Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 14:54:56 (2643)

[14:54]
     Frsm. minni hluta fjárln. (Guðmundur Bjarnason) :
    Hæstv. forseti. Nú þegar fjárlagafrv. hæstv. ríkisstjórnar fyrir árið 1995 er komið til 2. umr. í hv. Alþingi þá tel ég að ekki væri til of mikils mælst að hæstv. fjmrh. væri viðstaddur þessa umræðu, hlýddi á hana og þær athugasemdir sem fram kunna að koma, bæði varðandi frv. sjálft og afgreiðslu þá sem liggur fyrir. Auk þess fyndist mér eðlilegt að sumir aðrir hæstv. ráðherrar sem fara með útgjaldasama málaflokka væru einnig í fundarsal og hlýddu á umræðuna. Er nokkuð hægt að fá upplýsingar um t.d. hæstv. fjmrh.?
    ( Forseti (SalÞ) : Hæstv. fjmrh. mun ekki vera í húsinu samkvæmt töflu í borði forseta en forseti mun gera ráðstafanir til að gera hæstv. fjmrh. viðvart.)
    Ég þakka hæstv. forseta fyrir það og tel reyndar með ólíkindum að það skuli vera svo að hæstv. fjmrh. telji ekki ástæðu til þess að vera í hv. þingi og hlusta á 2. umr. fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Hæstv. menntmrh. sýnir okkur þá virðingu að vera viðstaddur og ég hefði kannski síðar í ræðu minni haft áhuga á því að eiga orðastað bæði við hæstv. landbrh. og hæstv. heilbr.- og trmrh. þó að ég að vísu þykist vita að hæstv. heilbr.- og trmrh. sé inni með varamann þannig að ég veit ekki hvort hann er viðlátinn, kannski ekki einu sinni á landinu.
    Hæstv. forseti. Ég sný mér þá að því að ræða nokkuð um frv. og meðferð þess í hv. fjárln. á undanförnum vikum og mánuðum og vænti þess að hæstv. fjmrh. komi í hús innan tíðar.
    Að venju hefur þetta verið mikil vinna og mikil fundahöld í fjárln. að fjalla um frv. Fjölmargir einstaklingar, fulltrúar sveitarfélaga, stofnana og samtaka hafa komið til viðræðu við nefndina og lagt fram sín erindi og fylgt þeim eftir með málflutningi sínum og mun ég kannski aðeins, ef mig langar síðar í ræðu minni, víkja örlítið að vinnubrögðum og vinnutilhögun í fjárln. en ég tel að það sé full ástæða til þess að ræða ofurlítið um það og hugsanlega að velta fyrir sér hvernig gera megi þetta nefndarstarf sem vissulega er mjög mikilvægt fyrir þingið og fyrir þjóðina hvernig til tekst með afgreiðslu fjárlaga hverju sinni að ræða ofurlítið um það hvernig nefndarstarf getur verið skilvirkast og best.
    Meiri hlutinn flytur við þessa 2. umr. ýmsar breytingartillögur við frv. samkvæmt venju og minni hlutinn er að sjálfsögðu sammála ýmsum þeirra, enda tekið þátt í umfjöllun um þessar brtt. og hlýtt á málflutning þeirra gesta sem gengið hafa fyrir nefndina. Sjálfsagt má segja að sumar þessar breytingartillögur orki tvímælis en þó e.t.v. einkum vekja þær spurningu um það hvernig þær eru valdar, hverjar tillögurnar hafa forgang, hvaða mál eru tekin til skoðunar og af hverju breytingartillögur eru fluttar við þessa liði fjárlagafrv. en ekki aðra þar sem óskir hafa komið fram um breytingar og kannski ekki síður rökstuddar heldur en þær sem hér eru gerðar tillögur um. Samtals eru þessar brtt. ekki há upphæð eða tæplega 400 millj. kr. en eins og fram kom í lokaorðum hv. formanns fjárln., hv. þm. Sigbjörns Gunnarssonar, eru ýmis stór mál geymd til 3. umr. Þar má t.d. nefna umfjöllun um málefni Háskóla Íslands, stóru sjúkrahúsin í Reykjavík, almannatryggingakerfið, B-hluta stofnanirnar og vonandi einhver umræða um málefni landbúnaðar og væntanlega þá í kjölfar þess einhver lagfæring á fjárveitingum til þess málaflokks en í breytingartillögum sem nú liggja fyrir er ekki mikið að finna sem styrkir landbúnaðinn í þeim erfiðleikum sem hann sannarlega á við að glíma nú. Síðast en ekki síst á eftir að fjalla um tekjuhliðina í fjárlagafrv.
    Við umfjöllun um tekjuhliðina skýrast að venju efnahagsforsendur nokkuð og breytast oft og tíðum frá því að lagt hefur verið upp í fjárlagafrv. á miðju ári og eðlilegt að ýmsar breytingar gerist á þeim tíma þar til kemur að afgreiðslu frumvarpsins. Þá á ég von á að fjárln. og þingið fái endurmetna þjóðhagsspá og forsendur fyrir tekjuöflun ríkissjóðs verði lagðar skýrar fram en hefur verið gert. Þær forsendur hafa síðan að sjálfsögðu áhrif á atvinnuþróun, á kjaramál, á verðlagsþróun og hugsanlega einnig á vaxtaþróun í landinu. Allt bíður þetta nánari umfjöllunar fyrir 3. umr.
    Ég sagði að ég vænti þess að þetta ætti eftir að skýrast nokkuð fyrir 3. umr. umfram það sem þegar hefur verið lagt fyrir þing og þjóð þó svo að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar, sem gefin var út um nýliðna helgi og rædd var ítarlega í þinginu í gær, beri hátíðlega yfirskrift en yfirlýsingin er talin vera um aðgerðir til að stuðla að aukinni atvinnu, stöðugleika og kjarajöfnun.
    Enda þótt yfirskriftin sé stór og það mætti ímynda sér að þar væri að vænta mikils boðskapar þá finnst mér nú við yfirlestur að þar segi harla lítið að ekki sé meira sagt. Þetta var, eins og ég sagði áðan, hæstv. forseti, rætt ítarlega í gær og ekki ástæða til þess að fjalla miklu meira um það nú. Þó langar mig aðeins til að örfáum orðum fara um þessa yfirlýsingu því að auðvitað er verið að gefa ákveðin fyrirheit, ákveðnar væntingar, sem eru þó fyrst og fremst fyrirheit til framtíðar um eitthvað sem hæstv. ríkisstjórn hefði átt að vera búin að gera fyrir löngu hefði hún meint eitthvað með því sem hér er sett niður á blað.
    Þar má t.d. nefna skattlagningu fjármagnstekna, það má nefna aðgerðir gegn skattsvikum, það má nefna greiðsluvanda vegna húsnæðislána, það má nefna nýsköpun í atvinnulífi og örvun fjárfestingar. Allt eru þetta brýn og mikilvæg mál og vissulega þörf að á þeim sé tekið en það verður að teljast harla seint til gripið hjá hæstv. ríkisstjórn að boða þetta nú þegar aðeins örfáar vikur eru eftir af líftíma hennar og ekki líklegt að mikið gerist í þingi þegar nálgast kosningar, það þekkja menn trúlega af fyrri reynslu.
