lækkunar en sundurliðun er sýnd í yfirliti í breytingartillögum nefndarinnar. Að auki hefur verið ákveðið að hafa 23,5 millj. kr. óskipta fjárveitingu á fjárlagliðunum ,,Rekstrarhagræðing`` til þess að mæta óhjákvæmilegum leiðréttingum sem kunna að verða. Tillögur um launabætur til Ríkisspítala, Borgarspítala og Landakotsspítala munu koma fram við 3. umr. fjárlaga.
    Fjármálaráðuneyti.
    54. tillagan varðar lið nr. 999, Ýmislegt. Undir fjmrn. eru eingöngu lagðar til breytingar sem snerta millifærslur vegna símakostnaðar. Eins og greint var frá í umfjöllun um aðalskrifstofu forsrn. hefur verið ákveðið að símakostnaður Stjórnarráðsins verði færður á aðalskrifstofu hvers ráðuneytis fyrir sig, auk nokkurra annarra stofnana, en ekki á einn lið undir fjmrn. Vegna þessa lækkar fjárlagaliður Ýmislegt undir fjmrn. um 30,1 millj. kr. en hækkanir á aðalskrifstofum ráðuneytanna og nokkurra annarra stofnana hækkar um sömu fjárhæð samtals.
    Samgönguráðuneyti.
    56. brtt. varðar lið 330, Vita- og hafnamálastofnun. Gerð er leiðrétting á framsetningu rekstrargjalda hjá Vita- og hafnamálastofnun en bæði gjöld og sértekjur voru ofmetin um 19,6 millj. kr. Sú leiðrétting hefur engar breytingar á heildarfjárhæðum í för með sér.
    Þá gerir brtt. ráð fyrir að framlög til stofnkostnaðarviðfangsefnisins ,,Hafnamannvirki`` hækki um 139,8 millj. kr. Sú hækkun yrði fjármögnuð annars vegar með skerðingu framlags til Hafnabótasjóðs, samkvæmt ákvæði í væntanlegum lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum, og hins vegar með tilfærslu fjárveitingar að fjárhæð 45 millj. kr. frá sjóvarnargörðum. Jafnframt er gert ráð fyrir lítils háttar lækkun á fjárveitingu til hafnarmannvirkja í Sandgerði, eða sem nemur 1,4 millj. kr. og auknum tekjum af sérstöku vörugjaldi. Liðurinn Sjóvarnargarðar er hækkaður um 2 millj. kr. samkvæmt ákvörðun meiri hluta fjárln.
    Brtt. nr. 59 varðar fjárlagalið 651, Ferðamálaráð. Þrjár breytingatillögur varða starfsemi Ferðamálaráðs. Í fyrstu lagi er tillaga um nýtt viðfangsefni á fjárlagalið Ferðamálaráðs en þar eru 5 millj. kr. ætlaðar til ferðamálasamtaka landshluta. Í öðru lagi lækkar á móti framlag til rekstrar Ferðamálaráðs um sömu fjárhæð og er því ekki um hækkun vegna þessa að ræða.
    Að lokum er tekinn inn nýr liður sem ætlaður er til landkynningar í tengslum við heimsmeistaramót í handknattleik sem haldið verður hér á landi á næsta ári. Með keppni þessari munu opnast mikilvæg tækifæri til landkynningar og eflingar ferðaþjónustu. Ætlunin er að verja þessu fé til undirbúnings og kynningar utan lands og innan fyrir keppnina og meðan á henni stendur.
    Iðnaðarráðuneyti.
    62. tillagan varðar lið 299, Iðja og iðnaður, framlög. Lagt er til að framlag til Staðlaráðs verði hækkað um 1,2 millj. kr. þannig að heildarframlag verði 3,8 millj. Hækkunin er vegna þess að ráðinu bauðst að taka að sér framkvæmdastjórn Evrópunefndar um stafatækni. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga en Staðlaráð hefur mótað þá stefnu að leggja megináherslu á þjóðlegar kröfur þannig að alþjóðastaðlar fullnægi þeim kröfum sem íslensk tunga og menning gerir til upplýsinga- og fjarskiptatækni.
    Framlag til alþjóðlegs rannsóknarsamstarfs lækkar en á móti er tekið inn framlag vegna viðskiptafulltrúa í Moskvu. Á vegum iðnrh. var skipuð nefnd sem hafði það hlutverk að meta og gera tillögur um á hvern hátt unnt væri að auka innflutning á fiski frá rússneskum togurum til vinnslu hér á landi, auka sölu á vörum og þjónustu til erlendra veiðiskipa sem landa í íslenskum höfnum og auka útflutning vöru og þjónustu til Rússlands. Nefndin hefur skilað áliti og farið hafa fram viðræður milli iðnrh., utanrrh. og framkvæmdastjóra Útflutningsráðs um ráðningu viðskiptafulltrúa í Moskvu er hafi það verkefni að aðstoða íslenska útflytjendur og byggja upp viðskiptasambönd í Rússlandi.
    Viðskiptaráðuneyti.
    64. brtt. varðar fjárlagalið 190, Ýmis verkefni. Lagt er til að framlag til Neytendasamtakanna hækki um 0,7 millj. kr. og verði 3,5 millj. á næsta ári. Framlag í fjárlögum 1994 er 3 millj. en var lækkað í 2,8 millj. í fjárlagafrv. Að mati meiri hluta fjárln. er unnið mikilvægt starf á vegum þessara samtaka og nauðsynlegt að styrkja rekstur þeirra.
    Umhverfisráðuneyti.