    Einn þátturinn í yfirlýsingunni hlýtur þó að vekja meiri undrun en aðrir en það er yfirlýsingin um hækkun skattleysismarkanna. Þar held ég að verði að segja að nánast sé um blekkingu að ræða. Ef textinn er lesinn verður hann ekki skilinn öðruvísi en svo. Með leyfi hæstv. forseta segir hér: ,,Undanfarin ár hefur ákvörðun um persónuafslátt fremur tekið mið af launaþróun en verðlagsþróun. Þetta hefur leitt til þess að persónuafsláttur hefur hækkað minna en ella. Á næsta ári er í forsendum fjárlaga gert ráð fyrir að laun hækki meira en nemur almennum verðlagsbreytingum og kaupmáttur aukist. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að persónuafsláttur taki áfram mið af fyrirhugaðri launaþróun fremur en verðlagsþróun og hækki því meira en ella hefði orðið.``
    Þetta er ótrúlegur texti, virðulegur forseti, og felur kannski helst það í sér að verið sé að lofa því að lækka ekki skattleysismörkin enn frekar og þar með sé verið að segja að a.m.k. með þeim hætti eigi ekki að hækka skattana, af því að það eigi að halda áfram að reikna skattleysismörkin út með hliðsjón af launaþróun eins og gert hefur verið.
    Ég held að það verði að segja um þessa yfirlýsingu að hún sé nánast yfirklór á síðustu stundu. Það er rétt eins og verið sé að reyna að skapa einhverja spennu í umræðunni í þjóðfélaginu, verið sé að reyna að láta líta svo út sem ríkisstjórnin sé eitthvað að gera, reynt er að ná athygli fjölmiðlanna og þar með almennings í landinu en þegar plaggið er skoðað nánar má helst líkja því við nýju fötin keisarans.
    Nei, virðulegur forseti, vandinn sem nú er við að glíma er fyrst og fremst sú efnahagsstefna sem hæstv. ríkisstjórn hefur rekið á undanförnum missirum eða í valdatíð sinni og dugleysi hennar við að takast á við þau viðfangsefni sem brýnast er að leysa, þ.e. fyrst og fremst að efla atvinnulífið í landinu. Varla er von á öðru en að dugleysi sé einkennandi og stöðnun í fari hæstv. ríkisstjórnar þegar ósamstaða er svo mikil og áberandi eins og a.m.k. hefur verið milli hæstv. ráðherra á undanförnum mánuðum og gjörólík stefna kemur fram hjá hæstv. ráðherrum, sérstaklega þó leiðtogum eða forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., í veigamiklum málum sem varða framtíð þjóðarinnar.
    Hv. fjárln. hefur orðið að styðjast við þær forsendur í störfum sínum, sem er að finna í fjárlagafrv., a.m.k. á meðan ekki hefur annað nýrra komið fram. Þar er gert ráð fyrir því að hagvöxtur á næsta ári verði um 1,4%, verðbólguspáin er 2,5%, atvinnuleysi er áætlað vera rétt tæp 5% eða 4,9 svo nákvæmlega sé nú tilgreint, og sagt er að reikna megi með að launaþróun verði í takt við almennar breytingar þjóðartekna á bilinu 2,5--3,5%.
    Ég held að það verði að fullyrða að mikil óvissa sé í spánni. Hún er byggð á þeim forsendum að afli á fjarlægum miðum haldist og veitt sé úr minnkandi þorskstofni. Á móti hefur verð á sjávarafurðum að vísu farið nokkuð hækkandi. Minni hluti hv. fjárln. telur að forsendur fjárlagafrv. séu því afar veikar. Samningar eru lausir og hörð átök eru nú þegar á vinnumarkaði. Sú stefna að atvinnuleysið verði um 4,9% eða 5% er einnig hæpin í ljósi þess að fjárfestingar eru hér minni en í öðrum OECD-ríkjum. Fjárlagafrv. gerir ráð fyrir verulegum samdrætti í opinberum fjárfestingum og fjárhagsstaða sveitarfélaganna hefur því miður versnað og niðurskurður er í félagslega húsnæðiskerfinu. Ekki er við því að búast að fyrirtæki fjárfesti í stórum stíl eftir hallarekstur liðinna ára. Ætli þau muni ekki fyrst og fremst reyna að leita eftir því nú ef hagur þeirra vænkast eitthvað að grynnka á skuldunum? Auk þess hefur haustvertíð loðnu því miður brugðist og óvissa er um Smuguveiðarnar þar sem fram undan eru samningaviðræður við Norðmenn um þau mál.
    Stöðugleiki er vissulega mikilvægur í þjóðfélaginu. Hann hefur í raun haldist frá því að svokallaðir þjóðarsáttarsamningar voru gerðir í tíð fyrri ríkisstjórnar. Með stöðugleikanum er auðvitað líka auðveldara að gera allar áætlanir bæði hjá fyrirtækjum í landinu og hjá ríkinu, hjá ráðuneytum og ríkisstofnunum enda hefur það sýnt sig að ríkisstofnanir hafa að undanförnu haldið sig betur við fjárlögin og þær fjárveitingar sem þeim hafa verið ætlaðar, í það minnsta þar sem fjárveitingarnar hafa verið raunhæfar. Auðvitað er hægt að nefna og benda á fjölmörg dæmi þar sem opinberum stofnunum hefur verið áætlað fjármagn eða fé til að starfa með sem hefur verið algjörlega óraunhæft og vonlaust að reka þau fyrirtæki eins og til hefur verið ætlast.
    Stöðugleikinn má hins vegar ekki þýða stöðnun. Stöðnun hefur einkennt ástandið í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar. Hagvöxturinn er of lítill og fjárfestingarnar, eins og ég nefndi áðan, í lágmarki. Auk þess má benda á að viss tilhneiging er nú í þjóðfélaginu til vaxtahækkana þrátt fyrir að víða í greinargerð frumvarpsins sé að finna væntingar hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. fjmrh. um að vextir muni lækka enn frekar þá er það svo að á undanförnum dögum og vikum hafa tilhneigingarnar verið til vaxtahækkunar í þjóðfélaginu. Kjarasamningarnir eru lausir um áramótin og þjóðarsáttin því miður vissulega í hættu miðað við ríkjandi aðstæður. Kannski má fyrst og fremst segja að það sé vegna þess að þolinmæði fólks er nú á þrotum. Eignatilfærslan hefur orðið gífurleg í þjóðfélaginu á undanförnum missirum og launabilið breikkar. Fátækt er því miður orðin staðreynd í þjóðfélagi okkar. Það eru í gangi hörð átök á vinnumarkaðinum. Þar á ég við kjaradeilur ríkisins við sjúkraliða sem sér ekki enn fyrir endann á. Auk þess má segja að þeir samningar, sem ríkið hefur gert á árinu við einstakar stéttir, einkum þó líklega heilbrigðisstéttir, leiði hugann að því hvort launakerfi hins opinbera eða launakerfi opinberra starfsmanna sé ekki í raun brostið. Er ekki í ljósi þessara samninga og þeirrar deilu, sem nú ríkir, nauðsynlegt að horfa á þetta í víðara samhengi og e.t.v. í nýju ljósi?
    Ég heyrði nýlega sögu um auglýsingu á lausri stöðu við Háskóla Íslands sem vakti bæði athygli mína og þeirra sem um höfðu fjallað og greindu mér frá þessu. Um þessa stöðu komu reyndar sárafáar umsóknir þrátt fyrir það ástand sem nú er ríkjandi á vinnumarkaði og af þessum örfáu umsóknum var aðeins ein talin hæf. Þetta hlýtur að leiða hugann að því hvað er í raun að. Er það launakerfið, eru launakjörin óviðunandi? Er það það sem fælir einstaklingana frá því að sækja eftir vinnu, hugsanlega í þokkalega góðum stöðum hjá hinu opinbera? Hvers er að vænta í raun ef ekki fæst hæft starfsfólk til starfa t.d. í menntakerfinu okkar, í skólakerfinu okkar og auðvitað annars staðar í störfum hjá hinu opinbera? Við erum því miður stödd í vítahring stöðnunar og samdráttar og breytinga er varla að vænta í tíð hæstv. ríkisstjórnar enda styttist nú líftími hennar.
    Ríkisvald þarf á hverjum tíma að beita öllum tiltækum ráðum til þess að örva atvinnulíf og auka hagvöxt. Ég get verið sammála ýmsum hugleiðingum sem komu fram í framsöguræðu hv. formanns fjárln. fyrir nál. meiri hlutans. Og reyndar einnig fögrum fyrirheitum sem eru í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem ég gat aðeins um áðan. En það er bara ekki nóg að vera nú með slíkar yfirlýsingar og fögur fyrirheit þegar sagan segir okkur að unnið hefur verið með öðrum hætti. Ríkisvaldið hefur ekki að undanförnu lagt þá áherslu sem nauðsynlegt er á að örva atvinnulífið. Það þarf að styrkja og samhæfa enn betur allar rannsóknir, allt þróunarstarf og markaðsmál. Það þarf að útvega nýjum atvinnugreinum og nýjum sprotum í atvinnulífinu styrki og áhættufé, m.a. með breytingum á starfsemi Byggðastofnunar og breytingum í starfsemi fjárfestingarlánasjóðanna. Það þarf að styrkja og styðja við útflutningsstarfsemina t.d. með eflingu Útflutningsráðs og í gegnum utanríkisþjónustuna, beita utanríkisþjónustunni meira á sviði utanríkisviðskipta. Það þarf að leita samninga við lífeyrissjóðina um að auka stuðning þeirra við atvinnuuppbyggingu í landinu, það þarf að leggja áherslu á að fjárveitingar og framkvæmdir af hálfu hins opinbera nýtist sem best öllu atvinnulífi og beita þeim þá t.d. á sviðum samgöngumála, á sviði upplýsingatækni og á sviði menntamála. Menntamálin og öflugt skólakerfi eru auðvitað undirstaða þess að við getum í framtíðinni byggt upp traust og öflugt atvinnulíf.
    Samtillt átak ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðarins á þessum sviðum á að geta leitt til aukins hagvaxtar upp á 2--3% eða hliðstætt því sem er í nágrannalöndum okkar. Aðeins þannig tel ég að hægt sé að komast út úr ríkissjóðshallanum. Aðhald, sparnaður og ráðdeildarsemi í hvívetna er að sjálfsögðu nauðsynleg í opinberum rekstri og það er auðvitað uppi krafa um eðlilega hagræðingu og hún er bæði nauðsynleg og sjálfsögð. En hún má ekki snúast upp í andhverfu sína. Sú krafa má ekki þýða það að skólakerfið líði fyrir það, skólakerfið sé skorið niður, sparnaðar- og niðurskurðarkrafan sé svo sterk. Við fjöllum um það í nál. okkar í minni hluta fjárln. að grunnskólakerfið hafi verið skorið svo niður og kennslustundum fækkað og ekki staðið við skýr lagaákvæði að það horfi til óheilla. Verkmenntun er ekki sinnt sem skyldi, það þarf að tengja hana betur þörfum atvinnulífsins. Tækjavæðingu skólanna er ábótavant og er það þó mjög nauðsynlegt að skólakerfið okkar sé búið besta búnaði á hverjum tíma til þess að mennta gott fólk út úr skólunum til að takast á við líf og starf í þjóðfélaginu. En alvarlegasta tel ég þó umræðuna um háskólamenntunina vera ef það er svo að háskólamenntun í landinu sé raunverulega að hnigna og hún sé ekki

lengur samkeppnisfær við erlenda háskóla. Vonandi verður það mál rætt frekar milli umræðna, milli 2. og 3. umr. í fjárln. um fjárlagafrv. og einhverjar úrbætur fáist til þess að rétta hlut háskólans.
    Breyttar úthlutunarreglur hjá Lánasjóði ísl. námsmanna á undanförnum árum hafa og eru nú að ógna jafnrétti til náms sem hefur verið meginmarkmið íslenskra stjórnvalda um langt árabil. Það sýnir sig að fækkun nema á háskólastigi og í námi, sem er lánshæft af hálfu lánasjóðsins, að reglurnar hafa haft þau áhrif að minni ásókn er í þetta nám. Það tel ég að sé besta vísbendingin um það að þessu jafnrétti sé ógnað.
    Aðrir félagar mínir úr minni hluta fjárlaganefndar munu ræða nánar um þessi mál og ætla ég ekki að fara ítarlega yfir menntamálin, en vil þó lýsa stuðningi við tillögur meiri hluta fjárlaganefndar um framlög til vinnumatssjóðs Kennaraháskólans og Háskólans á Akureyri. Mig langar þó aðeins að fara örfáum orðum um málefni Háskólans á Akureyri, en það er nýleg stofnun í mikilli og örri þróun og nú er komið að því að það verði að huga alvarlega að húsnæðismálum þeirrar stofnunar. Hugmyndir hafa verið uppi um að kaupa svokölluð Sólborgarhús eða húsnæði Sólborgar á Akureyri fyrir starfsemi skólans og hafa þær hugmyndir fengið jákvæð viðbrögð bæði hjá heimamönnum svo og í menntamrn. og ég hygg hjá hæstv. menntmrh. Skýrsla sem lögð hefur verið fram af hálfu Framkvæmdasýslu og Hagsýslu ríkisins er einnig mjög jákvæð hvað þetta varðar.