    67. till. varðar fjárlagalið 190, Ýmis verkefni, undirbúningur náttúrustofa. Framlag til undirbúnings náttúrustofa er hækkað um 1,3 millj. kr. og verður alls 2,3 millj. Af þessari hækkun eru 0,6 millj. kr. ætlaðar til undirbúnings að opnun náttúrustofu fyrir Vestfirði í Bolungarvík. Umhvrh. hefur ákveðið að hún skuli staðsett þar og um það er samkomulag á meðal sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum. Þar með er gert ráð fyrir að hlutdeild náttúrustofu í Bolungarvík af þessum fjárlagalið verði alls 0,8 millj. kr. Það sem eftir stendur af hækkuninni, um 0,7 millj., er ætlað til náttúrustofu fyrir Suðurland sem staðsett verður í Vestmannaeyjum og verði þá alls 1,5 millj. kr. af fjárlagaliðnum ætlaðar til hennar. Fyrirhugað er að hún hefji starf árið 1996 og við það er miðað að fjárveitingin sé þá til samræmis við fjárveitingu til náttúrustofu í Neskaupsstað á fjárlögum ársins í ár.
    68. tillagan varðar fjárlagalið 201, Náttúruverndarráð. Framlag hækkar alls um 2,5 millj. kr. Launaliður hækkar um hálfa milljón vegna aukningar á starfshlutfalli fjármálastjóra við stofnunina. Framlag til þjóðgarða og friðlýstra svæða hækkar um 2 millj. kr. en fjölgun friðlýstra svæða hefur í för með sér aukinn rekstrarkostnað.
    69. tillagan varðar fjárlagalið 210, Veiðistjóri. Lagt er til að rekstrarfjárveiting veiðistjóra verði hækkuð um 1,5 millj. kr. en í tengslum við þær áherslubreytingar sem eru að verða á stjórn veiða úr villtum dýrastofnum sem m.a. snúa að auknum rannsóknum á stofnstærð og vistfræði villtra dýra hefur verið talið mikilvægt að tengja betur rannsóknir veiðistjóraembættisins við rannsóknastarf Háskóla Íslands. Hefur því verið ákveðið að stofna kennslu- og rannsóknarembætti í stofnvistfræði spendýra við Háskóla Íslands og að þessi staða verði kostuð af fjárlagalið embættis veiðistjóra. Miðað er við að staðan verði stofnuð frá og með 1. júní 1995.
    70. tillagan varðar fjárlagalið 401, Náttúrufræðistofnun Íslands. Gerð er tillaga um hækkun framlags til tækja- og búnaðarkaupa hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Hækkunin er ætluð til tölvu- og gagnakerfis en þörf er fyrir öflugan gagnabanka, m.a. til að halda utan um gagnasafn stofnunarinnar um flesta þætti íslenskrar náttúru.
    Brtt. 71 varðar lið 403, Náttúrustofur. Lögð er til 1,4 millj. kr. hækkun til fjárlagaliðar náttúrustofa. Hækkunartillaga meiri hluta fjárln. miðar að því að auka framlag til öflunar húsnæðis, kaupa eða leigu, til áhalda og tækja o.s.frv. en ekki er gert ráð fyrir að auka við launalið.
    72. tillagan varðar fjárlagalið 410, Veðurstofa Íslands. Lagt er til að veittar verði 5 millj. kr. til viðhalds á húsnæði Veðurstofunnar. Aðallega er um að ræða viðhald utan húss þar sem þak hússins lekur, sprungur eru á útveggjum og mála þarf húsið að utan. Að auki eru útitröppur nánast ónýtar og gera þarf við skemmdir innan húss vegna leka.
    Að lokum er rétt að benda á nokkrar tæknilegar breytingar sem nefndin gerir tillögu um og gert er grein fyrir í lok nefndarálits. Hér er ekki um neinar efnisbreytingar að ræða og því ekki fluttar um þær breytingartillögur. Einungis er um leiðréttingar á heitum og gjaldategundum sem fjmrn. og önnur ráðuneyti hafa beðið um.
    Virðulegi forseti. Fyrir hönd nefndarinnar vil ég þakka starfsmanni okkar, Sigurði Rúnari Sigurjónssyni, fyrir gott starf og eljusemi. Einnig ber að þakka Halldóri Árnasyni og Ásdísi Sigurjónsdóttur, starfsmönnum fjmrn. sérlega gott samstarf. Þá hefur nefndin notið góðrar liðveislu starfsfólks Ríkisendurskoðunar og ýmissa ráðuneyta. Starfsfólk Alþingis á heiður skilið og þá ekki síst starfsfólk sem starfar í Austurstræti 14, sem alltaf er tilbúið að leysa úr öllum málum, stórum sem smáum.
    Samnefndarmönnum mínum þakka ég gott samstarf og þolinmæði en allir hafa þeir lagt sig fram um að störf nefndarinnar mættu ganga sem greiðast og hvergi hefur borið þar skugga á.
    Eins og fyrr er getið er ýmsum málum vísað til 3. umr. Fyrir þá umræðu þarf að taka ýmsar ákvarðanir sem styrkja fjárlagafrv. Þá kunna ýmsar ákvarðanir að líta dagsljósið sem ekki valda miklum fögnuði. Það er hins vegar svo að fleira þarf að gera en gott þykir.
    Viðulegi forseti. Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir breytingartillögum meiri hluta fjárln. eins og þær liggja fyrir við 2. umr. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari afgreiðslu vísað til 3. umr. og að frv. verði samþykkt eftir 2. umr. eins og meiri hluti fjárln. leggur til.