    Mig langar aðeins til þess að vitna til þessarar skýrslu örfáum orðum, en þar er m.a. getið um það að fyrstu viðbrögð háskólans við því að fá framtíðarhúsnæði á þessu Sólborgarsvæði hefðu verið þau að þar væri um góðan kost að ræða, en því þarf auðvitað að fylgja að kennsluhúsnæði verði byggt fljótt í framhaldi af þessari ákvörðun, ef hún verður tekin, að flytja skólann á þetta svæði. Í skýrslunni sem ég vitnaði til er m.a. sagt, með leyfi forseta:
    ,,Fyrir Háskólann á Akureyri virðist það á margan hátt vera álitlegur kostur að flytja á Sólborgarsvæðið. Kostirnir eru m.a. þessir:
    a) sé litið til langs tíma, þ.e. áratugs eða áratuga, hentar Sólborgarsvæðið skólanum vel til uppbyggingar,
    b) núverandi húsnæði á Sólborg hentar skólanum ágætlega fyrir stjórnsýslu skólans,
    c) húsin á Sólborg virðast vera í góðu ásigkomulagi og hefur verið vel við haldið,
    d) frá skipulagssjónarmiði er uppbygging skólans á Sólborgarsvæðinu hentug og
    e) með flutningi skólans á svæðið er verið að nýta húsnæði ríkisins sem væntanlega mundi ekki seljast fyrir nema brot af nýbyggingarkostnaði.``
    Í lok þessarar skýrslu er að finna svohljóðandi í lokaorðum, með leyfi forseta: ,,Það er mat Framkvæmdasýslu og Hagsýslu ríkisins að lóð og húseignir að Sólborg geti hentað Háskólanum á Akureyri ágætlega. Ákvörðun um flutning skólans á Sólborgarsvæðið byggist þó ekki síst á því hvern veg menn ætla skólanum í framtíðinni og hve sýnilegur hann á að vera í bæjarfélaginu því Sólborgarsvæðið getur án efa orðið glæsilegt og áberandi háskólasvæði í sérstöku umhverfi og eitt af einkennum bæjarins er kemur fram á næstu öld.``
    Hér lýkur tilvitnun í þessa skýrslu, virðulegur forseti, en mér fannst ástæða til þess að geta hennar sérstaklega af því að það er mikilvægt að að þessum málum verði unnið af festu og jafnframt er nauðsynlegt að um leið og ákvörðun er tekin um það að kaupa þetta húsnæði eða flytja skólann þangað, ef það verður niðurstaðan, þá þarf að fylgja því fjárveiting eða fjármagn til lagfæringa og breytinga. Kostnaðaráætlun, sem þegar hefur gerð um nauðsynlegar breytingar, er upp á 70--80 milljónir, kann að vera að hana megi endurskoða og ekki þurfi alla þá upphæð strax í upphafi. En það þýðir ekki annað en að horfast í augu við þá staðreynd að húsnæðiskaupunum þurfa að fylgja fjárveitingar og þó svo þá er þetta tvímælalaust ódýrasti kosturinn sem nú er uppi um það að leysa málefni skólans.
    Ég vil einnig lýsa stuðningi mínum við tillögur frá hv. meiri hluta fjárlaganefndarinnar um örlitla hækkun á framlagi til jöfnunar námskostnaðar. Ég tel að þar sé, þó ekki sé um stórupphæð að ræða, afar mikilvægt mál á ferðinni og þær upphæðir sem gengið hafa í gegnum þennan fjárlagalið, jöfnun námskostnaðar til þess að styrkja sérstaklega nemendur úr dreifbýlinu til þess að sækja framhaldsnám, séu afar veigamikill þáttur í að tryggja það að þessir nemar geti yfirleitt stundað skólana.
    Einnig er ástæða til þess að lýsa ánægju sinni með það að upp skuli aftur vera tekin fjárveiting til íþróttasjóðs ríkisins eða til ýmissa íþróttamála sem gerir ráð fyrir, þó litlar séu, litlum fjárveitingum til ýmissa verkefna sem varða uppbyggingu á íþróttamannvirkjum og ekki nokkur vafi á því að þær fjárveitingar nýtast vel, einkum hinum minni sveitarfélögum.
    Ég sagði áðan, virðulegur forseti, að ég ætlaði ekki að fjalla öllu meira um menntamálin, en mig langar að fara örfáum orðum um landbúnaðarmál og ég hefði þá sannarlega haft áhuga á því að eitthvað færi nú að sjást til þessara hæstv. ráðherra, ef þeir hafa yfirleitt einhvern áhuga á því að fylgja þessum málum eftir. Það er í raun, eins og ég sagði hér í upphafi máls míns, óviðunandi að hæstv. fjmrh. skuli ekki sjá ástæðu til þess að vera í húsinu og hlýða á þessa umræðu. Spurning hvort ekki væri rétt að gera hlé á umræðunni þar til að hæstv. ráðherra gefur sér tíma til þess að vera hér viðstaddur.
    ( Forseti (VS) : Hæstv. fjmrh. var hér staddur, hv. þm. hefur kannski ekki tekið eftir því, en hann mun hafa brugðið sér eitthvað frá. En óskar hv. þm. eftir hæstv. samgrh. og landbrh.?)
    Ef hæstv. landbrh. er í húsinu þá hefði ég gjarnan viljað að hann væri hér. Mér hefur verið svo

mikið niðri fyrir í ræðu minni áðan að ég hef ekki veitt því athygli að hæstv. fjmrh. var búinn að heiðra mig með nærveru sinni. Ég þakka honum fyrir það. En mér finnst það nú líka eðlilegt að hann sýni okkur þann heiður og þá sjálfsögðu kurteisi að hlusta á þessa umræðu um þetta mikilvæga frumvarp, því auðvitað er fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar á hverjum tíma afar mikilvægt skjal og innlegg í efnahagsstefnu og efnahagsumræðu. Ég geri ekki kröfu til þess að hæstv. landbrh. sé sóttur um langan veg, en ef hann er í húsinu þá teldi ég eðlilegt að hann hlýddi hér á umræðu um hans málaflokk.
    ( Forseti (VS) : Hæstv. landbrh. er ekki í húsinu.)
    Ég ætla samt að fara um þennan málaflokk nokkrum orðum og vænti þess þá að bæði hv. fjárlaganefndarmenn í meiri hluta og svo hæstv. fjmrh. hlýði á það mál og taki vonandi eitthvert tillit til þess sem hér er fram sett og ég vitna þá til nál. okkar minnihlutafulltrúanna í hv. fjárlaganefnd. Það er ljóst að greiðslur til landbúnaðar hafa dregist mjög mikið saman á undanförnum árum eða í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar og trúlega meira en nokkurs annars málaflokks. Vafalaust má fullyrða að nánast allur sá sparnaður sem hæstv. ríkisstjórn hælir sér gjarnan af að hafa náð í ríkisútgjöldum sé einmitt niðurskurðurinn til landbúnaðarmála. Á árinu 1992 var til þess málaflokks veitt 10,1 milljarður kr. en samkvæmt fjárlagafrv., eins og það liggur nú fyrir, er aðeins um að ræða 5,7 milljarða og hefur þá niðurskurðurinn verið nær 4,5 milljarðar kr. á þessum árum. Og það er von að það komi einhvers staðar við.
    Þessi niðurskurður eða sparnaður byggir að verulegu leyti á ákvæðum búvörusamnings frá 1991, en þeim búvörusamningi fylgdu hins vegar viðaukar sem gerðu ráð fyrir því að fjármunum yrði varið til ýmissa þátta annarra til þess að styrkja þennan atvinnuveg og aðstoða við þá breytingu sem fyrirsjáanleg var og e.t.v. nauðsynleg til þess að takast á við breytta tíma. Í þessum búvörusamningi var meðal annars viðauki sem kvað á um það að Byggðastofnun yrði útvegað fjármagn til þess að greiða fyrir annarri atvinnuuppbyggingu og þá einkum á þeim stöðum sem viðkvæmastir eru fyrir samdrætti í sauðfjárframleiðslu. Í þessum viðauka var gert ráð fyrir því að á árunum 1992 og 1993 væru 100 milljónir kr. settar í Byggðastofnun hvort ár og 50 milljónir kr. árið 1994 og 1995. Þetta hefði átt með fjárveitingum í því fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir að vera orðnar 300 milljónir kr. Staðreyndin er hins vegar sú að Byggðastofnun hefur aðeins fengið 20 milljónir til þess að sinna þessu verkefni sem er afar mikilvægt og brýnt og standa því í raun 280 millj. kr. út af sem telja má að séu vanefndir á því að staðið hafi verið við þessi fyrirheit sem fylgdu búvörusamningnum.
    Í hugmyndum Byggðastofnunar um ráðstöfun á þessu fé til þess að mæta þeim vanda sem fyrirsjáanlegur er vegna samdráttarins í sauðfjárframleiðslunni var m.a. nefnt að veittir yrðu styrkir til nýjunga í atvinnulífi á sauðfjárræktarsvæðunum. Þá var gert ráð fyrir því að verja fjármunum til fræðslustarfs eða endurmenntunar bænda sem hefðu hug á því að taka upp önnur störf. Í þriðja lagi var rætt um það að efna til sérstakra átaksverkefna á þessum svæðum og efla frumkvæði til nýjunga í atvinnulífi. Í fjórða lagi var gert ráð fyrir því að Byggðastofnun fengi framlag í afskriftareikning útlána sinna til þess að gera henni kleift að veita aðilum á sauðfjárræktarsvæðunum lán til ýmiss konar annarra framkvæmda. Þetta eru allt saman mikilvægir þættir og hefðu vissulega hjálpað til í þeim miklu erfiðleikum sem við blasa í þessari atvinnugrein, en því miður hafa efndirnar verið þær að ekkert eða nánast ekkert af þessu hefur verið hægt að framkvæma eða standa við svo sem ráðgert hafði verið.
    Fleira má auðvitað nefna en fjárveitingarnar til Byggðastofnunar, sem ráð var fyrir gert að styrktu atvinnuþróunina eða breytingarnar í landbúnaðinum. Það var gert ráð fyrir því að verulegur hluti af ráðstöfunarfé Framleiðnisjóðs rynni til atvinnusköpunar. Þá hafa verið skert framlög til Lífeyrissjóðs bænda, það hefur ekki verið staðið við fyrirheit um framlög til landgræðslu og skógræktar og/eða fjárveitingar til Jarðasjóðs ríkisins, en jarðasjóðurinn átti auðvitað að auðvelda það að bændur gætu aðlagað sig að þessum breytingum. Þar var gert ráð fyrir að fjárveitingar til sjóðsins næmu 150 millj. kr. á árunum 1992--1993 en sú fjárveiting hefur aðeins orðið 21 milljón svoleiðis að þar er einnig um verulegar vanefndir að ræða.
    Að lokum einn þátt enn sem mig langar að nefna í sambandi við landbúnaðarmálin sem er í raun alveg óviðunandi að sé í þeim farvegi sem nú er, en það er uppgjör á jarðræktarframlögum. Við vitum það, hv. þingmenn, að ágreiningur er uppi milli fjmrn. annars vegar og ég hygg að segja megi landbrn. hins vegar um það hvernig standa eigi að þessu uppgjöri og/eða hvort að kröfur þær sem landbúnaðurinn telur sig eiga til þessara framlaga séu í raun gildar. Samkvæmt áliti og bréfum sem fyrir liggja hjá fjárlaganefnd frá landbrn. er skýlaust að ráðuneytið telur að óuppgerðar séu réttmætar kröfur frá árinu 1992 upp á 67,3 millj. kr. Einnig hafi á árinu 1993 skapast kröfur, réttmætar kröfur, að upphæð milli 70 og 80 milljónir og er þá enn ótalin skuld sem kann að hafa myndast vegna framkvæmda í ár. Það er algjörlega óviðunandi að ekki fáist niðurstaða í þessi mál og ég tel að enn sé nú hægt með breytingum á annað hvort fjárlagafrumvarpinu eða fjáraukalögum fyrir árið 1994, sem á eftir að taka hér til 3. umr., að laga þetta mál eða fá einhverja niðurstöðu í það sem sé viðunandi.
    Fjölmargt fleira mætti nefna í sambandi við landbúnaðarmálin en ég ætla að leyfa mér, virðulegur forseti, að vísa í því sambandi til ítarlegs álits frá landbn., sameiginlegs álits landbn. allrar, sem barst fjárlaganefndinni um þann málaflokk en þar er drepið á fleiri atriði en þau sem ég hef hér gert að umræðuefni.
    Þá langar mig til þess að fara nokkrum orðum um heilbrigðis- og tryggingamálin og langar einnig að spyrja hæstv. forseta hvort að nokkrar séu líkur á því að hæstv. heilbr.- og trmrh. sé staddur í þinghúsi. Ég veit að hann er með varamann í þinginu þannig að hann situr ekki í þingsölum en hann gæti hugsanlega, ef hann er í húsinu, komið hér og hlýtt á mál mitt. Mig langar til þess að byrja í því sambandi að rifja aðeins upp reynsluna frá því í ár af þeim hugmyndum sem uppi voru við fjárlagagerðina í fyrra og þeim umræðum sem fóru fram um sparnaðaraðgerðir sem þá voru boðaðar. Ég held að það megi í stuttu máli fullyrða að flestar ef ekki nánast allar hugmyndir um sérstakar sparnaðaraðgerðir á vegum heilbrn. náðu ekki fram að ganga. Þá átti t.d. að lækka lyfjakostnað umtalsvert, það átti að endurskoða greiðslur til lækna, það átti að hækka eða breyta greiðslum fyrir röntgenmyndatökur og rannsóknir, það átti að bjóða út tannlækningar og hjálpartæki, það átti að lækka erlendan sjúkrakostnað, sjúkradagpeninga og greiðslur fyrir sjúkraþjálfun. En fulltrúar minni hlutans í fjárln. töldu að hér væri um vanhugsaðar og reyndar illa undirbúnar tillögur að ræða og var það rakið ítarlega í umræðum í þinginu og verður ekki gert hér aftur. En það er skemmst frá því að segja að allt hefur þetta farið nánast eins og minni hlutinn lýsti og er það staðfest með þeim tillögum sem liggja fyrir í frumvarpi hæstv. ríkisstjórnarinnar til fjáraukalaga fyrir árið 1994 og breytingartillögum sem meiri hluti hv. fjárln. hefur þar að auki gert við það frv. Þar var óskað eftir, eins og segir orðrétt í greinargerð frv. til fjáraukalaga fyrir 1994, ,,800 millj. kr. vegna ýmissa sparnaðaráforma og aðhaldsaðgerða sem ekki hafa gengið eftir í sjúkratryggingum``, orðrétt tilvitnun í greinargerðina. Og auk þess hafa svo fjárveitingar til sjúkrahúsanna verið hækkaðar um mörg hundruð milljónir kr.
    ( Forseti (VS) : Forseti vill upplýsa að hæstv. heilbr.- og trmh. er ekki í þinghúsinu.)
    Ég þakka hæstv. forseta fyrir upplýsingarnar. Nú bregður svo við, virðulegur forseti, að í fjárlagafrv. sem nú er til umfjöllunar til fjárlaga fyrir árið 1995 er að finna nánast allar þessar sömu tillögur eða hliðstæðar tillögur. Þar er gert ráð fyrir því að spara í lyfjaútgjöldum, greiðslum til lækna, rannsóknum og kostnaði við sjúkraþjálfun 420 millj. kr. Er þá von að spurt sé hvort líklegt sé að þessar hugmyndir nái frekar fram á næsta ári en á því ári sem nú er að líða eða er hér um blekkingaleik að ræða.
    Við fulltrúar minni hlutans teljum að sjálfsögðu gott ef hægt er að ná fram þessum sparnaði. Það er gott ef hægt er að ná fram umtalsverðum sparnaði í lyfjaútgjöldunum og ef hægt er að ná fram sparnaði í annarri heilbrigðisþjónustu. En það verður þá helst að gerast án þess að óeðlilega sé dregið úr þeirri þjónustu sem verið er að veita eins og stundum hefur brugðið við, a.m.k. hygg ég að það hafi reynst megininntakið í svokölluðum sparnaðaraðgerðum hæstv. ríkisstjórnar, þ.e. að láta einstaklingana borga meira fyrir þjónustuna sem verið er að veita. Það kalla ég ekki sparnaðaraðgerðir. Það tel ég ekki að sé raunhæfur sparnaður eða samdráttur í útgjöldum, þar er aðeins verið að færa skattbyrðina til, frá samneyslunni og tekjusköttunum okkar og virðisaukaskattinum og hvað það nú heitir, yfir í svokölluð þjónustugjöld sem er skattheimta með öðrum hætti.
    Í grg. fjárlagafrv. er að finna þessa setningu, með leyfi forseta: ,,Þá er gert ráð fyrir því hér að þeir sem njóta þjónustunnar taki meiri þátt í kostnaði henni samfara.``
    Þessa setningu ræddum við hæstv. fjmrh. ofurlítið einmitt og skilning hans á henni við 1. umr. um fjárlögin. Þá svaraði hæstv. fjmrh. spurningu minni um það hvað þessi setning þýddi á þennan hátt, með leyfi forseta: ,,Það er til fólk í þjóðfélaginu sem betur fer sem getur borgað fyrir sína þjónustu í miklu stærri stíl en gert er í dag. Það á að leyfa því fólki að borga, jafnvel fólki sem er á sjúkrahúsum, í skólum, og tekur þjónustu frá hinu opinbera, þó það eigi að sjálfsögðu að sjá til þess að enginn missi af þeim rétti sínum að fá að njóta eðlilegrar læknishjálpar eða menntunar.`` Þetta var orðrétt svar hæstv. fjmrh. við spurningu minni um það hvað þessi setning þýði um að þeir sem njóta þjónustunnar eigi að taka meiri þátt í kostnaði henni samfara. Það á sem sagt að gera ráð fyrir því að þeir sem geta borgað fyrir sig greiði fyrir sjúkrahúsdvölina og fyrir skólavistina.
    Mig langar til þess að spyrja hv. þm. Alþfl., Jafnaðarmannaflokks Íslands, hvort þetta sé það kerfi sem þeir vilja að tekið sé upp, hvort þeir séu sammála skýringu hæstv. fjmrh. á þessari tilvitnun í fjárlagafrv. Er það svo að þeir alþýðuflokksmenn sem enn þá kenna sig við jafnaðarmennsku, þrátt fyrir stuðning við þessa hæstv. ríkisstjórn séu fylgjandi því að tekið sé upp tvöfalt heilbrigðiskerfi? Heilbrigðiskerfi fyrir þá sem geta borgað annars vegar fyrir sjúkrahúsvist sína og heilbrigðisþjónustu að öðru leyti og hvort það eigi að taka upp tvöfalt menntakerfi, annars vegar fyrir þá sem geta greitt fyrir það og hins vegar fyrir hina, einhverja hina, sem ekki hafa efni á því að greiða sérstaklega fyrir þessa þjónustu? Er það það form sem Alþfl. er sammála um að byggt verði upp, það menntakerfi og það heilbrigðiskerfi sem þeir sjá fyrir sér í okkar ágæta þjóðfélagi?
    Þá langar mig að nefna aðeins og reyndar vara við þeirri hugmynd sem er gerð grein fyrir í greinargerð fjárlagafrv. að spara sérstaklega 50 millj. kr. með því að draga úr kostnaði við sjúkraþjálfun. Sjálfsagt er að skoða þennan útgjaldaþátt heilbrigðiskerfisins eins og alla aðra. Ef það er staðreyndin að þar megi ná fram hagræðingu upp á 50 millj. er ekki nema gott um það að segja. En hv. fjárln. hefur fengið bréf frá Félagi íslenska sjúkraþjálfara þar sem varað er við þessum hugmyndum og m.a. sagt í þessu bréfi, með leyfi forseta: ,,Það er ljóst að endurhæfing á göngudeild er mun ódýrari en innlögn á sjúkrahús. Meðferð á göngudeild heldur mörgum sjúklingum frá innlögn í lengri eða skemmri tíma. Endurhæfingin getur stytt veikindaforföll vegna slysa og sjúkdóma frá hreyfi- og stoðkerfi verulega. Á niðurskurðartímum hafa nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndum aukið útgjöld til endurhæfingar en ekki dregið úr þeim eins og hér stendur til að gera. Þar hefur verið sýnt fram á að með markvissum aðgerðum í endurhæfingu er hægt að gera fólk vinnufært mun fyrr eftir slys og erfið veikindi með markvissri þjálfun.``

    Ég segi aftur, ef hægt er að spara þessar 50 millj. án þess að það bitni á heilbrigðisþjónustunni okkar þá er það gott og ekkert við því að segja. En ef það þýðir að við séum að taka úr einum vasanum og færa í annan, þ.e. séum að spara á einum útgjaldalið en auka kostnaðinn á öðrum með lengri sjúkrahúsvist, dýrari þjónustu, hugsanlega með örorkubótum úr tryggingakerfinu, þá er ekki verið að fara í rétta átt. Því miður óttast ég að ýmsar af þeim sparnaðartillögum sem boðaðar eru og gripið hefur verið til á undanförnum árum hafi einmitt haft þá afleiðingu að við höfum fært úr einum vasanum í annan. Þó við höfum sparað á einum lið þá hefur það þýtt aukin útgjöld annars staðar.
    Þá er uppi mikil hagræðingarkrafa til sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva. Þar á að spara um 400 millj. kr. Því miður er það eins með þetta og það sem ég hef áður nefnt að það er mjög óljóst um alla framkvæmd og þar með einnig um árangur. Það á að auka sértekjur vegna svokallaðra ferilverka um 100 milljónir en reyndar hefur þegar verið látið að því liggja að áætlanir um þessar sértekjur kunni að verða lagðar til hliðar eða a.m.k. endurskoðaðar. Ekkert hefur þó komið fram um það nákvæmlega í hv. fjárln. enn sem komið er. Í grg. fjárlagafrv. þar sem fjallað er um tillögur um sparnað á heilsugæslustöðvum að upphæð 50 millj. kr. er einnig sagt að þær tillögur verði lagðar fyrir fjárln. fyrir afgreiðslu fjárlaganna en ekkert hefur heyrst af því enn né heldur hvernig eigi að spara um 80 millj. kr. hjá öðrum stofnunum heilbr.- og trmrn. Varðandi sparnaðinn á heilsugæslustöðvunum mætti kannski spyrja: Er líklegt að tilvísanakerfið, sem hugsað er að taka upp til þess að spara í útgjöldum til læknisþjónustunnar, til þess að draga úr sérfræðikostnaði, muni leiða til sparnaðar á heilslugæslustöðvunum? Ég held reyndar þvert á móti. Ég held að tilvísunarkerfið, ef úr verður að taka það upp, þá muni það auka álag á heilsugæsluna og hugsanlega útgjöld þar þvert á móti því sem hér er lagt til ef gert er ráð fyrir því að hægt sé að spara í heilsugæslunni um 50 millj. kr. að auki.
    Nú er sjálfsagt allt óvíst enn um tilvísanakerfið og hvort það verður tekið upp því að ég man ekki betur en að við 1. umr. um fjárlagafrv. hafi komið hörð andstaða frá einstökum hv. stjórnarþingmönnum við því að taka það upp.
    Þá er einnig gert ráð fyrir því að spara 100 millj. kr. með aukinni hagræðingu hjá sjúkrahúsunum. Á sama tíma eru hins vegar boðaðar hækkanir á fjárveitingum til stóru sjúkrahúsanna og hlýtur þá að vera spurt hvort þessi 100 millj. kr. sparnaður eigi að nást hjá hinum minni sjúkrahúsum á landsbyggðinni. Er mögulegt að þau geti skorið niður enn frekar en orðið er um 100 millj. kr.? Má þá einnig nefna það að sum þessi sjúkrahús hafa þegar fengið nokkra lagfæringu á fjárveitingum sínum í tillögum hv. meiri hluta fjárln. þannig að vart hafa þau verið talin fær um að spara frekar.
    Þá langar mig aðeins að nefna héraðslæknisembættin í Reykjavík og á Akureyri sem samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að leggja niður. Starfræksla þessara embætta, sem eru einu héraðslæknisembættin þar sem læknar hafa starfað í fullu starfi að verkefnum héraðslæknanna, var hugsuð þannig að hægt væri að færa verkefni frá landlæknisembætti og ráðuneyti út til héraðanna og átti í þessu að vera fólgin valddreifing og hugsanlega að fjölga þessum embættum eða færa þeim verkefni á víðara sviði en bara í viðkomandi héraðslæknisumdæmum. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er hins vegar gert ráð fyrir því að færa þessi verkefni að verulegu leyti aftur í ráðuneytin eða til landlæknisembættisins og auka þannig á ný miðstýringu í þessum málaflokki. Ég tel að hér sé gengið í öfuga átt og hefði a.m.k. vonast til að það mál yrði skoðað eitthvað nánar áður en fjárlagaafgreiðslu lýkur.
    Varðandi lækkun á heimilisuppbót um 200 millj. kr. í tillögum sem fylgja fjárlagafrv. og sagðar eru taka mið af húsaleigubótunum þá held ég að það sé mál sem þurfi að skoða einnig sérstaklega milli umræðna því að þeir einstaklingar sem njóta þessara sérstöku heimildarbóta eru þeir einstaklingar sem allra verst eru settir og ekki trúlegt að þó að einhverjir þeirra kynnu að eiga rétt á húsaleigubótum þegar þær hafa tekið gildi muni þær létta svo á byrði þessara einstaklinga að hægt sé að spara þar um 200 millj. kr. öðruvísi en það bitni alvarlega á þessu fólki sem sannarlega er verst sett. En eitthvað á eftir að fjalla nánar um almannatryggingar og tryggingakerfið okkar eða málefni Tryggingastofnunar fyrir 3. umr. svo að það verður látið bíða frekari meðhöndlunar.
    Landlæknisembættið fær samkvæmt brtt. meiri hlutans ofurlitla upphæð, 5 millj. kr., til heilsueflingar og slysavarnaráðs og tel ég að það sé þarft verkefni, verkefni sem landlæknisembættið hefur haft forgöngu um og fylgt eftir og kemur vonandi að gagni þó að upphæðin sé ekki há. Í erindi sem landlæknir sendi fjárln. með fjárlagabeiðni sinni er drepið á ýmis atriði sem sannarlega eru umhugsunarverð og ástæða til þess að vekja athygli hv. alþm. á. Oft er um það talað að heilbrigðisþjónustan á Íslandi sé kostnaðarsöm, hún sé óskilvirk og þar megi betur gera og látlaust er gerð krafa til þessa kostnaðarsama en mikilvæga málaflokks til frekari sparnaðar. Ef ég má, með leyfi forseta, vitna til þessara upplýsinga frá landlæknisembættinu, þá segir svo:
    ,,Oft heyrist því fleygt að við Íslendingar séum afkastaminni en nágrannaþjóðir. Einnig hefur orðið vart við, jafnvel á hæstu stöðum, að menn álíta sjúkrahús hérlendis betur mönnuð og jafnframt að afköstin séu minni en meðal nágrannaþjóða. Athuganir hafa leitt í ljós að fæstir heilbrigðisstarfsmenn á þúsund íbúa eru á Íslandi miðað við hin Norðurlöndin.``
    Landlæknir gerir síðan nokkra grein fyrir þessu nánar og gerir tilraun til þess að meta afköst sérhæfðra sjúkrahúsa á Íslandi miðað við svipuð sjúkrahús í Danmörku þó að slíkan samanburð þurfi auðvitað að taka með vissum fyrirvara um að um sambærilega þjónustu sé að ræða og sambærileg verkefni,

en þetta hefur landlæknisembættið reynt að gera og í niðurstöðum embættisins segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Nær undantekningarlaust koma fleiri rúm á hendur starfsstétta á íslenskum sjúkrahúsum en dönskum. Sérstaklega kemur það í ljós meðal þeirra sem eiga beina aðild að lækningum, t.d. læknum og hjúkrunarfræðingum, og er munurinn talsverður. Rúmafjöldi á hvern starfsmann er sinnir sálrænni og félagslegri umönnum og lyfjamálum er þó færri á íslenskum sjúkrahúsum en dönskum.
    Á 100 lækna og hjúkrunarfræðinga koma 71 rúm á dönskum sérgreinasjúkrahúsum en 124 rúm á þessa aðila á íslenskum sjúkrahúsum. Í hlut lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, meinatækna og röntgentækna koma fleiri útskriftir á íslenskum sérgreinasjúkrahúsum en í Danmörku.``
    Og að lokum, virðulegi forseti, með beinni tilvitnun:
    ,,Á lækna og hjúkrunarfræðinga á íslenskum sjúkrahúsum koma 41,7 útskriftir en 32,3 á þessa aðila á dönskum sjúkrahúsum, þ.e. um 29% fleiri á Íslandi.``
    Ég læt hér með lokið tilvitnun í þetta skjal landlæknis um sjúkrahúsin en fannst full ástæða til þess að benda á það í ljósi þeirrar umræðu sem oft er uppi hér um skilvirkni heilbrigðiskerfisins. Landlæknir ræðir svo einnig um heilsugæsluna og talar um vinnuálag á heilbrigðisstarfsfólk á því sviði og mig langar að lesa örfáar línur upp úr þessari skýrslu, með leyfi forseta, en þar segir:
    ,,Vinnuálag á heilbrigðisstarfsfólki hefur aukist mjög undanförnum árum. Ástæðan þess er fyrst og fremst sú að vegna þrengri fjárhagsramma stofnana er reynt að vista sjúklinga eins skamman tíma á sjúkrastofnun og nokkur kostur er. Það hefur leitt til þess að stærri hluti þeirra sjúklinga sem vistast á sjúkrastofnunum eru veikari en áður. Við það hefur álag t.d. í heimahjúkrun einnig aukist. Fjöldi starfsfólks hefur ekki aukist að sama skapi.
    Ef borinn er saman fjöldi vitjana hjúkrunarfræðinga á nokkrum heilsugæslustöðvum milli áranna 1992 og 1993 má sjá verulega aukningu. Á heilsugæslustöð Hlíðarsvæðis varð 45% aukning, á Seltjarnarnesi 23%, í Álftamýri 43%, í Sólvangi í Hafnarfirði 22% og á heilsugæslustöðinni í Fossvogi 28%. Þetta sýnir okkur einnig að okkar ágæta heilbrigðisstarfsfólk er að leggja mikið á sig og reynir af fremsta megni að taka þátt í þeirri hagræðingu og þeim sparnaði sem krafa er gerð um til heilbrigðisstofnananna.``
    Samgöngumálum verða gerð nánari skil af öðrum fulltrúum minni hlutans í umræðum á eftir en mig langar þó með einni setningu eða svo að benda á þversögnina sem felst í framlögum til vegamála eins og þau hafa verið kynnt fyrir okkur. Þar er gert ráð fyrir því að viðbótarframlag í sérstöku átaki af hálfu ríkissjóðs verði um það bil 1 milljarður kr. á næsta ári en á móti má minna á það að nú er Vegasjóði gert að annast eða kosta rekstur ferja og flóabáta upp á 569 millj. og auk þess eru markaðir tekjustofnar Vegasjóðs skertir og það fjármagn látið renna í ríkissjóð, 275 millj. kr. Samtals er hér um að ræða breytingu upp á 844 millj. og verður þá að segja að lítið sé eftir af átakinu til að hæla sér af.
    Áður en ég lýk máli mínu langar mig einnig að minna á heimild fjmrh. í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 1994 til að aðstoða minni hitaveitur sem eru með þunga greiðslubyrði. Fyrir fjárln. hefur um tíma legið tillaga frá fjmrn. sem nefndin hefur þó ekki afgreitt og því ekkert gerst í þessu máli enn þá. Ég vænti þess að fyrir 3. umr. fjárlaganna eða fjáraukalaganna fáist einhver botn í þetta mál en annars er ekki ólíklegt að flutt verði brtt. við annaðhvort þetta frv. um fjárveitingu til þess að standa straum af þessum kostnaði ef ekki er hægt að ná samkomulagi um hvernig heimildagreinin verður nýtt.
    Hæstv. forseti. Í lokin langar mig að víkja nánar að starfsháttum nefndarinnar. Hv. Alþingi hefur á þessu kjörtímabili starfað eftir nýjum þingsköpum en með þeim breytingum sem gerðar voru á störfum Alþingis með nýjum þingskapalögum var einnig gert ráð fyrir því að breyta nokkuð störfum nefnda. Fjárln. var t.d. ætlað að hafa meiri yfirsýn yfir fjármál ríkisins í heild sinni, þar með talið lánsfjármálin, og fagnefndum var ætlað að fjalla meira og ítarlegar um sína málaflokka. Hv. formaður fjárln. gerði grein fyrir þessari vinnutilhögun í ræðu sinni áðan og get ég verið honum um margt sammála, en tel þó að betur þurfi að huga að því hvernig þessum vinnubrögðum sé fyrir komið og leyfi mér reyndar að fullyrða að þetta hafi ekki gengið nákvæmlega eftir svo sem fyrirhugað var þegar breytingarnar voru gerðar. Það fer gríðarlega mikill tími af hálfu hv. fjárln. í viðtöl við ýmsa aðila, forsvarsmenn ráðuneyta og ríkisstofnana, sveitarstjórnarmenn og ýmsa aðra einstaklinga sem eru fulltrúar annarra stofnana eða félagasamtaka. Ég held því miður að þó að þessi samskipti séu alla jafnan góð og mjög mikilvægt fyrir hv. alþm. og hv. fjárlaganefndarmenn að kynnast hinum fjölmörgu einstaklinga þá sé þessum einstaklingum í sumum tilfellum misboðið með þessum viðtölum. Ég hef oftar en einu sinni og oftar en tvisvar heyrt til þeirra nokkra óánægju með það að tíminn sem þeim er gefinn sé naumur og fyrirkomulagið á þessum viðtölum sé ekki nægjanlega gott því að menn ferðast oft um langan veg og leggja mikla vinnu í að undirbúa þessi viðtöl.
    Svo er vitað mál að mál þeirra og erindi fá misgóða umfjöllun í nefndinni, því miður. Það stafar að hluta til af tímaleysi og af því að þeir hv. þm. sem þar sitja hafa kannski ekki skipulagt sína vinnu nægjanlega vel og afgreiðslan er í sumum tilfellum nánast merkt einstökum nefndarmönnum. Þetta þekkjum við líka, bæði til lengri og skemmri tíma litið. Það þarf ekki endilega að vera óeðlilegt vegna þess að nefndarmenn þekkja misvel til hinna einstöku erinda og áhugamál nefndarmanna eru líka misjöfn og því stundum afgreiðslan e.t.v. gædd persónulegum áherslum eða áhuga þeirra sem þarna eiga sæti.
    En almennt talað held ég að nú þegar kjörtímabilinu er að ljúka og reynsla hefur fengist á störf nefnda þingsins almennt og árangur af þingskapalagabreytingunni þá þurfi að endurskoða starfshættina og

fara gaumgæfilega yfir það hvernig betur megi standa að málum þannig að störf hv. þingnefnda, hv. þm. og þingsins alls séu skilvirkari.
    Mig langar að þakka samstarfsmönnum í nefndinni fyrir samstarf og formanni fyrir góða og lipra fundarstjórn og einnig þeim starfsmönnum þingsins sem mest hafa unnið með nefndarmönnum fyrir ágætt samstarf.
    Hæstv. forseti. Fjárlög markast af efnahagsstefnu þeirrar ríkisstjórnar sem við völd er hverju sinni. Það er nauðsynlegt að gæta ýtrasta aðhalds í ríkisrekstri, nýta skattfé borgaranna með sem skynsamlegustum hætti og markmiðið er auðvitað að ná hallalausum fjárlögum. Með framsækinni atvinnustefnu, öflugu atvinnulífi og auknum hagvexti á að vera hægt að ná hallalausum fjárlögum án þess að beita sársaukafullum niðurskurðaraðgerðum sem skerða menntakerfið og velferðarkerfið okkar og setja það í hættu. Stefna núv. hæstv. ríkisstjórnar hefur því miður ekki haft þessi markmið nægjanlega að leiðarljósi heldur niðurskurð og stöðnun sem hefur leitt til viðvarandi atvinnuleysis og fátæktar í þjóðfélaginu.
    Minni hluti fjárln. hvorki getur né vill taka ábyrgð á slíkri stjórnarstefnu og mun því sitja hjá við afgreiðslu fjárlagafrv.